16.12.1967
Efri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að hafa langt mál sem frsm. n. að þessu sinni. Mér er ánægja í að skýra hv. d. frá því, að full samstaða er í n. um afgreiðslu málsins. Við flytjum fáeinar brtt. Þær eru 9 talsins að vísu, en varða þó fæstar efni málsins. Ég þarf ekki að skýra nauðsyn þessa máls, það gerði hæstv. ráðh. við 1. umr., og mun ég því þegar í stað snúa mér að brtt.

1. brtt. er við a-lið 1. gr. og er eingöngu orðalagsbreyting til að gera það skýrara, að þarna sé átt ekki aðeins við fiskvinnsluna, heldur einnig við fiskveiðarnar og þess vegna er sagt „við öflun og vinnslu“ í stað framleiðslu.

Sama máli gegnir um brtt. nr. 2 við 1. gr., a-lið. Þar er nefnt flutningsgjald, en n. var bent á það í þeim viðtölum, sem hún átti við fulltrúa fiskiðnaðar og sjávarútvegs, þ.e.a.s. sumpart fulltrúa frá LÍÚ og sumpart fulltrúa fiskiðnaðarins, að þarna gætu komið til fleiri útgjaldaliðir, svo sem vátryggingariðgjöld og gjöld til umboðsmanna erlendis, kannske eitthvað fleira, og þess vegna hefur þess verið óskað, að bætt verði við vátryggingariðgjaldi og öðrum sambærilegum kostnaði. Við c-lið höfum við kosið að verða við tilmælum frá Félagi síldarverksmiðja á Suðurog Vesturlandi, sem vegna jafnvægis í byggð landsins óskuðu ekki, að Austur- og Norðurlandi væri ívilnað og vildu, að þessi stafl. gæti einnig átt við verksmiðjurnar á Suður- og Vesturlandi. Þær hafa að vísu verið mjög lítið reknar á því tímabili, sem þarna kemur til greina, en nefndin leggur til, að þær sitji við sama borð og aðrir eftir þeim nánari ákvörðunum, sem rn. tekur um úthlutun þessa styrks, og sama getur átt við í vissum tilfellum um fiskimjölsverksmiðjur.

Við e-lið er einnig gerð brtt., sem eingöngu stafar ef því, að við töldum þennan lið vera á hálfgerðu dulmáli í frv. og höfum reynt að gera hann þannig, að óbreyttum borgurum og þar með okkur þm. þessarar d. væri hann skiljanlegur, og ég held, að ég þurfi ekki að lesa hann upp til þess að skýra það.

F-liður óskum við að falli niður. Hann er meira álitamál. Því var haldið fram af vissum aðilum, að með þeirri löggjöf, sem nú er verið að koma í gegn, fengi sjávarútvegurinn að vissu leyti tvisvar sinnum sama styrkinn. Það má þræta um þetta endalaust, en það var búið að veita vissa aðstoð með annarri skattlagningu, og í öðru lagi var búið að heita því, að allur gengishagnaðurinn af útfluttum sjávarafurðum skyldi renna beint til útvegsins. Um þetta hefur n. (eða fulltrúi hennar, sá sem hér stendur) rætt við ríkisstj. og hefur náðst fullt samkomulag um það, að eðlilegast sé að túlka ákvæði gengisbreytingarl. vítt og vera ekki að þræta við sjávarútveginn um það, að hann njóti í fyllsta máta þeirra fjármuna, sem þarna verða til ráðstöfunar, og mér er ánægja að staðfesta, að þetta atriði hefur mætt skilningi hjá hæstv. ríkisstj. og því hefur getað orðið fyllsta samstaða um það.

Með 6. brtt. hugðist n. flytja till. um aðferðina við úthlutun á uppbótum samkv. a-liðnum. Ég tek aftur þessa till. til 3. umr., vegna þess að hæstv. ráðh. hefur talið hentara, að hér yrði um fimm manna n. að ræða en þriggja manna n. Ég á ekki von á neinni úlfúð innan sjútvn. um þetta, og vænti þess, að við munum koma okkur saman um smábreytingar á till. í því hléi, sem verður milli umr., svo og að við fáum afbrigði frá þingsköpum til að flytja skrifl. brtt. í stað þessarar till. við 3. umr.

Síðan kemur 7. brtt. Þá erum við komnir í 2. gr. frv. Þar stendur: Gengishagnaðarsjóði er ríkisstj. heimilt að ráðstafa í þágu sjávarútvegsins sem hér segir: Allt að 1/4 samkv. a, 1/4 samkv. b og 1/4 samkv. c.

Þetta orðalag: „heimilt að ráðstafa“ er notað vegna þess, að það er ekki víst, að það verði nákvæmlega fjórðungur í hvern stað. Það verður greinilegra með því að segja „skal ríkisstj. ráðstafa“. Um þetta er enginn ágreiningur í n. né við ríkisstj. og við álítum, að hér séum við aðeins að lagfæra orðalag til að gera það skýrara.

Síðan kemur stafl. b, þar sem nú stendur í frv.: „Allt að 1/4 til Fiskveiðasjóðs Íslands og Ríkisábyrgðasjóðs til að greiða fyrir endurskipulagningu fiskiðnaðarins til framleiðniaukningar.“

Það er enginn vafi á því, að hér er um það að ræða, að þessum fjármunum skuli varið til lána og kannske í sumum tilfellum til eftirgjafar skulda í samræmi við tilgang 10. gr. 1. nr. 4 1967, um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Og þar eru bæði fiskveiðasjóður og ríkisábyrgðasjóður aðilar. Hins vegar er ómögulegt að hafa tvær stjórnir yfir sama sjóði, og því leggjum við til, að þessir peningar renni til fiskveiðasjóðs og verði ráðstafað þar sem sérstakri deild, þannig að það er hægt að fara eftir öðrum og mildari reglum en almennt er í þeim sjóði um ráðstöfun á þessum fjármunum. Og við óskum þess að sjálfsögðu, að þar sé höfð hin fyllsta samvinna við ríkisábyrgðasjóð, ef um það getur verið að ræða, að liðka þurfi fyrir um eftirgjafir á einhverjum skuldum til þess að koma rekstri fyrirtækja á skynsamlegan grundvöll. Bæði um þennan lið og um c-lið 2. gr. voru frammi óskir bæði frá LÍÚ og fiskiðnaðinum um, að frekar væru veittir styrkir en lán. N. getur ekki fallizt á það sjónarmið, en óskar að taka það fram í sambandi við c-liðinn, að hún væntir þess, að þar verði sýndur skilningur á þörfum útvegsins og að þær lánveitingar, sem þar verður um að ræða, verði ekki nein bráðabirgðalán, heldur löng lán, sem virkilega verði til varanlegrar stoðar fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli.

Ég vil einnig geta þess í sambandi við 2. gr. c, að n. bárust tilmæli frá íslenzkum skipasmíðastöðvum, um að tekið væri tillit til eigenda þeirra skipa, sem byggð eru innanlands í íslenzkum skipasmíðastöðvum, ef þeir skulduðu erlendis vegna skipabyggingarinnar. Ég hygg ekki, að það þurfi neina breytingu á gr. vegna þessara aðila, því að þar er talað um aðstoð vegna gengistaps af lánum til fiskiskipa, sem bundin eru gengi erlends gjaldeyris, og þetta á því jafnt við, eins og gr. er orðuð, hvort sem skipin eru byggð erlendis eða innanlands. Ef skuldirnar eru bundnar gengi erlends gjaldeyris, getur fiskveiðasjóður greitt fyrir þessum aðilum á nákvæmlega hliðstæðan hátt.

Við 3. gr. flytjum við enn fremur brtt. um nýtt orðalag. Það kom fram við 1. umr., að hún væri kannske eins mikið þáltill. um, hvað við ætluðum að gera, eins og löggjöf, og við höfum út frá því sjónarmiði orðað hana nokkuð öðruvísi og ekki tekið fram alla hluti, sem þar eru teknir fram núna, því að það kemur til kasta sömu manna eftir nokkrar vikur, eða mjög skamman tíma, að ákveða allt, sem nánar þarf að segja um verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hér er sem sagt ákveðið í 2. gr. d, að hann skuli stofnaður, og síðan viljum við segja í 3. gr., að stofnfé verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins skuli varðveitt í Seðlabankanum, þar til sett hafa verið lög um sjóðinn. Við teljum og rétt, að það sé þegar í stað tekið fram, að gert sé ráð fyrir, að honum verði skipt í deildir eftir tegundum afurða og að þessar deildir hafi aðskilinn fjárhag. Í samræmi við það sé stofnfénu þegar í stað skipt á milli þessara deilda. Sá afgangur, sem verða kann af verðjöfnunarsjóði frystra fiskafurða 1967 samkv. 6. gr. I. nr. 4 1967, skal að sjálfsögðu einnig renna í þennan sjóð og hann mundi náttúrlega renna í þá deild, sem annast frystar afurðir í sjóðnum.

Aðrar brtt. erum við ekki með. Að sjálfsögðu er okkur ljóst, að því fer fjarri, að öll vandamál, sem útgerðarmönnum skapast af gengisbreytingunni, séu leyst með ákvæðunum í c-lið 2. gr. T.d. má nefna greiðslur erlendra víxla með gjaldfresti vegna kaupa á veiðarfærum, sérstaklega síldarnótum, og kaupa á ýmsum tækjum. Viðskiptabankarnir hljóta að verða fyrir töluverðum ágangi af þessum sökum næstu vikur og mánuði, en ég held, að það sé óhætt að treysta því, að þessi mál megi takast að leysa með góðri samvinnu innan bankakerfisins. Þegar ég segi það, hef ég og n. öll í huga, að í sambandi við afgreiðslu þessa máls skapast töluverðar sjóðmyndanir, og einkum á vegum verðjöfnunarsjóðs hljóta að verða geymdar töluverðar fjárhæðir í bönkunum og náttúrlega þá fyrst og fremst Seðlabankanum. Það vona ég að geti orðið til að auðvelda sanngjarna afgreiðslu á þessum aðkallandi vandamálum, sem vitanlega má ekki gleyma, þegar þessi mál koma til afgreiðslu.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að fara þess á leit, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefur borið fram, og því verði síðan vísað til 3. umr.