31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2871)

74. mál, hagnýting fiskimiðanna umhverfis landið

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 132 höfum við 10 þm. leyft okkur að flytja till. til þál. um undirbúning heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis landið Till. er efnislega á þessa leið með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 9 manna n. til þess að undirbúa setningu heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis landið. Skulu fimm nm. kosnir hlutbundinni kosningu í Sþ., en Hafrannsóknastofnunin tilnefni tvo nm., Landssamband ísl. útvegsmanna einn nm. og heildarsamtök sjómanna einn nm. N. skal hraða störfum eftir föngum, og greiðist kostnaður við störf hennar úr ríkissjóði.“

Með vaxandi fiskiflota Íslendinga og tilkomu stórvirkra veiðitækja hefur þörfin á skipulegri nýtingu fiskimiðanna umhverfis landið orðið æ brýnni. Skilningur landsmanna á þessu fer líka vaxandi, og bera ýmsar samþykktir frá útvegsmönnum og sjómönnum síðustu ára þessu glöggt vitni. Þrátt fyrir þessa staðreynd, þá hefur hv. Alþ. ekki enn þá séð ástæðu til þess að undirbúa reglur og staðfesta þær í löggjöf, stuðlað gæti að heppilegri nýtingu miðanna svo mikið sem Íslendingar eiga þó undir slíku. Við svo búið má ekki lengur standa að áliti okkar flm.

Sú tillaga, sem hér er flutt öðru sinni, gerir ráð fyrir skipun n. til þess að athuga þessi mál vandlega og gera síðan till. um löggjöf um skipulega nýtingu miðanna, er miði að því að tryggja svo sem bezt má verða hámarksarðsemi við veiðarnar, án þess þó að gengið sé of nærri fiskistofnunum. Er leitazt við að tryggja áhrif þeirra aðila að þessu undirbúningsstarfi, þ.e.a.s. sjómanna og útvegsmanna, sem mestra hagsmuna eiga hér að gæta, Auk þess er gert ráð fyrir, að fiskifræðingarnir okkar vinni að þessu máli, enda verður að ætla, að þeir hafi samkvæmt lærdómi sínum og þekkingu beztu aðstöðuna til þess.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til þess að hafa langa framsögu um þessa þáltill. Hún er hér flutt í annað skipti, og á síðasta þingi flutti ég fyrir henni nokkuð langa framsögu og get vísað til hennar, ef einhverjir hafa áhuga á að vita um það, sem þar var á drepið en auk þess fylgir till. sjálfri nokkuð ítarleg grg. um efni hennar.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. þessari verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. allshn.