17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2743)

148. mál, auknar sjúkratryggingar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi till. til þál. fjallar um áskorun á ríkisstj, um, að hún láti endurskoða IV. kafla l. um almannatryggingar með það fyrir augum, að sjúklingar, sem þurfa að leita læknishjálpar erlendis, fái verulega auknar bætur frá því sem nú hefur átt sér stað. Það vakir fyrir flm. þessarar till., að endurskoðun l. miðist við það, að komið verði á verulega auknum sjúkrabótum til handa þeim sjúklingum, sem óhjákvæmilega þurfa að leita sér læknishjálpar erlendis.

Á undanförnum árum hefur Alþ. veitt nokkra fjárupphæð á fjárlögum, sem ætluð er til styrktar þeim sjúklingum, sem nauðsynlega þurfa að leita sér læknishjálpar erlendis og hefur verið þeim það dýr, að velflestir einsstaklingar hafa engan veginn getað staðið undir þeim kostnaði. Í fjárlögum á þessu ári er varið um 1 1/2 millj. kr. í þessu skyni, og er það mun hærri upphæð en nokkru sinni áður hefur verið varið til þessara mála. Fjvn. telur eðlilegt, að hið almenna tryggingakerfi, sjúkrasamlög og Tryggingastofnun ríkisins, taki þetta mál í sínar hendur og veiti ríflegri bætur til þeirra, sem þurfa að leggja í þennan mikla kostnað, og þess vegna telur fjvn. eðlilegt og sjálfsagt, að endurskoðun á IV. kafla l. um almannatryggingar fari fram og mælir einróma með samþykkt þessarar till.