27.03.1968
Sameinað þing: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

168. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 402 leyft mér að hafa forgöngu um, að hið háa Alþ, fái til meðferðar á ný till. til þál., sem Karl Kristjánsson fyrrv. alþm. flutti á síðasta þingi um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Um leið og ég mæli nú fyrir till. í þetta sinn, vil ég leyfa mér að beina því til hv. þm. og þá ekki sízt þeirra sem ekki hafa áður setið á Alþ., að þeir kynni sér nánar í handritum þingsins þá mjög svo athyglisverðu og snjöllu framsöguræðu, sem flm, till. í fyrra flutti um hana. En till. kom ekki aftur til umr. og varð ekki afgreidd.

Flm. till. á síðasta þingi lét þess getið í framsöguræðu sinni, að till. væri ekki flutt sem flokksmál. og það er hún heldur ekki í þetta sinn.

Ég leyfi mér að vekja athygli hv. þm. á því, að nú er aldarfjórðungur liðinn og einu ári betur næstum síðan Alþ. ályktaði hinn 22. maí 1942 að kjósa 5 manna mþn. til að gera breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins. En hinn 8. sept. sama ár, þ.e.a.s. 1942, ályktaði þingið frekar um þetta mál og þá m.a. að bæta mönnum í n., þannig að í henni ættu sæti tveir fulltrúar frá hverjum þeirra flokka, er fulltrúa áttu á Alþ. þá, og voru þeir menn kosnir, þannig að n. varð undir árslokin 1942 skipuð 8 mönnum. Það var þessi 8 manna n., sem undirbjó þá stjórnarskrárbreytingu til bráðabirgða, sem tók gildi um leið og lýðveldið var stofnað. En eftir lýðveldisstofnunina var enn á ný borin fram till. til þál. um framkvæmd á gagngerðri endurskoðun stjórnskipunarlaganna. Sú till. mun hafa verið samþ. hinn 3. marz 1945. Till. hljóðaði þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa 12 manna n., 3 eftir tilnefningu hvers þingflokks, er verði mþn, í stjórnarskrármálinu til ráðgjafar og aðstoðar. Jafnframt er stjórnarskrárnefnd heimilað með samþ. ríkisstj. að ráða sérfróðan mann til öflunar gagna og undirbúnings málsins. Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.“

M.ö.o., eftir að till. frá 3. marz 1945 hafði verið samþ., var starfandi að tilhlutan Alþ. 8 manna aðalnefnd og 12 manna, aðstoðarnefnd, eða samtals 20 manna n. að því að endurskoða stjórnarskrána og semja stjórnarskrá handa lýðveldinu, og þessari 20 manna n. var fenginn sérfróður maður til aðstoðar. Það leynir sér ekki, enda vitanlegt, að þessari n., þessari 20 manna n. og reyndar n., sem áður hafði starfað, 5 manna n. og 8 manna n. einnig, var ætluð ýtarleg endurskoðun á stjórnarskránni, að gera till. um lýðveldisstjórnarskrá.

Svo liðu tímar, og árið 1947 hafði 20 manna n. enn ekki lokið störfum. Þá var það, að borin var fram og samþ.till. á Alþ., þar sem stungið var upp á því, að ríkisstj. skyldi skipa 7 manna n. til að endurskoða stjórnarskrána, og jafnframt var, að ég ætla, hin eldri 20 manna n. leyst frá störfum. Þessi 7 manna n. skilaði aldrei áliti, og það mun almennt talið, að hún sé fyrir löngu hætt störfum.

Þetta er sagan um endurskoðun stjórnarskrárinnar og um það, sem unnið hefur verið að hinni nýju lýðveldisstjórnarskrá. Í framsöguræðu sinni í fyrra fór þáv. flm. till. nokkrum orðum um þetta efni, um þessa sögu og velti því fyrir sér, hvernig á því stæði, að þessar n. frá 1942, 1945 og 1947 hefðu aldrei lokið störfum. Um þetta sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað var þessu valdandi? Hvað gerði allar þessar n. vanmáttugar til að ganga frá heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar? Það var flokkapólitíkin“, sagði þm. „Andinn var að vísu reiðubúinn, en holdið hjá flokkunum var veikt. Andinn viðurkenndi, að stjórnarskrá ætti að miða við aldir. Holdið, þ.e.a.s. flokkapólitíkin, vildi, að miðað væri við sína hagsmuni í næsta leik.“

Það var sýnilega skoðun Karls Kristjánssonar, þegar hann flutti málið í fyrra, og ég er ekki fjarri því að gera það einnig að minni skoðun, að flokkssjónarmiðið hafi valdið nokkru um, að það hefur ekki tekizt enn að semja lýðveldisstjórnarskrána. En það mun einmitt vera út frá þessari skoðum, frá þessu sjónarmiði, sem flm. till. í fyrra ákvað að leggja það til, að n., sem nú fengi þetta verkefni, yrði skipuð með nokkuð sérstökum hætti Og vil ég nú leyfa mér að koma að efni till.

Í till. er gert ráð fyrir því, að stofnað sé til endurskoðunar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands á þann hátt, að ríkisstj. verði falið að skipa til þess 9 menn samkv. tilnefningu nokkurra aðila, þannig að þingfl. á Alþ. tilnefni 4 nm., sinn manninn hver, þ.e.a.s. ekki meiri hl. n., lagadeild Háskóla Íslands 2 menn, Hæstiréttur 3 menn og 1 þeirra formann n. Alls eru þetta 9 menn. Þetta er um nefndarskipunina og meginverkefnið, sem n. er falið, er samkv. till. að endurskoða stjórnarskrána. En í þessari till. eru sérstaklega tilgreind 8 atriði í stjórnarskránni, sem n. er samkv. till. falið sérstaklega að taka til athugunar, og þó að hv. þm., sem áttu hér sæti í fyrra minnist trúlega þessara atriða og þeirrar grg., sem fylgdi þeim, þá vil ég nú gera grein fyrir þeim og e. t. v. bæta við nokkrum ummælum, sem ekki fylgdu þessu máli í fyrra.

Hið fyrsta efnisatriði, sem í till. er gert ráð fyrir, að n. taki til sérstakrar athugunar, er forsetaembættið, þ.e.a.s. embætti forseta Íslands, hvort fyrirkomulag æðstu stjórnar Íslands sé svo heppileg sem það gæti verið og hvaða skipan hennar mundi vera bezt við hæfi þjóðarinnar. Ég vil strax taka það fram, að þessi atriði yfirleitt, sem hér eru tilgreind í till., þessi efnisatriði, það eru mál, sem kunnugt er um, að hafa verið ofarlega á baugi með þjóðinni. Þarna er yfirleitt ekki neitt, sem mönnum þarf að koma á óvart. Það hafa verið rædd á ýmsum vettvangi öll þessi atriði opinberlega og svo er einnig um þetta, sem varðar æðstu stjórn landsins. Það eru uppi ýmsar till. um þetta embætti og voru raunar, þegar embættið var stofnað um leið og lýðveldið. Sumir hafa talið, að forsetinn ætti að hafa allmikil völd, jafnvel svipað vald og forsætisráðherra eins og gerist sums staðar erlendis. Sumir hafa jafnvel álitið, að lýðveldið þyrfti ekki á neinum forseta eða öðrum þjóðhöfðingja að halda. En sú skoðun varð ofan á við lýðveldisstofnunina, að forsetinn skyldi hafa þá aðstöðu, sem hann hefur nú, svipaða aðstöðu og menn töldu konunginn hafa á sínum tíma.

Hið næsta efnisatriði, sem n. er falið samkv. till., er að fjalla um skiptingu Alþ. í deildir, hvort hún sé ekki úrelt orðin og ein málstofa hentari.. Þegar deildaskipting var upp tekin á löggjafarþingum 19. aldar, var það yfirleitt svo, að d. voru ekki kosnar á sama hátt, sums staðar í annarri d. blönduð kosning og þannig var það hér. Í Ed. sátu í öndverðu 6 konungkjörnir þm. og svo aðrir, sem kjörnir voru af þinginu. Þegar hin konungkjörnu þingsæti voru afnumin, komu svo landskjörnir þm. í Ed., en eftir að landskjörið var fellt úr gildi, hefur Ed. verið kosin í Sþ. eins og hver önnur n. Ýmsum virðist, að grundvöllurinn fyrir deildaskiptingunni sé í rauninni í burtu fallinn, nema því aðeins að menn vilji taka upp tvenns konar kjör til Alþ., eina tegund kjörs til Nd, og aðra tegund kjörs til Ed. Það hefur að vísu verið fært fram sem rök fyrir deildaskiptingunni, að á þennan hátt hlytu mál meiri og betri athugun heldur en ef þingið ynni í einni málstofu, og má vera að nokkuð sé til í þessu. En þá hefur jafnframt verið bent á það, að slíkt öryggi mætti tryggja og ekki minna með sérstakri meðferð á hverju þingmáli umfram það, sem nú tíðkast, t.d. með því, að til staðar væri sérstök þn., sem færi yfir öll mál, eða sérfróðir menn.

Næsta efnisatriði til sérstakrar athugunar samkv. till. er aðgreining löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, en löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald eru hinir 3 meginþættir ríkisvaldsins samkv. kenningu fræðimanna. Það er varpað fram þeirri spurningu hér, hvort ekki sé þörf skýrari ákvæða um þessa greiningu. Ég minnist þess, að í kringum 1950, þegar fyrstu fjórðungssamböndin voru stofnuð og hið svonefnda Stjórnarskrárfélag, sem hvort tveggja hélt uppi umr. um þessi mál, þá var mikið um þetta efni rætt og menn héldu því fram, að þessum þremur þáttum ríkisvaldsins væri meira blandað saman í framkvæmd en æskilegt væri, Ég ætla ekki að hætta mér langt út í fræðiefni í þessu sambandi, en ég minnist þess, að í framsöguræðu í fyrra var m.a. á það bent, að eftir hverjar kosningar tæki Alþ. sér fyrir hendur að kveða upp dóm eða úrskurð, að vísu löglegan samkv. stjórnarskránni, en úrskurð, sem í raun og veru ætti að heyra undir dómstóla, þ.e.a.s. úrskurð um gildi kjörbréfanna.

Það tíðkast sums staðar, að þeir, sem fara með framkvæmdavaldið, vinni ekki að sjálfu löggjafarstarfinu á þingi. Eiga þess jafnvel ekki kost að sitja á þingfundum, nema sérstaklega standi á, og eru ekki þingfulltrúar. Sumir halda því fram, að þetta sé ekki aðeins heppilegt fyrir embættisframkvæmdir, heldur geri það einnig þjóðþingið sjálfstæðara gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég hef fyrir mitt leyti tilhneigingu til að álíta, að þetta sé hvort tveggja rétt í sjálfu sér, hvort sem reynslan leiðir í ljós eða hin nánari athugun, að það henti hér í okkar fámenna ríki. Ég held, að það verði varla um það deilt, þegar málið er íhugað niður í kjölinn, að það séu því fylgjandi töluverðir ókostir, að einstakir þm. fari með mikilsvert framkvæmdavald, án þess að ég útskýri það nánar, hvers konar framkvæmdavald ég á við. Einnig held ég, að það hafi mikið til síns máls, að Alþ. mundi vinna á annan hátt og verða sjálfstæðara í starfi, ef ekki væru öllum þessum störfum stýrt af forustumönnum meiri hl. á þingi, sem sæti á í ríkisstj. Ég segi það án tillits til þess, hverjir fara með völd á hverjum tíma.

Hið næsta efnisatriði, sem n. er sérstaklega falið, er athugun um þjóðaratkvæði, hvort tiltækilegt sé að setja ákvæði um, hvenær rétt sé og skylt að láta fara fram þjóðaratkvgr. og hvað hún gildi. Alþ. hefur einstaka sinnum ákveðið með ályktun að láta fara fram þjóðaratkvgr. um tiltekin mál. og stundum hafa till. um slíkt komið fram á Alþ. án þess að ná samþykki. Ég hef það fyrir satt, að í stjórnskipunarlögum sumra þjóða séu beinlínis bindandi ákvæði um þjóðaratkvæði og gildi þeirra. Okkar þjóðaratkvgr. hér á Íslandi hafa yfirleitt verið þess eðlis, að þær hafa fremur verið ráðgefandi en bindandi, þó að segja megi, að að jafnaði hafi verið eftir þeim farið. Ég minnist þess, að uppi hafa verið fyrir skömmu sérstakar till. um það hér á þingi, að undirbúa löggjöf um þjóðaratkvæði, en ef slík löggjöf yrði sett, yrði að sjálfsögðu eðlilegt, að hún væri í sjálfum stjórnskipunarlögum landsins.

Næsta efnisatriðið, hið sjötta í röðinni, er kjördæmaskipunin, hvort ekki sé rétt að breyta kjördæmaskipuninni á þá leið, að landinu öllu verði skipt í einmenningskjördæmi, þar sem aðalmenn og varamenn verði kosnir saman óhlutbundnum kosningum, en uppbótarmenn engir. Það fyrirkomulag við alþingiskosningar var í gildi frá öndverðu eftir endurreisn Alþ.,þm. voru kosnir í kjördæmum, og fóru þá saman sýslur og kjördæmi og síðar kaupstaðir. Kjörnir voru ýmist einn eða tveir fulltrúar í hverju kjördæmi og kosning óhlutbundin eftir sama fyrirkomulagi og þá var í gildi í Danmörku, og sama fyrirkomulagið er enn í gildi í engilsaxneskum ríkjum. Þetta breyttist svo, þegar nokkuð var liðið á þessa öld, og urðu þm. í einu kjördæmi fleiri en tveir og þá tekin upp hlutfallskosning, auk þess, sem raunar gerðist áður, að innleidd var hlutfallskosning hinna landskjörnu þm., sex að tölu.

Árið 1934 var svo þessum ákvæðum um kosningar til Alþ. mjög breytt, og var þá í gildi þrenns konar kosning þm.: Kosning í kjördæmum, einn eða tveir þm., kosning í fjölmennasta kjördæminu, Reykjavík, nokkrir þm. kjörnir hlutfallskosningu, og svo að lokum nýmælið, þm. þingflokkanna eða uppbótarmennirnir, sem kallaðir hafa verið, eða landskjörnir þm. á lagamáli.

Árið 1942 var enn gerð breyting á kosningum til Alþ. Þá voru teknar upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum.

Svo leið og beið. N. þær, sem ég nefndi áðan, voru settar á laggir til þess að semja lýðveldisstjórnarskrá, án árangurs. En 1959 var gerð hin síðasta breyting á kosningum til Alþ., þegar landinu var skipt í 8 stór kjördæmi með hlutfallskosningu, en ákvæði um þm. flokkanna jafnframt látin haldast. Ég held, að það sé ekki ofmælt, að þetta fyrirkomulag frá 1959 mælist nokkuð misjafnlega fyrir og að þeir séu nokkuð margir í landinu, fleiri en áður voru, þótt þeir væru raunar margir, sem sjái missmíð á þessu fyrirkomulagi. Því er það, að nú í seinni tíð hefur þeirri skoðun, að mér virðist, vaxið fylgi, að rétt sé að breyta fyrirkomulaginu enn á ný og taka upp óblandað kosningafyrirkomulag, Með því á ég við, að allir þm. verði kjörnir á sama hátt og að þeir verði kjörnir í einmenningskjördæmum, landinu verði skipt í einmenningskjördæmi og kosningarnar fari fram í þeim og hlutfallskosningar og uppbótarsæti flokkanna verði þá um leið úr sögunni. Ég hef m.a. veitt því athygli, að þessi skoðun virðist eiga nokkuð áberandi fylgi að fagna hjá hinum yngri kjósendum um þetta leyti, og ég álít, að það eigi að athuga þennan möguleika mjög gaumgæfilega.

Það er talið nauðsynlegt til framkvæmdar lýðræðinu, að í þjóðþingi séu flokkar og að stjórnmálabaráttan eða stjórnmálastarfsemin sé háð í flokkum, einnig utan þings. Sumar þjóðir eða stjórnendur telja. nóg, að flokkurinn sé einn, en hér og í nágrannalöndunum hafa menn ekki verið sama sinnis. Ef lýðræðið og þingræðið eiga meiri þroska fyrir höndum, verða langlíf í veröldinni, þá finnst mér, að við gætum vel hugsað okkur, að sá tími gæti komið, að hægt væri að komast af án þessara flokka, því að ýmsa ókosti hefur flokkafyrirkomulagið eða flokksræðið, eins og margir nefna það nú á tímum. Vera má, að ég eigi eftir að komast á aðra skoðun, en mér finnst, að það væri á margan hátt miklu heillavænlegra fyrir þjóðina, að stjórnarskráin og löggjöfin yfirleitt hætti aftur að þekkja orðið flokkur, en orðið flokkur var ekki til í stjórnarskránni, svo ég muni, fyrir 1930, og að kjósendurnir greiddu atkvæði um menn, en ekki flokka fyrst og fremst, sem auðvitað þarf ekki að koma í veg fyrir það, að menn skipi sér í flokka eða að flokkur styðji tiltekna frambjóðendur. En eigi að síður er hér um tvennt að ræða, nokkuð ólíkt.

Þó að ég segi það, að vel sé hægt að hugsa sér, að lýðræðið næði þeim þroska, að einhvern tíma væri hægt að komast af án flokka þá er ég ekki að halda því fram. að svo sé nú, og þegar ég segi, að ég teldi það ekki illa farið, þó að íslenzk löggjöf hætti að þekkja orðið stjórnmálaflokkur, hætti að hafa það í sínum fórum, þá er ég ekki þar með að segja, að það þýði, að flokkastarfsemi eða flokkar leggist niður. En mér hefur alltaf fundizt, að með stjórnarskrárbreytingunni frá 1930 hafi flokkahugtakinu verið gert óþarflega hátt undir höfði, og ég er eiginlega orðinn ákveðnari í þeirri skoðun, eftir því sem árin líða.

Fleira skal ég ekki segja um þetta atriði, en hér er sem sagt ætlazt til, að n. fjalli um það, hvort ekki sé rétt að breyta kjördæmaskipuninni á þá leið, að landinu öllu verði skipt í einmenningskjördæmi, þar sem aðalmenn og varamenn verði kosnir saman óhlutbundnum kosningum og uppbótarþm. engir.

En sjöunda atriðið fjallar einmitt um þingflokkana, sem ég var að minnast á áðan, hvort ekki sé þörf lagasetningar um skyldur og réttindi þingflokka, þar sem þeir eiga rétt til uppbótarþingsæta samkv. stjórnarskránni. Nú má náttúrlega segja sem svo, að ef það yrði afleiðingin af endurskoðun þess efnisatriðis, sem nefnt er í 6. tölulið, að uppbótarþingsætin yrðu felld niður, þá þarf auðvitað ekki að nefna uppbótarþingmennina sem rök fyrir því að setja þurfi sérstök stjórnarskrár ákvæði um flokka, þingflokka. En vitanlega er hægt að hugsa sér, að eitthvert af þessum atriðum yrði afgreitt jákvætt, en annað ekki, og er þá eigi að síður þörf á því, að hvort tveggja sé athugað samhliða í þessari n. En það er í sjálfu sér algerlega fráleitt, sem nú stendur í stjórnarskránni og kosningalögunum, að einhverju, sem heitir þingflokkar, séu ætluð hvorki meira né minna en 11 þingsæti á Alþ., og að samt séu engin ákvæði um það í l., hvers konar fyrirbrigði flokkar séu. Þeim er aðeins fenginn þessi réttur, en ekki lagðar á þá skyldur. Ég held, að það séu varla dæmi til þess, þó að oft hafi verið sett lög á Alþ. um félög og samtök, að þetta hafi ekki fylgzt að, skyldur og réttindi. Ég held, að það sé almennt viðurkennt, að réttindum veittum með lögum, eigi að fylgja skyldur ákveðnar með lögum. Það er vitanlega sitt af hverju, sem kæmi til greina að setja í löggjöf um þingflokka eða flokka, t.d. það í fyrsta lagi, með hverjum hætti stofna skuli flokk og hvað til þess þurfi, að einhver samtök geti kallazt flokkur félagslega séð. Mér er sagt, að í sumum löndum séu lagaákvæði um fjármál flokka. Og ef þingflokkar eiga að hafa svo og svo mikið að segja um framboð t.d., er náttúrlega ekki óeðlilegt, að eitthvað standi um það í lögum, hvernig þeir skuli þá bera sig að því að framkvæma þetta, þannig að löglegt sé.

Þá kem ég loks að síðasta atriðinu í till., síðasta ábendingaratriðinu, og það er ný skipting landsins í samtakaheildir, hvort ekki sé æskilegt að taka inn í stjórnarskrána ákvæði um skiptingu landsins í fylki eða aðrar nýjar samtakaheildir, sem hafi sjálfstjórn í sérmálum, enda leiti n. um þetta álits sýslunefnda, bæjarstjórna, borgarstjórnar Reykjavíkur, fjórðungssambanda og Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta, sem hér er rætt um, skipting landsins í fylki með sjálfstjórn í sérmálum, er mál, sem oftar en einu sinni hefur verið rætt sérstaklega hér á Alþ. Það hafa legið fyrir Alþ. till. um þetta efni. Slík till. liggur ekki fyrir þessu þingi, og er ástæðan sú, að hér í þessari þáltill. um endurskoðun stjórnarskrárinnar er m. a. um sama efni fjallað.

Hugmyndin um skiptingu landsins í fylki með sjálfstjórn í sérmálum er upprunnin að ég ætla fyrir 15—20 árum eða svo á fjórðungsþingunum eða í fjórðungssamböndunum norðanlands og austan. Og ég held, að fyrir þessu sé mjög mikill áhugi í þessum landshlutum og víðar. Ég held, að svona fyrirkomulag, að skipta landinu í nokkuð sjálfstæðar heildir, sem þó lytu lögsögu ríkisvaldsins, væri mjög þýðingarmikil aðgerð í þá átt að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar, og ég veit ekki, hvort við getum gert nokkuð áhrifameira í þá átt. Ég hefði gjarnan viljað ræða meira um þetta atriði, en vegna þess, að hér er um fleira fjallað og af því að þetta hefur verið svo mikið rætt á þingi fyrr, ætla ég ekki að gera það nú.

Eins og ég tók fram í öndverðu, er þessi till. á þskj. 402 nú endurflutt á Alþ. Hún er um það fyrst og fremst, að komið verði á fót enn einni n. til þess að reyna að koma því í framkvæmd, að lýðveldisstjórnarskráin, sem heitið var fyrir aldarfjórðungi, verði sett. Og hún er um það, að n. verði til á þann sérstaka hátt, dálítið frábrugðinn sumu því, sem áður hefur gerzt í þessum málum, að Alþ. sjálft hafi þar ekki meiri hl., ekki þingflokkarnir, heldur stofnanir, sem við treystum vel á þessu sviði og ekki öðrum betur til þess að gefa ráð. Síðan eru í till., eins og ég nú hef rakið, talin upp nokkur þau atriði og útskýrð nokkuð, sem gert er ráð fyrir og í raun og veru lagt fyrir n., ef till. verður samþ., að athuga sérstaklega. Þessi atriði eru 8 talsins. Ég hef nú gert grein fyrir þeim öllum. Mér kemur ekki til hugar að halda því fram, að þessi upptalning sé tæmandi, það sé ekki fleira, sem kæmi til mála, að n. taki til athugunar og væri jafnvel mjög mikilsvert, að hún tæki til athugunar, jafnvel eins mikils vert og sumt af því, sem hér er nefnt. Það eru hér vitanlega engin höft lögð, en hér eru þau atriði fyrst og fremst nefnd, sem þeim, sem að þessari till. standa, hafa verið hugstæðust í sambandi við endurskoðunina.

Ég leyfi mér að minna á það í þessu sambandi, að í hv. Nd. hefur á þessu þingi verið flutt frv, til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, á þskj. 264. Það frv. hefur þegar verið til umr. í þeirri hv. d. og er nú til meðferðar í n. Þarna er beinlínis gert ráð fyrir lagabreytingum, beinlínis gert ráð fyrir, að Alþ. samþ. breytingar á stjórnarskránni. Ég er nú fyrir mitt leyti þeirrar skoðunar, að það henti ekki á þessu stigi að vinna þannig að málinu, heldur verði málið að hljóta þá endurskoðun að lokum, sem það átti að fá, að við alþm. verðum að koma því til leiðar og bíða með það að ætlast til, að Alþ. samþykki sérstök þmfrv. um stjórnarskrárbreytingar.

Í þessu frv. eru sum þau atriði, sem í till. á þskj. 402 er gert ráð fyrir, að væntanleg stjórnarskrárnefnd athugi sérstaklega, eins og t.d. þjóðaratkvæðið og það, sem hér er kallað ríkisvald og alþjóðlegar stofnanir. En eitt atriði, sem nefnt er sérstaklega í till. minni, er þar undir fyrirsögninni „Samskipti við önnur ríki“, nauðsyn ákvæða, er marki rétt ríkisstj. og Alþ. til samninga við aðrar þjóðir. En einnig eru í þessu frv. önnur atriði, sem ekki eru nefnd sérstaklega í till. á þskj. 402, en ég teldi sjálfsagt, að sú n., sem kosin yrði á Alþ., tæki einnig til athugunar og reyndi að komast að niðurstöðu um.

Ég skal svo ljúka máli mínu um þessa till. Ég vi1 leyfa mér að leggja til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.