08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2809)

26. mál, friðun Þingvalla

Gils Guðmundsson:

Herra forseti, Hv. fyrri flm þessarar þáltill. hefur nú þegar gert svo skilmerkilega og glögga grein fyrir því, hvað fyrir okkur till.-mönnum vakir, að við það hef ég í rauninni engu að bæta. Ég vil þó segja fáein orð um þetta mál til þess að leggja á það enn aukna áherzlu, hversu mikilvægt ég tel, að sú endurskoðun sem till, okkar fjallar um, fari fram.

Eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði í framsöguræðu sinni, hafa orðið töluvert miklar umr. um þessi Þingvallamál og sérstaklega um þann þáttinn sem er lóðaúthlutun Þingvallanefndar Sigurður Magnússon fulltrúi birti skeleggar greinar um þetta efni fyrir svo sem 11/2–2 árum, og þá spunnust nokkur frekari blaðaskrif um málið. Háskólastúdentar efndu í fyrravetur til fundar hér í Sigtúni um náttúruverndarmál, og aðalumræðuefnið á þeim fundi urðu þessi Þingvallamál og þá sérstaklega lóðaúthlutunarnálin þar. Á þessum fundi, sem stúdentar efndu til í Sigtúni, flutti Eyþór Einarsson grasafræðingur, sem á sæti í Náttúruverndarráði, mjög fróðlegt erindi um náttúruverndarmál. Hann hefur einnig síðar rætt og ritað um þessi efni og komið þar alveg sérstaklega að náttúruverndarnálum á Þingvöllum. Í Tímanum hinn 17. sept. nú í haust birtist ýtarlegt viðtal við Eyþór Einarsson grasafræðing um náttúruverndarmál, og þar kemst hann svo að orði, þegar hann kemur að Þingvöllum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get satt að segja ekki litið á Þingvelli sem þjóðgarð í eiginlegri merkingu þess orðs. Þingvellir voru friðlýstir með sérstökum l. af sögulegum áatæðum fyrst og fremst, og Alþ. setti yfir þá n. alþm., og náttúruverndarsjónarmið hafa ekki ráðið nægilega í gæzlu Þingvalla til þess, að mér finnist unnt að kalla þá þjóðgarð meira að segja hefur ýmislegt verið gert þar, sem er alveg andstætt þeim sjónarmiðum og heyra fremur til náttúruspjöllum.“

Síðar í þessu viðtali segir Eyþór Einarsson: „Þjóðgarður er svæði, sem friðlýst er með þeim hætti að láta það tvennt fara saman að vernda náttúru þess og gera þó fólki fært að njóta hennar. Um Þingvelli er það að segja að ég teldi ekki fráleitt að breyta lögunum um þá og Náttúruverndarráði verði falin umsjá staðarins, sem þá verði gerður að raunverulegum þjóðgarði. Enginn staður er betur til þess fallinn á þessu fjölbyggða landshorni, en þá þarf að vinna allt öðru vísi að málum en gert hefur verið.“

Þetta sagði einn af fulltrúunum í Náttúruverndarráði, og ég hygg, að Náttúruverndarráð allt sé þessu sammála.

Ég vil leggja á það alveg sérstaka áherzlu í sambandi við þetta mál, að Alþ. ber óvenjulega mikla ábyrgð gagnvart friðunarmálum Þingvalla. Alþ. setti á sínum tíma góða og skynsamlega löggjöf um þetta efni, þar sem segir m.a.: „Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga“. En Alþ. setti ekki aðeins þessi l. Það tók í rauninni sjálft að sér varðstöðuna, varðstöðu um þennan friðlýsta helgistað allra landsmanna. Það ákvað að kjósa úr sínum hópi 3 alþm., 3 fulltrúa í Þingvallanefnd til þess að vernda þjóðgarðinn, til þess að vernda helgasta sögustað þjóðarinnar, þann stað sem einmitt er helgur í augum okkar Íslendinga vegna þess, að þar var Alþ. háð um aldir.

Nú er það skoðun mín og margra annarra að Þingvallanefnd hafi bæði fyrr og síðar verið mislagðar hendur um einstaka framkvæmdir á Þingvallasvæðinu og að ýmsar ráðstafanir Þingvallanefnda, gamalla og nýrra, hafi verið meira en vafasamar. En Alþ. í heild ber líka ábyrgð á því, hvernig til hefur tekizt. Alþ. átti að veita fulltrúum sínum í Þingvallanefnd meira aðhald en gert hefur verið ef það taldi ástæðu til Alþ. bar einnig að breyta l., friðunarlögunum um Þingvelli og bæta þau eftir því sem reynslan sýndi, að þörf var á. Þetta hefur því miður ekki verið gert. Héðan af er því ekki um annað að ræða en að viðurkenna þau mistök, sem þarna hafa orðið og leiðrétta þau, eftir því sem föng eru á og slíkt er hægt, þótt það kunni að taka nokkurn tíma að leiðrétta mistökin. En því aðeins verður hér bót á ráðin að löggjöfin um Þingvelli verði endurskoðuð og henni verði breytt í það horf, sem tryggi svo sem bezt verður, að Þingvellir verði, eins og segir í þeim l., sem enn gilda, um aldir friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.