09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var næsta einkennileg afsökun hjá hæstv. forsrh. fyrir hans framkomu í þessu máli, sem hér kom fram. Afsökunin var aðallega fólgin í því, að fyrir viku hefði hann skorað á mig að semja breytingu við þá till., sem ég tel enga þörf á að breyta á neinn hátt, og þar sem ég hafi ekki gert þetta, þá standi upp á mig. Sér er nú hver málflutningurinn. Hæstv. forsrh. vill gera mikið úr því, að hann telji, að nú hafi skapazt þær aðstæður, að það þurfi að breyta till. Þá ætti hann vitanlega að koma með sínar till, um breytingu. Mín skoðun er sú, að það hafi ekkert það gerzt í þessu alvarlega máli, sem réttlæti það, að við ættum að hverfa frá megininnihaldi þeirrar till., sem hér var, lögð fyrir, og í þessum efnum vildi ég aðeins með örfáum orðum minna á það, um hvað till. var. Hún var í fyrsta lagi um það, að d. telur, að vopnahlésviðræðum og síðar friðarsamningum verði nú helzt fram komið með því: Í fyrsta lagi, að ríkisstj. Bandaríkjanna stöðvi þegar loftárásir á Norður-Víetnam. Ætli það sé ekki þörf á því að undirstrika þetta? Í öðru lagi að þjóðfrelsishreyfingin í Suður-Víetnam verði viðurkenndur sjálfstæður aðili við samningsgerð. Ætli það sé ekki þörf á því, alveg nú eins og áður, að viðurkenna þetta? Og í þriðja lagi, þriðja meginatriðið, að stjórn Norður-Víetnams og þjóðfrelsishreyfingin í Suður-Víetnam sýni ótvíræðan vilja af sinni hálfu, þegar loftárásum linnir, að ganga til samninga og draga svo úr hernaðaraðgerðum, að leiða megi til vopnahlés. Auðvitað er jafnmikil ástæða nú og áður til þess að undirstrika þennan vilja. Og fyrri hluti till., sem lýsir yfir ótta um það, að þessi styrjöld, ef áfram haldi, sé hættuleg heimsfriðnum, sú yfirlýsing er nákvæmlega jafnréttmæt nú og áður.

Það hefur því ekkert gerzt að mínum dómi, sem kallar á það að breyta þessari till., sem hér var lögð fyrir, og heldur ekkert gert, sem réttlætir það, að ekki sé sjálfsagt að samþykkja till. á þeim grundvelli, sem hæstv. forsrh. hafði lýst yfir, að hann vildi afgreiða málið á. Það er svo mál út af fyrir sig, þegar hæstv. forsrh. er hér að dylgja um heilindi manna, á sama tíma og hann verður að viðurkenna það frammi fyrir þingheimi, að hann hafi fyrir nokkrum dögum gert samkomulag um að afgreiða ákveðið mál með ákveðnum hætti, en verður svo að hlaupa frá því, þá getur hann borið þeim það á brýn, að þeir sýni óheilindi, sem vilja standa við samkomulagið, en hinir þá auðvitað heilindi, sem hlaupa frá því. En það hefur hver sitt lag á sinni málfærslu og hæstv. forsrh. líka.