20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

148. mál, auknar sjúkratryggingar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá þátill., sem hér er til umr., um það vafalaust mjög merka og þarfa mál, sem þar er hreyft, mætti ég kannske leyfa mér að upplýsa það, að mig minnir, að það væri 1. febr. sl., sem borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti áskorun til félmrn. um það að auka stuðning hins opinbera við sjúklinga, sem þyrftu að leita læknishjálpar erlendis. Þessi till. var samþ. með öllum atkv. borgarfulltrúa í Reykjavík og var borin fram af borgarfulltrúum Sjálfstfl. Í sambandi við afgreiðslu á öðru máli, sem snertir almannatryggingar, hér fyrir um það bil þrem vikum síðan og rætt var í hv. Ed., leyfði ég mér að bera þá fsp. fram til hæstv. félmrh., hvort hann hefði ekki fengið þessa áskorun borgarstjórnar Reykjavíkur og hvort hann hygðist ekki gera eitthvað í þessu máli. Hæstv. félmrh. svaraði því þá til, að hann hefði vitanlega fengið þessa áskorun og að hann mundi verða við henni, auka fjárstuðning til þessara sjúklinga undir eins og hæstv. ríkisstj. yrði fullskipuð á ný, eins og hann sagði, en þá voru nokkrir ráðh. erlendis á fundum Norðurlandaráðs. Nú eru allir hæstv. ráðh. til allrar hamingju lentir hér heilu og höldnu, og ætti þá þessi fyrirstaða ekki lengur að vera fyrir hendi. Ég leyfi mér því að vænta þess, að hæstv. félmrh. skili innan mjög skamms tíma till. til úrbóta í þessu efni í samræmi við það, sem hann upplýsti og staðfesti hér fyrir aðeins þrem vikum síðan. Með hliðsjón af þessu sýnist mér satt að segja, að þessi þáltill., ályktun um að skora á ríkisstj. að gera það, sem hún er ákveðin í að gera, hafi næsta lítið gildi. Auðvitað ber að virða góðan hug flm. og áhuga þeirra fyrir málinu, en ég a.m.k. ber það traust til orða félmrh., að ég tel áskorun á hann um að framkvæma það, sem hann er búinn að lýsa yfir, að hann sé að gera, óþarfa.