27.03.1968
Sameinað þing: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2752)

160. mál, náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Því miður leggur hæstv. ráðh. annan skilning í þetta heldur en ég geri og ég held, að hv. allshn. hafi gert. Hæstv. ráðh. talar um, að það verði ekki leyfðar fleiri nýbyggingar en leyfðar hafa verið. í því virðist felast það, að hæstv. ráðh. telji eðlilegt, að þeir sumarbústaðir, sem þegar hafa verið leyfðir, verði byggðir áfram eins og ekkert hefði í skorizt. Ég get ekki skilið ummæli hans öðru vísi. Það, sem ég var að spyrja um, var það, hvort byggingarframkvæmdir og jarðrask í sambandi við þær yrðu ekki stöðvaðar á meðan endurskoðun þessara l. fer fram. Það var ég að fara fram á. Fyrst þetta virðist vera óljóst, vil ég leyfa mér að flytja hér brtt., sem er á þá leið, að við till. frá allshn. bætist:

„Á meðan endurskoðun l. um friðun Þingvalla fer fram, felur Alþ. Þingvallanefnd að banna byggingarframkvæmdir og jarðrask á vegum einstaklinga á öllu því landi, sem talið er upp í 2. og 3. gr. l. um friðun Þingvalla.“