13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

135. mál, akreinar á blindhæðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að flestir alþm. muni vera sammála um það, að það hefði verið heppilegra að flytja þessa till. fyrir ári síðan eða um það leyti, sem lög um hægrihandarakstur voru sett. En það segir hér í grg. með till.:

„Með ákvörðun Alþ. um að fresta í engu framkvæmd hægri umferðar verður ekki hjá því komizt að gera róttækar ráðstafanir til lagfæringar á vegakerfi landsins svo fljótt sem unnt er.“

Ég er því sammála, að það sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir slys og lagfæra blindbeygjur, ég er alveg sammála flm. um það En að flytja þessa till. í tilefni af því, að framkvæmd l. um hægri umferð var ekki frestað nú fyrir nokkrum dögum, það er ekki rökstuðningur, sem er eðlilegur. Það hefði verið eðlilegt að flytja þessa till. fyrir ári, ef till.-flutningur eins og þessi gæti annars komið að nokkru gagni. Það þarf ekki að flytja till. hér á hv. Alþ. um áskorun til þess að koma í veg fyrir slys. Það eru allir sammála um, að gera þurfi. En þegar l. um hægrihandarakstur voru sett, var aldrei gert ráð fyrir því að lagfæra allar blindbeygjur á vegum landsins, og a.m.k. sumir af þeim, sem eru flm. að þessari till., voru samþykkir því að breyta um til hægri aksturs, án þess að hafa fyrr en nú flutt till. um það að lagfæra allar blindbeygjur.

Vegamálastjóri hefur gefið mér grg. um þessi mál, blindbeygjur og þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið vegna breytingar á umferðarlögunum, og segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirbúning l. um breytingu úr vinstri í hægri akstur kom aldrei til tals, að unnt yrði að breyta öllum blindbeygjum og blindhæðum í sambandi við umferðarbreytinguna, þar sem slíkir staðir skipta þúsundum á þjóðvegum landsins og kostnaður við akreinaskiptingu á þeim öllum yrði gífurlegur. Á s.l. sumri var, eins og kunnugt er lokið við að flytja öll umferðarmerki af vinstri yfir á hægri vegarbrún, að undanskildum merkjum á fjölförnustu vegunum allra næst Reykjavík. Verða þau merki færð í beinu sambandi við H-daginn. Einnig verður á H-daginn breytt akreinamerkjum á öllum blindhæðum og blindbeygjum á þjóðvegum, þar sem umferð hefur verið skipt í tvær akreinar. Þessir staðir eru alls 150 á öllum þjóðvegum landsins. Þá er einnig gert ráð fyrir, að fyrir H-dag verði 40—50 blindhæðum og blindbeygjum skipt til viðbótar, en sú skipting komi ekki til framkvæmda fyrr en á sjálfan H-daginn. Reynslan hefur sýnt, að ef blindhæð á mjóum vegi er skipt þannig, að tvær akreinar skapist aðeins á sjálfri hæðinni, eykst slysáhættan í stað þess að minnka, vegna þess að þegar búið er að skipta hæðinni, draga menn ekki úr ökuhraðanum yfir sjálfa hæðina og skapast þá árekstrarhætta rétt handan við hæðina, ef vegurinn þar er ekki með tveimur akreinum á nokkrum kafla. Bifreið, sem ekur með 70 km hraða, fer um 20 m á sekúndu hverri. Tveir bílar, sem mætast handan við blindhæð á þeim hraða, nálgast hvor annan með 40 m hraða á sekúndu. Er því talið nauðsynlegt, að beggja vegna skiptra blindhæða þurfi vegur að vera 7 m breiður á a.m.k. 100 m kafla hvorum megin. Þarf því mjög víða að breikka vegina um 2 til 3 m á 204 m kafla við hverja blindhæð. Getur kostnaður við slíkt numið 30—100 þús. kr. eða enn hærri upphæðum eftir ástæðum á hverjum stað. Blindhæðir og blindbeygjur eru langflestar á hinum ruddu vegum, sem endurbyggjast eiga á næstu árum. Á þessum vegum yrði kostnaður við skiptingu á blindbeygjum og blindhæðum það mikill að hann mundi í mörgum tilvikum nálgast kostnað við algera endurbyggingu vegarins. Því hagar þó svo til, að ekki er æskilegt að endurbyggja gamlan veg í nákvæmlega sömu veglínu og hann var. Er því hætt við, að mjög kostnaðarsamar framkvæmdir við skiptingu blindhæða á hinum gömlu ruðningsvegum yrðu til þess, að endanlegri endurbyggingu þeirra yrði slegið á frest um langt árabil. Yrði það að teljast mjög óæskileg þróun, þar sem þessir vegir eru yfirleitt mjög ógreiðfærir og erfiðir eða ófærir yfirferðar að vetrarlagi. Öðru máli gegnir að sjálfsögðu um blindhæðir og blindbeygjur á þeim vegum, sem teljast uppbyggðir og fullgerðir. Þar yrði skipting á blindhæðum og blindbeygjum varanleg endurbót á vegunum.

Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um það, hvað mikið er af blindbeygjum og blindhæðum á þjóðvegum hér á landi, en líklega nema þessir staðir þó þúsundum. Ekki liggur heldur neitt fyrir um það, hve mikið af blindbeygjum og blindhæðum eru á fullgerðum, upphleyptum vegum og hve mikið á ruðningsvegum, og er því ógerlegt að gera sér nokkra raunhæfa grein fyrir kostnaði við slíkar framkvæmdir.

Ekki verður talið framkvæmanlegt að skipta öllum blindbeygjum og blindhæðum hér á landi fyrir H-daginn. Hins vegar er þess að vænta, að framkvæmdanefnd hægri umferðar muni með öflugri umferðarfræðslu geta dregið mjög úr slysum á þessum stöðum með því að brýna það fyrir mönnum að aka gætilega og gera alltaf ráð fyrir því, að bifreið geti komið á móti á blindhæð eða við blindbeygju, og verði menn því að haga akstri í samræmi við það á hverjum stað.“

Þetta er grg. vegamálastjóra, sem upplýsir: 1) hvað gert hefur verið á blindbeygjum og blindhæðum, 2) hversu mikið verkefni það er, ef ætti að gera tvöfalda akrein alls staðar þar sem þannig hagar til, 3) að meiri hlutinn og sennilega mikill meiri hluti af blindbeygjum og blindhæðum eru á óruddum vegum, þannig að ef þær yrðu lagfærðar á þessum vegum, væri um tvíverknað að ræða þar sem gera má ráð fyrir, að í stað gömlu, ruddu veganna verði ekki lagðir nýir vegir nákvæmlega á sama stað og þeir nú eru. En sjálfsagt er að gera allt, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir slys og flýta því, eftir því sem unnt er, að koma tvöföldum akreinum á blindhæðir og blindbeygjur. Þetta ber vitanlega að gera. En að gera það fyrir H-dag eða að ljúka, því á næsta sumri er vitanlega algerlega óframkvæmanlegt, en mér skilst þó, að hv. flm. ætlist til, að það verði gert. Ég held, að það verði að gera sér grein fyrir því, að þetta er ekki mögulegt og hefur aldrei verið álitið mögulegt, enda ekki um það rætt, þegar lög um hægri umferð voru samþ. hér á síðasta þingi. Og eins og ég sagði áðan, eru a.m.k. sumir af flm. þessarar till., sem samþykktu þá lagabreytingu.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til þess að taka fleira fram í sambandi við þessa till. Ég vil aðeins lýsa vilja mínum og vegamálastjórnarinnar í því að bæta svo úr í þessu efni sem unnt er, til þess að komið verði í veg fyrir slys. En áreiðanlega er það rétt, sem vegamálastjóri segir, að það dugir bezt, að menn sýni aðgæzlu og það verði fullkomin fræðsla um þetta, áður en breytingin tekur gildi. Og menn verða fyrir slysum á blindbeygjum og á blindhæðum í dag, þegar víkja á til vinstri, ef það er ekki munað, þegar þannig stendur á, að það getur alltaf komið bifreið á móti. Og vonandi verður það svo, að þegar skiptir um til hægri, þá minnist menn þess, að menn verða að vera á hægri kanti, þegar ekki sést, hvað fram undan er.