06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2712)

108. mál, fiskirækt í fjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja enn á ný till. til þál. um fiskirækt í fjörðum á þá leið, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á möguleikum á vísindalegri tilraunastarfsemi um fiskirækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum, er hentugir kynnu að þykja til slíkrar starfsemi. Er lagt til, að haft verði samráð við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands um þessa athugun.

Á Fiskiþingi og ýmsum öðrum fundum útvegsmanna og sjómanna á undanförnum árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess, að hafizt yrði handa um fiskirækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum í strandlengju Íslands, en að því er vitað er, mun lítið eða ekkert hafa verið aðhafzt í þessum efnum. Það er hins vegar almenn skoðun sjómanna og útvegsmanna, að brýna nauðsyn beri til þess að hefjast handa um vísindalegar aðgerðir um ræktun nytjafiska í hafinu með svipuðum hætti og gert hefur verið í ám og vötnum hér á landi og víðs vegar um heim. Í Noregi og fleiri löndum hafa um nokkurt skeið verið gerðar vísindalegar tilraunir með fiskirækt í fjörðum og víkum. Hefur í þessu skyni verið rekin rannsóknar- og tilraunastöð í Flödeviken í S.-Noregi. Þar hefur þorskur verið látinn hrygna í tjörnum eða kerum á landi, en þorskseiðunum síðan verið sleppt út í fjörðinn rétt eftir, að þau eru klakin úr eggi. Þéttur skerjagarður lokar þessum firði, svo að skilyrði eru talin þarna mjög góð til þessarar starfsemi. Tilraunir þessar munu að vísu vera á byrjunarstigi, en fyllsta ástæða er til þess, að við Íslendingar gefum þeim gaum. Svíar hafa einnig hafizt handa um fiskirækt í sjó innan skerjagarðsins við strendur Svíþjóðar. Á það má einnig benda, að Japanir hafa hafizt handa um vísindalega starfsemi á þessu sviði, og langar mig til að lesa hér upp kafla úr frönsku tímariti, Revue de la Conserve, sem birtist í marz 1967, þar sem þessi mál eru rædd. Er þar m.a. komizt að orði á þessa leið:

„Tilraunir Japana með fiskirækt í sjó hafa borið góðan árangur vegna hinnar óvenjulegu aðferðar með tæki, sem gefur frá sér hljóðbylgjur, en þetta gerir kleift að fóðra fiska með aðferð hinnar innæfðu eðlishvatar. Þegar fiskarnir verða varir við hljóðbylgjurnar, koma þeir og hirða fóður sitt. Það tekur 1520 daga að innæfa þessa eðlishvöt hjá fiskunum, en eftir það er ekki nauðsynlegt að króa þá inni með neti. Aðferð þessi er ekki vinnufrek, þar sem fóðrið er skammtað með sjálfvirku fóðurtæki, en það er staðsett við hljóðbylgjusendinn. Aðrir japanskir vísindamenn hafa alið upp lax og regnbogasilung í sjó, í búrum, sem sökkt hefur verið niður á 10 metra dýpi. Árangurinn hefur verið mjög uppörvandi.

Bretland hefur einnig sýnt áhuga á fiskirækt til þess að auka við afla brezkra sjómanna og bæta upp ofveiði á miðunum við strendur landsins. Tilraunir hafa verið gerðar með eldi á skarkola og sólkola við eyjuna Mön. Uppskeran gat orðið 2 tonn á ekru af fiski af hæfilegri stærð. Að síðustu hefur verkfræðingum í Skotlandi verið falið að koma á fót fiskiræktarbúi í tilraunaskyni í Inverneshéraði. Gerðar eru þegar tilraunir með ræktun á silungi og laxi.

Fiskirækt í sjó sýnist þannig vera að þróast í öllum löndum heims“, segir í tímaritsgreininni „Hún ætti að geta orðið mikilvæg viðbót við fiskveiðarnar og stuðlað að aukningu matvælaframleiðslunnar í heiminum. Samtímis er hún ágætt dæmi um áhrifaríka tilraun mannsins til þess að beygja náttúruna undir vilja sinn“. Lýkur þar með þessari grein í Revue de la Conserve.

Að lokum vil ég svo segja þetta um þessa till. Vitað er, að fiskistofnarnir í Norður-Atlantshafi eru í verulegri hættu. Hefur það komið fram í skýrslum og ummælum fiskifræðinga og er raunar öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa. Það er því augljóst, að nýjar ráðstafanir til frekari verndunar fiskistofna við strendur Íslands eru óhjákvæmilegar. Kemur þá í fyrsta lagi til greina takmörkun á netaveiði á hrygningarsvæðum. Í öðru lagi friðun nýrra svæða fyrir botnvörpu- og netaveiði utan 12 mílna fiskveiðitakmarkanna og í þriðja lagi vísindalegar aðgerðir til fiskiræktar. Það er skoðun mín, að íslenzkir fiskifræðingar hafi unnið mikið og merkilegt starf á sviði fiskirannsókna og fiskileitar á undanförnum árum. Hefur það starf haft mikla þýðingu fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, en brýna nauðsyn ber til þess, að nýrra leiða verði freistað í þessum efnum. Þess vegna er þessi till. flutt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að umr. um till, verði frestað og henni vísað til hv. allshn., en ég treysti því, að hún skili nú áliti um till., en þetta mun vera í þriðja skiptið, sem till. er vísað til þeirrar hv. n., og vona ég nú, að hún taki rögg á sig og skili áliti um till.