20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2739)

148. mál, auknar sjúkratryggingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Út af síðari ræðu hv. 1. þm. Vesturl. vil ég segja það, að það er óþarfi fyrir okkur að vera að deila hér um efni frv., sem ekki hefur verið lagt fram, en hafi ég misskilið það eitthvað, veit ég, að það var svo um fleiri ráðh. en mig. Hafi borið að skilja frv. svo sem háttv. þm. lýsti hér í sinni ræðu, er það töluvert mikið annað en við álitum, er við fórum í gegnum þetta frv., þegar félmrh. sendi okkur það, eftir að n. hafði skilað áliti. En eins og ég segi, það er ekki þörf á að deila um það, og ef ég hef eitthvað misskilið þarna, verður það auðvitað athugað nánar. Aðalatriðið er vissulega, að þetta mál komist í höfn.

Ég get huggað hv. síðasta ræðumann, hv. 11. þm. Reykv., með því, að fjarvera ráðh. við að sinna embættisskyldum sínum hefur á engan hátt tafið þetta mál.

Þetta frv. var sent til okkar frá hæstv. félmrh., ég man ekki nákvæmlega hvenær, en a.m.k. ekki löngu eftir að þing hóf starfsemi sína. Hvort það hefur verið í nóv. eða um mánaðamótin nóv.–des. man ég ekki, en það var einmitt vegna efnis frv., sem það hefur verið látið bíða, og sú áskorun, sem felst í þessari till., er einmitt að leysa þetta mál á þeim vettvangi, sem mín skoðun hafði alltaf verið, að þetta mál skyldi leysast á. Hún er um endurskoðun á IV. kafla l. um almannatryggingar með það fyrir augum, að sjúklingar, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis, fái verulega auknar bætur frá því, sem nú á sér stað, eftir endurskoðun á þessum l. og að þetta sé innan tryggingakerfisins.

Aðalatriðið er svo að lokum það, að allir hv. þm. virðast vera sammála um, að leysa þurfi úr þessum mikla vanda. Um það erum við allir sammála Það er rétt, sem fram hefur komið, að það hefur ekki í annan tíma þó verið látið meira fé til þessara mála í beinum framlögum á fjárl. en nú, en það hefur alltaf verið af skornum skammti og sáralítið, og sú leið, sem þar er farin er mjög erfið í framkvæmd og nær ekki tilgangi sínum. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að hæstv. félmrh. er nú með málið í endurskoðun einmitt á þeim grundvelli, að í meginatriðum a. m. k. falli þessi þjónusta innan ramma tryggingakerfisins, og mér þykir vænt um að heyra það, að það eru fleiri en ég, sem eru á þeirri skoðun, að það sé rétt, að málið sé leyst á þeim grundvelli.