13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (2987)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Um það verður ekki deilt, að styrjöldin í Víetnam er mikill harmleikur, sem hefur í för með sér ógæfu fyrir þjóð þessa fjarlæga lands. Sú staðreynd verður ekki sniðgengin, þrátt fyrir það að menn greini á um, hver beri meginábyrgðina á þeim þjáningum, sem fólk þessa ógæfusama lands hefur orðið að þola. Um það skal ég ekki fjölyrða. Á það verður þó að benda, að á Genfar-ráðstefnunni 1954 var vopnahlé gert í Víetnam. Á þessari ráðstefnu var samið um það, að Víetnam skyldi skipt í tvennt um 17. breiddargráðuna, í Norður- og SuðurVíetnam. Norður-Víetnam varð áhrifasvæði kommúnistastjórnar undir foru tu Ho Chi Minhs, en Suður-Víetnam varð áhrifasvæði andstæðinga kommúnista. Báðir aðilar skuldbundu sig til að flytja herlið sitt á brott frá yfirráðasvæðum hins. Íbúum Víetnams var gefið tækifæri til þess að velja á milli búsetu í Suður- og Norður-Víetnam. Varð afleiðing þessa valfrelsis sú, að á árunum 1954—1955 fluttu a.m.k. 850 þús. manns frá Norður-Víetnam til Suður-Víetnams. Aðeins 100 þús. manns, aðallega hermenn, sem barizt höfðu undir stjórn kommúnista fluttu frá suðurhluta landsins til norðurhlutans. Gefa þessar tölur nokkra hugmynd um afstöðu fólksins í Víetnam til stjórnarinnar í Hanoi á þessum tíma.

Í samþykktum Genfar-ráðstefnunnar var gert ráð fyrir, að 17. breiddargráðan yrði bráðabirgðalandamæri milli fyrrgreindra landshluta. Viðurkennt var sjálfstæði Víetnams í heild og réttur fólksins þar til þess að njóta frelsis og lýðræðislegra stjórnarhátta á grundvelli frjálsra og leynilegra kosninga í landinu öllu. En hvert varð svo framhald af samþykktum Genfar-ráðstefnunnar 1954?

Kommúnistastjórnin í Norður-Víetnam flutti nokkurn hluta af herliði sínu frá Suður-Víetnam, eins og samið hafði verið um. En hún skildi engu að síður verulegan hluta liðsafla síns eftir í Suður-Víetnam. Þetta lið varð síðan kjarninn í hreyfingu Víet Cong í landinu. Þéttriðið net af flugumönnum kommúnista var ofið í Suður-Víetnam. Þetta lið hóf þegar virka andstöðu við stjórnina í Saigon. Augljóst er, að kommúnistar undir forustu Ho Chi Minhs höfðu gert ráð fyrir því að geta náið skjótum undirtökum í Suður-Víetnam. Þess vegna féllust þeir á vopnahléið 1954. En þegar þeir sáu, að tök þeirra voru ekki eins sterk og þeir höfðu haldið, þóttust þeir illa sviknir. Víet Cong tók nú að færa sig upp á skaftið. Átökin hörðnuðu stöðugt og urðu að blóðugum hermdarverkum. Ekkert samkomulag náðist um frjálsar kosningar í öllu landinu, eins og Genfar-ráðstefnan hafði gert ráð fyrir. Með vaxandi þunga í sókn kommúnista óskaði stjórn Suður-Víetnams aukins stuðnings Bandaríkjanna og fékk hann. Fyrr en varði var styrjöldin í Víetnam orðin að stórstyrjöld, sem leiddi ómælanlegar hörmungar yfir þjóð Víetnams í suðri og norðri. Sovétríkin tóku nú einnig að veita kommúnistastjórninni í Hanoi öflugan stuðning með vopnasendingum í stórum stíl.

Ég skal ekki rekja sögu átakanna í Víetnam frekar. En af tilefni þeirrar till., sem hér 1iggur fyrir, vil ég segja það, að vitanlega er æskilegt, að lýðræðissinnaðar og friðelskandi þjóðir um heim allan beiti áhrifum sínum til þess að koma á friði í Víetnam. Hins vegar hlýtur aðild kommúnista að flutningi þessarar till, að vekja nokkra tortryggni. Má raunar segja, að það sæti nokkurri furðu, að þm. Framsfl. skuli hefja einhliða samstarf við kommúnista um tillögugerð um afstöðu Íslands til utanríkis- og öryggismála. Það hefur verið gæfa íslenzku þjóðarinnar síðustu áratugi, að allir lýðræðisflokkar hennar hafa staðið saman um mörkun íslenzkrar utanríkisstefnu. Ber mikla nauðsyn til þess, að slíkt samstarf lýðræðisflokkanna um utanríkismál haldi áfram. hverjir sem sitja í stjórn landsins á hverjum tíma.

Um sjálft efni þessarar till. vil ég segja þetta: Það hlýtur að vera ósk Íslendinga, eins og annarra friðelskandi þjóða, að vopnahlé komist á í Víetnam og deila hinna stríðandi aðila leysist með friðsamlegum hætti. En hinn kaldi og blóðugi veruleiki er sá, að þar geisar nú stórstyrjöld, sem vel getur breiðzt út.

En væri það hyggilegt eða líklegt til þess að hafa heillavænleg áhrif yfirleitt, að þessi litla þjóð færi að blanda sér í stórátök í fjarlægum heimshlutum með opinberum yfirlýsingum? Í þessu sambandi má gjarnan rifja það upp, að Íslendingar vildu ekki segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur, þegar síðari heimsstyrjöldinni var að ljúka, þótt slík stríðsyfirlýsing af okkar hálfu væri gerð að skilyrði fyrir stofnaðild að samtökum Sameinuðu þjóðanna. Lýðræðisflokkarnir hér á Alþ. snerust gegn því, að Ísland færi að lýsa yfir stríði á hendur öðrum þjóðum, þótt til málamynda væri. En ég man ekki betur en hv. þáv. þm. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl, léðu máls á því. Ég leyfi mér einnig að vekja athygli á því, að engar till. voru fluttar hér á Alþ., þegar Norður-Kórea og Sovét-Kína réðust á Suður-Kóreu á sínum tíma.

Niðurstaða mín er því sú, að tillöguflutningur sem þessi sé heldur yfirborðslegur. Það er að vísu sagt, að hollenzka þingið og raunar þjóðþing fleiri þjóða hafi gert svipaðar ályktanir á s.l. ári. En Holland er gamalt Asíuveldi, þótt nýlenduveldi þess sé nú hrunið. Auk þess fer því víðs fjarri, að það þurfi að vera eðlilegt og sjálfsagt, að við Íslendingar höldum okkur til jafns við Hollendinga hvað snertir áhrif í alþjóðastjórnmálum.

Ég treysti fulltrúum Íslands á vettvangi alþjóðastofnana til þess að meta það í samráði við hæstv, ríkisstj., hvernig við Íslendingar getum stutt friðsamlega lausn mála í Víetnam. Að öðru leyti tel ég sjálfsagt, að þessi till. fái þinglega meðferð og athugað verði, hvort hægt sé að gera hana aðgengilegri en hún nú er. En að sjálfsögðu kjósa Íslendingar ekkert frekar en að hinum ógæfusamlegu átökum og harmleik l ljúki í Víetnam.

Þetta vildi ég, að kæmi fram við fyrri hluta umr. um þessa till.