14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (2949)

156. mál, lausn verkfalla

Eysteinn Jónason:

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra hugmyndir hæstv. forsrh. um það, hvað væri eðlileg þingmeðferð á máli eins og þessu. Það væri, að þáltill. væri tekin til meðferðar á venjulegan hátt, þ.e. eftir nokkra daga, um það, hvernig ræða skuli, og síðan liði vika þangað til hún kæmi á dagskrá.

Hér er um að ræða till. um að leysa verkfall, sem staðið hefur lengi og valdið óbætanlegu og nálega ómælanlegu þjóðartjóni. Till. er um ákveðna lausn á verkfallinu, og það getur skipt þjóðina milljónatugum, hvort verkfallið er leyst einum degi fyrr eða síðar.

Við þessar ástæður telur hæstv. forsrh. það eðlileg vinnubrögð, að till., sem fjallar um að leysa þetta mál, bíði á aðra viku eftir því að vera rædd. Ef við berum þetta saman við þær kröfur um meðferð þingmála, sem hæstv. ríkisstj. gerir og það oft um málefni, sem ekkert liggur á, fáum við svona hér um bil mynd af heilindunum í þessu hjá forsrh. Hæstv. ríkisstj. krefst þess hvað eftir annað, að málefni séu afgreidd, tekin fyrir tafarlaust, stundum nálega nokkrum mínútum eftir að þeim er útbýtt, og oft er farið fram á, að lagafrv. séu gerð að lögum á einum eða tveimur dögum, en ævinlega tekin fyrir strax, og ef stjórninni þykir mikið við liggja afgreidd við hverja umr. á fætur annarri. Oftast verður stjórnarandstaðan við því að greiða fyrir málum á þessa lund. Þetta er oft gert um mál. sem ekki varða þjóðina sérstaklega miklu, hvort afgreidd eru deginum fyrr eða síðar. En hæstv. forsrh. hefur það að fyrirslætti núna, að um till. varðandi lausn verkfallsins megi hafa alla hentisemi, eins og um venjulega þáltill. sé að ræða. Vitanlega er okkur það algjörlega ljóst, öllum, sem þekkjum nokkuð til þingstarfa að það er með öllu óeðlileg og alveg sérstök meðferð á þáltill. af þessu tagi að taka hana ekki fyrir með mjög litlum fyrirvara.

Hv 4. þm. Austf. hefur svarað tali hæstv. forsrh. um það, að allt öðru máli hefði verið að gegna um frv. Við vitum svona hér um bil, hvernig hefði verið farið með það. Það hefði orðið nákvæmlega sama sagan. Þeir hefðu látið útvarpsumr. fara fram um það, þegar þeim sýndist, ef þeir hefðu getað fengið forseta til þess að taka sitt sjónarmið til greina, síðan, eins og hv. 4. þm. Austf. sagði, sett það í n. og ekki afgreitt það þaðan frekar en þeim sýndist.

Hæstv, ráðh. sagði, að í þessari þáltill. fælist tæplega lausn á verkfallinu. Það er auðvitað á algjörum sandi byggt að halda slíku fram, því ef þáltill. væri samþ., yrði sú ríkisstj., sem nú situr, annaðhvort að beita sér fyrir lagasetningu á þeim grundvelli, sem hún leggur, eða fara frá. En ef þáltill. er felld, þá liggur ljóst fyrir, að þessi lausn á verkfallinu er ekki fáanleg og þá unnið að því að reyna að leysa það eftir öðrum leiðum. En þá bæru þeir líka ábyrgð á því, sem á eftir færi, sem felldu þá leið, sem í þáltill. er mörkuð.

Þetta er hin eina málsmeðferð, sem hægt er að sætta sig við mótmælalaust, sem sé að þáltill. sé tekin fyrir tafarlaust og útvarpsumr. fari fram og það komi í ljós, hvort þingvilji er fyrir þessari lausn eða ekki.

Það mundi ekki taka hæstv. ríkisstj. nema örstutta stund að gera sér fulla grein fyrir því, hvað í frv. ætti að vera, ef þáltill. yrði samþ. Það gæti hún gert á einfaldan hátt með því að kynna sér viðhorf launþegasamtakanna og hvað þau hafa sett fram í deilunni, og það er að mestu leyti kunnugt, eins og ég gat um áðan í minni fyrri ræðu.

Það er nú komið fram, að það, sem hér hefur verið sagt um óskir aðilanna eða hugmyndir þeirra um það, að útvarpsumr. mundu spilla fyrir málinu, er úr lausu lofti gripið, a.m.k. hvað annan aðilann snertir, enda má nærri geta, hvort aðilar launþeganna eru mótfallnir því, að barizt sé á Alþ. fyrir þeirri lausn, sem í þáltill. felst, þar sem einmitt er tekið undir þeirra málamiðlunarmálstað og útvarpsumr. mundu því vitanlega verða af hálfu þeirra, sem þessa þáltill. flytja, eindreginn stuðningur við þeirra málstað.

Nokkurn veginn hygg ég þeim ljóst vera sem vanir eru, að fást við þessi mál, að slíkar umr. mundu mjög flýta fyrir lausn deilunnar, af þeirri einföldu ástæðu, að hæstv. ríkisstj., sem hefur þetta mál í sinni hendi, mundi fá á sig aukinn þunga almenningsálitsins í þá stefnu, að skerast strax í leikinn til þess að leysa þetta mál.

Ég fullyrði, að það er enginn þjóðarvilji fyrir því að halda uppi þessari dýru deilu til þess að knýja fram lækkum á því kaupi, sem nú er um deilt. Ég er alveg sannfærður um, að hæstv. ríkisstj. mundi hafa stuðning mikils meiri hl. þjóðarinnar, ef hún vildi taka undir þann málstað, sem í þáltill. felst, og gera þær ráðstafanir, sem þyrfti í framhaldi af því, til þess að það kaupgjald, sem þar er ráðgert og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sætta sig við, geti orðið greitt áfallalaust af ísl. atvinnuvegum.

Hæstv. ríkisstj. mundi áreiðanlega fá mjög víðtækan stuðning við þá stefnu, sem í þáltill. felst, en því miður vill hún ekki aðhyllast hana, heldur berja höfðinu við steininn. Ég er smeykur um eða réttara sagt ég er alveg viss um, að það er af því að ríkisstj. treystir ekki á þennan málstað sinn, að hún leggur svo mikla vinnu í að koma í veg fyrir útvarpsumr. um þá lausn, sem stjórnarandstæðingar hafa stungið upp á.

Ég vil ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta, en enn einu sinni taka undir þau tilmæli, sem fram hafa komið um, að útvarpsumr. verði látin fara fram í síðasta lagi annað kvöld. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri mikil ábyrgð þeirra manna, sem vildu knýja fram umr. um þetta mál í heyranda hljóði En ég vil segja, að það er þung ábyrgð þeirra, sem koma í veg fyrir, að þetta mál sé rætt hreinskilnislega í útvarp, svo að allir heyri, hvernig þessi mál standa og hvaða till. hafi komið fram á Alþ. um að leysa vandann, og rök þeirra, sem ekki vilja leysa málið með því móti, sem í þáltill. stendur, en halda deilunni áfram.

Það er alveg óhugsandi, að slíkar umr. gætu gert annað en greiða fyrir lausn, jafnvel þótt þáltill. yrði felld. Umr. mundu knýja hæstv. ríkisstj. til þess að leysa þetta mál, og láta þannig undan síga í málinu.