16.12.1967
Efri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. hefur gert grein fyrir, hefur orðið samkomulag um það hjá sjútvn. að flytja allmargar og að mínum dómi veigamiklar brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Þær tel ég allar til stórmikilla bóta á frv. Verði þær samþ., mælum við framsóknarmenn í n., eins og fram kemur í nál., með samþykkt þessa frv.

Þar með er ekki sagt, að við hefðum ekki kosið ýmsar frekari breyt. á þessu frv. Við hefðum t.d. haft tilhneigingu til þess að taka undir þá ósk, sem efst var á óskalista fyrirsvarsmanna LÍÚ um það að verja nokkru af þessum gengishagnaði til þess að greiða vexti af stofnlánum síðasta árs og þá fyrst og fremst í fiskveiðasjóðinn, en um það gat ekki orðið samkomulag, enda skal ég viðurkenna, að það mál er vandasamt og þarf skoðunar við. Þá teljum við nú þann afgang, sem til hliðar er lagður samkv. d-lið 2. gr., þ.e.a.s. það, sem leggja skal í verðjöfnunarsjóðinn, allríflegt. Ekki fyrir þá sök, að við séum andvígir verðjöfnunarsjóðnum, heldur þvert á móti. Ég held, að það sé mjög athyglisverð og góð hugmynd, en sú hugmynd hlýtur vitaskuld að byggjast á því, að það sé lagt til hliðar á góðu árunum og geymt til hinna lakari. Við teljum hæpið, að sjávarútvegurinn, og er þá átt við hann í heild, hafi ráð á því á þessu ári, sem óneitanlega hefur verið óhagstætt fyrir sjávarútveginn að mörgu leyti, að leggja til hliðar þessa mjög svo verulegu upphæð, sem þarna er um að ræða.

Það er vitað mál, að ýmis frystihús eiga í alveg sérstökum vandræðum, svo að allt útlit er á því, að þau komist jafnvel ekki af stað á tilsettum tíma. Það er augljóst mál, að á þeim stöðum sem þannig stendur á, skapast hreint vandræðaástand í atvinnumálum þeirra staða. Það hefði verið æskilegt, af eitthvað hefði verið hægt að taka tillit til þess við afgreiðslu þessa máls, og ég býst við, að hjá því verði ekki komizt, að innan skamms hljóti málefni þessara frystihúsa að koma til sérstakrar athugunar hér á Alþ. Ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að láta þeirra vandræði bíða eftir þeirri allsherjarendurskoðun, sem sagt er, að fram fari um þessi málefni.

Ég held líka, að málefni togaranna þurfi alveg sérstakrar skoðunar við, og ég hef ekki nokkra trú á því, að þeir komist af án þess að fá alveg sérstaka fyrirgreiðslu. Ég skal hins vegar játa það, að þessi mál þurfa líka skoðunar við. Þar er um mikið vandamál að tefla, og ég tel hæpið að fara að kasta fram brtt. varðandi þau, án þess að hafa meira ráðrúm til að skoða þau mál öll. Við metum mjög mikils þann samstarfsvilja, sem komið hefur fram í sjútvn. og hjá sjútvmrh. um að breyta þessu frv. í betra horf, og ég vil segja viðunandi horf, miðað við þann tíma, sem til umráða var til að fjalla um það. Þess vegna munum við ekki, eins og ég þegar hef sagt, flytja sérstakar brtt. við þetta frv., heldur fylgja því eins og það liggur fyrir að samþykktum þeim brtt., sem hér hafa komið fram. Og ég vil taka fram, að þó að þarna sé ein brtt. tekin aftur til 3. umr., þá skilst mér, að þar sé aðeins spursmál um fjölda nm. og það held ég geti ekki orðið neitt ágreiningsatriði.