06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

132. mál, embættaveitingar

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti Það er nú þannig mál með vexti, að ég á eingöngu ótalað við hæstv. menntmrh., en mér skilst, að hann sé hér í húsinu. Mundi ekki vera mögulegt að fá hann á fundinn? (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að hæstv, menntmrh. er mættur). Já, ég skal líka halda áfram máli mínu. Að vísu er nú orðið alllangt liðið síðan þessi till. var hér seinast til umr., um það bil hálfur mánuður, og ég þess vegna búinn að týna niður sumu af því, sem þá var sagt og ástæða hefði verið til að gera aths. við. En að nokkrum atriðum tel ég samt rétt að víkja., áður en málið fer til nefndar.

Það var ýmislegt athyglisvert, sem kom fram í ræðu menntmrh. Hann játaði, að vissulega hefði margt gerzt, sem væri þannig vaxið að það væri æskilegt, ef væri hægt að setja reglur, sem tryggðu betur óháðar og ópólitískar embættaveitingar. En jafnframt þessu komst hann að þeirri niðurstöðu að hann hefði veitt fleiri embætti en nokkur ráðh. annar og það mundi ekki vera nema í eitt skipti, sem hann hafi verið gagnrýndur fyrir embættisveitingu. Sér maður á því, hverjir það eru, sem mætti segja að væru vondu strákarnir í ríkisstj. Hæstv. ráðh. og hans flokksmenn veita þannig embætti að það er ekkert að því að finna hvernig það er gert, — þeir eru sem sagt góðu drengirnir í stjórninni — en samt játar ráðh., að það sé nauðsynlegt og heppilegt, að það fengjust settar reglur, sem tryggðu betur ópólitískar embættaveitingar, og þá veit maður nú sem sagt af því, hverjir það eru, sem gera sig fyrst og fremst seka í þeim efnum. Það eru ráðh. Sjálfstfl. Það er í þessu eins og svo mörgu öðru sem þeir Alþfl.-menn flytja góðu málin. Sjálfstfl, kemur með vondu málin Sjálfstæðisráðh. eru ranglátir og pólitískir í sínum embættaveitingum, en það eru Alþfl.menn ekki. Það er hins vegar þannig vaxið að það virðast ekki allir vera á þessu máli. Ég skal aðeins rifja upp litla sögu í því sambandi.

Það var á einum verzlunarstað það skiptir ekki máli, hvort það var heldur kaupstaður eða kauptún en má segja einum verzlunarstað hér úti á landi, að skólastjórastaða losnaði og vildu að sjálfsögðu ýmsir sækja um hana, því að menn vilja heldur vera skólastjórar en kennarar, og á þessum stað var m.a. kennari, sem var flokksbundinn í Sjálfstfl. En af einhverjum ástæðum gerðist það, að nokkru áður en að því kom, að embættið væri veitt, sagði hann sig úr Sjálfstfl., og nokkru síðar urðu menn varir við það, að hann var kominn í Alþfl. Niðurstaðan varð líka sú, að það var hann sem fékk skólastjórastöðuna. Ég er út af fyrir sig ekkert að lasta það þó að menn gangi úr Sjálfstfl. Ég álít það vera ákaflega eðlilegt. En hitt finnst mér ekki vera eðlilegt, að þegar menn ganga, úr Sjálfstfl., fari þeir að ganga í Alþfl., því að mér finnst, að það sé nokkurn veginn sama tóbakið hvor flokkurinn er, að því leyti, að nokkuð svipað sé með þessa flokka a.m.k. að einu leyti sé svipað með svona flokka og fæturna á Bakkabræðrum, að það sé ekki hægt að þekkja þá í sundur, svo líkir eru þeir orðnir í starfsháttum sínum nú í seinni tíð. Ég nefni það aðeins sem lítið dæmi í þessum efnum, að a.m.k. forustumenn þessara flokka virðast hafa nákvæmlega sömu skoðunina eða sömu afstöðuna til þess verkfalls, sem nú stendur yfir. Meira að segja hæstv. menntmrh. hefur gengið fram fyrir skjöldu, fremst allra ráðh., til þess að mótmæla því, að nú væri tekin upp verðtrygging á launum, og jafnframt varið þá stefnu, sem nú er haldið uppi í peningamálum, miklu ákveðnar en nokkur ráðh. Sjálfstfl. hefur gert, svo að af þeim ástæðum, að það sé einhver munur á flokkunum, finnst mér ekki ástæða til þess, að menn séu að færa sig úr Sjálfstfl. yfir í Alþfl. Það valda því aðrar ástæður, eins og menn kunna kannske að skilja í sambandi við þetta mál.

Annars liggja fyrir vitnisburðir, sem hafa verið rifjaðir upp hér í þinginu og ekki hefur verið mótmælt. Ég las upp við fyrri umr. málsins frásögn Morgunblaðsins af fundi ungra sjálfstæðismanna, þar sem þessi mál voru rædd og þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að Alþfl. legði nú meginkapp á að koma sínum mönnum fyrir í ríkiskerfinu. Ég hef hvergi séð því mótmælt af hálfu Alþ., og því var ekki heldur mótmælt af hæstv. menntmrh., þegar hann talaði hér síðast, enda eru dæmin allt of augljós til þess, að það sé hægt. Þess vegna held ég, að hæstv. ráðh. ætti ekki að spila sig eða ráðh. Alþfl. sem einhverja góða drengi í þessu máli, en ráðh. Sjálfstfl. sem vondu strákana, vegna þess að ég held, að þeir séu nokkurn veginn jafnsekir í þeim efnum að hyggja fyrst og fremst að sínum flokksmönnum, þegar um embættaveitingar er að ræða.

Hæstv. ráðh. sagði, að vissulega væri nauðsyn á því að setja reglur eða leita eftir reglum, sem tryggðu betur óháðar og ópólitískar embættaveitingar, en taldi hins vegar á þessu öll tormerki. Ég skal fyllilega játa það með honum, að það getur verið vandasamt að finna þær reglur í þessum efnum, sem tryggi algerlega hlutlausar og ópólitískar embættaveitingar. En þeim mun frekar er líka ástæða til þess, að menn kynni sér reynslu annarra þjóða í þessum efnum og leiti eftir þeim fordæmum, sem bezt hafa gefizt í þessu sambandi, eins og lagt er til í þeirri till., sem hér er til umr. Hæstv. ráðh. virtist vilja skilja þessa till. á þá leið að tilgangur hennar væri sá að færa veitingavaldið sem mest í hendur embættismanna úr höndum ráðh. eða þjóðkjörinna fulltrúa. Það er alger misskilningur hjá ráðh., að slíkt komi fram í þessari till., því að það er hægt að hugsa sér ýmislegt annað fyrirkomulag í þessum efnum en það, að annaðhvort fari pólitískur ráðh. með aðalvaldið eða það séu sérstakir embættismenn, sem séu til þess kjörnir að veita embætti. Það má þvert á móti vel hugsa sér, að þetta verði gert enn lýðræðislegra, á þann hátt, að menn, sem segja má að standi í enn þá nánara sambandi við fólkið og séu beinni fulltrúar þess en ráðh., fái aðstöðu til þess að hafa áhrif á það, hvernig embætti eru veitt.

Hæstv. ráðh. minnti hér á eitt fyrirkomulag í þessum efnum, og það er veiting kennara- og skólastjóraembætta a.m.k. við hina lægri skóla. En þar eru sérstakar skólanefndir, sem fyrst láta í ljós álit sitt um umsækjendur. Í öðru lagi segir svo fræðslumálastjóri sitt álit, og þó að það séu að sjálfsögðu gallar á þessu fyrirkomulagi, eins og t.d. það, að ráðh. er látinn tilnefna formann skólanefndar og getur þess vegna haft viss áhrif á það, hver niðurstaða nefndarinnar verður, og fræðslumálastjóri er líka starfsmaður, sem heyrir undir menntmrh., er það áreiðanlegt, að þetta fyrirkomulag hefur orðið til þess að gera þá misnotkun, sem hefur átt sér stað í þessum efnum, miklu minni en hún sennilega hefði ella orðið ef þetta veitingarvald hefði eingöngu verið í höndum ráðh. Slíkt hið sama mætti hugsa sér í sambandi við veitingu annarra embætta. Það gæti t. d, komið til athugunar í sambandi við veitingu á embættum sýslumanna og bæjarfógeta, að t.d. væri leitað álits sýslunefnda og bæjarstjórna um umsækjendur, áður en embættin væru endanlega veitt. Ég hygg t.d., að það hefði haft sín áhrif í sambandi við tvær mjög umdeildar veitingar á sýslumannsstöðum, ef það hefði legið fyrir áður, hvert hefði verið viðhorf sýslunefnda og bæjarstjórna á viðkomandi stöðum. Þar á ég við veitingu sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu sem átti sér stað fyrir nokkru, og einnig veitingu bæjarfógetaembættisins á Akureyri. Ég býst við ef viðkomandi aðilar, sem ég nefndi, hefðu verið beðnir um álit í þessum efnum, þ.e.a.s. sýslunefndirnar og bæjarstjórnirnar, hefði komið alveg ákveðin skoðun fram um það hver umsækjendanna ætti að ganga fyrir, og það síðan getað haft heppileg áhrif á afstöðu dómsmrh. Þannig mætti hugsa sér þetta á fleiri sviðum. Það má t.d. benda á það, að í Bandaríkjunum er það venja, að ýmsar meiri háttar embættaveltingar eru beinlínis bornar undir þingið þannig að ráðh. tilnefnir menn í sendiherrastöður og vissar ráðherrastöður, en þessir menn fá ekki embætti nema viðkomandi þn., sem um embættaveitingarnar fjalla, samþykki, að þær séu réttmætar. Og það hefur m.a. í tíð núv. forseta komið fyrir, a.m.k. einu sinni eða jafnvel oftar, að maður, sem hann hefur útnefnt sem sendiherra hefur ekki fengið embættið vegna þess að svo ákveðin andstaða hefur verið gegn honum í viðkomandi þn. Ég álít, að við þurfum að kynna okkur allar slíkar erlendar fyrirmyndir með það fyrir augum að finna það fyrirkomulag, sem sé líklegast til þess að tryggja sem óháðast og óhlutdrægast veitingarvald. Í hvers höndum þetta veitingarvald á svo að vera endanlega er matsatriði, hvort það á að vera í höndum pólitísks ráðh. eða ekki, en hins vegar er hægt að takmarka það mjög mikið með þeim aðferðum sem ég hef hér bent á og tryggja mundi, eins og ráðh. virtist telja nauðsynlegt, sem lýðræðislegastar embættaveitingar

Ráðh, minntist nokkuð á það, að gagnrýni á embættaveitingar væri öllu minni núna en hún hefði áður verið og það væri þess vegna rangt, sem hann taldi sig hafa eftir mér, að meiri deilur væru um embættaveitingar nú en áður. Ég held, að ég hafi ekki minnzt neitt á það, heldur sagt, að pólitískar embættaveitingar hefðu alltaf átt sér stað og hefðu farið mjög í vöxt á undanförnum árum. Og ég sannaði það m.a. með þeim dæmum, sem ég rakti fyrr í ræðu minni, m.a. með því að minna á listann fræga í Alþýðumanninum og með því að rifja upp þær niðurstöður, sem urðu á fundi ungra sjálfstæðismanna hér í bænum, þegar þeir ræddu um þessi mál. Hitt er það að þetta er komið svo mikið í venju að embætti séu veitt pólitískt, að menn eru eiginlega orðnir ónæmir fyrir þessu og hættir að kippa sér nokkuð upp við það þó að slíkt gerist. Og það gerist líka í sívaxandi mæli, að menn sæki lítið um embætti, öll meiri háttar embætti, vegna þess að þeir telja það nokkurn veginn víst fyrir fram, að það sé búið að ákveða hver eigi að fá embættið og þess vegna sé tilgangslaust að vera að sækja um það. Ef við gerum samanburð á þessu fyrr og nú, er það alveg táknrænt, hvað það eru nú miklu færri umsækjendur um mörg meiri háttar embætti en áður átti sér stað. Og ástæðan er sú, að menn, sem koma til greina margir hverjir, telja ástæðu laust að vera að sækja um embættin vegna þess að það sé búið að ákveða það fyrir fram, hver eigi að hljóta þau.

Ég skal ekki tefja tímann öllu meira með því að víkja að því, sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. Þó vildi ég segja það að lokum, að hann var að tala um það, að það væri búið að brjóta niður hið mikla vald, sem Háskólinn hefði haft í sambandi við embættaveitingar áður fyrr. Mér virðist, að það sé nú enn jafnsterkt og það hefur áður verið og ég minni aðeins á í sambandi við það, sem er kunnugt af blaðaskrifum, bæði hefur það komið fram mjög greinilega í Morgunblaðinu og Vísi, að einn af okkar allra efnilegustu ungu vísindamönnum varð að yfirgefa land á seinasta ári vegna þess, að hann hafði verið fullkomlega sniðgenginn af læknadeild Háskólans í sambandi við embættaveitingu. Og ráðh. treysti sér ekki í því tilfelli að rísa gegn úrskurði læknadeildarinnar, þó að mér sé það persónulega kunnugt, að hann hafði mikinn áhuga á því, að umræddur vísindamaður þyrfti ekki að fara af landi burt. Ég nefni þetta ekki vegna þess, að ég vilji vekja deilur um þetta mál sérstaklega það er úr sögunni í bili, en ég taldi mér ekki annað fært samt en að minna á það, vegna þess að ráðh. talaði svo borginmannlega um, að það væri alveg búið að brjóta niður vald Háskólans í þessum efnum, og lézt fagna því mjög, að það hefði verið gert. En menn geta bezt séð það á mjög rökstuddum greinum um þetta mál, sem birtust á sínum tíma bæði í Morgunblaðinu og Vísi, að hér var um mjög alvarleg mistök að ræða. Það kom líka fram hér í umr, fyrir örskömmu að mér virðist, að Háskólinn fari sínu fram alveg eins og menntmrh. sé ekki til. Það upplýstist, að Háskólinn hafði sett takmarkanir um aðgang að tannlæknanámi, án þess að ráðh, hefði haft minnstu hugmynd um það eða læknadeildin Mér finnst því, að ráðh. þurfi ekki að tala neitt borginmannlega um, að það hafi eitthvert afrek verið unnið í þessum málum, eitthvert vald brotið niður, sem hafi verið mjög hættulegt, því að það virðist enn þá vera í fullu gildi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að halda uppi frekari umr. um þetta mál að sinni, nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til.