14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2945)

156. mál, lausn verkfalla

Birgir Finnsson:

Herra forseti: Það er rétt, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austf., að ekki hefur náðst samkomulag milli þingflokkanna um það, hvenær útvarpsumr. skuli fara fram um þá þáltill., sem þeir hafa flutt sameiginlega þm. Alþb. og Framsfl. Það er einnig rétt, að samkv. þingsköpum ber forseta. Sþ., þegar svo ber við, að þingflokkarnir koma sér ekki saman um, hvenær slík útvarpsumr. skuli fara fram, að ákveða það, — og ég legg áherzlu á. að það er forseta Sþ. að ákveða það, en ekki að úrskurða það.

Eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austf. áðan, var það fyrst í gær, sem það lá endanlega fyrir, að ekki næðist fullt samkomulag um þetta milli þingflokkanna, og ég, sem forseti sameinaðs Alþ., hef þannig haft sólarhring til umhugsunar um málið. En í sambandi við umr. milli þingflokkanna, sem hv. þm. rakti hér áðan, kom það m.a. fram, að það er mat þeirra aðila, sem hlut eiga að máli í deilunni, sem yfir stendur, svo og sáttasemjara ríkisins, að eins og málin standa núna, sé ekki heppilegt, að stjórnmálaflokkarnir hefji um málið harðvítugar deilur á opinberum vettvangi eins og í útvarpinu. Þetta hef ég sjálfur kannað með viðtölum við fyrirsvarsmenn beggja deiluaðila, og hæstv. forsrh. upplýsti þetta sama á fundi með fulltrúum þingflokkanna í gær. Hann hafði einnig rætt málið við sáttasemjara. Ég mun því, eins og þetta mál stendur, reyna að meta það út frá málavöxtum, hvenær heppilegt sé, að þessi umr. fari fram.

Eins og hv. 4. þm. Austf. gat um, hefur skrifstofa Alþ. tekið saman yfirlit allt frá árinu 1953 um það, hve langur aðdragandi hafi verið að útvarpsumr., þegar þær hafa farið fram samkv. beiðni einhvers flokks. Það yfirlit sýnir, að ef miðað er við útbýtingu mála í þinginu, þá hafa liðið að meðaltali allt að 19 dagar, þar til umr. hefur farið fram. En þá er þess skylt að geta, að í tveimur eða þremur tilfellum hafa liðið 2—3 mánuðir frá því, að máli var útbýtt, og þangað til útvarpsumr. fór fram. Ef þessum tilfellum er sleppt, er meðaltalið, sem liðið hefur frá útbýtingu máls, og þar til útvarpsumr. hefur farið fram, 10 1/2 dagur. Þannig hygg ég, að miðað við aðstæðurnar, sem nú er um að ræða í sambandi við vinnudeiluna, og málavexti alla, hafi verið hafður alveg fullur hraði á því, sem athuga þurfti, og það fyrst, hvort samkomulag næðist milli þingflokkanna um útvarpsumr. Og ég vil undirstrika það, að um það er enginn ágreiningur. Það er enginn ágreiningur milli þingflokkanna um það, að fram fari útvarpsumr. um þáltill. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvaða dag útvarpsumr. skuli fara fram. Ég mun því strax, þegar ég tel málavexti vera þannig, að það sé æskilegt, að útvarpsumr. fari fram, taka ákvörðun um það og ekki draga þá ákvörðun lengur en þörf er á.