14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2957)

156. mál, lausn verkfalla

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti Ég held við þurfum ekki annað en þessar umr. utan dagskrár til þess að sýna, hversu því fer fjarri, að forsetavaldi á Alb. sé beitt til þess að koma í veg fyrir umr. á þingi um þetta mál. Hér hafa menn talað utan við reglur þingskapa og langt umfram það, sem venja er til í slíkum umr., en forseti hefur ekki amazt við því né aðrir, einmitt vegna mikilvægis málsins. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, eins og ég sagði í upphafi, að ef hv. þm. hefðu viljað flytja frumtill. sína á venjulegan, þinglegan hátt í frumvarpsformi, og setja fram, hvað fyrir þeim raunverulega vakti, þá voru möguleikar þeirra til þess að fá venjulegar, þinglegar umr. slíkir, að horfur eru á, að frv. hefði verið tekið til 1. umr. s.l. þriðjudag. Það, sem svo gerist, er það, að þeir aðilar, sem eru að leita eftir samkomulagi í málinu og eru að semja, hafa talið almennar útvarpsumr. á þessu stigi málsins óheppilegar, og það er eftir þeirra tilmælum, sem við höfum talið eðlilegt, að það væri ekki verið að víkja frá venjulegum reglum þingskapa, heldur hafður sá háttur á, sem einmitt þingsköp og margra ára þingvenja ætlast til, þegar mál er flutt í því formi, sem hér er gert. Þetta er óhagganlegt.

En ég stóð ekki upp til að ítreka þetta. Það var búið að segja þetta áður, og því hefur ekki verið hnekkt í umr., heldur til þess að vekja athygli á öðru, sem er í raun og veru mjög merkilegt og nú hefur komið fram með yfirlýsingum hv. stjórnarandstæðinga. Þeir hafa sagt, að upphaf þeirra erfiðleika, sem nú sé við að etja, þessa verkfalls, sé, að numið var úr lögum fyrirskipunin um fulla verðtryggingu launa og í stað þess sagt, að þetta ætti að vera frjálst samningsatriði, eins og launin eru í heild. Hins vegar halda þeir því fram, og ég geri ráð fyrir, að þeir viti, hvað þeir segja um það, að í þessum frjálsu samningum sé verkalýðshreyfingin búin að hverfa frá ýmsum meginatriðum löggjafarinnar, sem var afnumin í haust, þannig að þá er fengin staðfesting í þeim samningum, sem nú hafa átt sér stað, að löggjöfin hafi verið úrelt og það hafi verið af fullkomnu tilefni, að hún var numin úr l., úr því að aðilar hafa nú í frjálsu samkomulagi og eftir því sem hv. þm. segja fyrir s.l. mánudag tekið upp allt aðra stefnu og gert allt aðrar till. en lögfestar voru þangað til l. var breytt í haust. Þetta sýnir, að það hefur verið skynsamlegt, og það var eðlilegt að láta aðila fjalla um þetta mál með frjálsum samningum. Það hefur þegar leitt til mjög mikilvægs árangurs frá því, sem var, og gagnstætt t.d. yfirlýsingum hv. Framsfl. á hans aðalfundi nú fyrir skemmstu og fjölmörgum yfirlýsingum af hálfu hv. stjórnarandstæðinga hér á þingi. Þetta er mjög athyglisvert og sýnir, að stefna stjórnarinnar í málinu hefur verið rétt og að það er vænlegast og líklegast að láta aðila sjálfa semja um þetta mál. enda hefur ríkisstj. á allan veg, sem hún hefur megnað, reynt að greiða fyrir þeim samningum, en það verður ekki umflúið, að þessir hv. þm. eru nú að reyna að trufla þá samninga og reyna með öllum þeim mætti, sem þeir hafa, að koma í veg fyrir, að þeir leiði til farsæls árangurs.