09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá kröfu, sem hér hefur komið fram frá hv. 3. þm. Norðurl. e. um það, að það mál fái eðlilega afgreiðslu, sem hér hefur verið rætt um, þáltill. um stríðið í Víetnam. Það er augljóst, að þetta mál er þúið að liggja hér svo lengi fyrir þinginu, að það er ósæmilegt, að það skuli ekki fá afgreiðslu, og ég tel, að þó að allshn. hafi hér nokkra afsökun í því, að hún hefur verið að bíða eftir öðrum, geti hún eigi að síður afgreitt málið á þann hátt, sem ég tel að henni beri skylda til. Það er svo atriði út af fyrir sig, að vinnubrögð hv. n. hafa verið æði einkennileg, því að yfirleitt er það nú ekki siður, að sú n. þingsins, sem mál fær til meðferðar, taki upp á því að senda málið til annarrar n., því að þá hefði auðvitað Alþingi sjálft getað gert slíkt, en það hefur vitanlega dregið málið á langinn.

En eins og fram hefur komið í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað, hefur verið gert talsvert að því að reyna að ná víðtæku samkomulagi innan þingsins um afgreiðslu þessa máls, og fullt samkomulag hafði tekizt á milli flokkanna um afgreiðslu málsins. Ég hygg, að það séu kringum 10 dagar eða svo, síðan við mættum þar sameiginlega á fundi, hæstv. forsrh. fyrir hönd síns flokks og hæstv. utanrrh. fyrir sinn flokk, ég fyrir hönd Alþb. og tveir af flm. till. af hálfu Framsfl., hv. 3. þm. Norðurl. e., sem hér tók .til máls í dag um þetta mál, og hv. 4, þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson. Og eftir nokkrar umr. á þessum sameiginlega fundi um afgreiðslu málsins varð fullt samkomulag um að afgreiða málið á þeim grundvelli, að samþ. yrði svo að segja samhljóða till. hér á Alþ, þeirri, sem samþ. var í hollenzka þinginu um sama efni, en flm. þessarar þáltill. höfðu einmitt lagt þessa samþykkt hollenzka þingsins til grundvallar sínum tillöguflutningi hér.

En þó að hér hafi tekizt samkomulag um að afgreiða málið, að vísu með lítils háttar fráviki í orðalagi frá því, sem flm. till. höfðu gert ráð fyrir í sinni till., en í raun og veru engum efnisbreytingum, tekst samt ekki að fá eðlilega afgreiðslu málsins hér í þinginu. Og nú hefur það komið fram, að hæstv. forsrh, telur, að hann geti ekki lengur staðið við það samkomulag, sem hann hafði gert um afgreiðslu málsins, vegna þess að breytingar hafi orðið á um allt efni þessa máls vegna erlendra atburða. Það er skoðun mín, að það hafi auðvitað ekkert það gerzt, sem kalli á það að breyta, hvorki þeirri till., sem hér var flutt um þetta mál, né því samkomulagi, sem þarna var gert á milli flokkanna, og ég tel, að hér sé um hreinan undanslátt að ræða. Það er verið að reyna að skjóta sér undan því að standa við það samkomulag, sem menn gerðu um afgreiðslu á mikilvægu máli.

Það er vitanlega jafnmikil hætta enn og hefur verið um langan tíma, að þessi hættulega styrjöld gæti breiðzt út og hún gæti snúizt upp í stóraukna hættu, því að þótt þrýstingur, sem skapazt hefur í mörgum þjóðþingum og mörgum löndum heims of svipuðu tagi og hér var lagt til að verða þátttakendur í, hafi eflaust haft þær verkanir á báða styrjaldaraðila eða alla, að nú sýndust nokkrir möguleikar verða til þess, að hér hæfust viðræður um friðarsamninga, þá vita allir, að styrjöldin geisar þar enn, og menn vita líka að það er allsendis óvíst um það, hvernig til tekst þarna á allan hátt, og þeir, sem eru á þeirri skoðun, sem fram kom í þeirri þáltill., sem hér var lögð fyrir, eiga vitanlega að halda sitt strik áfram, ef þeir eru þess sinnis, að þeir vilji reyna að hafa áhrif á það, að þarna verði deilurnar leystar með samkomudagi.

Ég tel, að það sé rétt, sem 1. flm. till., lm. 3. þm. Norðurl. e., sagði hér, að það verði að teljast allar líkur vera til þess, að það sé mikill meiri hl. alþm. samþykkur meginefni þeirra till., sem hér voru lagðar fram. Það er ekki annað vitað en þm. úr stjórnarandstöðuflokkunum standi allir að þessum till., og mjög góðar undirtektir hafa komið fram á Alþ. af hálfu A1þfl., svo að það má telja nokkurn veginn vist, að það sé meiri hl. á Alþ. fyrir því að senda frá sér svipaða yfirlýsinga og fólst í þessum þáltill. Og það nær vitanlega engri átt, að Sjálfstfl. komist upp með það, eða einhverjir menn innan hans, að koma í veg fyrir, að slík samþykkt verði gerð hér, eins og meiri hl. alþm. vill láta gera um þetta mál, jafnvel þó að það sé einhver tregða á ferðinni um það að úttala sig í þessu máli. Ég hefði að vísu helzt kosið, að Sjálfstfl. hefði fengizt til þess að standa hér að sameiginlegu samkomulagi um afgreiðslu á þessu máli í öllum meginatriðum, og þannig hafði ég skilið það alveg ótvírætt á þeim samkomulagsfundi, sem ég hef hér vitnað til, að gæti orðið. En sem sagt, nú liggur það fyrir, að forsrh. hefur sagt mér, að hann telji aðstæður svo breyttar í þessu máli, að hann geti ekki staðið að afgreiðslu málsins á þeim grundvelli, sem hann hafði áður fallizt á. Þá er vitanlega ekki um annað að gera en það, að þá á allshn. að afgreiða málið á þinglegan hátt og málið á að berast hér upp á Alþ. og það á að fást úr því skorið, hvort meiri hl. Alþ. er fyrir hendi til þess að senda frá sér svipaða yfirlýsingu og felst í þessum þáltill. Ég tek því undir þá kröfu, sem hér hefur komið fram frá 1. flm. þessarar till„ og óska þess eindregið af hv. allshn., að hún afgreiði málið sem allra fyrst og hæstv. forseti taki svo málið til afgreiðslu með eðlilegum hætti og hér fari fram atkvgr. um þá till., sem legið hefur fyrir þinginu í næstum 2 mánuði.