13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (2985)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er gengið til móts við það sjónarmið, sem á vaxandi fylgi að fagna meðal stjórnmálamanna og ríkisstjórna í fjölmörgum löndum heims, að deiluefni styrjaldaraðila í Víetnam verði einungis leyst með friðsamlegum hætti eða við samningaborð. Þessi skoðun er ríkjandi meðal margra fremstu stjórnmálaforingja vestrænna lýðræðisþjóða, enda hafa margar ríkisstjórnir í hinum vestræna heimi kveðið upp úr með það, að Víetnam-deilan verði aldrei leyst með styrjaldaraðgerðum, heldur með samningum einum saman. Meðal þeirra ríkja, sem opinberlega hafa stutt þennan málstað eða þessa skoðun, eru nágrannalönd okkar, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland, og einnig, svo að nefnd séu vestræn lýðræðislönd, Holland, Frakkland og Kanada. Með samþ. þeirrar þáltill., sem hér er fram borin, yrði ekki um villzt, hver hugur íslenzku þjóðarinnar er í þessu máli. Með samþ. till. er ekki verið að skuldbinda þjóðina á óþarfan hátt eða ríða henni óleysanlega hnúta, heldur einungis verið að taka undir góðan málstað og skynsamlega skoðun, sem réttsýnir og frjálslyndir stjórnmálamenn meðal fremstu lýðræðis- og menningarþjóða hins vestræna heims hafa mótað og flutt á alþjóðavettvangi.

Auk þess sem með till. er lögð áherzla á tilgangsleysi styrjaldarinnar til þess að knýja fram lausn í Víetnam-deilunni, er bent á þá hættu, sem heimsfriðnum getur stafað af áframhaldandi vopnaviðskiptum í landinu, þeirri hættu, að styrjöldin breiðist út og verði til þess að kveikja alheimsófriðarbál. Einnig kemur skýrt fram í till., að áframhaldandi styrjaldarrekstur, sem staðið hefur með litlum hléum í 28 ár, auki sífellt á langvarandi hörmungar víetnömsku þjóðarinnar, og þessi langa styrjöld er einmitt ein aðalástæðan til þess, hversu mjög menn láta sig varða stríð og frið í þessu fjarlæga landi. Beinar mannúðarástæður hljóta að mega sín mikils í skoðanamyndun um þetta mál.

Eins og fram kemur í grg. fyrir till., er hún í aðalatriðum sniðin eftir ályktun hollenzka þingsins frá því í ágúst í sumar og er auk þess mjög í samræmi við skoðanir U Thants framkvstj. Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er a.m.k. eitt og hið sama, að fá deiluaðila til að setjast að samningaborði án fyrir fram yfirlýstra úrslitaskilyrða. Í því sambandi telja flestir það vera grundvallaratriði, að Bandaríkjamenn stöðvi loftárásir á Norður-Víetnam og viðurkenni Víet Cong eða þjóðfrelsishreyfinguna í Suður-Víetnam sem sjálfstæðan samningsaðila. Og að sjálfsögðu verður þjóðfrelsishreyfingin og stjórn Norður-Víetnams að sýna samningsvilja sinn í verki, bæði með því að draga úr hernaðaraðgerðum og með því að setjast að samningaborði án ögrandi skilyrða löngu fyrir fram. Það má vera að ýmsum þyki það bera keim af nokkurri bjartsýni, að hægt sé að knýja deiluaðila að samningaborði, án þess að þeir opinberi skilyrði sín fyrir samningum fyrir fram. Mér getur ekki dulizt fremur en öðrum, að hér er vandi á höndum. Þrátt fyrir langt og harðvítugt stríð og þrátt fyrir þá staðreynd, að styrjöldin getur engan vanda leyst, þá er engin vissa fyrir því, að komið sé að endalokum styrjaldarinnar. Hvorugur aðili virðist með vissu kominn að því marki að sigra í styrjöldinni eða knýja andstæðing sinn til uppgjafar. Styrjöldin getur þess vegna haldið lengi áfram enn. Meðalganga þriðja aðila, sem beita vill sér fyrir friði, getur því ekki byggzt á því að sannfæra annan hvorn styrjaldaraðilann um það, að hann sé að tapa stríðinu, og sé því sæmst að setjast að samningaborði. Slíkt tal er næsta ósannfærandi og líklega einskis nýtt. Það, sem gera á, er að leiða styrjaldaraðilum fyrir sjónir, að tilgangslaust og ómannúðlegt sé að berjast til úrslita og þeir eigi þann kost sæmstan að lúta heiðarlegri meðalgöngu um styrjaldarlok, m.ö.o. þeir eigi að lúta samningum og sáttagerð, sem þriðji aðili er fær um að móta. Þess vegna er nauðsynlegt, að sáttamenn í þessari deilu verði valdir þannig, að þeir njóti trausts beggja deiluaðila.

Engum getur dulizt, að hér er um vandasamt og viðkvæmt mál að ræða. En fyrir fram verður ekki sagt, að þetta sé óvinnandi verk, og það er a.m.k. ómaksins vert að stuðla að slíkri málsmeðferð. Þó að ég telji ekki síður mikils um vert að fá Norður-Víetnamstjórn, Sovétmenn, Kínverja og þjóðfrelsishreyfinguna í Suður-Víetnam til þess að fallast á skilyrðislaust vopnahlé og samningaviðræður, dyl ég ekki þá skoðun mína, að vestrænar þjóðir, eins og við, eiga fyrst og fremst að beina áhrifum sínum í þá átt að fá Bandaríkjastjórn til þess að sætta eig við úrskurð nýrrar friðarráðstefnu um Víetnam.

Herra forseti, Ég hef farið mjög almennum orðum um efni og tilgang þessarar till. Að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um hana fleiri orð, enda treysti ég því, að Alþ. og hæstv. ríkisstj. taki hana til velviljaðrar athugunar. Vel má vera, að orðalagi till. megi breyta í einhverju eða bæta við hana efnisatriðum, og er það til athugunar fyrir þá n., sem fær hana til meðferðar. Ég hygg, að þetta mál eigi að ganga til allshn., og mun því leggja til, að svo verði gert, eftir að umr. um hana lýkur nú.