13.12.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2819)

30. mál, áætlun um þjóðvegakerfi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú lýst þeirri till., sem hér er um að ræða á þskj. 30, till. til þál um að gerð verði áætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins á tilteknum tíma.

Hv. frsm. lýsti yfir því, að hugmyndin að þessari till. hefði orðið til á kjördæmisráðsfundi í Norðurl. e., kjördæmisráðsfundi Framsfl. þar. Þessi hugmynd er nú vitanlega miklu eldri, því að þessi hugmynd um það að gera góða vegi um Ísland, er orðin tuga ára gömul. Ég hef verið á Alþ. í 28 ár, og vegamálin hafa verið venjulega til umr. og tekið góðan tíma. Og það er ekki nema eðlilegt, að þetta mál sé alltaf á dagskrá. Við búum í stóru landi og erum fámennir. Það þarf mikið fé til þess að gera góða vegi um allt Ísland. Það þarf svo mikið fé, að það verða þungar byrðar á hvern þegn í landinu, ef það á að gerast á mjög skömmum tíma. Þess vegna er nú það, að það hefur ávallt þokazt nokkuð í áttina en er þó alltaf hægt að benda á, að mikið sé eftir. Till. fer fram á það, að það sé gerð heildaráætlun til 10 ára, hvernig þetta megi verða og hvað þetta muni kosta. Ég get upplýst það að vegamálaskrifstofan hefur, að ég hygg, áætlunartölur um það hvað það muni kosta að byggja upp vegakerfið í landinu svo að það þarf tæplega neina áskorun um það, að áætlun verði um þetta gerð Við gerum áætlun til vegamála til 4 ára í senn, og auk þess hefur vegamálastjóri og vegamálaskrifstofan heildaráætlun vinnur að henni og hefur áætlunartölur um þetta hjá sér. Og áður en þessi till. kom fram í kjördæmisráði Framsfl. í Norðurl. e. hafði vegamálastjóri t.d. gert áætlun um hringveg í kring um landið að fyrirlagi samgmrn. En það er nú ástæðulaust að vera að pexast um þetta.

Ég held, að það sé rétt, sem hv. frsm. sagði

hér áðan. Ég held, að hann hafi sagt eitthvað í þá átt, að þetta mál gæti verið hafið yfir öll dægurmál. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál. Þetta er mál, sem allir alþm. hafa áhuga fyrir.

Hv. þm. talaði um það að það hefði verið unnið mikið fyrir lánsfé í seinni tíð. Þetta er rétt. Það hefur verið unnið fyrir lánsfé að Múlavegi, að Strákavegi, að Ólafsvíkurvegi fyrir Ennið, að Reykjanesbraut og fleiri framkvæmdum, sem hafa verið á dagskrá, síðan ég kom á hv. Alþ., en biðu þess að verða framkvæmd, þangað til núna allra síðustu árin. Nú getur það ekki verið meiningin hjá hv. þn., að það hefði verið betra, ef núv. ríkisstj. hefði hagað sér eins og þær fyrri, að láta þessi verk vera ógerð og látið það vera að afla lánsfjár til þessara framkvæmda. Ég hefði ekki haldið að úr þessari átt kæmi ámælistónn í garð núv. ríkisstj. fyrir það að hafa hrundið þessum málum í framkvæmd, sem hafa verið á döfinni s.l. 20—25 ár, og ég er alveg sannfærður um það að hv. þm. talar ekki í umboði þeirra, sem njóta þessara framkvæmda helzt, þegar hann er að gefa það í skyn að það sé jafnvel ámælisvert af núv. ríkisstj. að hafa aflað lánsfjár til þessara framkvæmda, frekar en það að láta við það sitja að framkvæma fyrir það fé, sem vegasjóður hafði yfir að ráða. Nú er það svo, að ég get verið sammála hv. frsm. um það að það væri æskilegt, að vegasjóður hefði haft meira fé til ráðstöfunar, að það hefði verið hægt að framkvæma meira auk þess, sem framkvæmt var fyrir lánsfé. Þetta getum við verið sammála um, eins vænti ég þess, að hv. frsm. sé samþykkur því, að í tíð núv. ríkisstj. hafi verið veitt beinlínis meira fé til vegamálanna en áður. Og það má segja, að það sé á ýmsan hátt eðlilegt, vegna þess að kröfur þjóðarinnar til framkvæmda, uppbyggingar og þæginda fara stöðugt vaxandi með ári hverju. Og það má segja það að þjóðin öll geri í dag meiri kröfur til þeirrar ríkisstj., sem nú situr, en til þeirrar, sem sat fyrir 10 árum. Og eftir því sem kjör þjóðarinnar hafa batnað þeim mun háværari verða kröfurnar um meiri framkvæmdir og enn betri lífskjör. Ég held, að það sé nauðsynlegt, eins og hv. frsm. gaf í skyn hér áðan, að við setjum þetta mál, sem er hagsmunamál þjóðarinnar allrar og alþm. eru í hjarta sínu allir sammála um, að við setjum það til hliðar á þann veg, að við séum ekki að reyna að nóta það sem áróðursmál fyrir einn eða annan gefa í skyn að einhver stórhugsjón hafi fæðst á kjördæmisfundi Framsfl., þegar talað var um það að byggja upp vegina á Íslandi, eins og það hafi ekki komið til mála áður, heldur hafi þessi fundur uppgötvað það allt í einu, að hér væri mál, sem bæri að berjast fyrir. Þetta mál er miklu eldra, og mér dettur ekki í hug að efast um það, að hv. frsm. og margir ágætir framsóknarmenn hafi jafneinlægan áhuga fyrir því að byggja upp vegakerfið og ég og við sjálfstæðismenn. Mér dettur ekki í hug að efast um það en það er alveg ástæðulaust og er ekki sæmandi að vera að reyna að draga þetta í dilk í áróðurs skyni og reyna að telja landsmönnum trú um það að þetta sé eitthvað sérstakt fyrir framsóknarmenn.

Hv. frsm. sagði hér áðan, að það hefði verið byrjað 1962 að taka lán til vegaframkvæmda annarra en þessara stórframkvæmda sem ég taldi hér upp áðan Þetta er alls ekki rétt. Ég man ekki betur en að ég hafi oftast, frá því að ég varð þm., beitt mér fyrir því, að það væri unnið að vegamálum í mínu kjördæmi, á meðan það var Rangárvallasýsla ein, fyrir lánsfé, sótti um það til samgmrh., að hann samþ., að það væri unnið fyrir lánsfé, og svo gengum við þm. fram í því að útvega þetta fé. Það byrjaði fyrir 1950 og hefur verið meira og minna á hverju ári síðan Það er þess vegna ekki aðeins 1962 eða eftir það sem þetta hefur átt sér stað, heldur alltaf og misjafnlega mikið í kjördæmunum, eftir því hve fast var ýtt á eftir. En þegar stórframkvæmdirnar eru dregnar frá, sem ég nefndi áðan, eru þetta venjulega héraðavegir, sem unnið er eitthvað í fyrir fram, eftir að komið hafa beiðnir frá hreppsnefndum eða sýslunefndum um það að þeir bjóðist til að útvega lánsfé, án þess að vegagerðin greiði af því vexti. Og venjan hefur verið sú að samþykkja það að taka við þessu lánsfé, og það hefur oft komið sér vel. (Gripið fram í.) Hvað sagði þm.? Það hefur alltaf komið sér vel, hv. 1. þm. Vesturl., og mér kemur það einkennilega fyrir, ef það hefur ekki komið sér vel á áratugnum 1950—60 í Dalasýslu og öðrum sýslum á Vesturlandi að geta ýtt framkvæmdum áfram með lánsfé. Þannig var það a.m.k. á Suðurlandi.

En eins og ég sagði hér áðan ætlaði ég nú ekki að taka langan tíma til ræðuhalda nú út af þessari þáltill. Ég vildi nú aðeins vekja athygli á því, hvaða mál hér er um að ræða, og þótt þessi till. hafi verið flutt, er náttúrlega út af fyrir sig engin ástæða til þess að finna að því. Maður gæti hins vegar alveg játað það, að það væri kannske eðlilegt, að menn settu þetta fram, en þá vildi ég mælast til þess, að það væri gert í öðru formi en í svona áróðursformi, eins og kom fram í ræðu hv. þm. hér áðan þegar hann var að reyna að draga það fram, að það væri sérstakur áhugi hv. framsóknarmanna, að fé vegasjóðs væri aukið og framkvæmdum hraðað í þessu máli. Það er jafnmikið áhugamál okkar allra, örugglega. En við sem erum í ríkisstj., og þeir, sem styðja ríkisstj., gera sér vitanlega grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir því fjármagni, sem hægt er að fá til vegagerða nú, eins og það var á meðan framsóknarmenn voru við stjórn. Það eru takmörk fyrir því.

Nú segir hv. frsm.: Það á að láta vegasjóðinn hafa það fé, sem kemur af umferðinni, og talaði hann um 600 millj. kr. á ári. Það eru nú ekki 600 millj., sem hægt er að tala um að komi frá umferðinni, en hvort sem það eru 400 eða 600 millj., má segja, að það munaði um það, ef vegasjóður fengi þetta fé. En þetta fé hefur gengið í ríkissjóð og verði það tekið frá ríkissjóði, verður að afla ríkissjóði tekna með öðru móti. Og það hefur ekki komið fram tillaga frá hv. frsm. eða öðrum framsóknarmönnum um það, hvernig ætti að afla ríkissjóði tekna, ef þetta væri tekið.

Hv. þm. talaði um, að nú væri viðhorfið breytt, vegna þess að nú hefði orðið gengisbreyting. Þó að hann nefndi það ekki, þá vissu allir, að hann átti við það. En hvað er langt síðan að ýmsir stjórnarandstæðingar töluðu um það, að það væri eðlilegt að ráðstafa gengishagnaðinum til þess að Iækka tolla. Það verður nú ekki gert tvennt við sömu krónuna. Og það veit ég, að hv. 1. flm. þessarar till. skilur alveg og veit.

Í þessari till. er talað um það að taka ríkislán til hraðbrauta og þjóðbrauta og fé vegasjóðs ætti þá eingöngu að notast til landsbrauta til brúargerða að vissu marki og til vegaviðhalds, en það er óhætt að upplýsa hv. frsm. um það, að þótt ég hafi sagt það hér í vetur, að það væri hægt að fá erlend lán til hraðbrauta, eins og fyrirhugað er, þá verður það vitanlega aldrei 100% af kostnaðinum. Við fáum aldrei nema hluta af kostnaðinum lánaðan erlendis frá, og hluta af kostnaðinum verðum við að hafa af innlendu fé. Það dugar þess vegna ekki að vísa á erlent fjármagn eingöngu til hraðbrautabygginga og þjóðbrautabygginga við verðum einnig að hafa innlent fé að einhverju leyti í þessu skyni, og það eru líka takmörk fyrir því, hversu ráðlegt er að ganga langt í erlendum lántökum í þessu skyni. Finnar hafa þrívegis fengið lán í Alþjóðabankanum til vegagerða, en það hefur ekki verið nema 40% af vegagerðarkostnaðinum hverju sinni, sem þeir hafa tekið þar, og ég hygg, að það sé nokkurn veginn algild regla hjá Alþjóðabankanum, að þegar hann lánar til vegagerðar, þá séu það um 40% kostnaðar. Það er þess vegna mikill vandi á höndum, ef við ætlum að flýta framkvæmdum okkar í vegamálum, að afla nægilegs fjármagns, sem til þess þarf, enda þótt við eigum þess kost að fá fjármagn erlendis frá að vissu marki.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni. Mér fannst eðlilegt að koma hér á framfæri nokkrum atriðum í tilefni af flutningi þessarar till. og þeirrar ræðu sem hv. frsm. flutti hér áðan.