31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2862)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég get að ýmsu leyti verið hæstv. ráðh. þakklátur fyrir þær undirtektir, sem þessi till. fékk hjá honum. Ég gat ekki annað skilið en hæstv. ráðh. teldi það nauðsynlegt og rétt, að slík athugun færi fram og hún væri ekkert háð því, þó að það kæmi fram á næstunni sérstakt tollalækkunarfrv. frá ríkisstj., sem væri fyrst og fremst í tengslum við gengisfellinguna. Ég reikna að sjálfsögðu með því, að í því frv. ríkisstj., þegar það kemur fram, verði verulegt tillit tekið til iðnaðarins og þar verði að finna ákvæði um það að hann fái ýmsar verulegar tollalækkanir frá því sem nú er, en hins vegar reikna ég með því, að það sé ekki farið svo nákvæmlega út í ýmis atriði, ekki gerður sá skilsmunur, sem er stundum vandasamur, á því, hvað er hráefni til iðnaðarins og hvað á að teljast venjuleg verzlunarvara og þess vegna verði sú athugun, sem þessi till. felur í sér, nauðsynleg eftir sem áður.

Ég vænti líka, að það hafi falizt í þessum orðum ráðh., að hann sé samþykkur þeirri meginstefnu, sem felst í till. og sem er sú, að iðnaðurinn búi við svipuð tollaákvæði og sjávarútvegurinn. Við þurfum að fara að venja okkur af þeim hugsunarhætti, að iðnaðurinn eigi að búa við einhver önnur og lakari kjör en aðrir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, því að svo mikilvægir sem þessir atvinnuvegir eru og sjálfsagt er að halda þeim áfram og efla þá, eftir því sem kostur er, verðum við samt að gera okkur það fullkomlega ljóst, að þegar allt kemur til alls, er iðnaðurinn að verða mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar, ef hér á í framtíðinni að tryggja næga atvinnu fyrir alla og þjóðinni batnandi lífskjör.

Ég var ekki sízt ánægður yfir þeirri viðurkenningu sem kom fram í orðum hæstv. ráðh., að það væri komið á daginn, að þótt sjávarútvegurinn væri mikilvægur, væri hann ekki einhlítur til að standa undir rekstri þjóðarbúsins. Því miður skapaðist sá hugsunarháttur hér hjá mörgum aðilum og ekki sízt á hæstu stöðum meðan bezt gekk með aflabrögð og verðlag var hæst á síldarafurðum, að eiginlega þyrfti ekki um aðrar atvinnugreinar hér að hugsa en sjávarútveg og stóriðju. Við þyrftum ekki að leggja svo mikið upp úr því að efla hér landbúnað eða iðnað. Við gætum leyst þann vanda með því að flytja inn iðnaðarvörur og landbúnaðarvörur. Þetta var sú stefna, sem mjög var hér ríkjandi fyrir tveimur til þremur árum og sem mótaði þá stefnu, sem þá var fylgt í innflutningsmálum, sérstaklega hvað snerti iðnaðinn. Það hefur óneitanlega að undanförnu verið hleypt inn alveg hömlulaust hvers konar iðnvarningi með þeim afleiðingum í mörgum tilfellum, að iðnaðurinn hefur dregizt verulega saman. Þeir erfiðleikar, sem nú eru í sjávarútveginum, sýna það alveg svart á hvítu hversu gagnlegur og nauðsynlegur sem sá atvinnuvegur er, að það er ekki einhlítt fyrir þjóðina að byggja á honum einum og ekki heldur þó að landbúnaðurinn komi þá til viðbótar, heldur er kannske mikilvægast af þessu öllu að efla þriðja atvinnuveginn sem er iðnaðurinn, ef þjóðin á að búa við batnandi lífskjör hér í framtíðinni. Við þurfum ekki annað en líta til annarra þjóða í þessum efnum. Þær þjóðir, sem fyrst og fremst byggja afkomu sína á því að framleiða hráefni eins og sjávarvörur og landbúnaðarvörur, hafa nú í dag miklu lakari afkomu en hinar, sem eru lengra komnar í iðnaði, og þess vegna verðum við að læra af þessari reynslu og leggja höfuðkapp á það að verða iðnaðarþjóð og í þeim efnum á ég ekki fyrst og fremst við það, að það verði einhver örfá stóriðjufyrirtæki eins og álbræðsla, sem bjargi okkur í þeim efnum, heldur þurfi að keppa að því að hafa iðnaðinn sem fjölbreyttastan og iðngreinarnar sem allra flestar, eftir því sem okkar vinnuafl og fjármagn leyfir.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að það hefði ekki verið svo mjög þrengt að iðnaðinum á undanförnum árum vegna lánsfjárskorts og vitnaði til þess, að fyrir baráttu mína og margra annarra góðra manna og líka stundum með stuðningi hæstv. ráðh. hefur Iðnlánasjóður verið nokkuð aukinn á undanförnum árum. En ég held, að það sé öllum ljóst, sem nokkuð kynna sér þessi mál, að þrátt fyrir þessa tiltölulega smáu aukningu Iðnlánasjóðs, hefur iðnaðurinn átt við vaxandi lánsfjárörðugleika að búa undanfarin ár, og það liggur í því, að þó að iðnlánasjóðslánin hafi heldur aukizt, hefur þrengzt stórkostlega á hinum almenna lánamarkaði. Þau höft, sem Seðlabankinn hefur tekið upp í þessum málum, binding sparifjárins, hafa leitt til þess, að viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir hafa ekki getað veitt atvinnuvegunum sömu þjónustu og áður og það hefur ekki sízt bitnað á iðnaðinum. Þess vegna þarf ekkert að vera að deila um það að þegar litið er á þetta mál í heild, hefur aðstaða iðnaðarins í lánamálum farið síversnandi á undanförnum árum. Þeirri staðreynd verður ekki á móti mælt, að sú stefna sem ríkisstj. hefur látið Seðlabankann fylgja í þessum málum með frystingu sparifjárins, hefur orðið til þess að bæði iðnaður, sjávarútvegur og landbúnaður hafa búið við stórum meiri lánsfjárskort en þó var áður, og það þýðir ekkert heldur fyrir hæstv. ráðh. að vera að mæla á móti því, að aukinn innflutningur iðnaðarvara seinustu árin hafi þrengt að íslenzkum iðnaði. Það eru svo fjölda mörg dæmi til um þetta, að það er raunar alveg óþarft að vera að svara þessari fullyrðingu ráðh. nokkuð vegna þess að reynslan talar svo skýrum orðun um það að þessi fullyrðing hans sé ekki rétt. Við getum líka gert okkur það mjög ljóst, að það þarf ekki nema tiltölulega lítið af innflutningi iðnaðarvara til þess að kippa grundvellinum undan rekstri íslenzkra iðnfyrirtækja. Okkar markaður er svo ákaflega lítill. að í flestum greinum má segja, að hann rúmi ekki nema 1–2 fyrirtæki. Ef svo eru fluttar inn iðnaðarvörur, jafnvel þó að þær taki ekki nema 10–15–20% af markaðinum, er þar með búið að kippa möguleikanum undan því, að íslenzkur iðnaður geti þrifizt. Hann verður helzt að sitja að markaðinum öllum, ef hann á að hafa nokkurn starfsgrundvöll. Þetta verðum við að gera okkur ljóst, að meðan við erum að byggja iðnaðinn upp og gera hann samkeppnisfæran, verðum við að láta hann njóta sem mest hins innlenda markaðar, jafnvel þó að það kosti það sem ýmsum þykir ekki góður kostur, að það er verið að beina erlendum iðnaðarvörum frá landinu á meðan. Ég hygg nú, að hæstv. ráðh. skilji þetta líka og hann hefur sýnt það í viss um tilfellum eins og í sambandi við Hampiðjuna, að hann hefur fullan skilning á þessu. Hins vegar sýnist mér á ýmsu því, sem hefur komið fram alveg seinustu dagana, að innan ríkisstj. sé hins vegar ekki ríkjandi nægur skilningur á þessu og þar sé sú stefna enn þá nokkuð miklu ráðandi, eins og hefur komið fram alveg nýlega af hálfu eins ráðh. og eitt stjórnarblaðið hafði eftir honum, að það verði að halda dauðahaldi í verzlunarfrelsið og það eigi að stefna alveg blákalt að því að útiloka hér allar atvinnugreinar, sem þurfi á einhverri tollvernd eða vernd innflutningshafta að halda. En það er einmitt þessi stefna, sem hefur allt of mikið ráðið gerðum ríkisstj. á undanförnum árum. Ef þessari stefnu væri fylgt út í yztu æsar, þýddi það náttúrlega það að það ætti hvorki að reka landbúnað né iðnað á Íslandi, a.m.k. eins og sakir standa í dag, því að þessir atvinnuvegir hjá okkur eru enn á því stigi, að þeir eru ekki samkeppnisfærir við þann landbúnað sem hefur bezta aðstöðu erlendis, eða þann iðnað sem þar er bezt rekinn. En ég held nú, að ef þessari stefnu væri fylgt og allar þær atvinnugreinar látnar hverfa úr sögunni, sem þurfa eins og ástand er í dag á einhverri tollvernd eða einhverri innflutningshaftavernd að halda, yrði nú heldur lítið um atvinnu hjá mörgum í landinu og þá yrðu nú lífskjörin talsvert verri en þau eru í dag, því að þó að við höfum sjávarútveg, sem á að hafa hér sæmileg starfsskilyrði, ef rétt er á málum haldið og þó að við höfum hér álbræðslu sem þarf ekki að borga neina tolla og lægri skatta og ódýrara rafmagn en íslenzk fyrirtæki, jafnvel þó að við hefðum þessar tvær atvinnugreinar, held ég, að yrði nú erfitt að halda uppi sæmilegum lífskjörum í landinu þegar búið væri að leggja niður allan landbúnað og allan iðnað, eins og raunverulega felst í þessari stefnu eins ráðh. sem ég var nú að vitna til. En ég er ekki að beina þessum orðum að hæstv. iðnmrh. Mér finnst það, að hans skilningur í þessum efnum hafi frekar farið vaxandi með árunum hér á Alþ, heldur en hið gagnstæða, og þess vegna vænti ég þess, að þau sjónarmið ýmis, sem hann hefur haldið fram núna og komu fram í seinustu ræðu hans, að það yrði að láta íslenzkan iðnað ganga fyrir, þó að hann væri kannske í sumum tilfellum dýrari en sá erlendi, eins og má nefna í sambandi við skipabyggingarnar á Akureyri, þá sé það eigi að síður rétt stefna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð nú að sinni, en ég endurtek ánægju mína yfir þeim ummælum hæstv. ráðh., að hann telur, sem mér skildist alveg greinilega hjá honum, að hann telur þá athugun, sem þessi till. felur í sér, nauðsynlega, og jafnvel þó að einhverjar lagfæringar fáist í sambandi við þá tollalagabreytingu sem er hér framundan á Alþ., sé eigi að síður nauðsynlegt að vinna að þeirri heildarendurskoðun sem í till. felst, og í samræmi við þá stefnu sem þar kemur fram.