18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. 1. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef einstaka sinnum varað ríkisstj. við að gera vissa hluti, og ég vil vara hana við að knýja þetta frv. fram án allra breytinga. Þar er hún að fremja meiri yfirsjón en hún gerir sjálfri sér grein fyrir.

Í þessu landi hafa ríkt tvö sjónarmið. Ég vil kalla þau bankasjónarmið og sjónarmið fólksins. Það hefur verið bankasjónarmiðið, sem hefur ráðið fjárhagnum s.l. 8 ár og hvernig lítur þá árangurinn út? Bankarnir eru gersamlega félausir. Það er alveg sama, þó að komið sé inn í banka. Það er enginn eyrir til. Það er ekki hægt að lána mönnum 5 þús. kr. víxil, hvað þá heldur meira, engin fyrirgreiðsla, hvorki fyrir einstaklinga eða atvinnufyrirtæki. Það er enginn gjaldeyrissjóður til, þó að alls staðar væri verið að kría saman í hann. Morgunblaðið er alveg hætt að minnast á hann, því að það vita allir, að það eru meiri lausaskuldir erlendis eða jafnmiklar a.m.k. eins og til er í gjaldeyrissjóði, þannig að raunveruleg gjaldeyriseign er engin til. Og ef svo gengur, sem horfir, verður ekki langt að bíða þess, að farið verði að neita mönnum um yfirfærslur fyrir nauðsynlegum hlutum, nema Ameríkumenn hlaupi undir baggann og láni, enda er víst byrjað að fá einhver lán þannig. Vextirnir voru hækkaðir. Atvinnuvegirnir hafa stunið undir okurvöxtum allan þennan tíma. Árangurinn er sá, að hjá aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, og raunar má segja iðnaðinum líka, er um fullkomin greiðsluvandræði að ræða. Sköttum hefur verið hlaðið á atvinnuvegina, einkum sjávarútveginn, sem hefur gert það ógerlegt að reka sjávarútveginn hallalausan, jafnvel í hagstæðum árum, eins og verður raunar að telja árið 1966. Það er því ljóst, að ef eitthvað á að laga, verður að snúa við.

Á þessu frv. voru gerðar ýmsar breytingar í Ed. Mest voru það orðalagsbreytingar. F-liðurinn var reyndar felldur niður, sem varð þess valdandi, að það á ekki að létta gjöldum af ríkissjóði, rúmum 60 millj. Raunar hefði ég verið mjög hlynntur því, að þetta hefði verið gert, ef þessu hefði verið varið á réttan hátt, þessum 60 millj., sem það veldur ríkissjóði auknum útgjöldum, að sá liður er felldur niður. En það var ekki gert, það á bara að leggja það í banka. Við vitum það ósköp vel, að þessi gengishagnaður, sem tekinn er af sjávarútveginum og gert er ráð fyrir, að verði 400 millj., en verður sjálfsagt mikið á 5. hundrað millj., hann er ekkert annað en ávöxtur af vinnu fólksins, sem unnið hefur við þetta og þeim tækjum, sem til þess eru notuð. Og hann er þess vegna eign þessa fólks. Það er ráðgert að til að fullnægja ákvæðum 1. gr. frv. fari allt að 93 millj., þar með talin útflutningsgjöld, svo að það er ekki nema um 70–80 millj., sem ganga til útvegsins sjálfs samkv. 1. gr. Út á það skal ég ekki setja, en þó vil ég benda á það, að 1. liðinn álít ég vera mjög erfitt að framkvæma. Að borga öllum aðilum í landinu aukinn rekstrarkostnað vegna gengisbreytingarinnar, svo að það sé réttlátt, er óvinnandi verk og væri mikið réttara að fella þann lið niður og verja fénu á annan hagkvæmari og auðveldari hátt til þessara aðila, t.d. með því að aðstoða fiskvinnslustöðvar og skipin við að greiða vexti af skuldum sínum í ár. Það eru því þarna á 4. hundrað millj., sem teknar eru af þessum atvinnuvegi. Það þýðir 8%, sem tekið er af fólkinu, sem vinnur við þennan atvinnuveg og þeim aðilum, sem leggja til tæki og eignir í fiskvinnslustöðvar. Þetta er staðreynd. Þetta jafngildir 8% af tekjum atvinnuvegarins, ef við reiknum útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Nú vil ég bara spyrja, vilja ekki iðnaðarmennirnir ganga að því, að það séu tekin 8% af launum þeirra og atvinnurekendur í þeirra stétt, að það séu tekin 8% af tekjum þeirra og lagt í einhvern banka, segjum, að það færi allt í Iðnaðarbankann, og sagt, að þetta kæmi þeim til góða, væri alveg sama fyrir þá. Viljið þið ekki taka 8% af landbúnaðarvörunum og leggja í Búnaðarbankann, alveg hliðstætt. Ríkið á Búnaðarbankann alveg eins og fiskveiðasjóðinn. Ríkið á fiskveiðasjóðinn, en ekki við. Viljið þið ekki taka 8% af tekjum bændanna og leggja það í Búnaðarbankann og segja svo við bændurna: Ykkur má vera alveg sama um þetta. Bankinn á þetta, og þið eigið sama sem bankann, því að þið fáið lán í honum. En það er bara meinið, þeir borga ekki með því, sem bankinn á, og hann lánar ekki vaxtalaust og lánar raunar ekki neitt. Annars er það nú skoplegast við þetta bankakerfi okkar, að þó að það sé ekki eyrir til að lána, eru byggðar hallir úti um allt land, sem kosta sennilega tugi milljóna og hér í Reykjavík líka, þannig að það er hægt að leigja húsnæði í stórum stíl. En ef á að fá lán, eru engir peningar til. Þannig er nú bankastefnan í framkvæmd. Viljið þið ekki bjóða þessum stéttum upp á það að taka 8% af tekjunum þeirra og leggja í einhvern banka, sem ríkið á, og segja: Þessu er varið í þágu ykkar, allt í lagi. Það er raunar það, sem hefur verið iðkað öll þessi 8 ár, að skattleggja atvinnuvegina til þess að geta lánað þeim eitthvað. Við höfum aldrei talið eftir framlag til fiskveiðasjóðs. Við vitum, að það er nauðsynlegt. Ég hef aldrei gert hávaða út af framlaginu til Búnaðarbankans. Ég veit, að það er nauðsynlegt. En hitt er svo annað mál, að þetta þarf allt að vera í hófi. Nú er ástæða útvegsins þannig, ég hef aldrei verið að mála púka á vegginn og ætla ekki að gera það í þetta sinn heldur, en ég get sagt ykkur, hvernig ástæðurnar eru. Það eru 80–90 millj., sem skipaflotinn þarf að borga í vexti í fiskveiðasjóð. Það er búið að borga 13 millj., og litlar líkur eru til, að það komi miklar viðbótargreiðslur. Af ámóta háum afborgunum er búið að borga 7 millj. Það er búið að borga ca. 10%.

Það er nú þannig með veiðarfærin, það sagði mér einn aðili, sem verzlar með veiðarfæri hér í bænum, að 10 millj. liggja í gjaldföllnum víxlum, sem veiðarfæri hafa verið keypt fyrir, það líður að því, að stórar upphæðir fari að gjaldfalla, þannig að þessir menn eru að verða óreiðumenn við erlend firmu og þar með má búast við, að við sætum verri kjörum í veiðarfærakaupum, ef viðkomandi aðilar missa ekki hreinlega umboðið. Og þetta gera menn ekki að gamni sínu. Þeir eru stimplaðir vanskilamenn í bönkunum, ef þeir geta ekki staðið í skilum með yfirfærslum á erlendum víxlum, því að það hefur verið þannig með veiðarfærin, sérstaklega næturnar, að þær eru lánaðar til 1 1/2 árs, og víxlana hefur átt að borga, þegar þeir féllu. Nú geta menn það ekki. Þetta er ástandið. Það eru nær allir vextir ógreiddir, svo að segja allar afborganir og veiðarfæravíxlarnir eru að falla og ekki hægt að borga þá og þegar fallnir, svo að tugum millj. skiptir sennilega í heildina. Og svo í ofanálag á að taka allar þessar tekjur, sem sjávarútvegurinn í raun og veru á, af sjávarútveginum og sagt er bara: Þetta er allt gert í ykkar þágu. Við viðurkennum, að fiskveiðasjóður þarf að fá fé. Ef útgerðarmenn geta ekki borgað vexti og afborganir, þá þarf hann að fá sem því nemur, sem mun láta nærri, að sé í heild 200 millj. kr. Við viðurkennum það. Við vitum líka, að það er ekki hægt að selja skipaflotann, því að það á enginn maður peninga. Það er hægt að selja einhverjum skipin, en þeir borga bara ekki neitt. Og það eru litlar líkur til, þó að það yrði farið að ganga að skipunum í tugatali, að þau kæmust í hendur manna, sem væru mikið betri. Það getur verið réttlætanlegt og eðlilegt, bæði í bændastétt og raunar í öllum atvinnugreinum og þannig þarf það að vera, að þeim, sem reka sína atvinnuvegi illa, sé ekki haldið við. En það má ekki vera í stórum stíl. En nú eru sem nær allir í greiðsluþroti.

Gengið var fellt, en það hefur ekki rýmkazt um fjárhaginn við það. Allar tekjur, sem sjávarútvegurinn gat átt von á vegna gengislækkunarinnar í bili, á að taka af honum og leggja í banka, sem ríkið á. Ágreiningurinn stendur fyrst og fremst um þetta. Á fiskveiðasjóður að taka þetta fé af útveginum fyrir ekki neitt eða eigum við að fá einhvern hluta af því til þess að greiða upp í þær skuldir, sem við þurfum að greiða? Og þá eiga sjómenn rétt á því að fá sinn hluta. Ástand sjómannanna er nú þannig í dag, að þeir hafa haft um það bil helmingi minni tekjur en í fyrra. Það er gengið að þeim með opinber gjöld, sem voru mjög há í fyrra, og það er búið að taka mikið af þeim gjöldum af kaupinu þeirra mánaðarlega. Sumir hafa alls ekki getað misst þessa fjármuni, því að það er ekki hægt, — ég get það a.m.k. ekki, — að neita fjölskyldum sjómanna um nauðsynlega peninga til að lifa á. Það lætur enginn sjómann fiska upp á það að svelta hann og hans fjölskyldu eða þótt það sé ekki nema fjölskyldan. Hann verður ekki lengi á skipinu með því móti, þannig að fyrir menn, sem ekki hafa haft nema trygginguna, hefur verið ógerlegt að borga útgjöldin, og það má alveg búast við, að það verði málssóknir út af því, ef gengið verður að útgerðarmönnunum fyrir það, að þeir hafa ekki getað greitt útgjöld þeirra. Jafnvel af mönnum, sem hafa haft mjög háar tekjur í fyrra, hefur verið tekið það mikið upp í útgjöldin nú, að þeir hafa ekki nóg til að sjá heimilum sínum farborða og eru að reyna að fá smávíxla og hér um bil ómögulegt að fá þá. Þetta er nú sannleikur málsins. Þess vegna höldum við því fram, að það megi ekki minna vera en við fáum útgerðarmönnum og sjómönnum og fiskvinnslustöðvum a.m.k. einhvern hluta af því, sem þeim ber með réttu og er í raun og veru þeirra réttmæta eign, að það sé ekki hrifsað allt af bankavaldinu.

Svo er annað. Það er til gjaldeyrissjóður upp á eitthvað 800–900 millj. ytra og ágóðann ætlar Seðlabankinn að hirða. En svo skulda menn fyrir skipin sennilega ámóta stóra upphæð, og það eiga einstaklingarnir allt að borga. Er þetta réttlæti? Það er bankavaldið, sem ræður.

Það er ákaflega hæpin afgreiðsla á svona máli, að brtt., sem skipta mjög miklu máli, ef samþ. verða, séu lagðar fram, þegar fundir eru að byrja. Menn hafa ekki einu sinni tíma til að lesa grg., sem flm. koma með, því síður að ráðgast um það í flokkunum, hvort taka eigi eitthvað af þeim til greina. Auðvitað vitum við, að stjórnarliðið getur fellt þessar till., sem við komum með, en ég öfunda þá ekki af því. Hvað skeður nú, ef útgerðarmönnum er ekki hjálpað til að borga vextina? Hvernig verður það, þegar þeir byrja næsta ár? Óborgaðir allir vextir frá 1967. Og þessi ágæta stjórn hækkaði þá um meira en þriðjung, þegar hún tók við völdum, við fiskveiðasjóðinn. Sjómennirnir algerlega félausir að lausafé a.m.k. Ímyndið þið ykkur, að það verði auðvelt að koma bátaflotanum af stað? En hvað skeður, ef ríkissjóður byrjar að leggja fram fé til þess að hækka fiskverðið og það eru engar líkur til, að það hækki neitt að ráði, fiskverðið til bátanna, fiskvinnslustöðvarnar þurfa að hirða hækkunina, því að þær voru reknar með stórhalla s.l. ár, a.m.k. frystihúsin. Hvað þýðir það? Það þýðir rangt gengi um leið, og það sagði greindur sjálfstæðismaður við mig í dag, sem var kunnugur útvegsmálunum. Ef þetta frv. er samþ. og útvegsmenn fá enga aðstoð til þess að létta af vaxtagreiðslum við fiskveiðasjóðinn eða afborgunum eða hjálp á einhvern hátt, er gengið orðið rangt skráð um leið og búið er að samþykkja þetta frv. Þá situr ríkisstj. alveg í sama farinu með rangt gengi, með enn meiri rekstrarfjárskort en var, því að það þarf 30% fleiri kr. til þess að reka fyrirtækin eftir gengisbreytinguna en áður, a.m.k. þegar hún er búin að hafa sínar verkanir. Hvernig verður sú lausn þá? Aftur að fella gengið? Nei, ef ríkisstj. vill nú gera eitthvað af viti, — ég ætla að ráða henni alveg heilt, þó að ég hafi enga von um, að hún fari eftir því, — ef hún vill gera eitthvað af viti, hjálpar hún útvegsmönnum nú, þannig að þeir geti staðið sæmilega í skilum.

Ég er búinn að ræða þetta mál við þann mann, sem annast þetta mest í fiskveiðasjóði, og ég veit, að hann gerir sér það alveg ljóst, að það hættulegasta fyrir lánsstofnun er það, ef sú skoðun kemst inn hjá viðskiptamönnum eða skuldunautunum, að það sé algerlega þýðingarlaust að reyna að borga. Það má aldrei gera þeim mönnum, sem reka fyrirtækin, það erfitt fyrir, að þeir verði vonlausir með að geta staðið í skilum. Þá týna þeir hinu viðskiptalega siðgæði. Og þannig hugsa útvegsmenn í dag: Við reynum bara ekki að borga fiskveiðasjóði. Þá getur fiskveiðasjóður valið um þetta, stjórnin og þm.: Viljið þið hafa það þannig að taka þetta af útvegsmönnum og sjómönnum, sem þeir að réttu lagi eiga og fiskvinnslustöðvum, taka það af þeim og gefa fiskveiðasjóði og láta alla hætta að borga. Útvegsmenn vita ósköp vel, að það er ekki hægt að selja flotann, því að það kaupir hann enginn og því síður, að hægt sé að reka hann.

Þetta getur ríkisstj. gert upp við sig. Við, sem í minni hl. erum, getum ekki betur gert en sagt henni sannleikann. Og ef hún vill gera eitthvað af viti í útvegsmálunum, þá á hún nú að hjálpa verulega til, hún á að láta sjómennina hafa vissan skerf. Við biðjum ekki um eins mikið og þeir eiga. Við biðjum um 40 millj. handa þeim. Og það eru svona tæpar 20 þús. á sjómann. Við ætlumst til þess, að því sé jafnt skipt, þannig að hásetar fái jafnt og yfirmennirnir og það gangi fyrst og fremst upp í það að létta undir með þeim að greiða opinber gjöld, sem hvíla mjög þungt á þeim, tilfinnanlega, en ef þeir eru búnir að borga þau, þá fá þeir þetta greitt.

Og við álítum afar auðvelt að sjá um dreifingu á þessu fyrir aflatryggingasjóð, vegna þess að miðað sé við skráða menn á skipi. Þá ætti það að vera auðvelt. Þetta er ekki eins mikið og þeir raunverulega eiga.

Við biðjum um 80 millj. til þess að létta undir með útvegsmönnum að standa í skilum með vaxtagreiðslur til fiskveiðasjóðs og fiskimálasjóðs, og það er ekki nema 2/3 hlutar af vöxtunum. Ef búið væri að hjálpa mönnum að borga þennan hluta, færu þeir að reyna að borga þá alla, ef þeir mögulega gætu, það er ég sannfærður um.

Við leggjum til, að varið verði 80 millj. til þess að létta undir með fiskveiðasjóði við greiðslu á þeirri hækkun, sem orðið hefur á erlendum skuldum vegna skipa, af þeim lánum, sem hann skuldar erlendis, en við leggjum jafnhliða til, að helmingur af því verði óafturkræfur hjá þeim, sem greitt er fyrir. Við álítum, að það hefði verið öllu hagkvæmara að smíða skip erlendis en innanlands og sé þess vegna ekki með öllu ósanngjarnt, að viðkomandi aðilar borgi einhvern hluta af þessu, en ósanngjarnt að láta þá taka það allt á sig. Þetta er í aðalatriðum okkar till., sem ég vona, að þið lítið nú yfir, áður en þið greiðið atkv.

Ef ríkisstj. vill gera einhverja tilraun til þess að vernda gengið, þá verður hún að gera þetta alveg upp við sig. Það verður að létta svo sköttum af sjávarútveginum, að hægt sé að reka hann aðstoðarlaust og það er ekki hægt nema að létta öllum þeim sköttum af honum, sem hægt er. Ég á ekki þar við tryggingagjöldin, ég hef aldrei verið að finna að því, þó að þau væru borguð gegnum útflutningsgjöldin, en ég vil benda á það, að í 8 ár hafa menn verið látnir greiða söluskatt af tryggingagjöldunum, 71/2% nú, og þeim mun meira tjóni sem við verðum fyrir, þeim mun hærri verða tryggingagjöldin og þeim mun hærri söluskatturinn, sem verið er að greiða, þannig að maður verður að greiða söluskatt af töpunum.

Ég hef nú, ásamt Jóni Skaftasyni, lagt fram frv., sem felur það í sér, að þetta sé afnumið, og ég hef heimildir fyrir því, að þetta þekkist hvergi hér í nágrannalöndum okkar, svona skattlagning. Þetta hleður utan á sig eins og snjókúla, svo að þegar iðgjöldin hækka, — það er þannig a.m.k. gegnum stærri tryggingafélögin, ég skal ekki segja um samábyrgðina, — þá verðum við að borga hærri tryggingagjöld, þannig að þeir bátar, sem orðið hafa fyrir miklu tjóni, þurfa að borga allt að því tvöfaldar tryggingar, og ofan á það þurfa þeir að borga 71/2 % söluskatt, þannig að út- gerðarmennirnir, sem þurfa að greiða þetta, stórskulda í tryggingunum og tryggingarnar eru svo gersamlega fjárvana, að það er útilokað að fá neinar tjónabætur greiddar.

Við leggjum því til og erum sammála um það, að það verði að hjálpa þeim um 80 millj. og er sennilega of lítið, en það er þó dálítil úrbót í bili, og við erum þar sammála meiri hl. n. En það er ekki eins og við fáum þetta. Það er búið að plokka þetta í fáránlegum sköttum. Ríkið er búið að hirða þessar 80 millj. í söluskatt af tryggingafélögunum á undanförnum árum og meira til. Þetta er bara til að bæta úr fáránlegri löggjöf, en það er ekki verið að borga þetta til útvegsmanna, löggjöf, sem er ekki brú af viti í og á engar hliðstæður.

Ef ríkisstj. vill reyna að reka sjávarútveginn án þess að gefa með honum eða án þess að skapa nýja gengisfellingu réttara sagt, verður hún að lækka alla þá skatta, sem hún getur á sjávarútveginum, eins og launaskatt og ótal fleiri skatta. Ég taldi hér upp 25 skatta í fyrra, sem hvíla á útveginum, sjálfsagt mætti afnema helminginn af þeim. Svo er óhjákvæmilegt að lækka vexti. Vextirnir af stofnlánunum verða að lækka með einhverju móti. Ég get vel gengið inn á það, að þá yrði að taka að einhverju leyti í gegnum útflutninginn, en það er ekki hægt að hafa þá svona háa, jafnvel þó sú leið væri farin að taka þá þannig. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að til þess að sjávarútvegurinn geti borið sig, og það er hagur allrar þjóðarinnar, að hann geri það, verður miskunnarlaust að ganga að því að hlífa honum við þeim útgjöldum, sem hægt er að komast hjá að leggja á hann, og hafa skaplega vexti af stofnlánunum. Auk þess verður að leggja kapp á skynsamlega fjárfestingu.

Það er lagt til í þessu frv. hjá ríkisstj. að láta 1/4 af þessu fé ganga til svokallaðrar hagræðingar. Haldið þið, að útgerðarmenn eða fiskimenn vinni mikið við það? Hver verður þessi hagræðing? Þetta fé fer að mestu leyti til að borga fyrir gjaldþrota fyrirtæki, sem ríkisábyrgðasjóður mundi annars verða að greiða fyrir að meira eða minna leyti. Það mun ekki fara í það að auka vinnutækni í frystihúsunum nema að mjög takmörkuðu leyti, það þarf enginn að segja mér það.

Svo er gert ráð fyrir því í 2. gr. að leggja í verðjöfnunarsjóð allt að 1/4. Finnst ykkur sanngjarnt að taka í verðjöfnunarsjóð af útfluttum sjávarafurðum í svo slæmu ári, að það þarf tugi ára að fara aftur í tímann til að finna hliðstæðu? Í verðjöfnunarsjóð á vitanlega ekki að taka, nema verðið sé yfir meðallagi, en ekki að taka það í ári eins og nú. Við leggjum því til í minni hl., að þeim lið sé sleppt, og það er eini liðurinn, sem við leggjum til, að sleppt sé af því, sem er í frv., en við leggjum til, og við leggjum höfuðáherzlu á það, að útvegsmönnum og fiskvinnslustöðvum sé hjálpað til þess að greiða sem svarar allt að 2/3 af vöxtunum í ár. Við leggjum til, að sjómönnum séu bættar dálítið upp þær litlu tekjur, sem þeir hafa í ár, af því að við vitum, að fjöldi þeirra er í algjöru greiðsluþroti og þetta er í raun og veru fé, sem þeir eiga, og það er ekki sæmandi fyrir þá þjóð, sem lifir nær eingöngu á sjávarútvegi, að láta þessa menn vera hálfgerða bónbjargarmenn fjárhagslega. Þeir eiga það ekki skilið.

Í þriðja lagi leggjum við til, að létt sé undir með þeim, sem skulda erlendis fyrir skip. Þetta eru aðalatriðin.

En í framtíðinni er höfuðatriðið þetta: Útgerðin mun ekki bera sig, nema létt sé af henni sköttum eins og hægt er og vextir af stofnlánunum séu lækkaðir. Ég hygg, að ríkisstj. ætti að vera búin að fá nægilega reynslu af því, að hér hafa ekki ráðið bót á neinu þeir háu vextir, sem hér hafa verið ráðandi síðan hún tók við völdum, eftirlitsleysi með fjárfestingu og geysilegur skortur á lánsfé, sem á eftir að aukast verulega.0298