28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti: Eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austf., hefur hæstv. sjútvmrh. nýlega skipað n. til þess að rannsaka og gera till. um margháttaða þjónustu við síldveiðiskip og síldveiðisjómenn á fjarlægum miðum, og sjálfsagt tekur margt til ýmissa þeirra þátta, sem er vikið að í þessari till. En ég vildi aðeins víkja að einum þætti þessarar till., þar sem talað er um að hafa á fiskimiðunum nauðsynlega þjónustu fyrir skipshafnir, eins og t.d. læknisþjónustu.

Hv þm. rekur minni til þess, að á s.l. ári var samþykkt breyting á læknaskipunarlögunum, þar sem heimilt var að ráða á kostnað ríkissjóðs lækni til þess að veita þjónustu við síldveiðiflotann. Það lánaðist ekki á s.l. sumri að ráða lækni til þessarar þjónustu og lágu til þess ýmsar orsakir, sem ég skal ekki fara út í, en þó er það svo, að síldveiðin var stunduð annars staðar og með öðrum hætti en áður var, og átti það sinn þátt í því, að við vorum vanbúnir að geta veitt þessa þjónustu. Þegar kom fram á haust, voru gerðar ýtarlegar ráðstafanir til þess að fá lækni, og um tíma stóð læknir til boða en af ýmsum ástæðum varð ekki úr því að sinni, að samið yrði eða komið yrði við læknisþjónustu.

Í sambandi við þessar tilraunir vildi ég geta þess, að þá kom ýmislegt í ljós um það, að töluverðum vandkvæðum er háð að koma slíkri læknisþjónustu fyrir, en mjög ýtarlegar viðræður fóru fram milli fulltrúa í dómsmrn. eða heilbrigðisstjórnarinnar, Læknafélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna. Á s.l. hausti ályktaði einnig ráðstefna Sjómannasambands Íslands um nauðsyn þess að útbúa varðskipin þannig, að þau gætu veitt betur en áður læknaþjónustu í sambandi við síldveiðina eða veiðar á fjarlægum miðum, og upp úr öllu þessu varð svo það að ráði, að ég í desembermánuði skipaði n. manna til þess að gera till. um, með hverjum hætti væri hægt að koma fyrir læknisþjónustu á hinum fjarlægu miðum. Í þessari n. voru 4 menn, en forstjóri Landhelgisgæzlunnar, Pétur Sigurðsson var formaður n. Frá Sjómannasambandinu var Pétur Sigurðsson alþm., frá Læknafélagi Íslands Hannes Finnbogason læknir og Gunnar Hafsteinsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Þessi n. hefur nú skilað mér álitsgerð fyrir um það bil viku þar sem hún gerir ýmsar till. um það, hvernig hægt sé með mismunandi hætti að stuðla að því, að læknisþjónusta sé fyrir hendi, og það er nú unnið að því að framkvæma þessar till., en ég geri einnig ráð fyrir því, að n. muni hafa samráð að þessu leyti við þá n., sem hæstv. sjútvmrh. hefur skipað, þegar fyrir liggja athuganir hennar og till., og má vera, að fram kunni að koma atriði, sem geri auðveldara en ella væri að koma fyrir þessari læknisþjónustu.

Í stórum dráttum ,bendir n. á fleiri atriði, og þau eru, skulum við segja, í aðalatriðum 3—4. Þar er fyrst að nefna, að við gerum skrá yfir erlendar strandstöðvar, sem liggja næst síldveiðisvæðunum, eins og þau voru t.d. í sumar, og er þá sennilega helzt átt við Norður-Noreg, og þar væri tilgreind kallbylgja stöðvarinnar og svo upplýsingar um þá læknisþjónustu, sem þar er að fá, og skráin verði gerð tiltæk öllum síldveiðiskipum og komi síðar í íslenzka sjómannaalmanakinu. Ég hef falið Landhelgisgæzlunni að gera þessa skrá, og hún hefur tekið það að sér og mun þegar vera byrjuð að vinna að henni.

Í öðru lagi verði reynt að gera samkomulag við þær þjóðir, sem hafa aðstoðarskip á þess. um slóðum til læknisþjónustu um að íslenzk síldveiðiskip megi leita aðstoðar þeirra., ef á þarf að halda, og sú skrá, sem ég nefndi áðan, innihaldi einnig nauðsynlegar upplýsingar um þessa þjónustu. Dómsmrn. mun hafa samband við utanrrn. til þess að taka upp athugun á þessu máli og samninga við þjóðir, sem hér gæti verið um að ræða, og mundu það þá helzt vera Sovétríkin annars vegar og hins vegar Norðmenn. En hvað okkur sjálfa snertir hefur einkum verið bent á það, og lágu fyrir um það óskir frá þessari ráðstefnu hjá sjómannasamtökunum, sem ég nefndi, að útbúa íslenzku varðskipin betur. Þó að haft sé í huga, að ýmis skip hafa veitt síldveiðiflotanum vissa þjónustu og fylgt honum eftir, virðast engin þeirra henta fyrir læknisþjónustu og ekki heldur t.d. síldarleitarskipið okkar nýja, sem heldur sig ekki á þeim slóðum, sem síldarflotimi er, heldur er þá að leita síldar annars staðar. Böndin berast því helzt að því, að þau skip, sem helzt gætu verið tiltæk í þessu sambandi, væru varðskipin og þá fyrst og fremst stærstu varðskipin, og þá á ég við þrjú varðskip, annars vegar Óðin og Þór, sem nú eru fyrir, og svo það nýja varðskip, sem smíði verður lokið á nú í vor. Landhelgisgæzlan hefur þegar hafið undirbúning að því að koma fyrir betri aðstöðu til læknisþjónustu í þessum þremur skipum, í því, sem verið er að smíða, og þeim gömlu, sem fyrir eru. Það, sem fyrst og fremst þarf, fram yfir þann útbúnað sem þar var áður, er, að koma þarf fyrir skurðstofu með skurðborði og tækjum, ef gera þyrfti fyrstu aðgerð í sérstakri neyð. En öll þessi skip eru þar að auki góð skip og gangmikil til þess að koma sjúklingum, sem eru í miklum háska, hið fyrsta til lands, eftir að fyrsta læknisaðgerð í vissum tilfellum hefur farið fram.

Þá víkur n. einnig að því, að það mundi auðvitað vera mikið til öryggis í þessu sambandi, ef fyrir hendi væri tiltæk stór tveggja hreyfla þyrla, eins og Landhelgisgæzlan hefur haft hug á að afla sér, en ég held, að ég hafi a.m.k. sagt frá því, í Ed. fyrr á þingtímanum, að í bili hafi ráðagerðum um kaup slíkrar þyrlu verið frestað. Þær reyndust allmiklu dýrari en við höfðum gert ráð fyrir. Þess í stað er nú verið að athuga möguleikana á því að fá leigða um tíma tvo flugbáta fyrir Landhelgisgæzluna, en þeir mundu sjálfsagt í sumum tilfellum geta komið hér einnig að góðu haldi. Á það er einnig að líta, að þyrluþilfar er á þessum stærri varðskipum, ef hin litla þyrla Landhelgisgæzlunnar gæti hjálpað, og þá á ég við það, að fjarlægðin verði ekki of mikil fyrir hana, og hefur það einnig nokkurt öryggi fólgið í sér. Þessi útbúnaður á varðskipunum, aukni útbúnaður til læknisþjónustu mundi, að ég hygg, ekki aðeins geta komið að notum fyrir síldveiðiflotann, heldur gæti það e.t.v. stuðlað að betri læknisþjónustu í neyðartilfellum á afskekktari stöðum í landi líka. Það þarf að vera hægt að taka sjúklinga um borð þar sem læknir væri eða kæmi skjótlega t.d. með þyrlu og skurðstofa eða aðstaða til skurðaðgerða, sem ekki væri fyrir hendi í landi.

Ég vildi láta þessa getið í sambandi við umr. um þetta mál og einnig hins, sem ég hef minnzt á, að það er nú unnið áfram að því í dómsmrn. að gera ráðstafanir til þess, að við séum að þessu leyti betur búnir undir næstu síldarvertíð en áður var, bæði með þessum ráðum, sem ég hef nefnt, og öðrum, sem síðar kunna að koma í ljós við nánari athugun.