28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í beinu framhaldi af því, sem ég hafði hér sagt áður, að ég tel, að skipun þeirrar n., sem sjútvmrh. hefur beitt sér fyrir, sé góðra gjalda verð og geti vissulega haft þýðingu. Ég er því ekki óánægður með skipun þeirrar n. út af fyrir sig. En það, sem ég hef bent á í þeim efnum, er það, að sú n. leysir ekki vandann. Henni er aðeins falið það verkefni að reyna að gera sér betur grein en nú er fyrir vandamálinu og gera till. En ég tel. að það þurfi einmitt að gera það, sem lagt er til í till. okkar á þskj. 262, að það þurfi að ákveða að fela ákveðnum aðila framkvæmdavald í þessum efnum og að það þurfi einnig að ákveða, að t.d. sjútvmrn. hafi heimild til einhverrar fjárgreiðslu í þessu skyni. Ég óttast það að beðið verði enn um nokkurn tíma eftir till. þessarar n., sem hæstv. ráðh. hefur skipað, og síðan verði á eftir farið að koma fyrir Alþ. og leita þá eftir heimildum eða koma fram með frv. til lagasetningar og þá verði ýmsar mjög nauðsynlegar ráðstafanir í þessum efnum í rauninni þannig settar, að það sé ekki hægt að koma þeim fram. Ég tel því, að það falli fullkomlega saman, það sem hæstv. ráðh. hefur gert í þessum efnum með skipun sinnar n. og það að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, sem felur fyrst og fremst þetta í sér, að það er lagt til, að hann skipi n. til þess að hafa á hendi framkvæmdir í málinu og hann hafi nokkur fjárráð til framkvæmda. Ég vil t.d. benda á það, að ef horfið yrði að því ráði, sem ég tel fremur líklegt, að ráðizt verði í það að kaupa fleiri hentug flutningaskip en við eigum nú. t.d. með því að gera einhverjum síldarverksmiðjum mögulegt að kaupa slík skip eða þá með því að ýta á það að Síldarverksmiðjur ríkisins bæti við sig 1—2 skipum. þá þarf að hefjast handa í þessum efnum nú þegar. Menn kaupa ekki 4—5 eða upp í 10 þús. tonna flutningaskip, eftir því hvað menn vilja vera stórtækir í þessum efnum, menn kaupa þetta ekki eins og smjörstykki í búð. Það þarf nokkurn aðdraganda til. Og það þarf að breyta þessum skipum til þess að gera þau í rauninni fullkomlega hæf til þess að standa í flutningum sem þessum. Það tekur líka tíma, og þessi skip þurfa að verða tilbúin eftir 2—3 mánuði, ef vel á að vera. Það er því ekki mikill tími til stefnu í þessum efnum. Ég tel því, að það sé orðið aðkallandi að skipa hér framkvæmdanefnd.

Hæstv. ráðh. lagði á það nokkra áherzlu, að það hefðu þegar komið fram hjá þeim, sem við hefði verið rætt um þessi mál, mismunandi skoðanir. Þær halda áfram að verða, meira að segja eftir að framkvæmdanefnd hefur verið skipuð og meira að segja eftir að allt árið er liðið. Það verða uppi mismunandi skoðanir um það hjá mönnum, hvað sé hentugast. Það er enginn vafi á því, að við vitum um það að það eru til fiskibátaeigendur nú, sem hafa hug á því að fara með einhverjar tunnur í skipum sínum norður í höf á komandi sumri, salta þar í tunnurnar, og þeir ætla sér að sigla beint af miðunum út til Svíþjóðar eða markaðslandanna og selja síldina þar beint. Þeir hafa hug á þessu. Ég fyrir mitt leyti álít, að þarna sé auðvitað hreyft einni leið. En það er enginn vafi á því, að þarna er leið sem þarf í rauninni enga sérstaka aðstoð frá hálfu ríkisvaldsins til þess að framkvæma. En þarna er komið að vandamáli, sem Síldarútvegsnefnd hlýtur að fjalla um, og hún verður að segja til um það, hvort hún vill fallast á það að síld verkuð með þessum hætti og með því eftirliti, sem hægt er að koma við í svona tilfellum, fær að ganga upp í sölusamninga Síldarútvegsnefndar á mörkuðum, sem hún hefur haft mjög stífar og strangar reglur um varðandi sölu af hálfu okkar landsmanna. Svona till. verða auðvitað uppi, og það verða uppi aðrar og mismunandi till. um það hvað sé hentugast að gera og hvað sé tiltækilegast að gera. En ég er ekkert viss um það að þó að við ákveðum framkvæmdanefnd, að hún hitti endilega á þær leiðir í hverju tilfelli, sem óumdeilanlega eru þær happadrýgstu. En hér er bara um svo augljósan vanda að ræða, sem við verðum að leysa að meira eða minna leyti og höfum ekki tíma til þess að tefja okkur við allt of lengi og velta fyrir okkur, að við þurfum að fara að snúast við vandanum á þann hátt, að við felum einhverjum ábyrgum aðila að hafa framkvæmdir á hendi um það sem gera á. Það verður ekki heldur nokkur leið í þessum efnum að bíða eftir því, sem mér fannst, að hæstv. ráðh. gerði allmikið úr varðandi þetta vandamál. Það verður ekki heldur hægt að bíða eftir því, að það liggi fyrir fullnægjandi útreikningar um allan kostnað í sambandi við það sem gert er í þessum efnum. Ég býst við því, að hér yrði fyrst og fremst um það að ræða af hálfu ríkisvaldsins, að það veitti tiltekinn stuðning á móti framlagi frá öðrum, sem hér hafa hagsmuna að gæta. Og það verður auðvitað að taka þar nokkra áhættu um það, hver þessi endanlegi kostnaður yrði. En ég hygg, að það verði nokkuð seint, ef nákvæmir útreikningar eiga að liggja fyrir um það, hvað hvað eina í þessum efnum muni kosta.

Ég vil sem sé leggja áherzlu á það að það er enginn ágreiningur við mig um það, að sú n. hafi verið skipuð sem hæstv. ráðh. hefur skipað. Ég tel, að það hafi út af fyrir sig verið gott, að hún var skipuð. Ég vona, að þeir menn, sem í þá n. hafa valizt, séu þegar búnir að gera sér eitthvað frekari grein fyrir vandanum. En ég þykist líka alveg viss um það, að sú n. getur ekkert gert annað en að leggja sínar upplýsingar um þetta vandamál, þegar þær eru tilbúnar, fyrir ráðh. En þá held ég, að það væri mjög gott, að ráðh. hefði í sínum höndum samþykki frá Alþ. um það að Alþ. hafi beinlínis falið honum að setja á laggirnar framkvæmdanefnd til þess að reyna að ráða fram úr þessum vanda og Alþ. hafi falið honum eða heimilað honum að mega verja allt að 10 millj. kr. úr ríkissjóði í þessu skyni. Ég býst við því, að ríkið hefði þurft að fá viðbótarheimild við þetta, sem væri um það að mega ganga í ákveðnar ábyrgðir í sambandi við skipakaup eða skipaleigur. En slíkar heimildir vildi ég ekki setja inn í þál., taldi, að það yrði að leita eftir lagasamþykkt um slíkar ábyrgðir, þegar það lægi fyrir, hverjir það væru, sem vildu fá beina ríkisábyrgð í sambandi við kaup t.d. á skipum til þessara flutninga.

Ég vil segja það í tilefni af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér um læknisþjónustuna, að ég fagna því, að það hefur farið fram nokkur athugun á þessu máli og það er unnið að því, að hægt verði að sinna þessum vanda að einhverju leyti. En ég vil aðeins segja það sem mína skoðun að ég held fyrir mitt leyti, að það ætti ekki að vera neinn vandi fyrir okkur að búa þannig um einn lækni, t.d. í okkar gamla síldarrannsóknarskipi og varðskipi, Ægi, sem hæstv. ráðh. nefndi nú ekki einu sinni á nafn af því að ég veit, að það er orðin meiningin að fara að láta það skip hvíla sig. Ég er ekki í neinum vafa um það, að læknir gæti haft miklu betri aðstöðu í því skipi án mikillar breytingar þar um borð en starfsbræður hans norskir hafa á þeim skipum, sem fylgja norska flotanum í ýmsum tilfellum. Ég tala nú ekki um, að hægt væri með lítilli breytingu að útbúa aðstöðu fyrir lækni í varðskipinu Þór og varðskipinu Óðni. Það þarf ekki að gera nein stórvirki til þess, að það ætti að vera sæmandi fyrir lækni að vera þar um borð og vinna þar. En að sjálfsögðu þarf að setja nokkuð af tækjum þar um borð það er rétt. En slíkt ætti að vera viðráðanlegt út af fyrir sig. En ég held, að ef einhverju af þessum skipum ríkisins væri ráðstafað um 2—3 mánaða tíma til þess að vera á hinum fjarlægu fiskimiðum með síldveiðiflotanum, ætti að vera hægt að koma þar fyrir þeirri læknisþjónustu sem okkur ber í rauninni skylda til að reyna að hafa þarna á þessum fjarlægu slóðum, þar sem vinna iðulega 2—3 þús. sjómenn. En ég fagna því, að þessi mál eru til athugunar hjá hæstv. dómsmrh., og vænti þess, að þar verði eitthvað úr framkvæmdum, hvernig svo sem þessi mál að öðru leyti veltast á næsta sumri.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að í sambandi við þau orð sem hér hafa fallið hjá þeim tveimur hæstv. ráðh., sem hér hafa talað í þessu máli, verði þessari till. tekið vel og horfið að því ráði, sem er eitt meginatriði till., að samþykkja nauðsynlegar framkvæmdir í málinu.