16.12.1967
Efri deild: 37. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. 6. brtt. á þskj. 163 var tekin aftur við 2. umr. vegna þess að hæstv. sjútvmrh. taldi hentara að hafa 5 menn í n. þeirri, sem þar um ræðir, en 3, eins og gert var ráð fyrir í brtt. N. hefur komið saman og endursamið brtt. út frá þessu sjónarmiði og leyfir sér að flytja hana nú skrifl., ef leyfi hv. d. fæst til þess, að atkvgr. megi fara fram um hana. Og till. verður þá þannig; þetta verður síðasti málsl. 1. gr.:

„Sjútvmrh. getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæðanna í stafl. a—d í þessari gr. Til að sjá um úthlutun bóta samkv. a-lið skal skipa nefnd 5 manna. Formaður n. skal tilnefndur af ráðh., en hinir skipaðir samkv. tilnefningu eftirtalinna aðila: Landssambands ísl. útvegsmanna; Síldarverksmiðja ríkisins og annarra síldarverksmiðja sameiginlega; Sölusambands ísl. fiskframleiðenda; Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga sameiginlega. Komi aðilar sér ekki saman um fulltrúa, skipar ráðh. í hans stað mann með þekkingu á þeirri atvinnugrein, sem um er að ræða.“

Síðan kemur 2. mgr. í lok þessarar gr.: „Bætur samkv. stafliðunum b, c og d skulu ekki fara fram úr 45 millj. kr.“

Hæstv. sjútvmrh. kom með áætlun um þessa þrjá liði við 1. umr. og taldi þá mundu nema tæpum 30 millj. kr. Deildin hefur gert nokkrar breytingar á þessum liðum og rýmkað þá smávegis, og svo kann að fara, að við endurskoðun þurfi nokkru meira fé en bráðabirgðaáætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þess vegna þótti n. rétt að orða till. svolítið ríflegar en gert hafði verið ráð fyrir við framsögu. En á hinn bóginn þótti okkur rétt að nefna þarna fjárhæðir, því að annars gat litið svo út sem ráðh. eða ríkisstj. hefði gersamlega óbundnar hendur um að ráðstafa öllu fénu, sem til ráðstöfunar var í þessu skyni, þannig að ekkert hefði orðið afgangs í sjóði þá, sem nefndir eru í 2. gr. Ég hygg, að enginn ágreiningur sé um þetta atriði frá nokkurs manns hálfu og leyfi mér því að fara fram á við hv. þd., að það verði samþ., eins og n. leggur til.