13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

133. mál, endurskoðun á rekstri ríkissjóðs og ríkisstofnana

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Hv þm. sagði, að það hefði engin ríkisstj. farið á stúfana með jafnmörg fyrirheit um sparnað og þessi ríkisstj. Ég hef nú ekki talið það saman á undanförnum árum, hvað hafa verið mörg fyrirheit gefin um sparnað, en ég mundi ráðleggja hv. þm., áður en hann fullyrðir mikið um þetta að lesa ræður fjmrh., sem sat á árunum 1950 —1958, og athuga, hvort hann fyndi ekki einhver slík fyrirheit. Ég held, að öll þessi fyrirheit raunar, hvort sem þau voru gefin af honum, mér eða öðrum fyrirrennurum mínum, hafi verið í þeim anda, að menn hafi lýst vilja sínum til þess að kanna viss úrræði til sparnaðar og það hafi svo gengið með ýmsum hætti, hvernig það hefur tekizt.

Punktarnir, ég man nú ekki, hvað þeir voru margir, sem hv. þm. las upp hér í vetur í nál. fjvn., sem ég stóð að á sínum tíma, áður en ég varð fjmrh., og hefur verið fært mér mjög til lasts, að ég hafi ekki framkvæmt, þeir voru settir fram á sínum tíma sem ábending frá fjvn. til fjmrh. og til athugunar, og ég get fullyrt það, að hvert einasta þessara atriða hefur verið tekið til rækilegrar athugunar. Sumt af þeim hefur þegar verið framkvæmt og það í rauninni meiri hluti þeirra en jafnvel hefði mátt gera ráð fyrir miðað við það, sem áður hefur gerzt í þeim efnum.

Um önnur atriði er það að segja, að það hefur ekki þótt tiltækilegt að framkvæma þau af ýmsum ástæðum, sem ég skal ekki fara út í hér, því að eins og hv. þm. sagði, vil ég ekki heldur fara almennt að ræða hér um stefnuna í ríkisfjármálum, nema það, sem þessi till. gefur beinlínis tilefni til. Vissulega er alltaf óendanlega margt ógert í þessum efnum, og svo sem ég sagði í minni ræðu áðan, skal ég seinastur manna verða til þess að halda því fram, að það sé ekki margt, sem þyrfti að gera og nauðsynlegt væri að gera í þessum efnum. Hitt hygg ég, að við hv. frsm. og aðalflm. þessarar till. vitum báðir álíka vel, að það er margt, sem formlega séð væri hægt að gera og áreiðanlega mundi horfa til sparnaðar, en af ýmsum ástæðum ekki fæst samkomulag um að gera. Þar kemur til greina, svo að við tökum dæmi, sameining stofnana, sem hefur verið bent á oft og tíðum, að hægt væri að koma við. Ég man eftir því á sínum tíma, fyrir mörgum árum, að ég flutti frv. um að sameina tóbaks- og áfengiseinkasölurnar, en það þótti þá alls ekki gerlegt að gera það. Þar komu til greina forstjóravandamál, og það gerðist svo ekki fyrr en í tíð núv. stjórnarflokka, að þetta var gert. Ég er út af fyrir sig engan að saka um það, þó að þetta hafi tekið á annan áratug, frá því að það var byrjað að tala um það, en svona er með fleiri embætti. Það sitja forstjórar yfir þessum stofnunum, og það vill vera dálítið erfitt að koma sér niður á það, hver þeirra eða hvor á að víkja. Þetta nefni ég aðeins sem dæmi um erfiðleika við að framkvæma ýmsar svona aðgerðir, sem þýðir ekkert annað en gera sér raunhæfa grein fyrir.

Varðandi það, að verkalýðsforingjum hafi verið veitt aðstaða til að fylgjast með undirbúningi fjárl. og þess vegna sé það óhæfa að veita ekki fulltrúum minni hl. á Alþ. aðstöðu til þess, þá er hér um misskilning að ræða. Fulltrúar verkalýðssamtakanna fengu enga aðstöðu til að fylgjast með undirbúningi fjárl. Þeim var boðið það, þegar þessi vandamál risu í haust, að þeir fengju að kynna sér rækilega, eftir því sem þeir óskuðu, þær röksemdir, sem lægju að baki einstökum fjárlagaliðum, og fengju að kynna sér fjárlagaplögg, ef þeir hefðu áhuga, á, með það í huga að koma með ábendingar um það, hvað þeir teldu að mætti spara í ríkisrekstrinum. Þetta er auðvitað aðstaða, sem fjvn. fullkomlega hefur, vegna þess að hún fær öll gögn í hendur, eftir að fjárlagafrv. hefur verið lagt fram, þannig að hér er um enga sérstæða aðstöðu að ræða, sem mönnum utan þings hafi verið veitt umfram þm. að þessu leyti. Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram, svo að það ylli ekki misskilningi, því að ég tel vitanlega, að það væri með öllu óeðlilegt, að einhver samtök úti í bæ, hversu góðra gjalda verð sem þau væru, fengju að fylgjast með undirbúningi þessarar viðamiklu löggjafar og mikilvægu umfram það, sem hv. þm. hefðu aðstöðu til.

Það er svo aðeins eitt að lokum, sem ég vildi benda á, að það hefur aldrei verið aðstaða fyrir minni hl. til að fylgjast með undirbúningi fjárl., ekki í tíð nokkurrar ríkisstj., þannig að hugleiðingar um það, sem kom fram í þessari till., eru alveg nýjar af nálinni. Það getur vel verið, að það geti komið til athugunar að veita minni hl. bætta aðstöðu í þessu sambandi, eins og ég áðan sagði. En ég mótmæli því, að það eigi að rökstyðjast með því, að það sé einhver alveg sérstæð óreiða á ríkisfjármálum nú, sem geri það óumflýjanlegt, að þetta aðhald Alþ. sé tekið upp. Og ég er nú sannast sagna ósköp hræddur um það, að ef þessi óreiðandi er ríkjandi í fjmrn., muni engin þn. gefa fengið miklu áorkað í þá átt, þannig að hugleiðingar hv. flm. um einhverjar betrumbætur á stjórn ríkisfjármála með 7 manna þn., orki ekki miklu í þá átt, sem þeir virðast stefna.

Ég vil svo aðeins að lokum endurtaka það, að ég er fullkomlega til viðræðu um öll úrræði til þess að auðvelda fjvn. Alþ. sín störf. Það skal ekki á mér standa. Ég hef fullan skilning á þýðingu hennar og ætti kannske flestum þm. fremur, af því að ég hef átt þar svo lengi sæti, að skilja þau vandamál og viðfangsefni, sem hún hefur við að glíma. Ef ætlazt er til þess, að hún geti verulega sinnt hlutverki sínu í þá átt að koma með raunhæfar till. um sparnað í ríkisrekstrinum og kynna sér þau vandamál, þarf hún auðvitað að hafa betri aðstöðu en hún hefur í dag. Ég hef ekkert á móti því, að á efnislegum og málefnalegum grundvelli sé það athugað, hvort hægt sé að veita fjvn. eða undirnefnd hennar einhverja bætta aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem er að gerast á vegum hagsýslustofnunarinnar, fá upplýsingar um það, sem þar er verið að vinna að, og koma að sínum ábendingum. En ég ítreka það, og eins og ég áðan sagði, vona, að menn skilji þá afstöðu, að miðað við þær röksemdir, ef röksemdir á að kalla, sem liggja að baki þessari till., get ég með engu móti á hana fallizt og hlyti að telja samþykkt slíkrar till. vantraust á mig.