28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2904)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 262 till. til þál. um aðstoð við síldveiðiskip á fjarlægum miðum. Till. þessa flyt ég ásamt Karli G. Sigurbergssyni, en hann var hér á þingi sem varamaður, en er nú vikinn af þingi, því að alllangt er síðan þessi till. var lögð fram.

Aðalefni þessarar þáltill. er það, að lagt er til að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta nauðsynlegar ráðstafanir til stuðnings síldveiðiskipum, sem veiðar stunda á fjarlægum fiskimiðum á komandi sumri og hausti. Í þeim efnum verði, eins og segir í till., m. a. lögð áherzla á eftirfarandi:

að gera síldarsöltun á miðunum mögulega, að auka flutninga á síld til vinnslu í landi, að hafa tiltækar á fiskimiðunum allar helztu nauðsynjavörur til útgerðarrekstursins,

að hafa á fiskimiðunum nauðsynlega þjónustu fyrir skipshafnir, eins og t.d. læknisþjónustu,

að skipuleggja öryggisþjónustu á miðunum. m. a. þannig, að tryggt sé, að skipin geti haft eðlilegt talstöðvarsamband við land.

Í till. segir enn fremur: „Til þess að hafa á hendi undirbúning og sjá um framkvæmdir samkv. till. þessari skipi sjútvmrh. 5 manna n. og skulu í henni vera a.m.k. 2 fulltrúar útvegsmanna og sjómanna.

Heimilt er ríkisstj. að verja allt að 10 millj. kr. til framkvæmda samkv. þessari þál.“ Síðan þessi till. var lögð fram, hefur hæstv. sjútvmrh. skipað n manna til þess að fjalla um það mál, sem þessi till. er um en sú nefndarskipun er á talsvert mikið öðrum grundvelli en þessi till. er, þar sem ráðh. hafði gert ráð fyrir, að n kynnti sér þetta mál og gerði till. um það, hvað helzt væri hægt að gera varðandi þau vandamál, sem þarna hafa komið upp, en annað átti verkefni þessarar n. út af fyrir sig ekki að vera. Hún átti sem sagt fyrst og fremst að vera athugunarnefnd, n. til þess að gera till. um, hvað helzt væri hægt að ráðast í. En þessi till. miðar að því að slá því föstu að tilteknar aðgerðir þurfi að gera og einnig því, að rétt sé að skipa n. til þess að hafa á hendi framkvæmdir í málinu. Og þessi till. slær því einnig föstu að nauðsynlegt muni vera að gera ráð fyrir nokkrum beinum fjárútlátum í sambandi við þessar framkvæmdir.

Það er skoðun mín að það geti ekki leikið neinn vafi á því, að hér sé komið upp stórfellt vandamál í sambandi við þýðingarmikla grein í okkar framleiðslulífi. Það hefur sem sagt gerzt, einkum á s.l. ári, að síldveiðarnar, svo mikið sem við höfum byggt á þeim, hafa tekið mjög verulegum breytingum. Hin eiginlega sumarsíldveiði hefur færzt verulega til. Lítil veiði varð á gömlu veiðisvæðunum yfir aumartímann, þ.e.a.s. í mánuðunum júní, júli, ágúst og sept., tiltölulega mjög lítil veiði, en á þess um tíma leitaði síldin mjög langt norður í höf, og síldarflotinn eða sá hluti síldarflotans, sem það gat, leitaði þar á eftir, til þess að hægt væri þó að halda uppi nokkrum veiðum. En síldveiðin á þeim miðum. sem áður höfðu verið einna drýgst fyrir síldveiðiflotann varð ekki fyrr en komið var fram í október, nóvember og desembermánuð og þá djúpt út af Austurlandi. Það, sem gerðist á þennan sérstaka hátt á s.l. ári., hafði í rauninni einnig gerzt árið á undan þótt það væri ekki jafn­ áberandi eða í jafnríkum mæli og það var á s.l. sumri, en þá var það svo, að yfir miðsumarið var um mjög litla síldveiði að ræða. Nokkuð hafði þá verið um síldveiði að ræða fyrst að vorinu til eða fyrri hluta sumars, en svo féll í rauninni öll veiði niður yfir miðsumarið og hófst ekki aftur fyrr en komið var fram um miðjan septembermánuð eða sem sagt nokkru fyrr þó en varð á s.l. ári. Það hefur einnig komið fram, að það er mjög almenn skoðun síldveiðiskipstjóra og fiskifræðinga, að líkur bendi til þess, að síldargöngurnar muni haga sér nokkuð svipað á þessu ári og þær gerðu á s.l. ári, það megi sem sagt búast við því, að síldin haldi sig yfir sumarmánuðina, alllangt frá landinu og helzt af öllu langt norður í höfum.

Við stöndum því frammi fyrir mjög miklu vandamáli í þessum efnum og spurningin er aðeins sú, hvernig eigi að reyna að bregðast við þessum vanda, þannig að okkar veiðifloti geti eigi að síður skilað þarna fullum afköstum og náð eins miklum afla til lands og eins verðmiklum og mögulegt er. Í þeim efnum tel ég, að nokkur atriði séu alveg augljós, hvað gera þurfi. Við getum ekki vænzt neins verulegs árangurs af okkar sumarsíldveiðum, ef við stöndum að framkvæmdinni á svipuðum grundvelli eða á svipaðan hátt og við gerðum á s.l. ári. Þá reyndist þetta mjög erfitt fyrir flotann. En síðan hafa enn orðið breytingar til hins verra varðandi rekstur síldveiðiflotans, og ég er hræddur um, að þær breytingar verði til þess, að sáralítið verði um það, að síldarskipin reyni að halda uppi rekstri á sama grundvelli og þau gerðu á s.l. sumri að öllu óbreyttu. Síldin hélt sig mjög norðarlega lengi vel, og í alllangan tíma var það svo, að segja má, að veiðisvæðið væri 700—800 mílur og jafnvel yfir 800 mílur frá landinu. Það er því augljóst, að það er erfitt fyrir 200—250 eða þótt um 300 tonna skip væri að ræða að ætla að sækja á síldarmiðin sem liggja svo langt frá landinu. En síðan í fyrrasumar hefur sú breyting m.a. orðið að verð á olíu hefur breytzt mjög mikið frá því, sem þá var. Ég hygg, að verðbreytingin sé til þessa tíma rétt í kringum 45%, sem olían hefur hækkað, en þetta gerir það að verkum, að það er svo til óhugsandi að senda bátana á þessi mið eins og þeir voru þó sendir á s.l. sumri.

En hvað er þá helzt til ráða? Við sáum það að á s.l. sumri var talsvert af síld flutt til vinnslu í landinu með stórum flutninga­ skipum af þessum fjarlægu miðum. Einkum var þar um að ræða flutning hjá tveimur stórum flutningaskipum, tankskipum, öðru, sem gert var út héðan frá Reykjavík, og hinu sem gert er út af Síldarverksmiðjum ríkisins. Þessi skip munu hafa flutt til vinnslu í landinu, til bræðslu, um það bil 80 þús. tonn af síld, af þessum fjarlægu miðum aðallega. Og þá kemur auðvitað upp sá spurning, hvort ekki sé tiltækilegt að auka eitthvað við þennan flutningaflota hvort ekki sé tiltækilegt að gera aðilum í landinu sem hér hafa hagsmuni af, auk þess sem landsmenn allir hafa hér hag af, gera þeim aðilum kleift að leigja eða kaupa hentug flutningaskip í þessu skyni til þess að auka verulega við þetta flutningsmagn. Ég vil benda á, að álíka mikið síldarmagn og þessi tvö stóru skip fluttu á s.l ári, eða í kringum 80 þús. tonn af síld, sem síðan er unnin í bræðslu mun gefa í útflutningsverðmæti varla undir 160—180 millj. kr. Það er því til nokkurs að vinna, ef hægt væri að tvöfalda þetta flutningsmagn eða þrefalda það, og þar er ekki eingöngu um verulegan ávinning að ræða fyrir þá síldveiðisjómenn, sem hér eiga hlut að máli, eða þá síldarútgerðarmenn sem veiðiskipin eiga heldur er hér vitanlega um hagsmunamál þjóðarheildarinnar að ræða. Í þeim efnum vil ég aðeins minna á það, að þó að maður tæki rétt aðeins í þrengstu merkingu hagsmuni ríkissjóðs, er alveg víst, að af 160 millj. kr. verðmæti, sem verður til aukins útflutnings hjá landsmönnum, mun ríkissjóður fá a.m.k. þriðja part, eða í kring um 50—60 millj. kr. í auknar innflutningstekjur vegna meiri innflutnings, sem gæti orðið vegna meiri gjaldeyrisöflunar, svo að hér er auðvitað um mikið fjárhagslegt hagsmunamál fyrir ríkissjóð að ræða og að sjálfsögðu fyrir þjóðarheildina.

Ég tel þess vegna að það eigi að grandskoða það, hvort ekki sé tiltækilegt að gera einhverjum aðilum í landinu kleift að komast yfir aukinn flutningaskipakost. Ég get ímyndað mér, að sumir þeir aðilar, sem eiga síldarverksmiðjur, vildu gjarnan ráðast í slíkar framkvæmdir, ef þeir fengju nokkurn stuðning ríkisvaldsins til þess. En það er auðvitað ekki auðvelt að kaupa hentug flutningaskip eða taka á leigu fyrir þennan iðnað okkar, nema til kæmi einhver stuðningur, t.d. í formi ríkisábyrgðar í sambandi við fjárhagsskuldbindingar. Ég gæti vel ímyndað mér, að þessir aðilar mundu hafa áhuga á því, ef möguleikar væru til stuðnings frá hálfu ríkisvaldsins í þessum efnum. Vissulega kemur einnig til athugunar, að sá stóri aðili, sem hér á hlut að máli, Síldarverksmiðjur ríkisins, geri nokkru meira en þær þegar hafa gert í þessum efnum til þess að auka við flutningagetu sína. Þetta er atriði, sem ég tal, að þurfi að skoða og það sem fyrst.

Þá kemur hér einnig til athugunar, hvernig megi gera mögulegt að salta nokkuð af þessari ágætu vöru, sem þarna er um að ræða, á sjálfum fiskimiðunum. Og þá gæti að sjálfsögðu komið til greina, að síldarsöltunarstöðvar, sem fyrir eru í landinu og hér hafa beinna hagsmuna að gæta, gætu ráðizt í það að taka á leigu hentug skip af venjulegri gerð sem sigldu á miðin með síldartunnur og salt og annað sem með þarf, og að þau gætu í beinu samstarfi við fiskiskipin á miðunum gert það mögulegt, að nokkur síldarsöltun yrði um borð í fiskibátunum, sem síðan gætu þá losað sig við síldina, kannske sem hálfsaltaða vöru, en það er einna sennilegast, yfir í þessi flutningaskip og síðan yrði síldin flutt í þeim til landsstöðvanna og þar yrði fullgengið frá henni til útflutnings síðar. En það er nokkurn veginn víst, að það verður miklum erfiðleikum bundið að ætla sér að gera út okkar síldveiðiskip til síldarsöltunar á þessum fjarlægu miðum á þann hátt, að síldarskipin fari með tómar síldartunnur og salt með sér og öll vinna eigi sér stað um borð í síldarbátunum, en þeir eigi síðan að sigla með vöruna fullverkaða annaðhvort til erlendra eða innlendra hafna. Það tel ég fyrir mitt leyti mjög hæpið en að sjálfsögðu er rétt að athuga þennan möguleika einnig.

Þá er einnig um það að ræða, að ráðizt verði fyrir forgöngu réttra aðila í það að flytja nokkuð af síld af miðunum til annarrar vinnslu í landi. Það getur bæði verið um að ræða að flytja síld til frystingar í landi, en þá yrði hún flutt ísvarin í flutningaskipum eða sumpart í veiðiskipum, eða þá að þessi síld yrði flutt í hentugum flutningaskipum ísvarin til söltunar í landi. En þessi mál þarf að sjálfsögðu að athuga vel og í samráði við þá aðila, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta og hlytu að verða að taka sinn þátt í þeirri áhættu sem hér er um að ræða, í samþandi við rekstur sinn í þessum efnum. En ég tel, að reynslan hafi þegar sýnt, að það muni verða hægt að komast nokkuð áfram eftir þessum leiðum, þó að hér sé vissulega um mikinn vanda að ræða að koma síldinni í svo góðu ástandi til lands, svona langa leið þannig að hún geti orðið sú útflutningsvara sem við höfum yfirleitt flutt út, t.d. undir nafninu Íslandsverkuð saltsíld, því að ég vil vekja athygli manna á því í sambandi við þetta mál, að þar er um að ræða sérstakt úrval af síld, sem fallið hefur undir þá vöru, sem héðan hefur verið flutt út frá landinu sem saltsíld, — vöru, sem svo að segja engar þjóðir hafa haft að bjóða aðrar en Íslendingar, því að þó að Norðmenn og aðrir hafi nokkuð stundað framleiðslu á saltsíld hér á Íslandsmiðum, hafa þeir ekki haft neina aðstöðu til þess og ekki getað boðið hliðstæða úrvalsvöru og ekki heldur getað fengið jafnhátt verð fyrir sína saltsíld á mörkuðum hér í kringum okkur og við Íslendingar höfum getað, vegna þess að við höfum valið úr hið bezta. Þar hefur verið um meira úrval að ræða en flestir ókunnugir gera sér grein fyrir, því að þegar við höfum verið að framleiða okkar saltsíld, hefur það verið einna algengast, að við höfum ekki aðeins gert kröfu um það að síldin kæmi mjög ný til verkunarstöðvanna í landinu og helzt ekki meira en svona 8—10—12 tíma gömul, heldur höfum við þá strax, þegar síldin hefur komið að landi, látið fram fara ýtarlega flokkun á síldinni, og það hefur þótt mjög gott, ef hægt hefur verið að ná um helmingi eða svo út úr þeim síldarfarmi, sem annars var talinn vera hæfur til söltunar. En það er ekki aðeins þessi flokkun sem hefur átt sér stað heldur hefur svo hitt gerzt á eftir, að einum eða tveimur mánuðum eftir að síldin hefur verið látin í tunnurnar hefur síðan verið steypt hverri einni og einustu síld úr hverri tunnu eða svo þúsundum tunna skiptir á hverju síldarplani og þá öll síldin endurflokkuð. Og þegar þetta allt hefur átt sér stað höfum við verið búnir að framleiða þá síld, sem við höfum selt sem sérstaka Íslandssíld á hærra verði en aðrir hafa selt á mörkuðum hér í kringum okkur, og þetta hefur í rauninni verið alger úrvalsvara. Það mun sýna sig, að það verður býsna erfitt að ætla að framleiða þessa vöru með þeim hörðu kröfum, sem til hennar hafa verið gerðar, á þann hátt að flytja hana nokkurra sólarhringa siglingu til landsins af miðunum þriggja til fjögurra sólarhringa siglingu af miðunum til lands, jafnvel þó að farið sé vel með síldina, að ætla að fá út úr síldinni þannig þá vöru, sem við höfum raunverulega verið að framleiða sem Íslandssíld. En þó tel ég, að reynslan hafi sýnt, að það muni vera hægt að komast nokkuð áfram eftir þessum leiðum, en það verður býsna kostnaðarsamt.

Ég tel, að það liggi fyrir á ótvíræðan hátt, að frammi fyrir þessum vanda stöndum við. Við þurfum því að hefjast handa nú þegar að fela einhverjum aðila að gera það sem tiltækilegast þykir að gera til úrbóta í þessum efnum, til þess að við getum náð meiri framleiðslu til landsins og aukið við okkar útflutningsverðmæti fram yfir það, sem annars yrði. En það þarf að gera hér miklu meira. Við höfum rekið okkur á það í sambandi við þennan vanda að fiskiskipin voru komin svo langt frá landi, að þau gátu ekki lengur haft venjulegt talstöðvasamband við land. Stöðvar þær, sem skipin höfðu, drógu ekki til lands. Og skipin gátu ekki, þegar þau voru komin svona langt frá landi, haft samband, nema þá með aðstoð skipa sem voru einhvers staðar á miðri leið til lands, en það ætti líka að vera tiltölulega auðvelt að skipuleggja það að á miðri leið á milli lands og þessara fjarlægu fiskimiða væru skip, sem gætu annast þá þjónustu við flotann, að hann gæti verið á eðlilegan hátt í símasambandi við land, svo nauðsynlegt sem það er í mörgum tilfellum. Þetta verður að gerast fyrir beina forgöngu ríkisvaldsins, og ég býst við, að það ætti að vera hægt að ráðsstafa þeim skipum, sem ríkið ræður yfir, til þess að annast slíka þjónustu við flotann. En það er vitanlega ekki frambærilegt á neinn hátt að standa þannig að málum, að svona langt frá landi og svona, langt norður í höfum eigum við 2—3 þús. fiskimenn á okkar síldveiðiflota, sem hefur þá ekki möguleika til þess að hafa neitt eðlilegt samband við landið. Það verður að gera ráðstafanir til þess að komast yfir slík vandamál. Og um leið þarf að skipuleggja það, að á þessum fjarlægu miðum séu aðstoðarskip, eitt eða fleiri, við síldveiðiflotann sem m.a. hefðu innanborðs hæfan lækni með nauðsynleg tæki og lyf í sambandi við þá slysahættu sem menn vita að fylgir einmitt hinum vélknúnum tækjum, sem þarna er um að ræða, en það er orðið aðkallandi mál að koma því fram að veita þessum fiskiskipum læknisþjónustu, a.m.k. að vissu marki. Þá er einnig ljóst, að það þarf að skipuleggja það, að á þessum fjarlægu miðum verði til staðar ýmsar rekstrarvörur útgerðarinnar, sem aðkallandi er að hafa tiltækar. Það þarf að vera möguleiki á því að láta fiskiskipin fá nokkra olíu til rekstrar síns á miðunum og ýmiss konar varahluti, sem þarf til veiðanna í sambandi við veiðarfærin og í sambandi við útbúnað skipanna.

Þau vandamál, sem ég hef hér minnzt á, eru öll þannig, að það leikur enginn vafi á því, að það þarf að leysa þau. Það getur að vísu verið hægt að velja þar á milli nokkuð mismunandi leiða og það er auðvitað sjálfsagt, að sú n., sem valin verður til þess að hafa hér framkvæmdir á hendi, hafi úrskurðarvald um það, hvaða leið verður valin í hverju einstöku tilfelli. En á því á ekki að leika neinn vafi úr því sem komið er, að það þarf að fela einhverjum ábyrgum aðila framkvæmdavald í þessum efnum. Og ég held, að það geti ekki verið um neinn annan aðila að ræða en ríkisvaldið sjálft, sem verður að taka að sér forystu varðandi framkvæmdir í þessum efnum. Hinir fjölmörgu fiskibátaeigendur, sem hér eiga hlut að máli, eru allt of margir og allt of dreifðir og of smáir til þess, að þess sé að vænta, að þeir geti leyst þessi vandamál. Hið sama er að segja um síldarverksmiðjueigendur, síldarsaltendur og aðra slíka. Þeir hafa ekki yfir nægu valdi að ráða í þessum efnum varðandi ýmis þýðingarmikil atriði, til þess að þeir geti leyst þessi mál að fullu en það er ríkisvaldið eitt, sem ræður yfir því valdi, sem til þarf, til þess að hægt sé að vænta lausnar, sem gæti orðið að einhverju gagni. Það er t.d. alveg vitað mál, að það verður ekki ráðizt í það af neinum að taka á leigu alldýr skip, sem flytja síldartunnur á miðin eða standa þar að því, að hægt sé að salta síld á þessum fjarlægu miðum, nema menn viti nokkurn veginn alveg fyrir víst, hvaða stuðnings sé að vænta frá hálfu hins opinbera eða hvaða verð muni fást fyrir þá síld, sem þarna yrði verkuð því að vitanlega yrði hér um talsverðan aukakostnað að ræða frá því, sem er í sambandi við það að verka síldina með venjulegum hætti í landsstöðvum. En ef einhver óvissa verður ríkjandi um þetta, jafnvel fram á sumar, er það gefið mál, að útkoman verður sú, að hinir fjölmörgu síldarsaltendur bíða og bíða eftir því, að síldin komi á mið svo nærri landinu, að hægt verði að salta eitthvað, þó að seint verði, eins og gerðist á s.l. ári. Þá stóð þetta svo glöggt, að það reyndist mögulegt að salta langleiðina upp í samninga í nóv. og des. og seinni hluta okt., en það er engan veginn víst, að svo mundi fara ef engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar nú fyrir þetta ár, að það reyndist unnt að salta upp í þá samninga, sem við getum gert um sölu á saltsíld svona seint á árinu. Við gætum því hæglega staðið frammi fyrir því, að um sáralitla síldarsöltun yrði að ræða ef ekki yrði reynt að búa í haginn í þessum efnum og gera einhverjar ráðstafanir til þess, að síldin yrði söltuð á hinum fjarlægu miðum í t.d. júlí og ágústmánuði. Ég held líka, að það þýði ekkert annað en horfast í augu við það, að til þess að koma fram einhverri viðunandi lausn í þessum efnum verður að leggja fram eitthvert fé af opinberri hálfu. Og ég álit líka, að það sé þess virði, að það eigi að gera það. Og ég tel, það þó að t.d. ríkið þyrfti að leggja fram í þessu skyni 10 millj. kr. eða svo, sé ekki verið að leggja raunverulega bagga á ríkissjóð. Ég held, að hann fái þá upphæð borgaða og það margfaldlega í auknum gjaldeyristekjum og þar af leiðandi í auknum tekjum á eftir. En af því tel ég, að það sé kominn tími til þess að taka ákvörðun um það hér á Alþ., að í þessu skyni skuli varið einhverri tiltekinni upphæð eða allt að tiltekinni upphæð og í þessari till. höfum við miðað við það, að heimilt yrði að veita í þessu skyni 10 millj. kr. úr ríkissjóði. Þessi mál verða ekki leyst þannig, að þetta kosti hið opinbera ekki neitt. Haldi menn það, fer svo, að það verður ekkert úr framkvæmdum.

Ég hef nú vikið að nokkrum helztu atriðunum í sambandi við þetta vandamál, en ég veit, að allir hv. alþm. hafa hugleitt þessi vandamál og þeir hafa heyrt þá, sem eru kunnugir þessum vandamálum, ræða um þau því að það eru margir, sem bera kvíðboga út af því, sem hefur verið að gerast í þessum efnum. Ég sé því ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt öllu meira að þessu sinni, en ég tel, að það sé nauðsynlegt að samþykkja till., sem fer í þá átt, sem þessi till., sem hér er til umr., fer, þrátt fyrir þá nefndarskipun, sem nú hefur átt sér stað af hálfu sjútvmrh., en sú nefndarskipun er aðeins um það að athuga þetta vandamál og um það að gera till. til stjórnarvalda um það, hvað helzt skuli gert. En ég tel, að það sé kominn tími til þess og það megi í rauninni ekki tapa þar neinum tíma, að það eigi að setja niður framkvæmdanefnd, sem hafi á hendi framkvæmdir í þessum efnum, því að um það er ekkert að villast, að við þurfum hér að taka til hendinni og gera ýmsar ráðstafanir. Sú n. sem hæstv. ráðh. hefur skipað, getur komið að fullu gagni. Hún kannar alla þætti málsins og gerir sínar till. um það, hvaða leiðir skuli helzt velja en þegar hún er búin að gera sínar till., stöndum við líka frammi fyrir því, að það verður að fela einhverjum aðila beint framkvæmdavald og það verður einnig að gera samþykktir um, að það megi verja einhverjum fjármunum til þess að leysa þennan vanda.

Ég leyfi mér svo, hæstv. forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. fjvn.