27.03.1968
Sameinað þing: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (2867)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Alþ., bæði deildir og Sþ., kýs sérstakar starfsnefndir til að íhuga vissa málaflokka, og til þeirra er að jafnaði vísað þeim málum, sem flutt eru í d. eða Sþ. Svo er fyrir mælt í þingsköpum, ég hygg í 18. gr. þingskapa, að n. skili áliti, og meira að segja eru sett svo þröng ákvæði, að eigi má taka mál að nýju til umr. fyrr en. a.m.k. einni nóttu eftir að nál. var útbýtt. Ég minnist á þetta hér vegna þess, að ég flutti ásamt nokkrum þm. öðrum till. á haustþinginu um lækkun tolla á efni og vélum til iðnaðarins. Sú till. var tekin til meðferðar hér í Sþ. fljótlega eftir að framhaldsþingið hófst og var afgr. til allshn. 1. febr. s.l. Það eru senn liðnir nær tveir mánuðir síðan þetta mál fór til hv. allshn., og hefur þó enn ekki komið neitt álit frá henni.

Hér er um hið mikilvægasta mál að ræða, sem ég tel ekki þörf á og ekki heldur viðeigandi að ræða nánar hér, en ég vil aðeins minna á það, að þegar þetta mál var hér til umr. í þinginu þessi till., var henni vel tekið af hæstv. iðnmrh., sem sagðist fullkomlega viðurkenna nauðsyn þess, að slík athugun færi fram, og áréttaði það einnig, að það frv. um tollalækkun sem þá var í undirbúningi, mundi ekki leysa þennan vanda, vegna þess að því væri fyrst og fremst ætlað annað verkefni, eða það að lækka dýrtíðina og draga þannig úr þeim byrðum, sem almenningur þyrfti að taka á sig vegna gengisfellingarinnar. Ég vil nú árétta það við hæstv. forseta og hv. formann allshn., að þeir hlutist til um það, að nál. verði lagt fram í þessu máli það tímanlega, að till. geti fengið þinglega afgreiðslu.