07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar menn eru í þrengingum staddir, er þess vissulega mikil þörf að eiga vaska vopnabræður. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Þetta gamla máltæki hefur hv. fyrsti ræðumaður hér í kvöld, Pétur Benediktsson, vafalaust vilja láta á sannast. En ekki er ég viss um, að hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans hafi orðið alveg nægilegt lið að framgöngu þessa vörpulega skjaldsveins, þótt skemmtilega vitni hann í fornar sögur og alþýðukveðskap. Og allténd getur kveðskapur verið mönnum til hressingar í skammdeginu.

Hinn 20. nóv. 1959, fyrir 8 árum og 9 dögum betur, var íslenzkri þjóð tilkynnt, að ný ríkisstj. hefði tekið við völdum. Við þá ríkisstj. hefur þjóðin búið alla stund síðan, að vísu með nokkrum mannaskiptum í ráðherrastólum, sem orðið hafa í tímanna rás. Það verður því ekki annað sagt en þessi ríkisstj. hafi fengið næg tækifæri og ærinn tíma til að vinna að framgangi stefnumála sinna og móta stjórnarfarið. Ekki hefur á það skort, að fylgismenn ríkisstj. hér á Alþ. hafi reynzt henni þægir og leiðitamir, því að öllu tryggari hjörð mun vandfundin. Naumast verður heldur sagt, að ytri aðstæður hafi torveldað ríkisstj. framkvæmd stefnumála þau ár flest, sem hún hefur setið að völdum. Hitt er nær sanni, að allar forsendur fyrir góðum árangri hafi verið til staðar mestan hluta þessa 8 ára tímabils. Með harðfylgi og dugnaði og tilstyrk nútíma tækni hafa sjómennirnir okkar á þessum árum dregið óhemju auð í bú, og þótt bændum hafi fækkað, framleiðir bændastéttin meira af matvælum en nokkru sinni. Verkamenn. iðnaðarmenn og aðrar starfsstéttir hafa unnið hörðum höndum að verðmætasköpun langan vinnudag, og flest árin hafa viðskiptakjör okkar verið með eindæmum hagstæð, útflutningsafurðirnar selzt fyrir mjög hátt verð. Það er fyrst nú hið síðasta ár þessa langa stjórnartímabils, að útflutningsvörurnar hafa lækkað í verði frá því, sem þær voru hæstar áður. Þó eru þær lækkanir ekki stórfelldari en svo, að á fyrri hluta þessa árs var útflutningsverð vara okkar hærra en meðalverð þeirra síðustu 5 árin. En slíka verðbreytingu þolir hið yfirspennta, íslenzka efnahagskerfi ekki. Þá ætlar allt að snarast, hjól framleiðslunnar stöðvast hvert á fætur öðru. Með þetta í huga fæ ég ekki betur séð en kveðinn hafi verið upp þyngri áfellisdómur yfir stjórnarstefnu síðustu 8 ára en nokkur íslenzk ríkisstj. á undan þessari hefur orðið að þola. Það er ekki stjórnarandstaðan, sem kveður upp þennan dóm, heldur staðreyndirnar sjálfar, blákaldur veruleikinn, og þeim dómi verður ekki áfrýjað.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum fyrir 8 árum, gaf hún út stjórnarboðskap eins og venja er til, setti fram stefnumið og lofaði mörgu. Ekki væri það langrar stundar verk að telja upp þá liði þessarar stefnuyfirlýsingar. sem efndir hafa verið til fullrar hlítar. Til hins þyrfti skorinorðari mann en mig, að tíunda á 20 mínútum öll þau stefnuskráratriði stjórnarinnar, sem lítt eru efnd eða vanefnd. Að þessu sinni læt ég nægja að rifja upp eitt atriði stefnuyfirlýsingarinnar, en raunar eitt hið allra veigamesta, það, sem þjóðinni reið á öðru fremur, að við yrði staðið. Ríkisstj. setti það efst á stefnuskrá sína að koma á jafnvægi í efnahagsmálum og treysta rekstrargrundvöll íslenzkra atvinnuvega Þetta er óneitanlega mikið fyrirheit og engan veginn vandalaust að uppfylla það til hlítar. Ytri aðstæður hverri ríkisstj. óviðráðanlegar hlutu að ráða miklu um, hversu til tækist. En þegar haft er í huga, að lengst af valdaferli núv. ríkisstj. hafa hinar ytri aðstæður verið sérlega hagstæðar, er það fyrirmunun, hversu illa hefur til tekizt um efndir þessa fyrirheits.

Ég þarf ekki að eyða að því mörgum orðum, hvert sé það jafnvægi í efnahagsmálum, sem þjóðin hefur búið við. Þrjár gengisfellingar á 8 ára tímabili eru m. a. talandi vottur um þetta. Grátbroslegt er, þegar núverandi stjórnarherrar eru í lofræðunum um sjálfa sig og eigin stjórnvizku að stúta af því að hafa lyft íslenzku krónunni til vegs meðal mynta heimsbyggðarinnar. Þeir eru að vísu hættir þessu sumir núna, en þó var landbrh. svo brjóstheill að nefna þetta hérna í gærkvöld. Sjaldan hafa öfugmælasmiðir verið hugkvæmari en þetta.

Árið 1959 jafngiltu 16.32 kr. einum Bandaríkjadollar. Árið 1960 felldi viðreisnarstjórnin, sem svo er nú kölluð einvörðungu í skopi, krónuna, í fyrsta sinn. Eftir þá gengisfellingu þurfti 38 kr. ísl. til að jafngilda Bandaríkjadollar. Næst kom gengisfellingin 1961, refsiaðgerðin alræmda til að ná sér niðri á launþegum, sem ekki höfðu viljað þola afleiðingar 57% gengislækkunar bótalaust. Trúlega var það einhver óviturlegasta stjórnvaldaráðstöfun, sem um getur í síðari tíma sögu íslenzkri, og er þá mikið sagt. Eftir þá gengislækkun jafngilti Bandaríkjadollar 43 kr. Við það hefur setið þar til á dögunum, að stjórnin felldi gengið í þriðja sinn, og nú þarf 57 kr. til að jafngilda Bandaríkjadollar. Í stuttu máli, 16 kr. rúmar við upphaf viðreisnar, 57 kr. í dag.

Síðustu vikurnar áður en Bretar felldu gengi sterlingspundsins, stóð innan þings og utan mikill styrr um efnahagsmálafrv. stjórnarinnar, sem fól það í sér að velta yfir á almenning 750 millj. kr. til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Þessa skattheimtu áttu heimilin að þola bótalaust og greiða því meira, sem fjölskyldurnar voru stærri. Það þurfti yfirlýsingu um allsherjarverkfall til að knýja ríkisstj. á undanhald og tryggja vísitölubætur 1. des. Þetta efnahagsmálafrv. var í rauninni gjaldþrotayfirlýsing stjórnarstefnunnar, fullnaðarsönnun þess, að viðreisnarstefnan hafði leitt til efnahagslegs öngþveitis. Ekki er annað vitað en ríkisstj, haldi fast við þá fyrirætlun, að meginþorri umræddra 750 millj. fari áfram beint út í verðlagið, að vísu ekki bótalaust launþegum til handa, eins og í upphafi var ætlunin. En ljóst er, hver áhrif þessar aðgerðir hafa á verðlagsþróun í landinu og ekki bæta þær stöðu atvinnuveganna. Gengislækkunin nýja kemur því ekki, eins og sumir virðast halda, í staðinn fyrir 750 millj. kr. álögurnar, heldur til viðbótar við þær. Ætti þá hverjum að vera ljóst, hversu geigvænleg verðbólguholskefla er að rísa, og er ákaflega hætt við, að hagur margra raskist í því flóði.

Grengisfelling sterlingspundsins er notuð sem átylla til að lækka gengi íslenzkrar krónu um 24.6%. En 24.6% gengisfelling þýðir það, að vörur keyptar frá þeim löndum, sem ekki hafa fellt gjaldeyri sinn, hækka um tæplega 33%. Til þess að mæta áhrifum af verðfellingu sterlingspundsins á íslenzkt efnahagskerfi hefði varla þurft nema 5—7% gengislækkun krónunnar. Allt hitt er einkagengisfelling ríkisstj., algerlega af innlendum rótum runnin.

Ríkisstj. fullyrðir, að gengislækkunin sé fyrst og fremst gerð fyrir útflutningsatvinnuvegina, Engum dylst, að þeir eru að þrotum komnir eftir 8 ára viðreisnarpólitík. Innlend verðbólga, skipulagsleysi og tómlæti stjórnarvalda um endurnýjun mikilvægra þátta sjávarútvegs og iðnaðar eiga gildastan þátt í því. Hlut útflutningsatvinnuveganna varð að rétta, eins og Alþb. hefur lagt á ríkasta áherzlu allra flokka, þótt það hafi löngum talað fyrir daufum eyrum stjórnarvalda En eru nú líkur til, að gengisfelling, eins og ætlunin virðist að framkvæma hana, verði útflutningsatvinnuvegunum veruleg búbót til frambúðar? Fyrst um sinn í nokkra mánuði kann að verða um einhverja úrlausn að ræða, en hvað verða þeir mánuðir margir? Ljóst er af fyrstu viðbrögðum stjórnarvalda, að obbi þeirra hækkana, sem með nokkru móti má rekja til gengisbreytingarinnar, streymir beint inn í verðlagið, og ekki verður annað séð en í blóra við þær verðhækkanir hækki margt annað, eins og löngum hefur átt sér stað í kjölfar gengisfellinga Og þessa gengisfellingu og verðhækkanir af hennar völdum á að knýja fram í fullri andstöðu og jafnvel harðri baráttu við verkalýðshreyfinguna og önnur launþegasamtök. Dettur ráðamönnum í hug, að þeir komist upp með þetta? Og hvað verður eftir af gengishagnaði útflutningsatvinnuveganna, þegar líða tekur á næsta ár, eftir að ný verðbólguholskefla kann að vera risin, eins og nú virðist ljóst, að verið sé að hleypa af stað?

Sú ákvörðun ríkisstj. að nema úr l. ákvæðin um það, að kaupgjald miðist framvegis við verðlag og breytist samkv. því, einmitt á tímum, þegar ljóst er, að verðlag hækkar stórlega, getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Sagt er, að þetta sé gert atvinnuvegunum til framdráttar. En er líklegt, að svo verði? Einn af forustumönnum verkalýðssamtakanna, Björn Jónsson, ræddi þetta mál af glöggskyggni og hreinskilni í Ed. Alþ. í gær. Ég tel ástæðu til að vitna til ummæla hans og eindreginna varnaðarorða Björn Jónsson mælti á þessa leið:

„Afnám verðviðmiðunar kaupgjalds jafngildir því í raun réttri að útiloka gerð kaupgjaldssamninga nema í hæsta lagi til örstutts tíma í senn, og á þetta sérstaklega við, þegar um miklar verðbreytingar er að ræða, eins og þær, sem nú eru fram undan.“

Og Björn sagði enn fremur:

„Ef slíkt ástand skapast, býður það heim

margháttuðum vandkvæðum og þó tveimur helztum: Í fyrsta lagi fullkominni óvissu á vinnumarkaðinum jafnt fyrir vinnuseljendur sem vinnukaupendur, þar sem enginn veit stundinni lengur, hvert kaupgjaldið verður. Er fullljóst, að öllu afkomuöryggi launafólks sem með slíku stefnt í algera tvísýnu og atvinnurekendur geta ekki heldur haft uppi neinar fyrirætlanir um rekstur eða framkvæmdir, sem á öruggum grundvelli verða reistar. Afleiðingin verður óhjákvæmilega glundroði og upplausn tíðar kjaradeilur. vinnustöðvanir, skæruhernaður, tilviljanakennd yfirboð til einstakra hópa launþega, rekstrartruflanir. Í þessum efnum ætti reynslan frá 1960—1964 að vera slíkt víti til varnaðar. að engum. sem ber öryggi á vinnumarkaðinum fyrir brjósti, ætti að koma til hugar að skapa slíkt ástand aftur, ástand, sem aðeins á einu ári, 1963 leiddi til þriggja erfiðra vinnudeilna og lyktaði með allsherjarverkfalli í árslokin en verðlag fór allt úr skorðum í enn ríkara mæli en nokkra nauðsyn bar til.

Í annan stað leiðir afnám verðviðmiðunar til þess, að aðhald atvinnurekenda og ekki síður stjórnarvalda til þess að hindra verðlagshækkanir, eftir því sem í þeirra valdi stendur. stórminnkar eða jafnvel hverfur. Reynslan frá 1960—1964 er einnig í þessum efnum ólygin þegar álagningarfrelsi verzlunar og milliliða var aukið á blygðunarlausan hátt.

Á það verður seint lögð of mikil áherzla, að sjómenn og verkafólk almennt hafa þegar tekið á sínar herðar hlutfallslega miklu meiri kjaraskerðingu en nokkrir aðrir vegna verðfalls afurða og minnkandi sjávarafla. Er fráleitt að ætla að stórauka þær byrðar með afnámi verðlagsbóta í kjölfar gengisfellingar og hvað sjómennina áhrærir með skerðingu hlutarkjara þeirra, að ráði efnahagssérfræðinga ríkisstj. Slíkar fyrirætlanir eru ekki aðeins ósvífnar og óréttlátar og þjóðfélaginu í heild hættulegar hær eru óframkvæmanlegar.“

Þetta voru ummæli Björns Jónssonar. Enn er að vísu ekki nema að nokkru leyti í ljós komið, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggst gera í framhaldi af gengislækkunarákvörðun sinni. Á því veltur að sjálfsögðu mikið, og eftir því fer að ekki litlu leyti þróun efnahagsmála í náinni framtíð. En margt bendir til, að ríkisstj. hafi helzt til litið lært af reynslunni. Það er þegar sýnt, hverjir það eru, sem fá byrðum gengisfellingarinnar af sér létt með forgangshraði. Það eru heildsalar, sem skulda erlendis, það eru olíufélög og skipafélög. Með vinnukappi, sem er fágætt hér á Alþ., afbrigðum frá þingsköpum og næturfundum var frv. þessum aðilum til bjargar drifið í gegnum þingið á mettíma og afgreitt sem l. á laugardaginn var. Á hinu bólar ekki enn sem komið er a.m.k., að neitt eigi að gera fyrir sparifjáreigendur, þá sem njóta elli- og örorkulífeyris og íslenzka námsmenn erlendis.

Við umr. í Ed. á dögunum sýndi ég fram á, að gengisfellingin raskaði svo stórkostlega högum þeirra 700—800 Íslendinga, sem stunda nám í öðrum löndum, að margir þeirra neyddust til að hætta námi, ef þeir fengju ekki fullar bætur með einum eða öðrum hætti. Hér er um að ræða nálægt 30 þús. kr. hækkaðan námskostnað á mann á ári. Heildarupphæðin, sem íslenzkir námsmenn erlendis verða að borga í hækkuðum kostnaði vegna gengisfellingarinnar, er snöggtum hærri en öll háu lán og styrkir, sem þeir hlutu frá ríkinu á þessu ári. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um þá röskun sem gengisfelling veldur. En því nefni ég námsmenn sérstaklega, að margir þeirra klifa þrítugan hamarinn við að afla sjálfum sér og þjóð sinni nauðsynlegrar og verðmætrar menntunar og mega hvorki við því né eiga það skilið, að þeim sé með efnahagsaðgerðum torveldað eða með öllu meinað að ná settu marki. Því spyr ég: Hvað hyggjast stjórnarvöld gera til að rétta að fullu hlut þessara manna?

Ein er sú vísitala bundin í l., sem ríkisstj. virðist hafa lítinn hug á að afnema, og er þá vægilega til orða tekið. Það er vísitala húsnæðismálalána. Eftir að kaupgjald og verðlag hefur verið slitið úr tengslum, en stórfelldar verðhækkanir fyrirsjáanlegar, er hað fráleitara en nokkru sinni, að lánþegar húsnæðismálalána verði að greiða vísitöluálag á vexti og afborganir lána sinna.

Þegar eru komnar fram harðar og óbilgjarnar kröfur um, að sjómenn verði með breyttum hlutaskiptum eða á annan hátt sviptir þeim kjarabótum, sem gengisfellingin kynni að færa þeim. Á sjómönnum hefur þó nú þegar bitnað með fullum þunga sú kjaraskerðing, sem stafar af minnkuðu aflamagni og lækkuðu fiskverði. Verði sú raunin sem margir hafa fyrir satt, að stjórnarvöld landsins séu staðráðin í að knýja fram skertan hlut sjómanna, blasir nokkuð skýrt við myndin af því, hverjum ætlað sé að axla þyngstu byrðarnar af völdum gengisfellingarinnar. Er það í rauninni svo, að það séu sjómenn verkamenn og aðrir launþegar, húsbyggjendur, ellilífeyrisþegar, námsmenn, sparifjáreigendur, sem eiga að bera þessar byrðar? Mér finnst ástæða til að spyrja.

Ríkisstj., sem hefur á 8 ára valdaferli, lengst af við eindæma hagstæð ytri skilyrði. haldið þannig á málum, að efnahagskerfi þjóðarinnar riðar til falls, jafnskjótt og viðskiptakjörin þrengjast nokkuð, sú ríkisstj. er einskis trausts verðug. Ríkisstj., sem ákveður að halda óbreyttri þeirri heildarstefnu, sem með fádæmum illa hefur gefizt, sú ríkisstj. er orðin þjóðinni mikils til of dýr. Ríkisstj.. sem nú er að fella gengi íslenzku krónunnar í þriðja sinn á valdaferli sínum, virðist staðráðin í að framkvæma þá gengisfellingu eftir gömlum, úreltum og óhæfum afturhaldsleiðum, sú ríkisstj. hefur kveðið upp áfellisdóm yfir sjálfri sér. Ríkisstj., sem með nauman þingmeirihluta að baki grípur á alvörustund til óyndisúrræða, sem kallað geta yfir þjóðina nýja óðaverðbólgu og harðvítug stéttaátök, sú ríkisstj. er öllum heillum horfin. Ríkisstj., sem stefnir að því vitandi vits og rær að því öllum árum að hengja þjóð sína á klafa erlendra auðhringa og efnahagsbandalaga, sú ríkisstj. á að víkja.