28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2779)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Í þriðja sinn á 7 árum hefur ríkisstj. framkvæmt gengisfellingu. Nú seinast minnkar verðgildi krónunnar um fjórðung, og er hitt þó öllu réttara, að erlendur gjaldeyrir hækkar um 33%. Með þeirri verðhækkun verða menn að kaupa þær vörur, sem erlendis eru keyptar, og það er raunverulega það, sem mestu máli skiptir. Út af þessu og óviturlegri og áfarsælli stjórn atvinnumála og efnahagsmála þjóðarinnar bera Framsfl. og Alþb. nú fram vantraust á ríkisstj. Vantraustsumr. er nú að hefjast, og hafið þið, hlustendur góðir, þegar heyrt rökstuðning hv. 1. þm. Austf. fyrir vantraustinu og varnarræðu hæstv. forsrh. Mér þótti það skemmtilegt að heyra hann vitna í fyrri ummæli sín um gengislækkun og braskara, og vil ég vona, að honum takist að standa við þau orð í sambandi við framkvæmd þessarar gengislækkunar.

Myndin er því nokkuð farin að skýrast, en í framhaldi af því mun ég nú gera grein fyrir því, hvers vegna við Alþb.–menn teljum ríkisstj. vantrausts verða og einskis trausts maklega.

Það gerðist með setningu brbl. í marz 1961, að valdið til að ákveða og skrá gengi íslenzkrar krónu var af Alþ. tekið og afhent Seðlabankanum og ríkisstj. Þann 23. þess mán. tilkynnti Jóhannes Nordal aðalseðlabankastjóri, að gengi íslenzkrar krónu hefði nú verið fellt, þannig að hver Bandaríkjadollar kostaði hér eftir rúmar 57 kr., en áður kostaði hann, eins og kunnugt er, 43 kr. Frammi fyrir þessu stóð Alþ sem gerðum hlut.

Fyrsta frv., sem ríkisstj. flytur, varðandi gengisfellinguna, kallast frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzkrar krónu. Það stappar nærri, finnst mér, að ríkisstj. vilji leiða athyglina frá sér að verkfærinu, Seðlabankanum, og segja sem svo: Sýkn er ég. – En allar afsakanir eru með vissum hætti alltaf ásakanir, og víst er um það, að enginn er sekur um þessa gengisfellingu nema hæstv. ríkisstj. sjálf vegna sinnar stefnu. Það er hennar ranga stefna í efnahagsmálum og atvinnumálum, sem ógæfunni veldur.

Stundum er verkafólkið og verkalýðssamtökin höfð fyrir sökum í þessu efni. Launastéttirnar hafi sýnt allt of mikla heimtufrekju og gengið allt of nærri atvinnuvegunum, en þessu vísa ég algerlega á bug sem ósönnu og röngu. Kaupmáttur tímakaupsins er nú næstum því sá sami og í upphafi stjórnartímabilsins og hefur oft verið miklu lægri. T.d. fór kaupmáttur almenns tímakaups niður í 84 stig árið 1961, og hann var 86 stig á árinu 1964, þegar júní-samkomulagið var gert. Nú er kaupmáttur tímakaupsins í fiskvinnu t.d. 102,5 stig og í hafnarvinnu, sem mest hefur hækkað, 112,5 stig. Sannleikurinn er sá, að verkamenn hafa ekki fengið neina teljandi hlutdeild í aukningu þjóðartekna fyrir samningsbundna dagvinnu sína En á sama tíma hafa þjóðartekjurnar vaxið um full 40%. Svipað verður upp á teningnum, á kauphækkanir hér eru bornar saman við nágrannalöndin. Launakjör verkafólks á Íslandi hafa hækkað minna en á Norðurlöndum. En það, sem úrslitum veldur um miklu óhagstæðari þróun kjaramála launastéttanna hér á landi samanborið við Norðurlönd, er þó aðallega gerólík þróun verðlagsmála hér og þar. Á Norðurlöndum hefur verðlag aðeins hækkað um 1–2% að meðaltali á ári, en hér hefur dýrtíðarófreskjan ætt áfram um 10–11% árlega. Þetta gerir gæfumuninn. Það er meðal annars fyrir þessa átakanlegu óstjórn í dýrtíðar– og verðlagsmálum, að launastéttirnar bera fyllsta vantraust til hæstv. ríkisstj.

Allra sízt verður verkalýðshreyfingin sökuð um það, að hafa brotið niður grundvöll íslenzka gengisins hin síðari ár. Síðan 1964 hefur sú stefna verið uppi að gera mjög hófsamlegar kröfur um kaupgjaldshækkanir, en knýja heldur fram í leiðinni ýmiss konar þjóðfélagsumbætur, sem dýrtíðarmölurinn fengi síður grandað, svo sem skipulagt átak í húsnæðismálum hér suð–vestanlands og aðstoð við atvinnulífið á Norðurlandi. Það skyldi svo vera hlutverk ríkisstj. hins vegar að vaka yfir verðlaginu og standa gegn vaxandi dýrtíð. En í því hlutverki hefur ríkisstj. því miður mjög svo brugðizt vonum manna, og þess vegna stendur hún nú í dag frammi fyrir vantrausti.

Önnur afsökun fyrir öngþveiti efnahagsmálanna, sem nú er oft gripið til, er verðfall og aflabrestur. Og ekki er því að neita, að hér er hægt að finna átyllu. Það er rétt, að mikið verðfali hefur orðið á síldarlýsi og síldarmjöli miðað við toppverð seinasta árs, sem enginn hygginn maður gat þó ímyndað sér, að héldist til langframa Einnig hefur verð á frystum flökum lækkað verulega. Þó er verðið á öllum þessum útflutningsafurðum okkar mun hærra en fyrir 5 árum, árið 1961, og þegar virðist komið yfir dýpstu lægðina og verðið farið að lyfta sér á ný. Það verðlag, sem þótti ágætt fyrir 5 árum, þykir nú óviðunandi með öllu, og það er því einu að kenna, að dýrtíðaróstjórn okkar innanlands hefur ráðið þeim örlögum. En ég spyr: Verður fiskveiðaþjóð ekki að vera við því búin hvenær sem er, að verðfall geti orðið í nokkra mánuði á nokkrum útflutningsafurðum hennar? Og það, sem hér hefur gerzt, er ekkert annað en það. Á slíkt að geta valdið allsherjar hruni? Það tel ég ósiðlegt með öllu, ef sæmileg stjórn er á hlutunum. Hinu má þó ekki heldur gleyma, að sumar útflutningsafurðir okkar nú eru í hæsta verði, sem þær hafa nokkru sinni komizt í. Þannig er það með saltfiskinn, bæði verkaðan og óverkaðan, og sama er að segja um saltsíldina. Þessar útflutningsafurðir okkar allar eru í því hæsta toppverði, sem við höfum nokkurn tíma fyrir þær fengið. Mín niðurstaða er því sú, að ekki sé með nokkru móti hægt að réttlæta gengislækkunina með verðfallinu á heimsmarkaðinum.

Hið umfangsmikla uppbóta–, styrkja– og niðurgreiðslukerfi, sem stjórnin hafði þvert ofan í öll fyrirheit yfirlýstrar stefnu sinnar flækt sig í löngu áður en verðfallið skal á sýndi líka öllum heilskyggnum mönnum, að stjórnarstefnan var raunverulega búin að fella gengið fyrir löngu, gengið var orðið skakkt og mældi framleiðsluatvinnuvegunum of lítið. Þeir voru löngu komnir í þrot og flutu aðeins á bráðabirgðaaðstoð um hver áramót.

En er þá ekki afsökun aflabrestsins eitthvað haldbetri? Ég held það tæpast. Rétt er það, að aflabrögð yfirstandandi árs standast ekki samjöfnuð við metaflabrögð ársins 1966. Víst lét síldin líka bíða eftir sér í ár, og kostnaðarsamt var að sækja hana í órafjarlægð frá landinu austur í höf. En enginn getur samt talið árið 1967 aflaleysisár. Meira að segja getur samt vel svo farið áður en um lýkur, að það reynist 3. eða 4. mesta aflaár íslenzkrar sögu. Reynist það mat mitt nærri sanni, verður ekki heldur auðvelt að réttlæta þessa gengislækkun með átakanlegum aflabresti.

Er þá komið að þeirri afsökun fyrir gengislækkuninni nú, að Bretar felldu sterlingspundið. Og það er rétt, að við höfum ávallt fylgt pundinu. En viðskipti Íslendinga við sterlingssvæðið eru þó ekki meiri en svo, að lækkun pundsins hefði í allra mesta lagi getað réttlætt 8–10% lækkun krónunnar. Þetta er áætlun, en sennilega er hún heldur of há en of lág, enda hafa aðrir áætlað þarna mun lægri tölu, eða 5–6%. Mín skoðun er því sú, að svo stórfelld gengislækkun, sem hér er um að ræða, 33% hækkun á erlendum gjaldeyri, verði engan veginn réttlætt með falli pundsins, nema að því leyti hvaða tími var valinn.

Gengisfelling krónunnar er bein viðurkenning ríkisstj. sjálfrar á því, að íslenzkir útflutningsatvinnuvegir voru enn einu sinni komnir í þá kreppu, þá sjálfheldu vil ég segja, að hún kom ekki auga á nein önnur úrræði til að halda þeim gangandi en að fella gengi krónunnar um röskan 1/4 þeim til bjargar, enda er það nú kunnugt, að stöðvun vofði yfir og hafði verið boðuð um næstu áramót.

Auðvitað hefur þessi kollsteypa ríkisstj. í efnahagsmálum alvarleg og stórfelld áhrif á þjóðlífið allt. Reynslan af fyrri gengislækkunum er slæm og vekur ekki bjartar vonir, sporin hræða. Gróðabrall og spákaupmennska fengu byr í segl, en byrðarnar sögðust þyngst á alþýðu manna. Skyldi það nú fara eins í þetta sinn? Það er spurningin. Það er vitað, að fyrstu afleiðingarnar verða svo að segja strax stórfelld aukning dýrtíðar, og skiptir því mestu máli, hvernig takast megi að halda dýrtíð í skefjum. Víst ætti það að vera sameiginlegt áhugamál ríkisvaldsins, atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, að gengislækkunin verði útflutningsatvinnuvegunum sem varanlegust blóðgjöf. Það er hennar eini réttlætanlegi tilgangur. Og að því, að þeim tilgangi verði náð, mun verkalýðshreyfingin stuðla eins og hún orkar og fær aðstöðu til. En nú hefur kaupgreiðsluvísitalan verið felld úr l. um sinn. Það má því ekki leiða til þess, að óréttmætum byrðum verðhækkana verði velt yfir á herðar launastéttanna. Um það verða verkalýðssamtökin og öll launþegasamtök að vera vakandi á verðinum. Með tilliti til þeirrar óvissu, sem ríkir um alla framkvæmd gengislækkunarinnar, og slæmrar reynslu af þeim fyrri, heiti ég því á verkalýðsfélögin, hvert og eitt, að halda nú vel vöku sinni.

Með frv. því um efnahagsmál, sem ríkisstj. lagði fram í þingbyrjun og afla skyldi ríkissjóði 750–800 millj. kr. í nýjum álögum án þess, að launþegasamtökin fengju neinar bætur fyrir, var gerð allfruntaleg árás á lífskjör almennings, alveg sérstaklega hina tekjulægstu. Aðalforsenda þessa frv. var sú, að vísitölubætur þær á kaup, sem launþegar áttu rétt á skv. l. og samningum, miðað við 1. des., skyldu þurrkaðar út með nefndri lagasetningu. Gegn þessu risu Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sem einn maður. Lá við sjálft, að verkalýðsfélögin yrðu að fara í allsherjarverkfali til þess að verja þennan rétt sinn. En áður en til þess kæmi, sá ríkisstj. sitt óvænna og féllst á, að kjaraskerðingin samkv. frv. yrði bætt í launum eftir vísitölu 1. des. Þar með var aðalkröfu verkalýðshreyfingarinnar fullnægt, og var mælt með því, að verkföllum yrði aflýst. Þarna var að vísu einungis um varnarsigur að ræða, en samt sem áður þá var fullur sigur, og hann vannst vegna órofa samstöðu verkalýðshreyfingarinnar og náinnar samstöðu með B.S.R.B. Þó vil ég vegna kviksagna um, að leynisamningar hafi verið gerðir einmitt í sambandi við lausn þessa máls, lýsa því yfir, að ekkert slíkt samkomulag

hefur verið gert, slíkt er algerlega úr lausu lofti gripið. Um þetta mál skal ég ekki fara fleiri orðum, að því verður nánar vikið af öðrum í þessum umr.

Það hefur nú verið upplýst af sérfræðingum ríkisstj., að þeir hafi í öllum útreikningum sínum um gengislækkunina gengið út frá því, að tekjur hlutarsjómanna yrðu óbreyttar í krónutölu eftir framkvæmd gengislækkunarinnar. Þetta er ótrúlegt, en satt. Hlutarsjómenn eiga samkv. hefðbundnum hlutaskiptakjörum um helming aflans. Hækki verðmæti þess hluta aflans, sem útgerðarmaðurinn á um 33% vegna gengislækkunarinnar, á hlutur sjómanna að sjálfsögðu að hækka jafnmikið, að öðrum kosti væri gengið á hlut þeirra, sjómennirnir rangindum beittir. Svo er þó að sjá sem ýmsir hafi hug á að koma slíku ranglæti fram. Fyrir nokkrum dögum lét einn af talsmönnum L.Í.Ú. hafa þetta eftir sér í Morgunblaðinu: „Fáist því ekki breytingar 3 núverandi samningum við sjómenn um skiptakjör, hlýtur útgerð fiskiskipa að stöðvast.“ Hér er blátt áfram ógnað með stöðvun útgerðar, ef hlutaskiptum sjómanna fáist ekki breytt til lækkunar. Framkvæmdastjóri L.Í.Ú. endaði viðtal sitt við Morgunblaðið með því, að láta í ljós þá von sína, að sjómenn yrðu viðmælanlegir um þetta. Sömu skoðanir um nauðsynlega skerðingu hlutaskipta lét Sverrir Júlíusson alþm., form. L.Í.Ú., í ljós í sjónvarpsviðtali. Og það varð til þess, að Jón Sigurðsson, form. Sjómannasambandsins, lýsti því yfir, að til annars hefði kjarasamningum bátasjómanna verið sagt upp, miðað við næstu áramót, en að rýra þau og skerða. Um það ætti nú Jón Sigurðsson að vita, að sjómannastéttin stendur auðvitað að baki honum sem einn maður, og víst er um það, að verði alvara gerð úr þessum hótunum, mundu fleiri verða til varnar en sjómennirnir einir. Þar mun verða einhuga og sameinaðri verkalýðshreyfingu að mæta.

Sjómenn hafa þegar, eina og allir vita, á þessu ári tekið á sig tilfinnanlega kjaraskerðingu, bæði af aflabresti og verðfalli. Það væri því toppmæld ósvífni, ef ætlunin væri ofan á það að ráðast á kjarasamninga þessarar stéttar, sem á Herkúlesarherðum sínum ber uppi langmestan hluta þeirrar verðmætasköpunar, sem íslenzk þjóðfélagsbygging hvílir á. Verði sú raunin á að Alþfl. standi að slíkri aðför að sjómannastéttinni eftir nokkrar vikur, þá er hann kominn enn lengra frá uppruna sínum en ég vildi þó að óreyndu trúa. Slík afstaða flokksforustunnar mundi að minnsta kosti leysa mig frá öllum vanda um að svara því hlýlega heimboði, sem hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, og fleiri foringjar Alþfl. sendu mér um Jónsmessuleytið í vor, rétt fyrir kosningarnar. Og það finnst mér viðeigandi að segja hér, að verði svo á málum haldið varðandi framkvæmd gengislækkunarinnar, að byrðar hennar verði aðallega lagðar á herðar verkafólks og sjómanna, en milliliðum og bröskurum látið haldast uppi að gera sér hana að féþúfu, mun því verða svarað á verðugan hátt, og í þeirri fylkingu skilst mér, að hæstv. forsrh. ætli að vera.

Nú er gengislækkunin sem sé staðreynd, hún verður ekki umflúin, og þá er allt, bókstaflega allt undir framkvæmd hennar komið. Bezt er að gera sér það ljóst, að þess er ekki að vænta, að neinn fái fullar bætur hennar vegna. Ef allir fengju það, væri hún tilgangslaus efnahagsmálaraðstöfun með öllu. Fari svo, að sumum stéttum haldist það uppi að mata krókinn á gengislækkuninni, hrifsa til sín allt sitt eða jafnvel krækja sér í gróðahluta af henni á annarra kostnað, þá mundi örugglega illa fara, eins og í hin fyrri skiptin. Þá étur gengislækkunin sig upp á nokkrum mánuðum. Og því miður eru strax ljótar blikur á lofti í þessu efni. Sú krafa er þegar uppi frá kaupsýslunni, að hún fái að selja vörubirgðir sínar á endurkaupsverði, sem þýðir, að hún fengi að hækka verð þess feikna vörumagns, sem hrúgað var inn í landið á fyrri hluta ársins og keypt á gamla genginu. Nú þegar hefur olíufélögunum verið heimiluð mikil hækkun á benzíni og olíum. Er þar þó vissulega um vörur að ræða, sem keyptar voru inn á gamla genginu og tollafgreiddar áður en gengið var fellt.

Fjöldamargar spurningar leita nú á hugann um framkvæmd gengislækkunarinnar. Ég vil t.d. spyrja: Er ekki ætlunin að gera neinar ráðstafanir til þess, að þær miklu vörubirgðir, sem í landinu eru, hækki ekki vegna gengisfallsins? Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að bæta sparifjáreigendum það tjón. sem þeir enn þá einu sinni verða fyrir af völdum gengisfellingar? Mér finnst ekki úr vegi að hugsa úr í það, að í flestum tilfellum er spariféð óeydd vinnulaun og ekkert annað. Er ekki ætlunin að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að halda óskertum kaupmætti ellilífeyris, örorkubóta og fjölskyldubáta, þegar áhrif gengisfellingarinnar fara að koma í ljós? Ef það verður ekki gert, verður gengisfellingin eins og reiðarslag á þessa tekjulægstu þegna þjóðfélagsins. Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að rétta hlut íslenzkra námsmanna erlendis? Það er sýnt, að þeir verða umvörpum að hætta námi, ef ekki verður brugðið við skjótt og þeim rétt hjálparhönd vegna verðfalls krónunnar. Hvað hyggst ríkisstj. nú gera, þegar kaupgjaldsvísitala er felld úr l., til þess að gera húsbyggjendum vísitölutryggð húsnæðislán léttbærari? Er ekki einsætt, að vísitölukvöðin hverfi af slíkum lánum, jafnframt vísitölubótum á laun? Ekkert virðist sjálfsagðara. Er það ætlun ríkisstj., að innheimtir verði jafnháir tollar að hundraðshluta eftir gengisfellinguna sem fyrir hana? Ef það verður gert, mundi það þýða peningamokstur í ríkissjóðinn. Þá gengi ríkið á undan í því að mata krókinn á gengislækkuninni, og væri þó full hætta á að ýmsum þætti það eftirbreytnivert fordæmi, sbr. hið fornkveðna, að eftir höfðinu vilja limirnir dansa. En ef ætlunin er að lækka tolla, hve mikil getur þá sú tollalækkun orðið, og hve fljótt getur hún komið til framkvæmda? Er það vilji ríkisstj., að allur vöruinnflutningur til landsins verði tekinn undir verðlagsákvæði og álagningu á hið hækkaða vöruverð stillt í hóf? Auðvitað væri það glapræði hið mesta, ef álagningin yrði hin sama í hundraðshlut­ um á hið hækkaða innkaupsverð eftir gengislækkunina sem fyrir hana. Og enn vil ég spyrja: Er það ætlun ríkisstj. að bæta þeim innflytjendum, sem nú munu skulda um 600 millj. kr. erlendis í lánum til skamms tíma, gengistapið með því að láta það fara inn í verðlagið? Ef það verður gert, skapar það margvísleg fordæmi, sem stuðla mundu að því, að holl áhrif gengislækkunarinnar fyrir atvinnulífið hyrfu og rynnu út í sandinn á skömmum tíma. Ég fullyrði, að enginn kaupsýslumaður hefur búizt við öðru en því að verða að bera gengisáhættu af slíkum lánum sjálfur, enda mundi þetta skapa mikið misrétti í framkvæmd meðal heildsalastéttarinnar.

Það er talið, að íslenzkir útgerðarmenn skuldi um 5000 millj. í Noregi vegna skipa, sem þar hafa verið byggð á seinustu árum. Það eru að vísu lán til nokkru lengri tíma en hjá verzluninni, en samt er ástæða til að spyrja: Eiga útgerðarmennirnir að bera gengistapið af þessum erlendu skuldum sínum, eða er ætlunin að bæta þeim það, eins og heildsölunum kann að verða bætt sitt gengistap? Hvort sem menn hafa meiri eða minni trú á opinberu verðlagseftirliti, er það víst, að framkvæmd gengisfellingarinnar verður að fylgja sterkt, vökult og virkt verðlagseftirlit. Ef ekki, þá er ég ekki viss um, að það sé nauðsynlegt að gera verðlagseftirlitið að stóru og fyrirferðarmiklu skrifstofubákni. Það er hægt að skipuleggja verðlagseftirlit fólksins. Það mætti t.d. viðurkenna verðlagsnefndir eða verðgæzlunefndir kvenfélaga, húsmæðrasamtaka og verkalýðsfélaga. Þeirra hlutverk væri að fylgjast gaumgæfilega með verðlagi frá degi til dags, hvert á sínu svæði, senda skýrslur og kærur um meint brot, og þyrfti þá að mínu viti að hraða rannsókn og dóm um í slíkum málum líkt eins og um umferðarbrotamál væri að ræða. Ég spyr því: Mundi ríkisstj. vilja byggja upp slíkt verðlagseftirlit heimilanna eða fólksins? Þannig mætti á margt benda og lengi spyrja, og hér hefur ekki verið spurt af illkvittni. Ég hef spurt í vændum þess, að svörin sýndu það og sönnuðu, að ríkisstj. vilji leita allra ráða til að halda dýrtíð í skefjum, svo að útflutningsatvinnuvegirnir og atvinnulífið í heild njóti áhrifa gengislækkunarinnar sem allra lengst. En um það getur enginn maður verið í vafa, að á þeirri stundu, sem sú fjármunatilfærsla til útflutningsatvinnuveganna, sem í gengislækkuninni felst, er komin út í verðlagið, hefur hún runnið sitt skeið og verður eftir það engum að gagni.

Mikil þensla er vissulega víða í þjóðfélaginu, en víst er um það, að hvergi hefur meiri þenslu gætt en í verzluninni. Álagningargrundvöllur hennar hefur að minnsta kosti hækkað um 70% og álagningin í mörgum tilfellum um 100% eða jafnvel meir. Dýrmætt vinnuafl þjóðarinnar hefur á seinustu árum sogazt til verzlunarinnar. Fyrir fáum árum voru 11 af hverjum 100 Íslendingum við verzlun. Nú sýna skýrslur, að 15 af hverjum 100 vinna við verzlunarstörf Þetta er mikils til of mikið. Á þessu hefur þjóðin engin efni. Hvergi ríkir meira skipulagsleysi í framkvæmd en í verzluninni, og auðsætt virðist það vera, að þegar þjóðartekjur minnka stórlega, þá verður það nauðsynlegra en endranær að fara skynsamlega með vinnuaflið og beina fleiri höndum að framleiðslustörfum, ef mögulegt er, en á því örlar hvergi, eða ekki fæ ég séð það. Og það verð ég að segja, að þá meinsemd held ég, að núv. stjórn sé ekki fær um að lækna, því að hún er ekki fyrst og fremst ríkisstj. atvinnuveganna, hún er miklu fremur, því miður, ríkisstj. milliliðanna. Það horfir að mínu viti nú einna mest til óheilla í þjóðfélagi okkar, hversu fáir vinna fyrir mörgum, og meðan svo er ástatt, eru flest úrræði í efnahagsmálum raunar nokkurn vegin dæmd til að mistakast.

Herra forseti. Núverandi hæstv. ríkisstj. hafði ekki lengi stjórnað, þegar hún greip til gengislækkunar, það var árið 1960. Þá hafði stjórn Alþfl. lækkað allt kaup með l. árið áður, eða árið 1959. Árið 1961 felldi stjórnin gengið aftur. Hvað veldur því svo, að gengisfellingar töldu ekki árin í framhaldi af þessari álitlegu byrjun? Því olli sívaxandi aflamagn frá ári til árs, aðallega sem afleiðing mikillar tæknibyltingar í fiskveiðunum. Samfara þessu hækkuðu allar útflutningsafurðir okkar frá ári til árs allt fram á síðari hluta ársins 1966. Enn fremur bjó þjóðin öll þessi ár við eindæma hagstæð viðskiptakjör varðandi erlent vöruverð. Samt fór svo, að strax á árunum 1964 og 1965, meðan allt lék þó í lyndi, varð ríkisstjórnin að byggja upp viðtækt kerfi uppbáta, niðurgreiðslna og styrkja. Þá var gengið raunverulega fallið, en einurð skorti bara til að viðurkenna það, enn þá hékk þó viðneisnarkerfið uppi með harmkvælum. En þegar verðfall varð svo á þessu ári í nokkra mánuði á sumum útflutningsafurðum okkar, þá hrundi viðreisnarkerfið gjörsamlega, og gengisfelling, sem leiðir af sér 33% hækkun erlends gjaldeyris, varð ekki umflúin. Þetta er mikil sorgarsaga, átakanlegur hrakfallabálkur. Þetta er þó saga hæstv. ríkisstj. Í þremur atrennum er hún búin að hækka gengi Bandaríkjadollarsins gagnvart íslenzkri krónu úr kr. 16,32 í kr. 57,07 eða nærri því um 300%. Ætli þetta hljóti nú ekki að vera nærri heimsmeti? En ríkisstj. situr enn, og sennilega er hún nú að tauta í barm sér: Það er í fjórða sinni, sem er fullreynt. En hvort sem vantrauststillaga sú, sem hér er til umræðu, verður felld eða samþ. á hv. Alþ., er það sannfæring mín, að ríkisstj. hafi glatað trausti þjóðarinnar, alveg sérstaklega í atvinnumálum og í efnahagsmálum, og beri því lýðræðisleg skylda til að biðjast lausnar. Alþb. telur ríkisstj. margfaldlega hafa unnið sér til óhelgi og eigi því að segja af sér.