28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (2784)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur fjær og nær. Nýlega er komin á markaðinn bók, sem heitir „Suðaustan 14“, og mun nafnið sótt til Vestmannaeyja, en hvort sem það er rétt eða rangt, hefur almenningur það á meðvitundinni eftir veðurlýsingum frá Stórhöfða, að þar sé nánast alltaf háarok, eða eins og segir í vísunni:

„Í útlöndum er ekkert skjól. eilífur stormbeljandi.“

Nú eru mismunandi veður ágæt tilbreytni í tilverunni, jafnvel háarok hressandi einstöku sinnum, en eilífur stormbeljandi, sífellt suðaustan rok er fullmikið af svo góðu. Menn snúa sér undan slíku veðravíti og leita síður en svo á náðir þess.

Undanfarna daga og vikur hafa margar og langar ræður verið fluttar í hinu háa Alþingi Íslendinga um stjórnmálaviðhorfið og efnahagsmálin, og hefur hv. stjórnarandstraða talið sig hafa þar mest vit á öllu svo að sannazt hefur á þm. þar í flokkum, að margir eru kallaðir. Sameiginlegt er eitt með öllum ræðum þessara hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Þar er sífellt suðaustan 14, eilífur stormbeljandi, allt er forkastanlegt, sem stjórnarflokkarnir hafa gert og ætla að gera. Núv. ríkisstj. er óalandi, óferjandi og ætti að vera óráðandi öllum bjargráðum, svo sem kveðið var að orði um skóggangsmenn til forna. Eftir að hafa hlýtt á slíkan málflutning um mánaðar skeið, verður manni enn ljósara en fyrr, hvers vegna stjórnarandstaðan tapaði alþingis kosningunum á s.l. vori. Þar réði hinn eilífi stormbeljandi verulegu um, sá málflutningur að greina ekkert á milli þess, sem andstæðingar þeirra höfðu val gert og miður gert, heldur ráðast á allt jafnt með suðaustan 14. Almenningi féll ekki slíkt veðravíti. Hann sneri sér undan veðurofsanum, leit á hann sem gjörningaveður.

Undanfarnar vikum hefur ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar lagt sig fram um það að ná samkomulagi við launþegasamtökin um fyrirkomulag og framkvæmd erfiðra og þungbærra, en nauðsynlegra efnahagsaðgerða. Vissir aðilar innan stjórnarandstöðunnar hafa á hinn bóginn lagt sig alla fram um það að hindra slíkt samkomulag. Þeir virðast hafa hugsað um það eitt að reyna að nota launþegasamtökin sem bakþúfu upp í stjórnarstóla, en ekki sézt fyrir um þjóðarheill, þótt þeir hafi ekki haft erindi sem erfiði. Og því svellur þeim nú móður. Till. sú, sem hér er til umr. í kvöld, er afsprengi þess hugmóðar. Nú skal lýst vantrausti á ríkisstj.

Meginefni rökstuðnings stjórnarandstöðunnar fyrir vantrauststill. er þessi:

1. Stjórnarflokkarnir skýrðu þjóðinni rangt frá ástandi efnanagsmála í alþingiskosningunum á s.l. vori og öfluðu sér þannig meiri hl. á Alþ. með ósannindum og blekkingum, meiri hl., sem hefur ekki lengur meirihluta kjörfylgi að baki sér.

2. Ríkisstj. hefur ekki reynzt þeim vanda vaxin að taka efnahagsmál þjóðarinnar réttum tökum. Efnahagsstefna stjórnarinnar er röng, henni ber að fara frá og rýma fyrir nýrri ríkisstj.

Við skulum nú athuga þessar staðhæfingar hv. stjórnarandstæðinga ofurlítið nánar. Það er þá fyrst, að stjórnarflokkarnir hafi blekkt þjóðina varðandi ástand efnahagsmálanna Sjálfstfl. mun svara fyrir sig, en Alþfl. neitar þessari ásökun afdráttarlaust. Í kosningunum í vor sagði hann við kjósendur: Samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. hefur stuðlað að jafnri og stöðugri atvinnu þegar á heildina er litið. Var þetta rangt? Nei. Alþfl. sagði: Veiðiskipafloti landsmanna hefur stórlega vaxið undir samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., en vegna þessa hefur þjóðinni tekizt að notfæra sér mun betur auðæfi hafsins, láta heildartekjur sínar vaxa og velmegun aukast. Var þetta rangt? Nei. Alþfl. sagði: Með stjórnarsamstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. hefur tekizt að stuðla að stórfelldri uppbyggingu skólahúsa og íbúðarhúsnæðis. Almannatryggingar hafa verið auknar og vöruúrval bæði brýnna nauðsynja og velmegunarvara hafur aldrei verið meira. Var þetta rangt? Nei. Alþfl. sagði: Með minnkun skuldabyrða landsins og myndun allverulegs gjaldeyrisvarasjóðs hefur efnahagur þjóðarinnar út á við verið treystur, en það gerir henni færara en ella, að þola tímabundnar verðsveiflur á útflutningsafurðum sínum. Var þetta rangt? Síður en svo.

Og Alþfl. sagði, og takið þið nú vel eftir, að brýna nauðsyn bæri til að standa vörð um verðstöðvunarstefnuna, láta hvorki verðlag né kaupgjald hækka, því að annars riðuðu atvinnuvegirnir til falls. Vegna mjög lækkaðs og enn fallandi verðs á útflutningsafurðum okkar væru þegar komnir í ljós verulegir erf­ iðleikar og enginn gæti sagt fyrir, hvað fram undan væri. Hins vegar hefur þjóðin hingað til mætt öllum sínum erfiðleikum ótrauð og sigrazt á þeim. Það mundi hún enn gera, ef hún tækist á við þá af festu og þolgæði, en léti ekki volið og barlóminn blekkja sig. Var þetta röng staðhæfing? Ég held, að almenningi hafi ekki fundizt það og finnist það ekki heldur nú. En þessi staðhæfing fór mjög fyrir brjóstið á hv. stjórnarandstæðingum. Þeim virðist renna blóðið til skyldunnar við volið og barlóminn.

Hv. stjórnarandstæðingum hefur síðustu vikur og daga orðið tíðrætt á Alþ. um kosningavíxilinn, sem þeir nefna svo, hinar auknu niðurgreiðslur í fyrravetur á landbúnaðarvörum og niðurfellingu þeirrar aukningar í haust. Ekki lá nú í láginni þeirra skilningur á þessari efnahagsaðgerð við kosningarnar s.l. vor. Þeir kölluðu þetta hreinlega kosningamútur, blekkingaraðgerð til að leyna almenning því, að erfiðleikar steðjuðu að. En þessar staðhæfingar stjórnarandstæðinga misstu þá þegar marks, og vegna hvers? Vegna þess, að frambjóðendur stjórnarflokkanna drógu enga dul á, að vandinn var fyrir hendi. Alþfl. sagði kjósendum sínum það tæpitungulaust fyrir kosningar, að vaxandi niðurgreiðslur væru neyðarráðstafanir, sem aðeins væru skynsamlegar meðan ríkissjóður gæti innt þær af hendi án nýrra skatta og beðið væri átekta um, hvort útflutningsafurðir okkar hækkuðu ekki í verði. M.a. vegna. þessa málflutnings Alþfl. gerði almenningur sér það ljóst strax á liðnu sumri, þegar síldveiðar okkar reyndust okkur mun óhagstæðari en undanfarin sumur, verðlækkun á útflutningsafurðum okkar hélzt og sumir markaðir enda lokaðir, að nýrra efnahagsaðgerða væri von og áreiðanlega þörf. Ríkisstj. var meira að segja fremur legið á hálsi fyrir seinlæti heldur en fljótræði í þeim sökum. Mörgum fannst að takmarka bæri þá þegar innflutning og hlífa þannig gjaldeyrisvarasjóðnum við verulegri blóðtöku. En aðrir ræddu um gengisbreytingu eða hækkun söluskatts. Það fer þannig ekki á milli mála, að almenningur var með á nótunum, hvað var að gerast í efnahagslífi okkar, hvað sem tali hv. stjórnarandstöðu líður um kosningavíxil niðurgreiðslna og blekkingar, sem kjósendur hafi verið beittir með þeim.

En ég vil líka vekja athygli almennings á því, að með blekkingarbrigzlum sínum í garð stjórnarflokkanna er stjórnarandstaðan einnig að löðrunga alþýðu manna, gefa í skyn, að hún sé svo fákæn og dómgreindarlaus, að hún láti telja sér trú um hluti, sem stangast á við augljósar staðreyndir og hún hefur fyrir augunum. „Gjafir eru yður gefnar“, mætti hér segja. Er þetta ekki nokkuð langt gengið í mannfyrirlitningunni? Ég leyfi mér að staðhæfa af þeirri reynslu sem ég hef af hinum almenna kjósanda í hinum mismunandi stéttum, að hann standi okkur a.m.k. mörgum hverjum alþm. fyllilega á sporði um athygli og dómgreind á þeim veðrateiknum, sem dregur á loft þetta eða hitt árið yfir þjóðarheimill okkar, og láti ekki segja sér fyrir um það umhugsunar- og athugasemda­ laust, hvað fari að og hvernig við því skuli bregðast.

Áður en ég hætti að tala um blekkingarbrigzl hv. stjórnarandstöðu í garð okkar stjórnarsinna og þá fullyrðingu, að meiri hl. kjósenda hafi látið okkur ginna sig eina og þurs, vil ég lítillega drepa á þá staðhæfingu hennar, að velgengni undanfarinna ára stafi einvörðungu af góðæri, en að engu leyti af farsælli stjórn mála. Þetta er sérstaklega eftirlætisfullyrðing framsóknarmanna, og er mörgum í fersku minni ein af ræðum hv. 1. þm. Vestf., þegar hann í upphafi þingsins hugðist færa sönnur á, að fram komið og orðið verðfall á útflutningsafurðum okkar væri hvorki atvinnuvegunum né þjóðinni verulega þungbært, því að enn væri verðlagið ekki undir meðalverðlagi nokkurra tiltekinna ára undanfarið. Hitt láðist nv. þm. að nefna, hvað kaupgjald og verðlag hefði hækkað frá þeim tíma, er hann tók fyrst til viðmiðunar, né heldur drap hann á það, að sú hækkun stæði

enn, þótt verðlag útflutningsafurða væri fallið og það misræmi ylli erfiðleikunum. Auðvitað hét þetta í munni hv. þm. ástjórn ríkisstj., en ekki hefur hún stjórnað verðfalli á útflutningsvörum né valdið þar nokkru um, og ólíklega hefur hv. þm. ætlazt til, að ríkisstj. hefði hindrað hækkanir kaupgjalds þau árin, sem útflutningsatvinnuvegirnir gátu borið þær vegna góðæris, eins og stjórnarandstaðan vill telja.

Í útvarpsumr. frá Alþ. á s.l. vori tók Sigurður Ingimundarson, nú 1. landsk. þm. og einn af forvígismönnum Alþfl. hér í Reykjavík, þessa góðærisstaðhæfingu til meðferðar og benti með skýrum rökum á, að samkv. venjulegum skilningi á orðinu góðæri hefði ekki gengið góðæri yfir landbúnaðinn, svo að hann vissi, því að víða um land hefði ár eftir ár verið kvartað um kal og grasleysi. Þá vissi hann ekki heldur til, að sérstakt góðæri hefði verið talið ríkjandi vestan- og norðanlands undanfarin ár, hvað aflaföng úr sjó snerti, sum árin ekki heldur sunnanlands. Aflabrögð togaranna hefðu oftast undanfarin ár þótt rýr, og þar hefði ekki verið góðæri að marki, en hitt væri rétt, að síldin hefði veiðzt. Þar væri vissulega um góðæri að ræða, en spyrja mætti, hvaða aðstöðu við hefðum haft til að notfæra okkur það, ef framsýnnar stjórnar hefði ekki notið við öflun veiðiskipa af fullkomnustu gerð og séð hefði verið fyrir aðstöðu til þess að nýta aflann. Það stendur enn upp á Framsfl. að svara þessari glöggu og skýru ræðu Sigurðar Ingimundarsonar.

Næst skulum við líta á þá fullyrðingu stjórnarandstöðunnar, að ríkisstj. hafi ekki reynzt þeim vanda vaxin að taka efnahagsmál þjóðarinnar réttum tökum og beri því að fara frá, þar sem hún njóti ekki lengur fylgis meiri hl. landsmanna. Þegar við reynum að kryfja þessa staðhæfingu til mergjar, verðum við að skilja á milli liðinnar tíðar og þess, sem bíður. Um þær efnahagsaðgerðir, sem nú hafa verið teknar eða senn verða teknar, þ.e. gengislækkunina og hliðarráðstafanir í sambandi við hana, gengur dómur reynslunnar seinna, og hann einn verður óvefengjanlegur. Nú getum við aðeins ráðið í hann af líkum frá fyrri reynslu og er þó sá þátturinn mikilverðastur, sem ekki verður séður fyrir, hvaða aðstóð almenningur veltir til þess, að niðurstaða reynslunnar verði hagstæð. Ef við leggjumst ekki öll á eitt um það, að gengislækkunin verði atvinnuvegunum blóðgjöf, ef við hvorki skiljum né viljum skilja það, að hér er verið að freista þess að bæta hag atvinnuveganna, svo að atvinna geti haldizt sem jöfnust og bezt, en í stað atvinnuöryggisins verðum við vísast um einn að þola lítillega þrengri kjör, — ef við hvorki skiljum þetta, né viljum skilja það, er gengislækkunin aðeins bráðabirgðaaðgerð. En gerist hitt, sem allar góðar vættir styðji, að landsmenn víkist af ábyrgð undir nauðsynina, mun gengislækkunin koma að góðu gagni. Þannig liggur það í hendi alþjóðar og framtíðarinnar að skera úr því, hvort ríkisstj. hefur nú reynzt forustu og þar með efnahagsvandanum vaxin. Dómur stjórnarandstöðunnar þar um er ekki tímabær.

En hvað líður þá liðnum tíma? Hefur stefna ríkisstj. í efnahagsmálum verið þar röng? Núverandi efnahagsvandi er sá, að mikið verðfall hefur orðið á útflutningsafurðum okkar. Vissir markaðir hafa lokazt, og afli hefur nokkuð dregizt saman. Er þetta að kenna efnahagsstefnu núv. ríkisstj.? Enginn mun bera sér það í munn. Hitt vill hv. stjórnarandstaða staðhæfa, að hinar miklu tekjur þjóðarinnar um undanfarin ár, sem sérstaklega komu af miklum síldarafla og hagstæðu verðlagi á afurðum okkar erlendis, hafi brunnið á örskömmum tíma upp í báli verðbólgu. Ekki þarf nema hugleiða stórfelld skipa- og flugvélakaup, minnast nýrra verksmiðja, skóla og íbúðarhúsabygginga á undanförnum árum til að sannfærast um, að þetta er ekki allur sannleikurinn. Hitt er rétt, að hluti af hinum auknu þjóðartekjum hefur vissulega brunnið á báli verðbólgunnar, en víxlverkanir verðlags og kaupgjalds hafa þar óvefengjanlega komið við sögu. Hefur ríkisstj. haft þar fyrirleikinn? Varla verður það sagt með sanni, og ekki minnumst við þess, að Framsfl. né Alþb. hafi sérstaklega gengið fram fyrir skjöldu með það að hindra víxlhækkanirnar. Brennur þó verðbólgan á flestum þegnum þjóðfélagsins og ekki sízt á launþegum og bændum. Við höfum þvert á móti orðið vitni að því hvað eftir annað, að þessir flokkar og ekki síður Framsfl. hefur sjaldan talið eftir sér að kasta sprekum á eldinn. Hér skal ég að vinna, virðist hann hafa hugsað. Nú kann einhver að spyrja: En hvaða vesaldómur er það hjá ríkisstj. að láta eldana brenna? Hví slekkur hún þá ekki? Og þá komum við að kjarna þessa máls, sem almenningur virðist ekki gera sér glögga grein fyrir. Það er ekkert framkvæmdavald til í landinu sem getur barið í borðið og sagt, að svona skuli hlutirnir vera og öðruvísi ekki. Þetta er í senn veikleiki og styrkleiki íslenzka lýðveldisins, veikleiki að því leyti, að vegna þessa getur nálega hver stétt þjóðfélagsins, jafnvel minni hagsmunahópar, tekið hús á löglegri ríkisstj. og gert henni ókleift að koma málum fram nema eftir samkomulagsleiðum. En styrkleikur á hinn bóginn að því leyti, að þannig finna stéttirnar að vissu marki meir til ábyrgðar sinnar eða ættu að finna það. Þær verða að koma sér saman undir leiðsögn ríkisstj. sem kann hverju sinni bezt að laða til samvinnu og samstöðu. Það er skilningurinn á þessum þætti í stjórnarháttum okkar, sem hefur valdið því, að samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. hefur í vaxandi mæli leitað meir og meir eftir samvinnu stéttanna um úrlausnir efnahagsmála og þá ekki sízt launþegasamtakanna, fjölmennasta hópsins í þjóðfélagi okkar. Það hefur varla farið framhjá nokkrum, að þessi samvinnueftirleitun hefur í sumum tilfellum a.m.k. kallað á aukna ábyrgðarkennd forustuliðs stéttanna og af þessari samvinnu hefur ýmislegt gott flotið, sem ella hefði kannske alls ekki náðst fram. Enginn skyldi því vanmeta nauðsyn þessara samvinnutilrauna né sjá eftir tímanum, sem í þær fer, þó að hóf verði að vera á öllu

Á s. l. vori gengu stjórnmálaflokkarnir til alþingiskosninga. Þeir lögðu spilin á borðið fyrir kjósendur, hver eftir sínu mati á málefnum þjóðarinnar. Að sjálfsögðu drógu þeir hver fram sinn hlut eftir getu. Það er háttur flokka. Einn telur þetta sér sigurstranglegast. Annar hitt. Stjórnarandstaðan taldi, að sér mundi verða bezt til fylgis, að deila hart á samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. Sérstaklega lagði Framsfl. alúð við að túlka fyrir alþjóð, að þar hefði allt tekizt illa. Nú yrði að taka upp aðra stjórnarstefnu fara nýja leið, hina leiðina. Hver sú leið væri, þótti óljóst. Margir komust að þeirri niðurstöðu að önnur stjórnarstefna táknaði það í munni flokksins, að hann fengi sæti í ríkisstj., að nýja leiðin væri, að hann næði sæti í ríkisstj. og að hin leiðin væri, að hann öðlaðist sæti í ríkisstj. Kjósendum þótti svipur Framsfl. ekki hreinn og upplitið næsta ódjarflegt. Þeir veittu honum ekki aukið brautargengi.

Alþb. gekk klofið til kosninganna í vor og kom sárt og vígmótt af innbyrðis deilum út úr þeim. Hinn vaski og gunnreifi uppreisnarforingi Hannibal Valdimarsson bar að vísu skjöldinn hátt úr þeim hildarleik. En það verður honum vísast sízt fyrirgefið af andstæðingunum í eigin flokki, og fáum dylst, að „bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt“ í þeim herbúðum. Þegar óeiningin í herbúðum Alþb. er höfð í huga og getuleysi Framsfl. til þess að skilgreina, hvað hann vill í þjóðmálum annað en að komast í ríkisstj., liggur í augum uppi, að þangað er ekki til forustu að leita í þeim vanda, sem nú er við að fást. Þar verður núv. ríkisstj. að fá frið til að greiða úr erfiðleikunum. Það verður affarasælast.

Strangasti dómurinn, sem kveðinn hefur verið upp um stjórnarandstöðuna og algert stefnuleysi hennar í efnahagsmálum, hefur verið felldur af nokkrum talsmönnum þjóðstjórnar nú. Rök þeirra eru að þjóðstjórn skuli mynduð, svo að stjórnarandstaðan verði til friðs. Enginn nefnir, að hana skuli taka inn í stjórn vegna skynsamlegra till. eða úrræða hennar.

Nú skyldi enginn taka orð mín svo, að núv. ríkisstj. sé gallalaus eða geti ekki gert skyssur. Slíkt hefur allar ríkisstj. hent og mun allar henda Það er mannlegt að skjátlast. En ég þykist hafa leitt rök að því, að meginefni rökstuðnings hv. stjórnarandstöðu fyrir vantrauststill. sinni sé úr lausu lofti gripið. Það er ekki rétt, að núv. ríkisstj. hafi hlotið meiri hl. með þjóðinni út á fals og blekkingar varðandi efnahagsstöðu hennar s.l. vor. Það er engin sönnun fyrir því, að meiri hl. kjörfylgis sé brostinn. Það hafa ekki verið færð rök fyrir því, að stjórnarstefnan í efnahagsmálum okkar hafi reynzt í megindráttum röng, og það er enn of snemmt að dæma um áhrif nýgerðrar gengislækkunar á efnahagskerfi okkar.

Af öllu þessu er vantrauststill. hv. stjórnarandstæðinga óraunhæf og ótímabær, og ég vil leyfa mér að skora á flm. hennar að taka hana aftur og tefja ekki þingstörfin með gagnslausum tillöguflutningi. Hv. stjórnarandstaða hefur kvartað undan því á Alþ. undanfarið, að ræðum hennar væri lítt eða ekki svarað og stjórnarsinnar vildu litið á mál hennar hlýða. Með þessu væri hinu háa Alþ. óvirðing sýnd. En hefur stjórnarandstaðan hugleitt, hver hlutur hennar er í þessu? Það má vissulega æra stöðuglyndasta, mann að hlusta á sömu röksemdirnar fluttar mörgum sinnum af ræðumanni eftir ræðumanni, sem hafa það eitt að marki að tefja tímann og heyra í sjálfum sér. Þetta er að sýna Alþ. óvirðingu og þetta er að fara illa með hlutverk sitt, því að snörp og sköruleg stjórnarandstaða, sem þorir og kann að segja kost og löst á stjórnaraðgerðum, er þingræðinu nauðsynleg ag ætti, ef vel er á málum haldið. að ganga næst farsælli og góðri ríkisstj. um virðingu alþjóðar.

Hvar er virðing stjórnarandstöðunnar í dag með þjóðinni? Kemur hún fram í þjóðstjórnarhugmyndinni til að láta stjórnarandstöðuna vera til friðs? Það er þá virðing, liggur mér við að segja. Ég vil ráða stjórnarandstöðunni heilt. Hættið þessum sífellda suðaustan 14, hættið þessum eilífa stormbeljanda, reynið að hafa farsæl áhrif á málefni lands og þjóðar með ábyrgri afstöðu með því að segja af fyllstu einlægni kost og löst á hlutunum að ykkar dómi án hornauga á stjórnarstóla, því að til þess voruð þið kjörnir á þing.

Megi svo nýgerðar efnahagsaðgerðir verða þjóð okkar til hagsældar. Megi ríkisstj. bera gæfu til farsællar forustu landi og lýð. Megi takast góð samvinna og samstaða stjórnarflokka og stjórnarandstöðu um framgang og framkvæmd margra góðra mála á Alþ. og utan þess nú og framvegis. — Góða nótt.