18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna samkomulags, sem um það var gert, urðu umr. um þetta mál við 1. umr. hér í hv. d. mjög litlar. Ef ég man rétt, hafði hæstv. sjútvmrh. mjög stutta framsögu, og það varð sem sé samkomulag um það, að ég ætla, að almennum umr. um málið, þeim, sem venjulega eru við 1. umr., yrði frestað til 2. umr. Nú ætla ég ekki að fara að setja á mikil ræðuhöld um þetta mál, en ég vildi samt segja um það fáein orð, áður en umr. lýkur, sem væntanlega verður í kvöld.

Ég verð að segja það, að mér finnst sú aðferð, sem hér er viðhöfð í sambandi við þessi mál, bæði í nýsamþykktum lögum um þessi efni, nr. 69 1967, og í því frv., sem hér liggur fyrir, í hæpnasta lagi. En það, sem hér er verið að gera, er í stuttu máli sagt það í fyrsta lagi, að útflytjendum er eftir gengisbreytinguna, að því er varðar framleiðslu þessa árs, reiknaður erlendur gjaldeyrir á því verði, sem á honum var fyrir gengisbreytinguna, og mismunurinn á verði samkv. eldri gengisskráningunni og núverandi skráningu er svo látinn renna eða honum er ætlað að renna í sérstakan sjóð, gengishagnaðarsjóð, sem Alþ. svo ráðstafar með lögum, og að því er talið er, varðandi sjávarvörurnar, í þágu sjávarútvegsins. En um það greinir menn nokkuð á hér, hvort það sé í raun og veru gert og hvort það sé þá gert á þann hátt, sem eðlilegt sé.

Nú hefur verið upplýst í nál. minni hl. hér í d., hver sé sennileg upphæð þeirra fjármuna, sem hér er um að ræða. Í öðru álitinu segir, að þetta muni vera um 400 millj. kr. eða rúmlega það, en í hinu álitinu er þetta nánar tiltekið og sagt, að upphæðin muni nema um 420 millj. kr. Það er gott, að þessi áætlun hefur verið gerð og þm. látin hún í té, og sést á þessu, að hér er um mjög verulega fjárupphæð að ræða. Og við sjáum þá jafnframt á þessari tölu, sem hér er nefnd, 420 millj. kr., að það lætur mjög nærri því, að þetta nemi sem svarar 10% verðhækkun á útfluttum sjávarafurðum af framleiðslu ársins 1967, eftir því, sem líklegt má telja. Það er a.m.k. ekki mjög fjarri því, að svo sé, 10% verðhækkun á útfluttum sjávarafurðum.

Og eiginlega hefði mér nú fundizt eðlilegast, ef þetta fé var tekið í sérstakan sjóð, sem vel getur verið, að rétt hafi verið að gera út af fyrir sig, hefði því verið varið til þess að hækka sjávarafurðaframleiðslu ársins í verði. Það, sem mælir með því að gera slíkt, er náttúrlega, að það er dálítið tilviljunarkennt, hvernig afskipanir eru á sjávarvörum og þá ekki rétt að láta þá njóta þess eingöngu, sem hafa átt eftir fremur en aðrir að flytja út vörur sínar. Þessu virðist þetta sem sé nema, þessi munur, sem hér er verið að ráðstafa, í kringum 10% verðhækkun á framleiðslu ársins eða ekki mjög fjarri því.

Nú er ég ekki að ræða um þetta, af því að ég ætli að fara að leggja það til, að málinu verði gerbreytt að þessu leyti. Til þess treysti ég mér ekki, eins og á stendur. En það hefur áður verið breytt gengi hér á landi. Það var t.d. gert árið 1950, og það var gert árið 1960, og það var gert árið 1961. Árið 1950, þegar genginu var breytt, voru engin ákvæði sett í gengisbreytingarlög hliðstæð þeim, sem hér er um að ræða, engin ákvæði. Þá var ekki myndaður neinn gengisbreytingasjóður eða neinn gengishagnaðarsjóður af þessu tagi, að ég ætla. Árið 1960 var það heldur ekki gert. Það var ekki myndaður gengishagnaðarsjóður af þessu tagi, heldur voru ákvæði um það, að gengismunurinn skyldi renna í útflutningssjóðinn, sem þá var enn starfandi, en meginhlutverk útflutningssjóðs var einmitt að verðbæta útfluttar vörur og þá fyrst og fremst útfluttar sjávarvörur, sem eru meginhluti útflutningsins. Hins vegar er rétt að taka það fram, að bæði 1950 og 1960 voru gerðar vissar ráðstafanir í l. vegna þeirra áhrifa, sem gengisbreyting hafði á verð vissra þátta af útflutningsframleiðslunni. En það var annars eðlis og fjallaði ekki sérstaklega um þann gengismun, sem varð til á þann hátt.

Enn var genginu breytt sumarið 1961. Þá féll til mikið af svokölluðum gengishagnaði, og þá var tekin upp ný aðferð í þessu máli. Og þær till., sem hér liggja fyrir, og sérstaklega þær till., sem lágu fyrir í frv. eins og það var lagt fram, eru framhald af þeim aðferðum, sem þá voru notaðar. Þá var ákveðið að taka með l. af útflytjendum þann mun, sem gengisbreytingin hefði skapað þeim í hag, og Alþ. setti lög um það, hvernig þessu fé skyldi ráðstafað, því var að verulegu leyti ráðstafað, ef ég man rétt, í ríkisábyrgðasjóð og einnig til annarra hluta, ég held til vátrygginga á fiskibátum og til fleiri hluta, sem ég man nú ekki að tilgreina hér. En aðferðin var þá hin sama og nú. Ég man eftir því, að þá urðu allverulegar deilur hér í þingi um þetta, þessa aðferð, að taka þessa fjármuni þannig til ráðstöfunar með löggjöf og verja þeim með því móti, að ekki varð haldið fram, að þeir rynnu til eigenda útflutningsvaranna eða sjávarútvegsins aftur.

Það voru miklar deilur um þetta á þinginu eftir gengisbreytinguna 1961 og ég þykist muna það alveg með vissu, að því var haldið fram af löglærðum mönnum hér á hinu háa Alþ., að það væri mjög hæpið, að þetta stæðist. En meira var nú ekki að gert í því máli. Ef á annað borð er farið inn á þessa leið, leiðina frá 1961, en þó með því fororði, að þessu fé sé ráðstafað í þágu sjávarútvegsins, eins og það er orðað hér í 1. gr., skiptir það mjög miklu máli, að ráðstöfunin fari sem næst þessum tilgangi, að hún geti talizt í þágu sjávarútvegsins og sem næst því að vera til verðhækkunar á framleiðslu ársins. Og ég vil segja það, að mér virðist frv. hafa verið að færast í þá átt í hv. Ed. og það mundi enn færast verulega í þá átt að mínum dómi, ef samþ. væru brtt. hv. minni hl. sjútvn. hér í þessari hv. d. Þess vegna hef ég hugsað mér að fylgja þeim till., ef ekki koma fram aðrar betri og er nú ekki sjálfur reiðubúinn til þess að flytja aðrar till. á þessu stigi málsins. En það er samt eitt atriði í þessum till., sem ég vildi leyfa mér að minnast hér á, áður en umr. lýkur. Þar er sem sé gert ráð fyrir því, að verulegum hluta af gengishagnaðarsjóðnum verði varið til að greiða vaxtagjöld af stofnlánum vegna báta og fiskvinnslustöðva. Og það er tiltekin upphæð, sem þarna er ætluð til ráðstöfunar og ákvæðið er á þá leið, að henni skuli verja til greiðslu vaxta í hlutfalli við vaxtaupphæð ársins 1967. Um þetta eru þau nánari ákvæði, að þessu fé skuli verja til þess að greiða vexti af stofnlánum báta og fiskvinnslustöðva hjá Fiskveiðasjóði Íslands og hjá fiskimálasjóði.

Nú vildi ég aðeins vekja athygli á því, að þó að mjög mikill hluti og kannske mestur hluti af stofnlánum þessara útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja sé í þessum stofnunum, hjá fiskveiðasjóði og fiskimálasjóði, eru þau það ekki öll. En hjá fiskveiðasjóði teljast núna til viðbótar við þau lán, sem sá sjóður hefur sjálfur veitt á undanförnum árum, hin eldri lán, sem stofnlánadeild sjávarútvegsins veitti á sínum tíma, en hún hefur verið sameinuð fiskveiðasjóði eða lögð undir fiskveiðasjóð og hann tekið við skuldbindingum hennar og eignum. En utan við þessar stofnanir, fiskveiðasjóðinn og fiskimálasjóðinn, er nokkuð af stofnlánum, og mér finnst eðlilegt, að þessi vaxtagreiðsla næði einnig til slíkra lána. Mér finnst það eðlilegt og sanngjarnt að hún næði einnig til slíkra lána, sem sennilega er nú ekki mjög mikil upphæð, svo að ekki sé þarna verið að mismuna þeim, sem greiða þurfa vexti af stofnlánum, útgerðarmönnum og fiskvinnslustöðvum.

Ég mun samt ekki við þessa umr. bera fram brtt. um þetta, en ég mundi nú vilja mega vænta þess, að ef þessi brtt. verður samþ., verði tækifæri til þess við 3. umr. að hnika þessu til, þannig að hin önnur stofnlán, sem ég nefndi, komi einnig undir þessi ákvæði og ég hygg, að flm. till., a.m.k. sumir þeirra, hafi í raun og veru hugsað sér, að það yrði, þó að þetta sé orðað þannig. En það þyrfti þá að gera orðabreytingu um þetta efni. Um þetta vildi ég aðeins gera aths., en það að breyta orðalagi till. yrði þá að gerast fyrir 3. umr., ef till. næði samþykki, sem ég teldi eðlilegt, að yrði.