13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (2988)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja hér deilur við hv. 2. þm. Vestf. um stríðið í Víetnam eða upptök þess, orsakir þess ástands, sem nú ríkir þar. En ég vil aðeins benda á eitt atriði, sem sýnir, hversu vel grundaðar eru fullyrðingar hans. Hann tekur sem dæmi, að þegar skipting landsins er ákveðin, bráðabirgðaskipting, — því að í Genfar-samkomulaginu var það eitt helzta ákvæðið, að hún yrði aðeins til bráðabirgða, þessi skipting, það áttu að fara fram kosningar að tveimur árum liðnum, Bandaríkjamenn neituðu að vísu að fallast á þetta samkomulag, — en hv. 2. þm. Vestf. orðaði það svo áðan, að miklir fólksflutningar hefðu átt sér stað, ég man ekki, hvaða tölur hann nefndi, en það var ólíkt hærri tala, sem hafði farið suður yfir þessa landamerkjalínu heldur en norður yfir, og þetta átti að vera til marks um þann hug, sem víetnamska þjóðin bar til stjórnarinnar í Hanoi. Í bók, sem norskur blaðamaður skrifar um stríðið í Víetnam, Victor Vinde, ég hygg; að hann sé sósíaldemókrati, þar nefnir hann þetta atriði og skýrir frá því, að þetta fólk, sem flutti suður, er yfirleitt kaþólskt og flutti fyrir áhrif prestastéttarinnar í landinu, og röksemdin, sem að því var haldið m.a., var sú, að guð væri einnig að flytja suður yfir þessi landamæri. En viðhorf víetnömsku þjóðarinnar til stjórnarinnar í Hanoi, bar sem forsetinn var og er Ho Chi Minh, það kemur fram í fullyrðingu Eisenhowers í ævisögu hans, þar sem hann segir, að ef hefði verið efnt til þessara kosninga, svo sem til stóð, hefðu 80% af Víetnömum kosið Ho Chi Minh sem forseta. Og núna í næstsíðasta hefti tímaritsins Newsweek skrifaði Walter Lippmann um þessi mál. Walter Lippmann er sem kunnugt er einn virtasti sérfræðingur bandarískur í alþjóðamálum. Lesendur Tímans þekkja þann ágæta mann. Tíminn hefur einkarétt til þess að birta skrif hans hér á landi, og vinnur þar með mikið og þarft verk við að kenna Íslendingum að hugsa af viti um alþjóðamál og ekki sízt stríðið í Víetnam. Það færi betur, held ég, að hv. 2, þm. Vestf. læsi a.m.k. þessi skrif Tímans betur. En Walter Lippmann segir í þessari grein, ítrekar þetta, að þessar kosningar, sem til stóðu, vildu hvorki Washington né Saigon fallast á, vegna þess að það hefði tryggt Ho Chi Minh og hans mönnum völdin í landinu. Þetta er sem sé aðeins fyrir hálfum mánuði, sem Walter Lippmann segir þetta.

Ég ætla sem sé ekki frekar að agnúast við þennan háttv, þm. út af þessum málum, en hins vegar hafði ég búið mig undir að flytja hér alllanga ræðu í sambandi við þessa till., sem hér liggur fyrir. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að flytja hana núna eftir ummæli hæstv. utanrrh. hér áðan. Ég stend hér upp aðeins til þess að segja fáein orð. Ég vil ekki láta hjá líða að tjá hæstv. utanrrh. þakkir mínar, innilegar þakkir, fyrir ummæli hans hér áðan. Ég var farinn að óttast það, að von mín um samstöðu, sem um munaði, hér hjá þingflokkunum um þetta mál væri að bregðast. Ég þykist hins vegar sjá núna að hún sé að rætast. Ég efast ekki um það, að þeirri n., sem fær þessa till. til athugunar, muni takast að finna það form á henni og það orðalag, sem allir þingflokkarnir ættu að geta sætt sig við, og ég efast ekki heldur um það, að hún muni hraða svo störfum, að þess verði ekki langt að bíða, að öllum heiminum verði það ljóst, að við Íslendingar ætlum að leggja fram það, sem í okkar valdi stendur, til þess að stöðva harmleikinn í Víetnam. Það er því miður ekki oft, sem þeir hlutir gerast hér á þingi, að maður hafi ástæðu til þess að standa upp og láta í ljós fögnuð sinn yfir meðferð mála. Þær stundir eru því miður ekki margar. En þeim mun dýrmætari eru þær, þegar þær gerast, og ég vis sem sagt ítreka þakkir mínar fyrir það að hafa fengið að lifa eina slíka stund hér í dag.