14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er á margan hátt að því er virðist, a.m.k. við fljóta yfirsýn, ákaflega snöggsoðið, en það ber svo brátt að, að viðhafður er sami texti eins og við höfum kynnzt nú undanfarið, að þess er óskað, að umr. sé hraðað mjög, án þess að mönnum gefist nægur tími í rauninni til þess að íhuga þetta frv. og efni þess. Svo mjög er því hraðað, að það er jafnvel búið að boða nefndarfund, áður en umr. er lokið hér í hv. d. Þetta gerist nú æ tíðara hér á hv. Alþ., og virðist manni það vera heldur óheillavænleg þróun.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um ráðstöfun á gengishagnaði vegna útfluttra sjávarafurða, er í framhaldi af því, sem verið hefur að gerast hér á Alþ. undanfarið, þ.e. breytingu á gengisskráningu hinnar íslenzku krónu. Samkv. l., sem samþ. voru 25. nóv. eftir gengisbreytinguna, skyldi gengishagnaðinum ráðstafað með sérstökum l. í þágu þeirra atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði. En samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, virðist ætlunin að sniðganga fjárveitingarvald Alþ. frekar en nokkru sinni fyrr. Þýðingarmiklum og mjög yfirgripsmiklum frv. er kastað inn í Alþ., og eins og ég sagði áðan virðast þau vera mjög snöggsoðin og lítill tími til umr. og athugana. Það virðist eiga að keyra þetta gegnum deildir þingsins og er það heldur óheillavænleg þróun. Við þetta bætist svo, að hér er verið að ráðstafa milljónahundruðum, enginn veit í raun og veru, hve há upphæðin er, og það er falið ráðh., og þar með er Alþ. sniðgengið og engin samráð höfð við samtök útvegs eða frystiiðnaðarins, sem þó virðist eiga fullan rétt á að fjalla um þetta. Margt í þessu frv. virðist vera a.m.k. við fyrstu yfirsýn ákaflega óljóst, m.a. er það eftirtektarvert, að þar er engin upphæð nefnd í raun og veru. Hins vegar bætti ráðh. nokkuð úr. Hann gaf hér upp áætlaðar upphæðir í sambandi við gengishagnaðinn. En það er ekkert talað um það í frv., hvernig eigi að skipta þessu að krónutölu.

Áður en gengishagnaðarsjóðurinn er stofnaður, á að greiða allverulegar upphæðir, sem ráðh. skal ákvarða um, af gengishagnaðinum. Hér er, eins og áður var á minnzt, sá háttur hafður á, að sífellt færist í vöxt að taka ákvörðunarvaldið af Alþ. Í a-lið 1. gr. hefst upptalning á því, sem greiða skal, að vísu nokkuð óljós og ekki nákvæm. Þar er æði mörgu sleppt og óljóst um annað. Það kom hér áðan fram fsp. frá hv. 5. þm. Reykn. um saltfiskinn, hvernig meta bæri framleiðslukostnað hans. Hvernig verður það með mann, sem saltar fisk 18. nóv., og hinn, sem saltar fiskinn 20. nóv., og nákvæmlega jafnmikill kostnaður á eftir að hlaðast á hjá báðum aðilunum til ársloka? Annar á að fá allt greitt, en hinn ekkert. Sama væri hægt að nefna um saltsíldina og ýmislegt annað. Það væri dálítið fróðlegt að fá nánari skilgreiningu á, hvernig ætti að framkvæma þessi atriði.

Það, sem vekur athygli, þegar maður lítur á a-lið 1. gr., er það, að ein grein sjávarútvegsins er þar ekki nefnd og koma þó ýmsar stofnanir, ef ég mætti orða það þannig, við sögu hér í þessu frv. Það, sem ég á við, er það, að þeirri atvinnugrein, sem stendur undir allri hráefnisöfluninni, bátaútveginum, skal ekki bæta neitt þann kostnaðarauka, sem verður af gengisfellingunni. Útgerðarmenn skulu, óbætt, þurfa að greiða hærri olíu, dýrari veiðarfæri, dýrari varahluti og hærri vinnulaun og þó er bátaútvegurinn sú grein sjávarútvegsins, sem lakast hefur verið búið að fram að þessu og er þó undirstaða frystiiðnaðarins að langmestu leyti. Útgerðarmenn bátanna eru þannig settir, að þeir geta hvorki greitt vexti né afborganir og raunar heldur ekki samið um gjaldfallnar skuldir, sem þeir hafa átt kost á, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir hafa engar auknar tryggingar að bjóða. En þessi þýðingarmikla grein sjávarútvegsins virðist eiga að vera í algeru svelti áfram, eins og hún hefur verið hingað til. Nú blasir það við, að samningar eru lausir við sjómannasamtökin um áramótin. Ekkert samkomulag er um verð á fiski. Í fáum orðum sagt, það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir bátana. Mér finnst það skjóta dálítið skökku við, þegar verið er að tala um rekstrargrundvöll frystihúsanna, áður en nokkuð er vitað um það, hvort unnt er að gera út nokkurn bát. Frystihúsin verða þó tæplega rekin, án þess að bátarnir leggi upp hráefnið.

Í b-lið 1. gr. er rætt um skreiðina, og d-liðurinn er um rækjuna. Um báða þessa liði er það sama að segja, að það er óljóst, um hvaða upphæð er að ræða. Það væri t.d. fróðlegt að vita það í sambandi við rækjuna, þó að það sé ekki ýkja há upphæð, við hvað bætur eiga að miðast. Þegar verð var ákveðið á rækju á s.l. hausti, var rækjuframleiðendum gefið fyrirheit um, að þeim skyldi bætt verðfall á rækjunni, sem varð á árinu 1966–1967. En þá var, ef ég man rétt, og verð ég þá væntanlega leiðréttur, ef ég fer þar með rangt mál, miðað við 10. nóv. En 10. nóv. voru í landinu töluverðar birgðir af óseldri rækju, og nú væri fróðlegt að vita, hvort miðað væri við það, að bæta ætti alla þá rækju, þ.e. þær birgðir, sem framleiddar voru fyrir 10. nóv., áður en haustvertíðin hófst, eða hvort þetta er bara miðað við rækjuaflann, eftir að veiðar hófust nú í haust. Það virðist með þetta eins og margt annað vera nokkuð óljóst í frv., hvernig ráðh. getur ráðstafað þessu að eigin vild.

Svipuðu máli gegnir um bætur til bræðslusíldariðnaðarins. Það kemur fram í grg. hér, að þegar nýtt verðlagstímabil hófst 1. okt., hafi verksmiðjunum á Norður- og Austurlandi verið heitið einhverri fyrirgreiðslu til þess að þær greiddu áfram sama verð og var á fyrra verðlagstímabili. Nú er ekkert nánar tiltekið um það, hvað þetta getur orðið mikið. Ráðh. gat þess hér áðan, að þetta gæti orðið ca. 10 millj. Ég er ekki svo kunnugur málinu, að ég geti neitt um það sagt, hvort þessi upphæð er rétt, en ef við lítum á heildarupphæðina, 400 millj., sem gengishagnaðurinn á að vera, hef ég tilhneigingu til að trúa því, að þessi upphæð sé of lág, eins og ég tel, að 400 millj. séu of lágar.

Í f-lið þessa frv. er talað um framlag ríkissjóðs samkv. 1., 3., 8. og 9. gr. l. nr. 4 1967, þ.e. l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Þá voru samþ. lög, þar sem ríkisstj. var heimilað að standa straum af ýmsum greiðslum til sjávarútvegsins, eins og segir í þessum l. Það var m.a. verðhækkun til bátanna, 5% mánuðina marz og apríl, en 11% aðra mánuði ársins. Þá var heimilt að verja 20 millj. til að verðbæta línu- og handfærafisk. Enn fremur var heimilt að leggja fram 50 millj., sem verja á til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Allt þetta var gert með sérstökum l. og ákveðin fjárveiting fyrir hendi. En nú skal krefja inn þetta fé aftur og það er ríkissjóður, sem á að fá þessa endurgreiðslu. Mér er ekki kunnugt um, a.m.k. ekki enn þá, að reiknað sé með þessari upphæð, 60 millj. Áætlaði hæstv. sjútvmrh. þetta? Mér er ekki kunnugt um, að hann reikni með þessu sem tekjum á fjárl. ríkisins. Eftir því ætti þetta aðeins að verða eyðslueyrir hjá hæstv. fjmrh. og koma ríkissjóði til góða. Þarna er opnuð ein af þeim mörgu smugum, sem eru í þessu frv. um það, að ríkissjóður geti heimt fé af þessum gengishagnaði. Þarna í þessu eina tilfelli er um að ræða einar 60 millj., og virðist það ekki ná neinni átt, að slíkt geti átt sér stað.

Í sambandi við þennan f-lið segir í grg.: „Verður því að gera ráð fyrir, að framlög til þeirrar framleiðslu, sem nýtur gengishagnaðar, endurgreiðist af þeim hagnaði, svo að ekki sé greitt tvisvar með sömu framleiðslunni.“ Ég verð nú að játa það, að ég fæ ekki almennilegan botn í þessar setningar. Ég held, að það sé engin framleiðsla eða mér er ekki kunnugt um það enn þá, að það sé nokkur framleiðsla, sem nýtur gengishagnaðar. Ég held, að það sé tekið fram í l., að allar afurðir skuli afreiknaðar á gamla genginu, sem gilti fyrir 19. nóv., og það á að gera af framleiðslunni, sem verður eftir gengisfellinguna fram að áramótum og áfram, meðan verið er að flytja úr allar framleiðsluvörur ársins 1967. En eins og ég segi, fæ ég ekki almennilegan botn í þessa skilgreiningu og vildi gjarnan, að við fengjum a.m.k. skýringu á þessu í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál. En ég tel, að í f-liðnum sé verið að innheimta fé, sem ríkissjóður er búinn að gera ráð fyrir annars staðar, að verði greitt samkv. l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins.

Í sambandi við það, sem ég minntist á áðan, framkvæmd þessara l., segir þarna síðast í 1. gr., að framkvæmd á ákvæðum a—d-liða þessarar gr. fari eftir ákvörðun sjútvmrh. Eins og ég sagði áðan, finnst mér þess vera farið að gæta fullmikið hér á hv. Alþ., að verið sé að taka raunveruleg völd af Alþ. Mér þætti miklu eðlilegra, að þessu væri þannig varið, að þetta færi eftir nánari ákvörðun Alþ. og sjútvmrh. legði svo fyrir Alþ. till. sínar um, hvernig þessu yrði ráðstafað. Mér fyndist það miklu eðlilegri gangur, ekki sízt í svona stóru máli, þar sem verið er að ráðstafa hundruðum millj. kr.

Í sambandi við 2. gr. frv. kemur að gengishagnaðarsjóðnum, þegar búið er að inna af höndum þær greiðslur, sem segir í 1. gr., og þá er heimilt að ráðstafa gengishagnaðarsjóðnum, eins og hér segir í frv.: „Allt að 1/4 til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa.“ Hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir því áðan, og ef ég man rétt, áætlaði hann það ca. 65 millj. kr. Ég held, að ég fari þar með rétt mál, að þegar útflutningssjóðnum var komið á fót og því kerfi, sem vátryggingariðgjöldin eru greidd eftir, hafi verið reiknað með, að fundin væri einhver leið, sem ekki þyrfti að breyta, það væri búið að setja þetta upp í kerfi, sem ekki ætti að þurfa að vera að breyta ár frá ári, jafnvel þótt um verðsveiflur á afurðum yrði að ræða, því að ef kynni að vanta upp á þessa greiðslu, mundi ríkissjóður koma til skjalanna, en útflutningsatvinnuvegirnir ættu ekki að þurfa að standa straum af hærri upphæðum en tilskilið var í upphafi. Svo að þarna virðist nú koma dálítið önnur aðferð fram.

Samkv. b-liðnum á allt að 1/4 að ganga til Fiskveiðasjóðs Íslands og ríkisábyrgðasjóðs til að greiða fyrir endurskipulagningu fiskiðnaðarins til framleiðniaukningar. Þarna er ríkisábyrgðasjóði skotið inn. Mér er ekki ljóst, hvernig það er hugsað, hvort það er hugsað þannig, að fiskveiðasjóður og ríkisábyrgðasjóður eigi að gefa eftir eitthvað af skuldum eða ekki. Í sambandi við þennan lið er dálítið fróðlegt að athuga það, að í vor — það var rétt í kringum kosningarnar, það var í júnímánuði, — var óskað eftir skýrslum frá frystihúsunum og þær voru heimtaðar með miklu hraði, því að nú átti að setja kraft á þetta og afgreiða málin mjög fljótt. Það voru heimtaðir efnahagsreikningar af ýmsum fyrirtækjum og þeim fyrirskipað að senda það fyrir tiltekinn mánaðardag, því að nú skyldi hafa hraðan á. Síðan þá hefur a.m.k. opinberlega ekki verið haft mjög hátt um þetta atriði.

Því miður hefur það verið þannig að undanförnu, að það hefur verið safnað skýrslum og gögnum, sem í sjálfu sér er auðvitað bæði nauðsynlegt og gott, en það hefur tekið svo langan tíma að vinna úr þessu, að þegar loksins hefur komið að tillögugerð í sambandi við þetta, hafa í rauninni þau drög, sem búið var að safna, verið orðin úrelt. Þegar safnað er skýrslum fyrir einu ári og till. til úrbóta miðaðar við það ástand, sem þá var, eru till. orðnar úreltar í dag. Það er staðreynd, sem við okkur blasir. Í sambandi við þessa skýrslusöfnun held ég, að ég fari þar með rétt mál, að það sé búið að meta verulegan hluta af fyrirtækjunum, en ég held, að sú n., sem átti í lokin að fjalla um þetta og leggja blessun sína yfir og gera till., sé ekki farin að fjalla um eina einustu umsókn. Hraðinn hefur nú ekki verið meiri en það. Ég held, að þetta sé rétt hjá mér, að það sé ekki ein einasta umsókn komin á það stig, að sú n., sem endanlega átti um þetta að fjalla, og í voru tveir aðilar frá fiskvinnslusamtökunum og þrír aðilar frá bönkum, sú n. hafi ekki enn fengið þessi gögn í hendur. Þetta eru að vísu nokkuð hægfara vinnubrögð og því miður allt of hægfara gagnvart fiskvinnslufyrirtækjunum í því ástandi, sem þau eru í dag.

Ríkisábyrgðasjóðurinn kann kannske við uppbyggingu og endurskipulagningu þessa frystiiðnaðar að þurfa að gefa eftir eitthvað af skuldum. En meðan það mál er ekki komið lengra, finnst mér harla ósanngjarnt að fara að hirða gengishagnaðinn af útflutningsatvinnuvegunum til þess að ráðstafa í sjóð, sem ekkert er vitað enn um, hvað þarf á miklu fjármagni að halda. Mér fyndist vera miklu nær og um það mun verða flutt brtt., að í staðinn fyrir að verja þessu til ríkisábyrgðasjóðs yrði þessu t.d. varið til handa bátaflotanum, þannig að hluti af þessu gengi til bátaflotans og sá hluti yrði notaður til þess að greiða vexti og/eða afborganir af lánum hjá fiskveiðasjóði, því að fiskveiðasjóður er að sjálfsögðu í mikilli þröng. En þá fær hann þó lausa peninga, ef þetta yrði notað til þess að greiða þetta, og bátaútvegurinn er miklu betur að því kominn en ríkisábyrgðasjóður að fá einhvern hluta af þessum gengishagnaði.

Þá er gert ráð fyrir því í c-lið 2. gr., að allt að 1/4 gangi til sérstaks gengisjöfnunarsjóðs við Fiskveiðasjóð Íslands. Við undanfarandi gengisfellingar mun sá háttur hafa verið á hafður, að fiskveiðasjóður hefur lánað til viðbótar 2/3 af gengislækkuninni eða 2/3 af hækkuninni, sem varð á erlendu lánunum. Hér er ekki gert ráð fyrir sama hætti, en ég teldi það sanngjarnt og eðlilegt, að bátarnir fengju lán sem svaraði þessu, að sá háttur yrði á hafður áfram, sem verið hefur undanfarið í svipuðum tilfellum, þannig að bátaeigendurnir bæru sjálfir strax 1/3 af þessu, en fengju lánaða 2/3 hluta hækkunarinnar. Það verður sjálfsagt ákaflega erfitt, jafnvel þó að erlendu bátarnir hafi verið eitthvað ódýrari en þeir íslenzku, þá verður það sjálfsagt erfitt fyrir fjöldamarga bátaeigendur að standa undir þeirri hækkun, sem orðið hefur á bátunum vegna gengisfellingarinnar. Sá bátafloti, sem komið hefur til landsins nú á undanförnum 2–3 árum, á eftir að borga verulegan hluta af sínum erlendu lánum, því að þau eru öll til 7 ára og fyrsta árið er ekki borgað af neinu skipi, þannig að þetta skiptir sjálfsagt hundruðum millj. eða 1–2 hundruðum millj., sem þarna er um að ræða. Og það væri ekki óeðlilegt, að gengið yrði til móts við þá á þennan hátt.

En það er annað í sambandi við gengisfellinguna líka. Það er fleira en bátarnir, sem koma þar til. Fjöldinn allur af útgerðarmönnum hefur keypt síldarnætur, látið lengja skip sín, keypt nýjar vélar og annað. Það er ekki gert ráð fyrir því, a.m.k. verður það ekki séð, að neitt sé komið til móts við þessa aðila og er þó um verulegt áfall að ræða, a.m.k. fyrir þá aðila, sem hafa keypt síldarnæturnar nú undanfarið og notað þær og eiga eftir að greiða verulegan hluta af andvirði þeirra, því að yfirleitt hafa þessar síldarnætur verið keyptar með greiðslufresti.

Það er, eins og ég sagði áðan, ýmislegt í þessu frv., sem er nokkuð óljóst. Væntanlega skýrist það í meðförunum í n., — og ég fæ væntanlega þær upplýsingar, sem ég hef innt ráðh. eftir í sambandi við nefndarstörfin, svo að ég get farið að stytta mál mitt verulega í sambandi við þetta. Ég vil bara að lokum segja það, að þetta frv. virðist vera með nokkuð flausturslegum hætti samið á ýmsan hátt, og eru þó í því veigamikil atriði, sem þyrftu nákvæmrar og glöggrar athugunar við, t.d. í sambandi við verðjöfnunarsjóðinn, sem er gott og þarft mál. Mér sýnist hreinlega kastað til þess höndunum og ekki neitt komi fram, sem hönd er á festandi, því að það er minnzt á þetta með örfáum orðum, en þetta er sannarlega mál, sem þyrfti virkilega að ganga þannig frá, að ekki svifi allt í lausu lofti.