28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2780)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Stjórnarandstaðan hefur flutt till. um vantraust á ríkisstj. Fyrstu viðbrögð mín við þessari till. eru þau, að mig langar til að lýsa trausti á dómgreind Íslendinga, á dómgreind ykkar, sem mál mitt heyrið.

Oft er sagt um Íslendinga, að þeir séu gáfuð þjóð og menntuð. Einkum er það haft á orði, að þeir séu bókmenntaþjóð, en ég vil einnig mega treysti því, að þeir hafi heilbrigða dómgreind á efnahagsmál, að þeir geri sér ljósar mikilvægar staðreyndir og kunni að draga af þeim réttar ályktanir. Hvaða Íslendingur veit ekki, að mikið verðfall hefur orðið á útflutningsvörum landsmanna? Hvaða Íslendingur veit ekki, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur minnkað um næstum helming á einu ári, og hver er sá Íslendingur, sem heldur, að þetta þurfi engin áhrif að hafa í íslenzku þjóðlífi? Auðvitað hafa þeir hlutir verið að gerast í efnahagsmálum Íslendinga, að hagur þjóðarheildarinnar hefur farið versnandi, og þess vegna hljóta lífskjör okkar allra að rýrna í bráð. Um þetta getur enginn ágreiningur verið meðal skynsamra manna, um hitt getur menn greint á, hvernig bregðast eigi við þessum vanda. Það má gera með ýmsu móti. Ríkisstj. hugðist fyrst reyna að leysa vandann án þess að breyta gengi krónunnar Hún vissi, að það mundi verða erfitt, en hún vissi líka, að gengisbreyting er svo viðurhlutamikil ráðstöfun, að til hennar á ekki að grípa nema hún sé talin brýn nauðsyn. En þegar gengi pundsins var lækkað og gengisbreyting krónunnar varð óhjákvæmileg af þeim sökum, þótti einsýnt, að skynsamlegt væri að hætta við fyrri fyrirætlanir um lausn á efnahagsvandamálunum og freista þess að leysa þau með því að hafa gengislækkunina nokkru meiri en svaraði til lækkunar sterlingspundsins. Í þessu sambandi var það veigamikið atriði, að gengislækkunarleiðin gerði kleift að verða við óskum launþegasamtakanna um hækkun verðlagsuppbótar á laun 1. des. n. k. Fyrri fyrirætlanir ríkisstj. voru við það miðaðar, að kaupgjald héldist óbreytt 1. des. En hætta var á að til viðtækra verkfalla kæmi, ef kaup hækkaði ekki 1. des. Gengislækkunin gerði kauphækkunina mögulega, og nú hefur verkföllum verið aflýst, vinnufriður verið tryggður, m. a. með því að gengislækkunarleiðin var farin.

Í sambandi við þessa atburði alla hefur undanfarnar vikur gerzt ýmislegt sögulegt, sem varpar athyglisverðu ljósi á stjórnmálatlokka og stjórnmálamenn. Á s.l. sumri fóru fram kosningar til Alþ., þá fékk þjóðin tækifæri til þess að láta í ljós traust sitt eða vantraust á stjórnarflokkum, á þeirri ríkisstj., sem setið hafði að völdum, á þeirri stjórnarandstöðu, sem andspænis stóð. Úrskurður þjóðarinnar var traust á ríkisstj., vantraust á stjórnarandstöðuna. Ríkisstj. hélt meiri hluta sínum í þriðja sinn, aðalstjórnarandstöðuflokkurinn, Framsfl., tapaði þingsæti. Þetta var lýðræðisleg niðurstaða, fengin að loknum frjálsum umræðum í langri kosningabaráttu. Ríkisstj., sem er nýbúin að vinna kosningar, á að sjálfsögðu að fá starfsfrið til þess að vinna að lausn viðfangsefna sinna í samræmi við stefnu sína. Það er grundvallaratriði lýðræðis og þingræðis, að svo geti orðið. En stjórnarandstaðan á Íslandi lítur því miður ekki þannig á það er hið alvarlega, sem verið hefur að gerast bak við tjöldin undanfarnar vikur. Það, sem í raun og veru hefur verið að gerast, er, að stjórnarandstaðan hefur neitað að viðurkenna niðurstöðu kosninganna í sumar, þá niðurstöðu kosninganna, að núv. ríkisstj. eigi að fara áfram með völd. Þegar stjórnarandstöðunni tókst ekki að hnekkja meirihluta ríkisstj. í kosningunum og koma henni frá völdum með þeim hætti, tók hún upp nýja baráttuaðferð til þess að koma henni frá. Með hliðsjón af hinum miklu efnahagsörðugleikum, sem verðfall og aflabrestur hefur valdið þjóðinni, reri hún að því öllum árum, að verkalýðshreyfingin efndi til allsherjarverkfalls núna í desember. Það skipti þessa stjórnmálabraskara engu máli, hvað slíkt verkfall kostaði launþegana. Það skipti þá engu máli, hverju tjóni það ylli þjóðarheildinni. Það eina, sem skipti þá máli, var að erfiðleikarnir yrðu svo miklir, að ríkisstj. treysti sér ekki til annars en óska eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna til þess að leysa þá, m.ö.o. að þeim yrði boðin aðild að ríkisstj. Með misnotkun verkalýðshreyfingarinnar átti þannig að knýja það fram, sem ekki hafði unnizt í nýafstöðnum kosningum. Það þýðir ekkert fyrir leiðtoga Framsfl. og kommúnistaforingjana í Alþb. að bera á móti því, að þetta hafi verið ætlunin. Það var í margar vikur altalað meðal þm. í stjórnarandstöðuflokkunum, að erfiðleikarnir fram undan væru svo miklir, að ríkisstj. kæmist ekki hjá því að leita samvinnu við stjórnarandstöðuna um lausn þeirra, og jafnframt þóttust ýmsir vita, að Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson mundu engan kost gefa á samstarfi um lausn vandans, nema fyrsta sporið yrði myndun fjögurra flokka ríkisstj. Það átti m.ö.o. fyrst að semja um ráðherrastólana, áður en nokkuð yrði rætt um úrræðin. Þá fyrst ætluðu þessir herramenn að segja, hvað þeir vildu gera til þess að leysa vandamálin, þegar þeir væru orðnir ráðherrar, og leiðin til þess að komast í þessa aðstöðu átti að vera sú að magna verkföll og ringulreið.

Hér er um alvarlega hluti að ræða Hér er um það að ræða, að stjórnmálamenn reyna að koma sér undan lýðræðislegum dómi kjósenda með bolabrögðum, með rangindum, sem ekki aðeins kosta þjóðarheildina stórfé, heldur kippa í rauninni grundvellinum undan gildi þingræðis og kosninga Ef mönnum, sem tapa í lýðræðislegum kosningum, á að takast að þvinga sig inn í ríkisstj. með verkfallsbaráttu, er niðurstaða kosninganna ógild, þá er verkfallsvopnið orðið áhrifameira en kjörseðillinn. Allir hljóta að sjá, hvert slíkt mundi leiða.

Ég er þeirrar skoðunar, að það hefði fyllilega getað komið til mála, að fleiri flokkar fengju hlutdeild í stjórn landsins, ef það í raun og veru hefði getað stuðlað að lausn vandamálanna. En stjórnarmyndun án samkomulags um úrræði í megindráttum gat ekki verið spor í þá átt, og ríkisstj. hefði brugðizt hrapallega skyldum sínum, ef hún hefði látið knýja fram með verkföllum niðurstöðu, sem átti sér ekki lýðræðislegar og þingræðislegar forsendur. Verkföll á að leysa á vinnumarkaðinum, en ekki með stjórnarmyndun.

Sem betur fer kom ekki til verkfalla, en það var sannarlega ekki framsóknarforingjunum og kommúnistaleiðtogunum að kenna Ástæðan var sú, að verkalýðshreyfingin lét ekki misnota sig, þegar til kastanna kom. Ábyrgir verkalýðsleiðtogar tóku hagsmuni fram yfir valdastreitu framsóknarmanna og kommúnista Framsóknarforingjarnir og kommúnistaleiðtogarnir urðu fyrir vonbrigðum, þegar verkföllum var aflýst. Tilraunin til þess að hrekja ríkisstj. frá völdum hafði mistekizt. Draumurinn um að brjótast upp í ráðherrastólana, þrátt fyrir niðurstöður kosninganna, var búinn.

Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti, sem þessir sömu menn gera tilraun til þess að misnota verkalýðshreyfinguna sér til stjórnmálaframdráttar. Hliðstætt gerðist í raun og veru eftir næstsíðustu kosningar, haustið 1963. Ríkisstj. hélt velli í þeim kosningum og jók atkvæðamagn sitt, en því átti ekki að una. Sumarið og haustið 1963 voru uppi viðtækar ráðagerðir um að knýja það fram með verkföllum, sem hafði ekki unnizt við kjörborðið. Þetta olli miklum og alvarlegum erfiðleikum, en einmitt þeir erfiðleikar stuðluðu að því, að verkalýðshreyfingin gerði sér ljóst, hvað hér var um að vera og hvað var í húfi. Þess vegna kom til júní-samkomulagsins svonefnda 1964, en með því samkomulagi var að ýmsu leyti brotið í blað í sögu samskipta ríkisvalds og verkalýðshreyfingar. Það voru ábyrgir verkalýðsleiðtogar, sem að því samkomulagi stóðu, en það lék ekki á tveimur tungum, að kommúnistaleiðtogarnir og framsóknarforingjarnir voru því algerlega andvígir. Þeir reyndu fram á síðustu stund að koma í veg fyrir, að samkomulag yrði, og leyndu ekki vonbrigðum sínum, þegar úr því varð. Það voru sömu mennirnir, sem unnu gegn júní-samkomulaginu og hvöttu til verkfallanna nú í des. Það voru sömu mennirnir, sem í bæði skiptin sátu eftir með sárt ennið, vonsviknir yfir því að hafa ekki getað misnotað verkalýðshreyfinguna til þess að veikja löglega kosna ríkisstj. og færa stjórnarandstöðu, sem þjóðin hafði sýnt vantraust, aukin stjórnmálaítök. Ég vil hvetja alla þá, sem mál mitt heyra, til þess að hugleiða vandlega, hversu alvarlega hluti hér er í raun og veru um að ræða.

Framsóknarforingjarnir og kommúnistaleiðtogarnir eru í sannleika sagt að sniðganga reglur lýðræðisins. Þeir eru að storka þeim meiri hluta kjósenda, sem hefur hafnað forustu þeirra í frjálsum kosningum. Þeir eru í raun og veru að segja við þennan meiri hluta: Það skiptir engu máli, hvaða ríkisstj. þið viljið hafa og hvaða stjórnarstefnu þið viljið láta fylgja. Verkfallsvopnið er svo sterkt, að sé því beitt kröftuglega, verður ríkisstj. að víkja og kalla á stjórnarandstöðuna til hjálpar. Þannig fáum við hlutdeild í völdunum og aðstöðu til þess að framkvæma að einhverju leyti okkar stefnu, hver svo sem niðurstaða kosninganna hefur orðið. Hér er að sjálfsögðu um algerlega ólýðræðislegan hugsunarhátt og verknað að ræða. Það er í sjálfu sér ekki undrunarefni, að kommúnistar skuli hugsa þannig og breyta í samræmi við það. Þeir hafa ekki einu sinni í orði, ýmsir hverjir, fallizt á leikreglur lýðræðis og þingræðis og telja þau þjóðfélög til fyrirmyndar, þar sem hvorki ríkir lýðræði né þingræði. En hitt hljóta menn að undrast, að leiðtogar Framsfl. skuli ekki gefa kommúnistaforingjunum neitt eftir í ákefð sinni við þessa iðju. Það ætti að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir almenna fylgismenn Framsfl., sem ég efast ekki um, að séu yfirleitt góðir lýðræðissinnar. Er þeim í raun og veru að skapi, að foringjar þeirra hegði sér eins og þeir gera? Er þeim að skapi, að ekki skuli ganga hnífurinn milli framsóknarforustunnar og kommúnistaleiðtoganna? Er það í samræmi við vilja þeirra, að samtímis því, sem ýmsir verkalýðsleiðtogar ASÍ taka ábyrga afstöðu og láta hagsmuni launþeganna ráða gjörðum sínum, en ekki stjórnmálasjónarmið, skuli bókstaflega enginn framsóknarforingi hafa áhuga á neinu öðru en pólitískum hráskinnaleik og valdabraski?

Sú vantrauststill., sem hér er til umræðu, er í orði kveðnu borin fram vegna þess, að gengi krónunnar hefur verið lækkað. 1. flm. hennar er form. Framsfl., Eysteinn Jónsson. Í sjónvarpsþætti um daginn spurði fréttamaður Eystein Jónsson, hvort Framsfl. hafi verið fylgjandi gengislækkun, áður en Bretar felldu sterlingspundið. Eysteinn Jónsson tók þessu fjarri og lét nánast í ljós undrun yfir því, að nokkrum skyldi geta dottið annað eins í hug.

En það er sannarlega ekkert undarlegt, þótt mönnum detti í hug, að Framsfl. sé í raun og veru fylgjandi gengislækkuninni og mundi jafnvel hafa hana meiri, ef hann hefði mátt ráða Framsfl. má ekki halda, að menn muni ekki eitthvað aftur í tímann. Fyrsta gengishækkun, sem gerð var hér á landi eftir að föst gengisskráning var tekin upp, var gengislækkunin vorið 1939, en þá var Eysteinn Jónsson viðskmrh. og ráðh. bankamála. Hann flutti þá margar ágætar ræður bæði innan þings og utan, um að gengislækkun væri skynsamlegasta leiðin út úr þeim vanda, sem þá var við að etja. Útgerð landsmanna hafði þá um langt skeið verið rekin með halla vegna verðfalls, sem fylgdi í kjölfar heimskreppunnar miklu, og missis mikilvægra markaða vegna Spánarstyrjaldarinnar. Reynt hafði verið að sigrast á erfiðleikunum með ýmsum ráðum, m.a. ströngum innflutnings- og gjaldeyrishöftum, en allt kom fyrir ekki. Vorið 1939 var talið óhjákvæmilegt að lækka gengið, og var það tvímælalaust rétt. Þá taldi Eysteinn Jónsson það líka rétt, enda var hann ráðherra. Næst var almenn gengislækkun gerð 1950. Hana bar að með sérkennilegum hætti. Minnihlutastjórn Sjálfstfl. hafði setið að völdum og borið fram frv. um gengislækkun, en þá var gengisskráningarvaldið í höndum Alþ. Framsfl. bar þá fram vantraust á ríkisstj. Sjálfstfl. vegna gengislækkunarfrv., rétt eins og nú. Vantraustið var samþ., enda var ríkisstj. þá minnihlutastjórn. En þegar eftir að vantraustið hafði verið samþ., myndaði Framsfl. ríkisstj. með flokknum, sem hann hafði verið að lýsa vantrausti á og samþ. með honum gengislækkunarfrv., sem hafði verið tilefni vantraustsins.

Í allri sögu Alþ. Íslendinga hefur enginn stjórnmálaflokkur hegðað sér með líkum hætti og Framsfl. gerði í þessu máli. Enginn íslenzkur stjórnmálaflokkur hefur nokkurn tíma afhjúpað jafnberlega málefnalausa tækifærismennsku og Framsfl. gerði í þetta sinn. Gengislækkunin var röng meðan Framsfl. var utan ríkisstj., en hún var rétt á samri stundu og hann var kominn í ríkisstj. Auðvitað gleymist þetta ekki, en með hliðsjón af því þarf formaður Framsfl. ekki að verða hissa, þótt hann sé spurður, hvort Framsfl. hafi verið eða sé kannske fylgjandi gengislækkuninni nú.

Þegar ríkisstj. Hermanns Jónassonar átti við örðugleika að etja, örðugleika, sem að endingu leiddu til falls hennar, gerðu allir stjórnarflokkarnir till. um lausn þeirra, þótt samstaða næðist ekki, svo sem kunnugt er. Vorið 1958 stakk Framsfl. upp á því, að lagt yrði almennt gjald á bæði útflutning og innflutning, jafnhátt á báða bóga. Jafngilti þetta að sjálfsögðu gengislækkun, og var bæði framsóknarmönnnum og okkur öllum hinum það jafnljóst. Þá var gengislækkun með öðrum orðum leið út úr vandanum. Það var rétt hjá framsóknarmönnum, enda voru þeir þá í stjórn. En þegar núverandi stjórnarflokkar lækkuðu gengið tæpum 2 árum seinna, var það orðið alrangt, enda voru framsóknarmenn þá ekki í stjórn. Með hliðsjón af öllu þessu mega foringjar Framsfl. hreint ekki verða hissa á því, þótt mönnum detti í hug, að þeir séu í raun og veru alls ekki á móti gengislækkuninni, þótt þeir flytji vantraust á ríkisstj. hennar vegna. Vita í raun og veru ekki allir, sem þekkja dálítið til Framsfl., að það hefði verið lítill vandi að fá hann til þess að samþykkja gengislækkunina? Líklega hafði einn ráðherrastóll dugað. Enginn vafi er á að tveir hefðu verið fullnægjandi. En ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að gengislækkunin sé jafnnauðsynleg, hvort sem Framsfl. er með henni eða á móti. Meira máli skiptir þó hitt, að það er hægara að láta gengislækkunina koma atvinnuvegunum að gagni, að það er hægara að verja þá, sem höllustum fæti standa, áföllum vegna gengislækkunarinnar án Framsfl. en með honum. Þess vegna látum við okkur í léttu rúmi liggja, þótt hann tali gegn henni. Við vitum, að hún var nauðsynleg. Við vitum líka, að það hefði verið auðvelt að fá Framsfl. í lið með henni, en við kærum okkur ekkert um að greiða það verð fyrir fylgi Framsfl., sem við þykjumst vita, að þeir mundu setja upp. Við kærum okkur ekki um að taka upp þá afturhaldsstefnu í efnahagsmálum, sem Framsfl, aðhyllist. Við kærum okkur ekki um að gefa honum kost á að efla þá sérhagsmuni, sem við vitum, að hann ber fyrir brjósti.

Það er í sannleika sagt ömurlegt, hvílíkt hlutskipti næststærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, Framsfl., hefur kosið sér á síðari árum. Það er engu líkara en 9 ára vist utan stjórnarráðsins hafi rænt forustu flokksins allri heilbrigðri dómgreind og ábyrgðartilfinningunni í þokkabót. Flokkurinn er orðinn harðasti kaupkröfuflokkur þjóðarinnar. Engin kauphækkunarkrafa er sett fram, án þess, að Framsfl. styðji hana. Samtímis styður hann allar kröfur atvinnurekenda um aukna styrki úr ríkissjóði. Hann heimtar aukin bankalán til atvinnurekenda og húsbyggjenda og lækkaða vexti. Jafnframt er hann á móti ráðstöfunum, sem ætlað er að auka sparifjármyndun. Hann krefst hækkaðs hlutar úr fiskverði til sjómanna samtímis því sem hann telur bátana hafa allt of lélega afkomu. Jafnframt telur hann frystihúsin berjast í þökkum og þurfa að fá aukinn ríkisstyrk. Hann ber fram till. um stóraukin ríkisútgjöld samtímis því sem hann krefst lækkunar skatta og tolla. Hann ýtir undir óánægju kaupmanna með álagningu sína og krefst afnáms verðlagseftirlits, jafnframt því sem hann segir neytendur þurfa að fá lægra vöruverð. Hann krefst hækkaðs verðs á landbúnaðarafurðum til þessa að hækka kaup bænda jafnframt því sem hann hvíslar því að verkamanninum, að hann hljóti að sjá hversu dýrtíðin sé orðin voðaleg. Þannig mætti lengi telja. Ef Framsfl. fréttir einhvers staðar af kröfugerð, þá er hann kominn þangað til þess að styðja hana. Ef Framsfl. fréttir af einhverjum hópi manna, sem hann telur að hægt sé að gera óánægðan, þá er hann kominn þangað til þess að blása í glæðurnar Ef hann telur einhverjar líkur á verkfalli, hvetur hann til þess. Ef reynt ar að ná sáttum í vinnudeilu, eins og farmannadeilunni um daginn, þá reynir hann að koma í veg fyrir það. Þetta er ótrúlegt, en það er því miður satt. Svona hefur enginn flokkur hegðað sér áður á Íslandi, ekki einu sinni kommúnistarnir. Í hópi þeirra hafa oft reynzt vera menn, sem litið hafa á vandamál dagsins af ábyrgðartilfinningu. Allar götur síðan Sósfl. var stofnaður hefur verið á allra vitorði, að sú fylking hefur verið samansett af mönnum með mjög ólíkar skoðanir, og sá ágreiningur hefur hvað eftir annað komið upp á yfirborðið. En því miður virðist enginn ágreiningur vera í þingliði Framsfl. Það virðist næstum óhugnarlega sammála um lýðskrumið og ábyrgðarleysið. Svo grátt hefur 9 ára dvöl utan ríkisstj. náð að leika Framsfl.

Góðir hlustendur. Þessi vantrauststill. verður að sjálfsögðu felld, og ríkisstj. mun halda áfram störfum sínum í samræmi við mótaða stefnu. En því fer víðs fjarri, að sá þingmeirihluti, sem stendur að baki ríkisstj. þykist nota vald sitt af yfirlæti. Okkur er ljóst, að þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli í efnahagsmálum. Við drögum enga dul á, að fram undan eru erfiðir tímar. Við komum fram af hreinskilni og segjum þjóðinni, að hún verði að sætta sig við nokkra kjaraskerðingu í bráð. Okkur er ljóst, að gengislækkun er alvarlegur atburður. Einmitt þess vegna var ekki gripið til hennar fyrr en nú. Þegar slík alvara er á ferðinni, er okkur ljóst, að okkur ber að leita allra ráða, til þess að öll framkvæmd gengislækkunarinnar og ráðstafanir í sambandi við hana sé sem sanngjörnust og réttlátust og allt sé gert til þess að áihrif hennar verði sem minnst hjá þeim, sem erfiðast eiga með að þola þau. Við ætlum okkur ekki þá dul, að við í ríkisstj. eða stjórnarflokkunum vitum allan sannleikann í þessum efnum. Þess vegna viljum við gjarnan hafa sem nánust samráð við þá aðila, sem líklegast er, að gefið geti vísbendingar um, hvernig hægt sé að haga framkvæmdaatriðum skynsamlegast. Að því er launþega snertir er líklegast, að heildarsamtök þeirra geti gefið góð ráð. Þess vegna hefur ríkisstj. lagt á það áherzlu, að samstarf takist og haldist við ASÍ. Ríkisstj. mun reyna að taka tillit til allra ábendinga og allra góðra ráða, sem þaðan berast og líkleg væru til þess að létta launþegum þær byrðar, sem hún þarf því miður að leggja á herðar þeirra um sinn. Á sama hátt telur ríkisstj. sjálfsagt að hafa samráð við samtök atvinnurekenda, bæði í sjávarútvegi, iðnaði og verzlun, sem og bændasamtökin um það, með hverjum hætti fyllsta gagn geti orðið af gengisbreytingunni. Ríkisstj. er því ekki heldur andvíg að hafa um þessi mál samvinnu við þá stjórnmálaflokka, sem eru í stjórnarandstöðu, en slík samvinna má ekki byggjast á hrossakaupum, heldur á sameiginlegum skilningi á vandamálinu og samstarfsvilja til þess að leysa þau. Alvörutímar eins og þeir, sem við nú lifum, eiga ekki að vera tími þjóðfélagsátaka og ófrjórra deilna, heldur tímar samstarfs og sameiginlegs átaks til þess að koma þjóðarskútunni út úr þeim þunga straumi, sem hún hefur nú orðið að sigla gegn um hríð. Það getur tekizt, það verður að takast. Íslendingar hafa oft áður orðið fyrir miklum áföllum í efna­ hagsmálum. Nægir í því sambandi að minna á kreppuárin eftir 1930 og árin eftir heimsstyrjöldina síðari. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi í bæði skiptin verið látið dragast of tengi að grípa til þeirra ráðstafana, sem dugðu, en ég ásaka engan í því sambandi, það er alltaf erfitt að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Það hefur einnig átt sér nokkurn aðdraganda að þessu sinni, að hin endanlega ákvörðun var tekin um að lækka gengi krónunnar. En það var þó gert fyrr nú en nokkru sinni áður undir svipuðum kringumstæðum, nema 1961. Einmitt það ætti að geta gefið fyrirheit um, að gengislækkunin komi að því gagni, sem til er ætlazt. En frumskilyrðið í því sambandi er, að ekki verði hækkum á framleiðslukostnaði innanlands fyrst um sinn. Ef það verður, er hagur útflutningsatvinnuvaganna og iðnaðarins af gengislækkuninni rokinn út í veður og vind og vofa hallarekstrar, greiðsluhalla og atvinnuleysis komin á kreik aftur. Sú vofa, sem gengislækkuninni er einmitt ætlað að halda frá dyrum okkar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, hef ég þá bjargföstu trú á dómgreind Íslendinga, að þeir sjái og skilji, að við erum á réttri braut og nú höfum við gert rétt og nú þurfum við um sinn að sætta okkur við minna en undanfarin ár, til þess að ný sókn geti hafizt fram á við fyrir framförum og bættum lífskjörum. Við búum í góðu landi, sem okkur þykir vænt um. Sjórinn er gjöfull, og við eigum auðlindir í hverum og fallvötnum, en mesti auður okkar er þó fólkið sjálft, vel menntað, vel verki farið og harðduglegt. Þótt á móti blási um sinn, er því engin ástæða til þess að örvænta. Lífskjör okkar hafa verið með því bezta, sem gerist í heiminum. Við eigum fullkomnari framleiðslutæki en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar. Við erum því vel undir það búin að standast áföll, og það munum við gera. Við munum sigrast á þeim erfiðleikum, sem nú hafa orðið á vegi okkar, og frá þeim átökum munum við koma stæltari en nokkru sinni fyrr.