07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Síðdegis á föstudaginn var boðaður fundur í hv. Nd. til þess að ræða frv. ríkisstj. um hinar fyrstu ráðstafanir vegna nýrrar gengisskráningar íslenzkrar krónu. Þá lá á borði hvers þm. stuttorð og gagnorð orðsending frá hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, og þremur öðrum aðalforingjum stjórnarandstöðunnar, till. sú um vantraust á hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir til umr. í kvöld. Það var sýnilegt, að vígmóður svall hv. 1. þm. Austf. í brjósti; misjöfn tilefni geta gert glatt í döprum hjörtum. Lá ríkisstj. ekki vel við höggi? Gengið fallið, allsherjarverkfall á næsta leiti, viðreisn Landsins öll í voða. Hafði nokkur spurn af svo

heimskum þjóðum, að þær hlytu ekki að sjá, að stund spámannsins var komin, nú yrði hliðrað til á stjórnarbekknum, svo að þar gætu orðið langþráðir endurfundir, er hv. þm. settist aftur í sinn forna sess?

En margt fer öðruvísi en ætlað er. Áður en hæstv. forsrh. hafði lokið framsöguræðu sinni, hafði meðflm. að vantrauststill., hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, skálmað þvert yfir fundarsal Nd. og lagt á ræðupúltið fyrir framan ráðh. bréf Alþýðusambands Íslands, þar sem stjórn sambandsins kveðst skulu mæla með því við félög þau er hlut áttu að máli, að boðuðum verkföllum yrði aflýst. Draumurinn fagri var orðinn að martröð, stóllinn að hillingum, ekkert framundan nema svartur sandurinn, níu ára eyðimerkurganga átti enn að halda áfram. Ef hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson. hefur á þessari stundu litið til meðflm. síns, fer varla hjá því, að honum hafi hvarflað í hug orð skáldsins:

„Ei gleymir neinn þess svip, er hann sá sjónum heiftar sig bregða á.“

Hin snöggu veðrabrigði á svip hv. 1. þm. Austf. verða áreiðanlega flestum minnisstæð, sem viðstaddir voru. Rökin, sem fram hafa komið til stuðnings vantrauststill., hafa veríð allmjög með sama markinu brennd. Þó verður að viðurkenna, að einn ræðumanna skar sig nokkuð úr hópnum, hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson. Fyrir honum var það ekki almenn mannvonzka ráðh. né dæmafátt þekkingarleysi ráðgjafa ríkisstj. í efnahagsmálum, sem átti sök á ófarnaðinum, heldur vonzka tímanna og gerónýtt og gatslitið efnahagskerfi, sem villir þessum eðlisgóðu mönnum sýn. Ef hæstv. forseti leyfir mér að fara með tvö lítil erindi úr gömlu kvæði, sem „Aldarhrollur“ nefnist, held ég, að við höfum þar viðhorf hv. þm. í fáum orðum:

„Þjóðarsómi allum er

út úr flúinn Iandi hér,

flærðar vanir furtar þá

fjandmönnunum sníkja hjá.

Dónum skipað dáðlaust þing

danska hyllir svívirðing,

eigingirnin ærir þá

allri sýn og viti frá.“

Boðskapur hv. þm. um fallegan íslenzkan nasjónalsósíalisma sýnist einlæglega fluttur. Einhvern veginn er það nú samt svo, að þeim, sem reynt hafa að fræðast um það, sem fram fer handan við járntjaldið, bambustjaldið og tóbaksblaðatjaldið, hættir við að verða flökurt við tilhugsunina um ást þessa mannvinar á því, sem þar er að gerast.

Um aðra hv. stjórnarandstæðinga á sannarlega við sú líking, að þeir hafa borið fram sama grautinn í sömu skál, að vísu með nokkuð mismunandi kurteisi af framreiðslumanna hálfu.

Ég hygg mig muna það rétt, að allir hv. stjórnarandstæðingar, sem til máls hafa tekið, hafi viðurkennt, að gengisbreytingin hafi verið réttmæt, jafnvel óhjákvæmileg eins og á stóð. Samt eru þeir á móti jafnvel allra sjálfsögðustu ráðstöfunum í sambandi við hana. Hvernig má það vera? Mér virðist þeir bera fyrir sig aðallega tvenns konar ástæður. Fyrst er það, að ekki hafi komið fram till. um að létta af hinum og þessum hópum þeim óþægindum, sem af gengisfellingunni leiði, jafnvel sé gengið enn lengra og lagaákvæðið, sem bindur kaupgjald við vísitölu beinlínis afnumið. Nú er sannleikurinn sá, að till. um ýmsar hinar svo kölluðu „hliðarráðstafanir“ hafa enn ekki verið bornar fram, en því hefur verið marglýst yfir af ríkisstj., að reynt verði að sinna sanngjörnum kröfum þeirra, sem verst verða úti. Hitt er náttúrlega alger og bersýnileg fjarstæða, að unnt sé að bæta öllum allt. Þar á meðal verður að horfast í augu við það, að ótímabærar kauphækkanir geta aðeins orðið til að draga úr þeim lækningamætti, sem gengislækkuninni er ætlað að hafa fyrir atvinnulíf þjóðarinnar.

Það veit hver hugsandi maður, að gengislækkun er enginn gamanleikur. Hún er harkaleg tilfærsla verðmæta innan þjóðfélagsins og réttlætist af því einu, að ella færu meiri verðmæti í súginn fyrir þjóðarheildina, einnig fyrir þá, sem verða fyrir barðinu á gengisbreytingunni. Áframhaldandi greiðsluhalli við útlönd, stöðvun útflutningsframleiðslu og innlends iðnaðar. Ætla hv. flm. að reyna að segja mér eða öðrum, að þá reki ekkert persónulegt minni til þessara hugtaka? Hafa þeir í raun og sannleika gleymt því, þegar þrír þeirra sátu í ríkisstj. saman og sá fjórði var í stjórn æðstu peningastofnunar landsins, Seðlabankans? Muna þeir ekki, að þá voru þeir með fáránlegu kerfi að reyna að halda atvinnuvegunum á floti, og muna þeir ekki, hvernig sú tilraun endaði? Hafi þeir gleymt því, man þjóðin það enn, hvernig þeir ultu úr hásætinu og ofan hauginn, eins og Hrollaugur konungur í Naumudal forðum. Gengisfellingin, sem þeir fjasa nú svo mikið um, að orðið hafi á árinu 1960, var aðeins leiðrétting á hinni misheppnuðu tilraun flm. sjálfra til að ráða við ófremdarástand efnahagsmálanna með öðrum ráðum en raunhæfri gengisskráningu. Hin aðalröksemdin hjá hv. stjórnarandstæðingum er nánast sú, að ráðh. séu svo vondir menn og ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálum svo fjarri því að vera starfi sínu vaxnir, að ekki verði við neitt ráðið nema forkólfar þeirra sjálfra, stjórnarandstöðunnar, fái að taka þátt í því. sem hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, kallar „dýrtíðaróstjórn okkar innanlands“. Öll vandræðin eru þessum mönnum að kenna. og orsakir, sem mannlegur máttur fær ekki við ráðið, má ekki viðurkenna, nema þá að einhverju örlitlu leyti hjá þeim, sem allra sanngjarnastir eru. Nýverið bar einn aðalreikningsheili Framsóknar það á borð fyrir menn, að meðalverð á skreið hefði stórhækkað frá í fyrra, því að í ár hefðum við aðeins selt dýra skreið til Ítalíu þótt hin ódýra skreið fyrir Afríkumarkaðinn sé óseld í geymslum og óseljanleg í bili. Fjöldi af álíka rökvillum hefur verið hrakinn af ýmsum ræðumönnum. Eru þeir sem bera þetta á borð slegnir blindu eða eru þeir að gera að gamni sínu?

Hv. 9. þm. Reykv. talaði um kerfi uppbóta, niðurgreiðslna og styrkja og bætti því við, að þar með hafi gengið raunverulegra verið fallið, þótt ríkisstj. hefði skort hreinskilni til að viðurkenna það. Herra forseti. Var hv. þm. ekki að lesa upp úr endurminningum sjálfs sín. þegar hann ásamt meðflutningsmönnum sínum var einn af æðstu stjórnarherrum þessa lands? Eða var hann bara að leika skollaleik með 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni? Hann vildi, eins og 1. þm. Austf., sem minnst gera úr erfiðleikum atvinnuveganna út af aflabresti og verðfalli, var þó svo sanngjarn að viðurkenna, að „víst lét síldin bíða nokkuð eftir sér“, já, nokkuð, ekkert voðalega mikið. En þrátt fyrir leikaraskapinn kom það hvað eftir annað í ljós, að hv. þm. hafði meiri skilning á málefninu en hann vildi eða mátti sýna. T.d. benti hann réttilega á það, að „sjómenn hafa á þessu ári, eins og allir vita, tekið á sig miklar byrðar, bæði vegna aflabrests og verðfalls“, þessara atvika, sem annars hefðu ekki haft nein áhrif á þjóðarbúið. Einnig sagði hv. þm., að það, sem nú skipti mestu máli, væri, hvernig tækist að halda dýrtíðinni í skefjum. Þetta er hverju orði sannara, og ef við tökum höndum saman um það, verður gengislækkunin þjóðinni til heilla, og ekkert öfugmæli að óska landsmönnum góðs gengis.