27.03.1968
Sameinað þing: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2749)

160. mál, náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í umr., flutti ég ásamt hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundssyni, till. til þál. um endurskoðun á l. um friðun Þingvalla snemma á þessu þingi. Í umr., sem þá urðu, m.a. við hæstv. utanrrh., formann Þingvallan., kom í ljós, að hann taldi ekki eðlilegan þann hátt, sem við höfðum lagt til á endurskoðuninni, en við höfðum gert ráð fyrir, að hún væri falin Náttúruverndarráði og þjóðminjaverði. Og ég lýsti þá yfir því, að okkur væri þetta fyrirkomulag í sjálfu sér ekkert fast í hendi. Ef hægt væri að sameinast um endurskoðun l., teldum við það gersamlega aðalatriði og værum fúsir til að fallast á. annað fyrirkomulag. Nú hefur hv. allshn. valið þann kost að fela ríkisstj. að láta endurskoða þessi l. ásamt þeim l., sem um var rætt hér áðan, og í sjálfu sér tel ég eðlilegt að fallast á það fyrirkomulag, fyrst ástæða er til að ætla, að um það geti orðið fullur einhugur hér á Alþ. En ég vænti þess, að sá aðili, sem fær þetta mál til athugunar, kynni sér þá sem bezt bæði þau sjónarmið, sem fram hafa komið í umr. hér á þingi, og raunar þær miklu umr., sem orðið hafa utan þings um málefni Þingvalla. Hins vegar er eitt atriði, sem fólst í till. okkar Gils Guðmundssonar, sem ekki er tekið upp í sjálfa tillgr. frá allshn. TilI. okkar lauk á þessari setningu:

„Á meðan endurskoðun l. fer fram, felur Alþ. Þingvallanefnd að banna byggingarframframkvæmdir og jarðrask á vegum einstaklinga á öllu því landi, sem talið er upp í 2. og 3. gr. l. um friðun Þingvalla“

Nú er þetta í sjálfu sér alveg sjálfsögð málsmeðferð. Endurskoðun l. á m.a. að fjalla um það, hvort ekki eigi að stækka hið eiginlega þjóðgarðssvæði, þannig að það nái yfir allt það land, sem til er tekið í l. um friðun Þingvalla Og meðan verið er að endurskoða þessi mál og komast að niðurstöðu um þau, væri auðvitað mjög óeðlilegt, að þarna væru heimilaðar á vegum einstaklinga framkvæmdir, sem kynnu að brjóta í bága við það, sem ákveðið yrði eftir skamma stund. Þetta atriði hefur auðsjáanlega verið rætt í allshn., því að hún segir í grg. sinni:

„Ríkjandi skoðun var í n., að æskilegt væri, að ekki yrðu leyfðar nýbyggingar sumarbústaða á Þingvallasvæðinu á meðan endurskoðun l. um friðun Þingvalla færi fram.“

Ég ræð af þessu, að hv. allshn. hafi verið sammála okkur um þetta atriði, þó að hún af einhverjum ástæðum hafi ekki talið rétt að taka það upp í sjálfa tillgr. Nú finnst mér hins vegar alveg nauðsynlegt að fá úr þessu skorið. Hins vegar mundi ég telja það algerlega fullnægjandi, ef Þingvallanefndarmenn lýstu því yfir, að þeir mundu halda þannig á málum. Þá væri engin ástæða til þess að gera neinar frekari ráðstafanir í því sambandi. Og ég vil því leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh., formanns Þingvallan., og hv. 1. þm. Austf., hvort ekki sé öruggt, að Þingvallan. muni halda á málum á þennan hátt. Fáist hins vegar ekki skýr svör um þetta atriði, mundi ég telja nauðsynlegt, að Alþ. lýsti vilja sínum um þetta efni og mundi þá. flytja til. um það atriði áður en þessari umr lýkur.