17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2674)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur hér í þingi, þegar málið var fyrir tekið til umr., en sá þegar ég kom í bæinn, að hv. 4. þm. Reykn. hafði flutt brtt. við frv. þess efnis, að einnig yrði athugaður sá möguleiki að leysa samgönguvandræðin, á þessum stað, sem um ræðir, með því, sem hann kallar flugferju. Ég hef tekið það svo, að það væri um hið svonefnda loftpúðaskip eða svifskip að ræða. Ég vil mjög taka undir þessa till., og geri ég það vegna þess, að ég tel mig þekkja nokkuð inn á það, að tæki af þeirri gerð, sem þarna ræðir um, séu og geti verið við vissar aðstæður mjög eðlileg og góð samgöngutæki

Eins og hv. þm. er öllum kunnugt, þá kom fyrir atbeina Alþ. hingað til lands á s.l. sumri lítið tæki af þessari gerð til þess að kanna aðstæður, þar sem talið var, að skipum eða bílum yrði ekki við komið. Reynsla fékkst að ég vil segja nokkur og allveruleg af þessu tæki og þeim möguleikum, sem það getur skapað til samgöngubóta. Við, sem að því stóðum, að þetta tæki var fengið hingað til landsins, vorum fyrst og fremst með í huga ferjusamgöngur fyrir bifreiðar og fólk milli Vestmannaeyja og lands, og ég tel, að sú reynsla, sem við höfum af því fengið, sé á þá leið, að ef um er að ræða tæki af hentugri stærð, mundi það leysa þann vanda, sem þar er. En ég tel, að við höfum kannske fengið enn meiri reynslu af því, hvers konar tæki þetta er til ferðalaga yfir sanda, vegleysur og vatnsföll eins og um er að ræða á þeim stað, sem till. gerir ráð fyrir, að athugað verði um brúar- og vegarlagningu á.

Ég verð að viðurkenna það, að þó að ég hafi talið mig hafa miklar upplýsingar um þetta farartæki áður en það kom til landsins, þá kom það mér alveg á óvart, hversu miklu afkastameira og færara það var um að fara yfir torfærur á landi en ég hafði gert mér í hugarlund. Ég vil geta þess, að þetta litla tæki, sem hingað kom til landsins, fór í sinni fyrstu ferð beina leið frá Vestmannaeyjum upp í Landeyjasand. Að vísu var þar ekki um brimlendingu að ræða. Það var það, sem við köllum dauðan sjó. Það stoppaði þar ekki neitt, heldur fór beint af auga yfir sandtangann, sem þar er, upp Markarfljót, ekki neinar krókaleiðir, heldur yfir ála og mýrar, yfir bakka, sem þar voru, og upp að Markarfljótsbrú, án þess að hægja nokkurn tíma á ferð, og sagði skipstjórinn, að þeir hefðu farið þessa leið yfir landið með um 40 mílna hraða.

Eftir þá reynslu, sem við fengum, sem í þessu tæki vorum þessa leið, er ég alveg sannfærður um kosti ferja af þessari gerð. Fyrirtækið er nú að byggja slíka ferju og mun koma með fyrstu tækin af þessari gerð árið 1970. Það er ætlað, að þau taki 7–9 bíla af venjulegri stærð og að mig minnir um 100 farþega.

Ég er sannfærður um það, að ef hv. Alþ. telur, að fjárhagsins vegna sé hægt að leysa þetta mál, þá er hægt að gera það þegar á árinu 1970 með því farartæki, sem Englendingar eru nú með í smíðum og telja, að verði komið á markað árið 1970. Ég vil því taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykn. benti hér réttilega á að mér finnst sá tími, sem áætlaður er í till., 1972–1976, mér finnst hann of langt undan. ef á annað borð hv. Alþ. telur sig fjárhagsins vegna geta leyst málið á þann veg, sem hv. 4. þm. Reykn. og ég höfum bent á. Þar er aðeins um fjárhagsatriðið að ræða Þetta farartæki kostaði fyrir gengisbreytingu um 50 millj. kr., og er það vissulega há upphæð, en hvað Íslendingar vilja gera til þess að koma á hringvegi í kringum landið, það er auðvitað það atriði, sem Alþ. verður að meta, þegar að því kemur, að aðstaða skapast til þess. Ég tel alveg hiklaust, að aðstaða sé komin til þess að koma á hringvegi fyrir bifreiðar, mannflutninga og einnig vöruflutninga, ef því er að skipta, með því tæki sem ég hef hér minnzt á og fram undan er, að á markaðinn komi. Þetta mundi ekki einasta leysa þann vanda, sem við er að etja á Skeiðarársandi, og þá farartálma,sem þar eru, heldur er ég sannfærður um, að það gæti einnig í mörgum tilfellum,við margar aðstæður komið að gagni, bæði hér á Suðurlandsundirlendinu og einnig út til Eyja, ef svo bæri undir.

Ég hygg, að öllum þm. sé það ljóst, að brúargerð á þessum stað, sem till. gerir ráð fyrir, er mjög fjárfrekt fyrirtæki. Tæknilega séð verður án efa ráðið við það, en engum dylst þó, að fjárhagslega séð mun það verða mjög dýrt fyrirtæki Ég hygg þó, að það, sem mönnum finnst kannske erfiðast við það, sé óvissan um það, hvort brýr á þessum stað muni nokkurn tíma geta haldizt til langframa. Það, sem kannske skiptir mestu máli, er þó, að allar aðrar leiðir séu skoðaðar, allar aðrar hugsanlegar leiðir séu skoðaðar, hvort hægt sé að leysa þetta á annan ódýrari hátt, og ég mundi segja til frambúðar á öruggari hátt að því leyti, að ekki væri ástæða til að ætla, að hlaup í vatnsföll þar eystra mundu koma í veg fyrir, að hægt væri að halda samgöngum uppi, þó að slíkt bæri að höndum.