07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2792)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fáir í þessu landi munu hafa jafnríka ástæðu til að taka undir, þegar lýst er vantrausti á núv. ríkisstj., og launastéttirnar og verkalýðssamtökin. Það eru ekki aðeins síðustu atburðir, sem þessu valda, heldur flest afskipti ríkisstj. af launamálum, frá því er hún kom til valda fyrir 8 árum. Hún hóf feril sinn með því að stórlækka gengi krónunnar 1960. Samtímis voru með lagaboði numin úr gildi þau ákvæði úr kjarasamningum verkalýðsfélaga við atvinnurekendur, að þeir skyldu greiða verðlagsuppbætur á kaup eftir vísitölu. Launþegum var eftir skilið að taka á sig bótalaust hinar stórfelldu verðhækkanir gengisfellingarinnar.

Þegar launastéttirnar reyndu að rétta hlut sinn að nokkru sumarið 1961, var umsvifalaust skellt á nýrri gengisfellingu Fyrir þeirri gengisfellingu voru engin efnahagsleg rök. Hún var pólitísk hefndarráðstöfun gegn verkalýðshreyfingunni og átti að sannfæra launafólk um, að kaupgjaldsbaráttan borgaði sig ekki. Það var þessi gengisfelling, sem Gylfi Þ. Gíslason hæstv. viðskmrh., sagði um í gærkvöld, að enga umhugsun hefði þurft til að framkvæma. Árin 1962 og 1963 einkenndust af sífelldum átökum á vinnumarkaðinum vegna verðhækkana, sem launþegarnir fengu ekki bættar nema með endurtekinni kaupgjaldsbaráttu. Haustið 1963 reyndi ríkisstj. að banna kauphækkanir og verkföll, en mætti þá svo eindreginni afstöðu og mótmælum verkalýðsfélaganna, að hún sá sig um hönd á síðustu stundu. Eftir verkföllin í des. 1963 virtist ríkisstj. loks sannfærð um, að verkalýðshreyfingin léti ekki bjóða sér endalausar verðhækkanir án bóta í kaupi.

Næsti áfangi þessara mála er svo hið margnefnda júní-samkomulag 1964. Það er rétt, sem sagt hefur verið að þá var brotið í blað í viðskiptum verkalýðshreyfingar og ríkisvalds. Ríkisstj. breytti þá um stefnu gagnvart verkalýðshreyfingunni. Aðalatriði júní-samkomulagsins var, að á ný var tekin upp verðtrygging á kaupið. Síðan júní-samkomulagið var gert, hefur ríkt meiri kyrrð á vinnumarkaðinum en árin þar á undan. Þó hefur verkalýðshreyfingunni tekizt á þessu tímabili að rétta við kaupmátt tímakaupsins, svo að hann er nú ámóta og hann var 1959. Ýmsir og þá ekki sízt Bjarni Benediktsson, hæstv. forsrh., hafa viljað telja júní-samkomulagið til sinna verka, sinna beztu verka. Enga löngun hef ég til að gera lítið úr hlut Bjarna Benediktssonar eða annarra við gerð júní-samkomulagsins. En þessum mönnum ætti þá einnig að vera umhugað að ekki yrðu að engu gerðir hinir miklu beinu og óbeinu ávinningar þessa margnefnda samkomulags. En það er einmitt það sem nú er að gerast. Nú er að því stefnt að eyðileggja árangur júní-samkomulagsins, og skal ég nú víkja að síðustu afskiptum ríkisstj. af kaupgjaldsmálum launafólks.

Fyrir röskum mánuði lagði ríkisstj. frv, fyrir Alþ. um efnahagsaðgerðir. Þessar aðgerðir, sem sumpart komu strax til framkvæmda, fólu í sér nýjar álögur, er námu 750—800 millj. kr. á ári. Tilgangurinn var sá einn að bæta hag ríkissjóðs. Stærsti liðurinn í þessum ráðstöfunum var að lækka niðurgreiðslur á vöruverði, sem nam röskum 400 millj. kr., og afleiðing þess varð mikil verðhækkun á brýnustu nauðsynjavörum eins og mjólk, kjöti og kartöflum, svo sem mönnum er enn í fersku minni. Með frv. ríkisstj. var áformað að fella niður vísitölubætur á kaupið, sem koma áttu 1. des. vegna þessara verðhækkana. Launafólk átti að nýju að taka á sig verðhækkanir bótalaust. Verkalýðshreyfingin leit á þessa ráðstöfun sem algert samningsrof við sig. Ríkisstj. var beinn aðili að júní-samkomulaginu 1964 um verðtryggingu launa En nú ætlar hún einhliða að afnema þessi lögbundnu réttindi verkafólks. Segja má, að verkalýðshreyfingin hafi risið upp sem einn maður til að andmæla, og jafnalmenn mótmæli hafa aldrei dunið yfir ríkisstj.

Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja tóku tilboði ríkisstj. um viðræður um þessi mál gegn því skilyrði, að frv. yrði látið kyrrt liggja í þinginu á meðan. Ágætt samstarf var milli Alþýðusambandsins og BSRB varðandi þessi mál, og skipuðu þessi stóru samtök launafólksins sameiginlega viðræðunefnd, 12 manna n. svonefndu. Allvíðtækar viðræður og athuganir fóru nú fram. En árangur var enginn varðandi höfuðatriði málsins. Launþegasamtökin stóðu óhagganleg á rétti sínum til vísitölubóta 1. des., en ríkisstj. neitaði. Samtökin buðu hins vegar, að vísitölubætur skyldu reiknaðar eftir þeim nýja vísitölugrundvelli, sem ríkisstj. hafði hugsað sér að lögfesta, þótt bætur yrðu nokkru minni með því móti en ef miðað væri við eldri grundvöllinn. Það var og er skoðun okkar, sem höfum athugað þessi mál, að nýi vísitölugrundvöllurinn muni ekki mæla lakar verðlag og neyzlu en sá eldri hefur gert og hann sé mun meira í samræmi við neyzluvenjur, eins og þær nú eru og því sé rétt að taka hann upp.

Þegar séð var, að viðræðurnar við ríkisstj. yrðu árangurslausar, boðaði Alþýðusambandið til ráðstefnu verkalýðsfélaganna. Ráðstefnan samþykkti einróma að beina því til sambandsfélaganna, að þau lýstu yfir vinnustöðvun 1. des., ef ekki væri þá búið að semja. Verkalýðsfélögin brugðust svo við þessum tilmælum, að yfir 50 félög með yfir 20 þús. félagsmanna lýstu yfir verkfalli frá 1. des. Frammi fyrir þessari fylkingu búinni til allsherjarverkfalls stóð ríkisstj., þegar fréttirnar bárust um fall sterlingspundsins, og má með sanni segja, að sjaldan hafi annar eins hvalreki komið á hennar fjörur. Hér var komin afsökun fyrir gengisfellingu sem annars átti að geyma fram yfir verkföllin, svo að hægt væri að kenna verkalýðshreyfingunni um. Nú blasti allt í einu við ríkisstj. og sérfræðingum hennar allur vandi atvinnuveganna svo ljóst, að þeir gátu á svipstundu sagt til upp á brot úr prósentu hvað hver grein þyrfti að fá í sinn hlut. Aðeins nokkrum dögum áður, þegar viðræðunefnd launþegasamtakanna bað um þessar upplýsingar, var okkur sagt, að þær væru ekki til, því að málið allt væri svo óljóst og ókannað og yrði látið bíða seinni tíma En nú hefur blaðinu verið snúið við og ríkisstj. hugsað sér að slá margar flugur í einu höggi.

Auðvitað er það satt, sem sagt hefur verið að nærri 25% gengisfelling krónunnar núna er ekki nema að litlum hluta afleiðing af falli sterlingspundsins. Að langmestum hluta er gengisfellingin úttekt ríkisstj. sjálfrar á viðreisnarbúinu. Það er nú komið í ljós, sem reynt var að fela fyrir kosningarnar í vor, kosningavíxlarnir eru fallnir og meira til. Það má vera, að hv. þm. Bragi Sigurjónsson bankastjóri þekki ekkert til kosningavíxla og hann hafi rætt við sína kjósendur í vor af þeirri einurð, sem hann lýsti hér í gærkvöld. Ég þekki það ekki. En að Gylfi Þ. Gíslason hafi talað af hreinskilni við kjósendur í vor um þessi mál, eins og hann einnig sagði í gærkvöld, hygg ég, að enginn geti samsinnt með honum.

Stjórnarflokkarnir sögðu í vor, að kosið væri um framhald verðstöðvunar, og þótt eitthvað bjátaði á í búskapnum, kæmi það ekki að sök, varasjóðir væru gildir. Með þessum málflutningi tókst stjórnarflokkunum að halda hinum nauma meiri hluta sínum. En nú hefur tjaldinu verið lyft og við blasir nýtt dýrtíðar­ flóð í stað verðstöðvunar, sem heitið var. Og nú hefur ríkisstj, látið þinglið sitt lögfesta afnám l. um verðtryggingu á kaupið og þar með endanlega rofið júní-samkomulagið. Enn á ný er til þess ætlazt, að launafólkið taki á sínar herðar verðhækkanir gengisfellingar bótalaust. Í leiðinni er svo ákveðið að greiða skuli verðlagsuppbót á kaup frá 1, des. vegna þeirra verðhækkana, sem urðu í síðasta mánuði, þegar lækkaðar voru niðurgreiðslur á mjólk, kjöti og fleiri vörum, er þá hækkuðu í verði. Af þessum sökum hækkar allt kaup n k, föstudag um 3.39%.

Verkfallsaðgerðir verkalýðsfélaganna 1. des. voru við það miðaðar að knýja fram greiðslu vísitölu nú um mánaðamótin. Nú hefur verið komið til móts við þá kröfu og því hefur miðstjórn Alþýðusambandsins beint því til félaganna að aflýsa vinnustöðvunum sínum. En það hlýtur öllum að vera ljóst, að þótt verkföllum sé nú aflýst, er vinnufriður ekki tryggður til frambúðar, þvert á móti. Afleiðing þess, að launþegar fá ekki vísitöluhækkanir á kaupið vegna verðhækkana af völdum gengisfellingarinnar, verður nýr ófriður á vinnumarkaðinum. Menn eru nú að bjóða heim sama ástandi og ríkjandi var á árunum 1960—1964. Verkafólk í ýmsum greinum hefur þegar tekið á sig byrðar vegna samdráttar í atvinnulífinu og hlutarsjómenn hafa minni tekjur vegna lægra verðs og minni afla. Faglært eða ófaglært verkafólk, sem hefur frá 110—150 þús. kr. í árslaun fyrir að vinna dagvinnu alla virka daga ársins, getur ekki og á ekki að taka á sig kjaraskerðingu. Á þetta fólk á ekki að leggja auknar byrðar. Þær verður að leggja á þá, sem breiðari hafa bökin.

Svo er nú látið heita, að frjálst sé, að verkalýðshreyfing og atvinnurekendur semji síðar um vísitölubætur á kaup. Ef öðruvísi á stæði, mætti segja, að það fyrirkomulag væri ekki óæskilegt. En eins og nú er í pottinn búið er afnám l. um verðtryggingu á launin ekkert annað en harkaleg árás á réttindi og kjör verkafólks. Það er yfirlýst af ríkisstj., að kjaraskerðing verði að fylgja gengisfellingunni. Augljóst er því, að kauphækkanir í hvaða mynd sem er vegna kjaraskerðingar gengisfellingarinnar verða ekki sóttar til atvinnurekenda nema í beinum fjandskap við ríkisstj. En enginn skyldi halda, að verkalýðshreyfingin láti það hindra sig til langframa.

Það er margyfirlýst stefna launþegasamtakanna, að kaupgjald verði að vera í nánum tengslum við verðlagið í landinu. Um þessa stefnu stendur verkalýðshreyfingin sameinuð eins og berlega hefur komið fram síðustu vikur. Verkalýðshreyfingin mun því ekki una nýju dýrtíðarflóði bótalaust. Og vel að merkja, hér er ekki aðeins um að ræða áhrif gengisfellingarinnar, heldur einnig þær álögur, sem fyrirhugaðar voru í hinu fyrsta frv. ríkisstj. um efnahagsaðgerðir. Söluskattur á að koma á póst- og símaþjónustu og á afnotagjöld hljóðvarps og sjónvarps. Hækka á gjöld til almannatrygginga og sjúkrasamlaga, og hitaveitugjöld eiga að hækka stórlega. Allar þessar hækkanir á fólk einnig að bera bótalaust. Strangt aðhald í verðlagsmálum og ýmsar hliðarráðstafanir gætu dregið úr áhrifum gengisfellingarinnar, en eins og af stað hefur verið farið í þeim efnum, er ekki við miklu að búast. Og verðtryggingin á kaupið sem nú er búið að afnema, var eitt bezta aðhald fyrir stjórnarvöldin til að halda verðhækkunum í skefjum.

Ég sagði í upphafi máls míns, að full ástæða væri til að lýsa vantrausti á ríkisstj. vegna stefnu hennar í launamálum verkafólks. Ég þykist hafa leitt rök að þessari fullyrðingu. En fjarri fer því, að þetta sé eina ástæðan til vantrausts. Sjálfsagt verður vantraustið ekki samþ. hér í þingsalnum. Það var fyrir fram vitað enda flutt fyrst og fremst til að vekja athygli almennings á hinni hættulegu stefnu ríkisstj. Þeirri stefnu verður eflaust áfram haldið. Því er það nú sérstök nauðsyn, að verkalýðshreyfingin haldi vel vöku sinni og verði við því búin að hrinda þeirri kjaraskerðingu sem nú er í vændum og er afleiðing hinnar röngu stjórnarstefnu.