28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hafði því miður ekki aðstöðu til þess, þegar framsaga var flutt fyrir þessu máli, að heyra upphaf hennar, en í því, sem ég heyrði af framsöguræðunni, eru þau atriði, sem ég vildi gera örstuttar aths. við.

Í fyrsta lagi er það rétt frá skýrt, að rn. lét fyrir rúmum hálfum mánuði skipa sérstaka n. til þess að fjalla um þau vandamál, sem till. þessi fjallar um., og var það gert eftir mjög nákvæma og vandlega athugun málsins þar á undan í viðræðum við forustumenn hlutaðeigandi samtaka, þá sérstaklega Farmannasambandsins og Sjómannasambandsins, og niðurstaða þeirra viðræðna varð sú, að boða skyldi til fundar með um 20 fulltrúum, hvað og gert var, 20 fulltrúum frá öllum þeim aðilum, sem, þarna eiga hlut að máli, og var sá fundum haldinn í sjútvmrn. Niðurstaða hans varð sú, að með öðrum hætti yrði ekki betur að málinu staðið heldur en þeim að skipa 5 manna. n. með fulltrúum frá þeim aðilum, sem þar hafa nú tilnefnt sína fulltrúa, þ.e.a.s. í fyrsta lagi síldarsaltendur, í öðru lagi síldarbræðslurnar, mjölframleiðendur, í þriðja lagi síldarsjómenn og í fjórða lagi Landssamband ísl útvegsmanna, og að einn fulltrúi yrði frá rn. sjálfu. Þetta var einróma niðurstaða allra þeirra aðila, sem beinan hlut eiga að máli í sambandi við veiðar og vinnslu aflans á hinum fjarlægu miðum.

Ég vil einnig taka undir það með hv. 2. flm. þessarar till., að við stóðum á s.l. sumri frammi fyrir gjörsamlega breyttu viðhorfi til veiðanna, hvað fjarlægð snertir, frá því, sem

áður hafði verið. Hér hafði skapazt nýr og mjög óvæntur vandi. Það er spá þeirra, sem gerst þekkja til í þeim efnum, að sá vandi geti einnig legið fyrir á komandi sumri. Og það er einnig rétt, að þetta vandamál hefur ekki farið fram hjá neinum, og hv. alþm. hafa eðlilega brotið um það heilann með hverjum hætti bezt yrði úr þessum vanda leyst. En sannleikurinn er hins vegar sá, að allar þær ágætu till., sem fram hafa komið um þessi efni, bæði frá einstaklingum á opinberum vettvangi og félagasamtökum, hníga ekki allar í sömu átt. Menn eru sammála um, að mæta þurfi vandanum með einhverjum hætti, en sumir telja nauðsyn á að leggja áherzlu á aðra hluti en hinn hópurinn gerir ráð fyrir, og margar skoðanir eru uppi í þessum efnum.

Eins og hæstv. heilbrmrh. hefur skýrt frá, hefur hans rn. haft einn þátt þessa vanda til meðferðar frá s.l. hausti, og er lausn hans nú komin á verulegan rekspöl, eins og hann hefur skýrt frá. En vandamálið er miklu margþættara og flóknara en svo, að á því verði snarlega ráðin fullnaðarlausn. Er hægt að sameina síldarsöltunina allri þeirri þjónustu sem nauðsynleg er við þessa fljótandi borg, sem við eigum þarna 600—700 mílur norður í hafi? Er hægt að sameina aðra þjónustu, sem yrði þá fyrst og fremst viðgerðarmenn á hinum dýrmætu fiskleitartækjum og froskmenn til þess að losa úr skrúfum skipa, og síldarsöltunina og vinnslu aflans, auk þess að auka sjálfa bræðslusíldarflutningana? Síldarflutningaskipin björguðu því, sem bjargað varð á s.l. sumri með vistaflutningana til skipanna og var þó öllum ljóst, að þar var ekki nema um hluta af einum þætti þessa vanda að ræða, og útilokað er að gera ráð fyrir því, að síldarflutningsskipin geti annað þessu ein, þó að við þau hafi verið notazt á s.l. sumri.

Þessi vandamál liggja öll fyrir, og eins og ég sagði, allir hlutaðeigandi aðilar, sem mættir voru á umræddum fundi í rn., voru einróma sammála um, að með öðrum hætti yrði ekki betur að þessu máli staðið heldur en að n. þessara umræddu aðila, sem nú hafa tilnefnt fulltrúa í n., ynni að lausn vandans, því að það er grundvallarnauðsyn við lausn þessa máls, að við sjáum þá mynd í heilu lagi, en ekki í öllum þeim pörtum, sem okkur hafa birzt að undanförnu í blöðum og samþykktum samtaka að við sjáum hvernig bezt megi að lausn vandans standa, hver hugsanlegur kostnaður við hann sé og hverjir eigi að bera þennan kostnað. Það er þess vegna útilokað að slá fram í dag einhverri ákveðinni, tiltekinni tölu, hvort sem það væri frá ríkisins hálfu eða einstaklinganna, nema maður viti, hvaða upphæð sé um að ræða hvað þetta sé fjárhagslega stórt dæmi, svo að þarna fáist viðunandi lausn á þessu mikilvæga vandamáli. Um vandann eru allir sammála, en það hafa ekki verið einróma till. til lausnar honum, hvað þá heldur, að ljóst sé, hve fjárhagsleg hlið lausnarinnar er stór, og þess vegna erfitt að áætla og deila óþekktri tölu í sundur af óþekktri kostnaðarhlið.

Ég sannfærðist um það enn frekar af ræðu hv. þm., að vandinn er æði margvíslegur umfram það, sem ég hef áður heyrt. Og ríkisstj. hefur enn þá ekki sem slík sagt, eins og hefði mátt skilja af hans orðum, að hún tæki engan þátt í lausn vandans. Það ræðst m.a. af því, hvað þessi vandi er stór, hver sé hugsanlegur ágóði af þessum veiðum fyrir þjóðarheildina og þá um leið þá, sem þarna eiga hlut að máli. Ég nefni bara aðeins eitt atriði í sambandi við söltunina. Það er uppi mikill áhugi á því hjá nokkrum helztu veiðiskipum flotans, að fá að sigla með sinn eigin söltunarafla beint á sölumarkaðinn. Ýmsir saltendur í landi hafa dregið í efa þessa aðferð til sölu og telja, að hún gæti skaðað allsherjarmarkað okkar fyrir hina góðkunnu Íslandssíld, sem hv. ræðumaður minntist á. Þar höfum við verið með úrvalshráefni og fyrst og fremst haldið uppi okkar háa verði vegna þess, hve varan hefur verið góð Er hugsanlegt, að söluferðir fiskiskipanna okkar gætu að einhverju skaðað þennan markað? Um þetta eru, eins og ég segi, fullyrðingar í dag, en ég vil ekki setjast í dómarans sæti um það. Ég treysti þeim aðilum, sem málið hafa nú til meðferðar, að gera um það raunhæfar till. Áherzla var á það lögð af rn. hendi, að n. hraðaði svo störfum sem kostur væri, og ég þekki það til þeirra manna, sem n. skipa, úr öðrum slíkum starfsnefndum. að þeir draga ekki úr ferðinni, enda allt fulltrúar þeirra aðila, sem beinna hagsmuna hafa þarna að gæta.

Þetta vildi ég láta koma fram við umr. um þetta mál, sem hafa staðið, eins og ég sagði, um nokkurra mánaða skeið, en fengu þennan endi hjá fulltrúum allra þeirra aðila sem þarna eiga hlut að máli, og gerðu einróma þá ályktun, að umræddri n. skyldi komið á fót og hún skipuð fulltrúum þeirra aðila, sem nú eiga þar fulltrúa.