09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (2999)

115. mál, styrjöldin í Víetnam

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar eiginlega helzt til að gera aths. við þá afstöðu hæstv. forseta, að við séum hér að taka upp tíma Alþ. að óþörfu. Ég skal að vísu ekki draga í efa, að þau mál, sem hér eru á dagskrá í dag, séu ákaflega mikilvæg, breyting á mörkum Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps, sala Jórvíkur í Hjaltastaðahreppi og sala jarðarinnar Þykkvabæjar í Landbroti, en engu að síður held ég, að þetta séu ekki svo yfirgnæfandi stórmál, að við getum ekki gefið okkur tíma til að tala örlitla stund um till., sem lögð var fram fyrir 2 mánuðum og ekki hefur fengizt afgreidd.

Ég vil sérstaklega fara fram á það, að hæstv. forsrh. gefi skýringu á þeim ummælum sínum hér áðan, að hollenzka till. sé í meginatriðum — hann lagði á það þunga áherzlu — í meginatriðum ólík þeirri till., sem hér var lögð fram um styrjöldina í Víetnam. Ég held, að okkur miði ekkert áfram í þessu máli, nema hæstv. forsrh. fáist til þess að skýra út, hvað hann á við. Það stoðar ekki að vera með svona dylgjur. Enn fremur vildi ég gjarnan fá skýringu á því, hvað hæstv. forsrh. á við, þegar hann segir að till. okkar eigi ekki lengur við að efni og orðalagi. Ef það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það séu eðlileg vinnubrögð, að Alþ. móti stefnu í slíku máli sem þessu, ber honum einnig skylda til að lýsa afstöðu sinni fyrir okkur, og við höfum vissulega tíma til þess að fjalla um þetta mál. Það stoðar ekki að bera fyrir sig hér formleg vinnubrögð í n., eins og gert hefur verið. Hér er um allt annað að ræða. Vandinn er sá, að stjórnarflokkarnir eru ákaflega lítið fyrir það gefnir á þessu ári að fást til þess að ræða um utanríkismál. Það hefur aftur og aftur verið gerð tilraun til þess að hefja slíkar umr. hér, og eini maðurinn úr stjórnarliðinu, sem hefur tekið þátt í þeim, er hæstv. utanrrh. Það hefur margsinnis verið skorað á hæstv. forsrh. eða, einhvern annan málsvara Sjálfstfl. að gera grein fyrir afstöðu þess flokks til þeirra utanríkismála, sem mikilvægust eru. Enginn hefur fengizt til þess. Það hefur verið farið fram á það hér á þingi, að hæstv. utanrrh. gæfi Alþ. skýrslu um afstöðu ríkisstj. til hernámsmálanna og til Atlantshafsbandalagsins í tilefni af breyttum aðstæðum. Sú skýrsla er ekki komin enn. Og ég þykist vita, að áður en sú skýrsla kemur, eigum við eftir að heyra þá túlkun hæstv. forseta; að vegna þess að hér þurfi að fjalla um sölu á einhverri eyðijörð, höfum við ekki tíma til þess að sinna utanríkismálum.