13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega mál þetta að þessu sinni, ég á sæti í þeirri n., sem fær mál þetta væntanlega til meðferðar. En út af síðustu orðum hv. 3. þm. Norðurl. e. um það, að hann og aðrir flm. þessarar till. hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá þm., að mér skilst stjórnarflokkanna til þess að taka þátt í þessum tillöguflutningi, þá sé ég ástæðu til að skýra nokkru nánar frá, í hverju var fólgin sú ítrekaða leit, a.m.k. þessa hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, í sambandi við þennan tillöguflutning. Hann mun hafa leitað hér í hv. Nd. til tveggja þm. úr röðum stjórnarflokkanna eins úr röðum sjálfstæðismanna, það var ég, og svo hins vegar eins af þm. Alþfl., og bað okkur um að vera meðflm. að þessari till. með tveimur framsóknarmönnum og tveimur Alþb.-mönnum. Út af fyrir sig gerði það lítið til, þótt svo væri skipað um flm. till., ef mönnum hefði sýnzt svo, að till. ætti það skilið og hvernig að henni var unnið, að menn reyndu að safnast saman frá öllum flokkum til þess að ná henni fram. En mér fannst ekki þannig að þessu staðið hjá flm. Þeir afhentu t.d. mér till. í miðri viku. Það var á þeim tíma, sem stjórnarflokkarnir voru á fundum dag og nótt út af örðugleikum sjávarútvegsins og höfðu lítinn tíma til að taka mál sem þetta fyrir til umr. Þingflokksfundir hjá okkur, þar sem við áttum að geta rætt þetta, voru síðan ekki haldnir fram yfir helgina, eftir að við fengum þetta afhent, og þegar ég ræddi við þennan hv. þm. um það, að ég hefði ekki enn getað rætt þetta í mínum þingflokki, sagði hann: Gott og vel, ég þarf endilega að leggja málið fyrir Alþingi núna. — Og þar með var það tekið úr mínum höndum og enginn tími til þess að reyna að skapa þá nauðsynlegu samstöðu um þetta nauðsynlega mál, sem hv. þm. hefur talað um.

Væntanlega koma fram skoðanir bæði mín og annarra þm., sem ekki eiga beina aðild að flutningi till., þegar hún kemur til meðferðar allshn. d., og þess vegna eins og ég tók fram í byrjun þessara fáu orða minna, mun ég ekki ræða þetta efnislega að sinni.