13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

135. mál, akreinar á blindhæðum

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 286 hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni og hv. 1. þm. Austf., Eysteini Jónssyni, flutt till. til þál. um að skipta í akreinar blindhæðum á þjóðvegum. Eins og fram kemur í grg. þessarar þáltill., er hún flutt í sambandi við þá breytingu, sem hér á að gera á umferð, að nú skuli framvegis vera hægri umferð á landi hér í staðinn fyrir vinstri umferð, sem hér hefur áður verið.

Við flm. teljum það mikið gáleysi, ef ekki á, áður en til þeirra framkvæmda kemur, að gera verulegar breytingar á þjóðvegum landsins, því að þar teljum við, að langsamlega mesta hættan muni vera. Það er enginn vafi á því, að sú hætta, sem mest mun verða samfara þessari breytingu, verður á blindhæðum og blindbeygjum úti um landið, þar sem bifreiðir mætast, án þess að ökumennirnir séu undir það búnir, og hin ósjálfráðu viðbrögð þeirra, af þeim muni hættan stafa. Það er mikil nauðsyn að gera þessa breytingu, sem hér er lagt til í till., þó að ekki hefði verið að því ráði horfið að hverfa til hægri umferðar frá vinstri umferð. En við þá breytingu teljum við, að það sé óafsakanlegt annað en að láta þessa framkvæmd eiga sér stað og það verði að keppa að því, að koma eins miklu og hægt er af þessu verki í framkvæmd fyrir breytinguna og vinna svo sleitulaust að því næsta sumar. Okkur er það ljóst, að vegasjóður hefur ekki fjármagn til þess að sinna þessu verkefni, og þess vegna leggjum við til, að lán verði tekið til þessara framkvæmda í sambandi við framkvæmdaáætlun þá, sem við gerum ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. leggi hér fram síðar á þessu þingi. Við teljum það mjög áríðandi og með öllu óafsakanlegt að gera ekki þessar úrbætur á þjóðvegum landsins, einmitt í sambandi við þessa breytingu á umferðinni.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.