21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

132. mál, embættaveitingar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er hv. flm. þessarar till. sammála um, að brýna nauðsyn beri til þess, að hlutleysis sé gætt við embættaveitingar og að sem óháðast og ópólitískast mat fari fram á hæfileikum þeirra manna, sem um opinber embætti sæki, og hæfileikar og starfsreynsla skuli ráða úrslitum um það, hver hlýtur embætti, sem laust er til umsóknar. Hins vegar er það skoðum mín og hún byggist á vandlegri íhugun og talsverðri reynslu í þessum efnum, að mjög erfitt mundi vera að setja algildar og bindandi reglur fyrir veitingarvaldið um það, hvernig velja skyldi úr hópi umsækjenda hverju sinni. Það, sem ég sérstaklega vildi benda á í þessu sambandi, er, að ég teldi það vera mikið spor aftur á bak, beinlínis ólýðræðislegt, sem örlar þó á í þessari till., að láta veitingarvaldið ekki vera í höndum þeirra þjóðkjörnu fulltrúa eða þeirra manna, sem Alþ., hin þjóðkjörna samkoma, kýs til þess að fara með æðsta vald í landinu. Jafnmikilvægt vald í lýðræðisþjóðfélagi og veitingarvald þarf og verður að vera í höndum manna, sem hægt er að sækja til ábyrgðar fyrir það ef þeir gera rangt. Þetta er einn af hyrningarsteinum lýðræðisþjóðfélags, þetta er einn af hyrningarsteinum frjáls þjóðfélags. Ef þjóðfélag lætur veitingarvald mikilvægra, opinberra embætta vera í höndum embættismanna, sem ekki er hægt að sækja til saka fyrir það, ef þeir misbeita valdi sínu, er mjög hætt við því, að það veitingarvald spillist, það sýkist, og fyrir því er margföld reynsla hérlendis og erlendis á fyrri öldum aðallega og jafnvel á fyrri áratugum þessarar aldar. Það á að vera og þarf að vera kjarni, einn af hornsteinum lýðræðisins, að hægt sé að gagnrýna þá með árangri. sem misbeita veitingarvaldinu, og jafnvel sækja þá til saka með því að víkja þeim frá, ef þeir misbeita valdi sínu herfilega. En það mundi ekki vera hægt að gera, ef veitingarvaldið væri í höndum einhverra stofnana í þjóðfélaginu sem í raun og veru væru ábyrgðarlausar.

Þetta atriði, sem ég nú nefndi, var kjarninn í þeirri deilu, sem hér stóð um áratugi milli stjórnarvalda annars vegar og Háskólans hins vegar um það, hvernig haga skyldi veitingu embætta við Háskólann. Sú deila er sem betur fer hjöðnuð. Á henni hefur ekki bryddað síðan nýju háskólalögin voru sett 1958, enda ekkert tilefni gefizt til þess, að slík deila hæfist aftur. En á það má minna, að það var skoðun Háskólans í áratugi, að Háskólinn sjálfur ætti að hafa sjálfdæmi um veitingu embætta innan sinna vébanda, og þetta sjálfdæmi Háskólans var í reynd virt um mjög langan aldur af veitingarvaldinu þ.e.a.s. af menntmrh. Ég skal ekki rifja upp þá sögu í einstökum atriðum eða þær miklu deilur, sem hér urðu, en það varð að lokum skoðun veitingarvaldsins, og það veit ég, að var þá skoðun Framsfl. að afstaða Háskólans væri algerlega röng. Nefnd voru ýmis dæmi um, að Háskólinn hefði misbeitt þessu valdi sínu og það væri kannske ekki við öðru að búast en hann misbeitti því, því að hann væri ekki hægt að sækja til saka fyrir slíka misbeitingu. Ef deild misbeitti því valdi, sem hún taldi sig hafa var ekki hægt að víkja þeim prófessorum frá, það var hægt að gagnrýna þá, en ekki hægt að víkja þeim frá. Ef ráðh. aftur á móti misbeitti sínu valdi, var alltaf mögulegt fyrir þjóðkjörna fulltrúa á Alþ. að víkja, honum frá fyrir þá misbeitingu og það er kjarni málsins.

Framsfl. hafði m.a. forustu um að kveða þessa hugmynd um sjálfdæmi Háskólans í kútinn. Og það tel ég, að hafi verið rétt. Af hálfu Háskólans hefur þessum hugmyndum ekki verið haldið á loft síðan þeirri reglu var slegið fastri, sem er nú í gildandi háskólalögum, að veitingarvaldið er aðeins bundið að því leyti, að það má ekki veita manni prófessorsembætti við Háskólann, ef sérstök dómnefnd hefur talið hann óhæfan til þess að gegna embættinu. Að því leyti og því leyti einu er veitingarvaldið bundið og segja má, að það sé ekki óeðlilegt. Að öðru leyti hefur Háskólinn nú í dag algerlega viðurkennt óskoraðan rétt menntmrh. til þess að beita veitingarvaldinu eftir sinni beztu samvizku. Og aldrei hefur komið til nokkurrar deilu í þau 11 ár, sem ég hef gegnt þessu embætti, við Háskólann, og mun ég þó hafa veitt fleiri embætti við Háskólann en nokkur fyrirrennara minna.

Það var sérstaklega þetta atriði, sem ég vildi vekja athygli á, til þess sérstaklega kvaddi ég mér hljóðs, að þó að ég sé sammála þeirri grundvallarhugsun, sem að baki till. er, að hlutleysi eða óhlutdrægni sé sjálfsögð og nauðsynleg í sambandi við embættisveitingar, vildi ég vara við bjartsýni um það að hægt sé að setja nokkrar almennar reglur, nema þá reglu, sem ég nefndi áðan varðandi háskólaembætti, eitthvað því um líkt, en ekki setja almenna reglu, sem tryggi fullkomið réttlæti í þessum efnum. Og sérstaklega vildi ég vara við að taka veitingarvaldið úr höndum pólitískra ráðh. Það getur hvergi annars staðar verið í lýðræðisþjóðfélagi, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Allt annað er líklegt, að

leiði til miklu meiri vandræða og missmíða, jafnvel til miklu meiri spillingar en hefur átt sér stað og þarf að eiga sér stað þó að veitingarvaldið sé í höndum pólitískra ráðh.

Auk þess vil ég vekja sérstaka athygli á því, að hv. frsm. fór með mjög rangt mál, og á því vil ég vekja sérstaka athygli, þegar hann sagði, að deilur hafi farið í vöxt á undanförnum árum um veitingu opinberra embætta. Hér er sannleikanum algerlega snúið. Það eru miklu minni deilur nú á síðari árum um veitingu opinberra embætta en tíðkuðust áður fyrr. Það er hver sjálfum sér næstur, og það er bezt, að ég greini frá því, sem mér viðkemur í þessum efnum.

Mér er sagt það að ég hafi veitt fleiri embætti en nokkur íslenzkur ráðh. fyrr eða síðar. Ég hef sjálfur ekki látið fram fara neina athugun á þessu en mér þykir ekki ósennilegt, að þetta muni vera rétt. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að menntmrh. á hverjum tíma veitir fleiri stöður en nokkur annar ráðh. í íslenzkri ríkisstj. vegna fjölmennis skólastjóra- og kennarastéttarinnar, og það er því ekki nema alveg eðlilegt, fullkomlega eðlilegt að maður, sem gegnt hefur embætti menntmrh. í 11 ár, hafi eingöngu, þó að ekki væri annað en bara svið skólastjóra og kennara veitt fleiri stöður en nokkur annar íslenzkur ráðh. fyrr og síðar. En á því vil ég vekja alveg sérstaka athygli, að í þessi 11 ár man ég ekki eftir, að orðið hafi opinber deila um nema eina veitingu á skólastjóra- og kennarastöðu. Það kann að vera að mig misminni. En í fljótu bragði, — ég er óundirbúinn undir þessar umr. — man ég ekki eftir nema einni opinberri deilu um veitingu, mína á skólastjóra- og kennaraembætti. Þar hafði ég veitt embættið þeim manni, sem hafði lengstan starfsaldur, hafði lengi verið skólastjóri utan Reykjavíkur, en deilt var á mig fyrir það að hafa ekki veitt embættið miklu, miklu yngri manni, sem hafði nokkru meiri menntun. M.ö.o. hér var um það að ræða, hvort taka ætti tillit til starfsaldurs og reynslu, hér var um að ræða starfsaldur og reynslu úti á landi, hvort ætti að taka meira tillit til þess arna eða menntunar, sem miklu yngri maður hafði óneitanlega meiri. Hlutaðeigandi skólanefnd mælti með unga manninum með meiri menntunina fræðslumálastjóri mælti með eldri manninum með lengri starfsaldurinn, og ég valdi hann og hafði meðmæli frá fræðslumálastjóra með því. Út úr þessu spunnust nokkur blaðaskrif á sínum tíma fram og til baka, og við því er ekkert að segja. En þetta er eina deilan sem ég man eftir í 11 ár um ráðstafanir á embættum á sviði menntamála.

En það er ábyggilega flestum kunnugt og mörgum, sem hér eru inni, að áður fyrr liðu varla 2—3 ár og höfðu ekki gert um áratugi, svo að ekki risu upp stórkostlegar deilur um skólastjóraembætti, um kennaraembætti, um prófessoraembætti við Háskólann, svo að ég nefni þessi tilteknu dæmi. Þessar deilur hafa svo að segja algerlega hljóðnað. Ég hef fylgt

þeirri reglu í öll þessi 11 ár, að veita aldrei skólastjóra- eða kennarastöðu gegn bæði till. fræðslumálastjóra og hlutaðeigandi skólanefndar eða meiri hl. hennar. En eins og kunnugt er, eru þær embættaveitingarreglur, sem þarna gilda, þær, að áður en menntmrh. veitir stöðu fær hann till. frá fræðslumálastjóra annars vegar og frá skólanefnd eða fræðsluráði hins vegar. Á undanförnum áratugum hefur það hvað eftir annað komið fyrir, að ráðh. úr öllum hinum flokkunum hafi veitt stöðu gegn bæði till. fræðslumálastjóra og hlutaðeigandi skólanefndar eða fræðsluráðs. Ég skapaði mér í upphafi þá starfsreglu að gera það aldrei, heldur að gæta þess ávallt að hafa, annaðhvort fræðslumálastjóra eða meiri hl. skólanefndar eða fræðsluráðs á bak við þá veitingu sem ég framkvæmdi, ekki vegna þess, að réttur menntmrh. sé ekki ótvíræður til þess að veita stöðuna eftir beztu samvizku og ég tel, að þeirri reglu ætti ekki heldur að breyta. Þessu vildi ég líka vekja alveg sérstaka athygli á, að í þessum efnum hefur, án þess að nokkrar sérstakar reglur hafi verið settar, nokkrar bindandi reglur hafi verið settar, tvímælalaust stefnt í rétta átt og til hins betra. Það hefur verið hægt með hóflegri og skynsamlegri framkvæmd, án þess að bindandi reglur væru fyrir hendi, sem ég tel að væri mjög erfitt að setja og gætu í mörgum tilfellum skapað meira ranglæti en regluleysi, ef því fylgir réttlæti. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þær deilur, sem fyrr á árum urðu um embættaveitingar, og þá ekki sízt t.d. á sviði skólanna, voru skólastarfinu mjög skaðlegar, skólastjóra- og kennarastéttinni til tjóns og til trafala í starfi, og þess vegna tel ég tvímælalaust hafa horft til mikilla bóta, að þessar deilur skuli nú í reynd svo að segja algerlega vera úr sögunni. Ég tel, að íslenzkum skólum og íslenzkri kennarastétt hafi fátt verið betur gert á undanförnum áratug en einmitt þetta, að firra skólana, firra skólastjórastéttina, firra kennarastéttina hinum stórskaðlegu og mjög hvimleiðu deilum, sem áður fyrr áttu sér alltof oft stað um veitingar embætta á þessu mikilvæga sviði þjóðlífsins.