19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3010)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. svaraði í gær því helzta, sem hæstv. utanrrh. fann til foráttu þeirri till., sem hér liggur fyrir, og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar miklu við.

Ég mun aðallega gera aths. við þau orð, sem hæstv. utanrrh. lét falla til mín persónulega. Ég geri þessar aths. vegna þeirra hv. þm., sem hlustuðu á ræðu hæstv. ráðh., en ekki vegna þess, að ég geri mér sérstakar vonir um það, að aths. mínar ráði miklu um viðhorf hans eða verði til að breyta því. Mér er orðið það ljóst eftir ræðu hæstv. ráðh. hér í gær, að viðhorf okkar í þessum efnum, og þó sérstaklega á siðferðissviði þeirra, eru svo gjörólík, að það má segja, að við tölum í þessu efni tvö ólík tungumál. Ég get ómögulega skilið viðhorf hans, og honum virðist fyrirmunað að skilja viðhorf mitt.

Í ræðu minni hér í gær varði ég allmiklum tíma í að lýsa þeim alvarlegu afleiðingum, sem utanríkisstefna Bandaríkjanna, og þá sérstaklega stríðið í Víetnam hefur haft fyrir bandarísku þjóðina fyrir ástandið í Bandaríkjunum heima fyrir, þar sem nú hriktir í öllu efnahagskerfinu og átök magnast milli kynþátta, svartra og hvítra, og milli stétta, fátækra og ríkra þannig að nú er því spáð, að það sumar, sem fram undan er, verði eitt hið skelfilegasta í allri sögu Bandaríkjanna. Það er jafnvel talað um hættu á algerri borgarastyrjöld í þessu sambandi. Ég gagnrýndi þessa stefnu mjög harðlega og gerði það ekki hvað sízt af umhyggju fyrir bandarísku þjóðinni, enda sýnist mér, að hún eigi betra hlutskipti skilið. Og mér er hlýtt til hennar af kynnum, sem ég hafði af henni, þegar ég dvaldist alllengi í landi hennar hér fyrr á árum, og ég tel mig vera vin bandarísku þjóðarinnar. Þetta hélt ég, að öllum mætti vera ljóst af ræðu minni, samúð mín með bandarísku þjóðinni.

En nei, ónei. Hæstv. utanrrh. skildi orð mín samkv. þveröfugum formerkjum við það, sem ég taldi mig hafa sett. Gagnrýni mín á framferði bandarískra stjórnarvalda lýsti, að hans dómi, botnlausu hatri í garð bandarísku þjóðarinnar, botnlausu hatri. Ég skrifaði þetta orðrétt upp eftir hæstv. ráðh. Ef þetta mat hæstv. ráðh. er rétt, þarf að sjálfsögðu engar vangaveltur um það, hvernig bezt verði látin í ljós vinátta í garð bandarísku þjóðarinnar. Það hljóta menn að gera með því að vegsama og styðja með ráðum og dáð framferði bandarískra stjórnarvalda, hvað sem á gengur, og er þá orðið næsta skammt yfir í þann siðferðisboðskap, að fullkomin vinátta í garð bandarísku þjóðarinnar verði þá aðeins í ljós látin, að menn sýni bandarískum stjórnarvöldum fullkominn undirlægjuhátt.

En ef gagnrýni á framferði bandarískra stjórnarvalda á að sýna botnlaust hatur í garð bandarísku þjóðarinnar, má spyrja, hvort ekki séu einhverjir fleiri sekir í þessum efnum heldur en ég. Í fréttum sjónvarpsins í gær gaf að sjá og heyra Robert Kennedy, sem nú hefur gefið kost á sér sem forsetaefni í keppni við Lyndon B. Johnson. Robert Kennedy kvaðst gera þetta vegna þess, að með framferði sínu, og þá ekki hvað sízt í Víetnam og utanríkismálum yfirleitt, hafi bandarísk stjórnarvöld fyrirgert trausti sinnar eigin þjóðar og stofnað í hættu velferð og virðingu hennar og mannorði í augum heimsins. Mundi ekki þessi gagnrýni að dómi hæstv. utanrrh. bera vott um það, að þessi maður, bróðir hins látna og dáða forseta, John F. Kennedy, þessi maður ali í brjósti nokkuð svo vafasamar tilfinningar í garð bandarísku þjóðarinnar, svo að maður láti nú alveg vera að tala um botnlaust hatur í þessu sambandi? Þær skoðanir, sem ég lét í ljós hér í ræðu minni í gær, um það, að stríðið í Víetnam og bandarísk utanríkisstefna yfirleitt væri meginorsök þess hörmulega ástands, sem nú blasir við bandarísku þjóðinni, eru í fullu samræmi við skoðanir Roberts Kennedys, og í fullu samræmi við skoðanir hans eru einnig þær till., sem við höfum flutt hér í báðum þd., Alþb.-menn og framsóknarmenn sameiginlega, já, og við hinar beztu undirtektir hæstv. utanrrh., og verður honum seint fullþakkað fyrir þær undirtektir.

„Við verðum að horfast í augu við það, að stríðið í Víetnam er ekki háð í þágu bandarísku þjóðarinnar“, sagði Robert Kennedy í ræðu, sem hann flutti í Chicago nú ekki alls fyrir löngu og bandarísk blöð lýstu þessari ræðu sem sprengjuregni á Hvíta húsið. Það væri fróðlegt að vita, hvað hæstv. utanrrh. kallar slíka gagnrýni í garð bandarískra stjórnvalda.

Robert Kennedy sagði, að með hinni miklu sókn þjóðfrelsishreyfingarinnar í Suður-Víetnam nú í síðasta mánuði hefði endanlega verið í sundur svipt þeim blekkingavef, sem bandarísk stjórnvöld hafa reynt að spinna í sambandi við stríðið. Stjórnvöldunum bæri að stöðva loftárásirnar á Norður-Víetnam, setjast að samningaborði og viðurkenna þjóðfrelsishreyfinguna sem samningsaðila. Og nú eftir að Robert Kennedy hefur kunngert framboð sitt sem forsetaefni Demókrataflokksins, hefur hann lýst því yfir, að hann mundi sem forseti láta það verða sitt fyrsta verk að framkvæma þessi atriði. Og þetta er að hans dómi svo mikilvægt, að hann hefur jafnvel látið liggja að því, að hann muni draga framboð sitt til baka, ef Johnson breytir stefnu sinni í samræmi við þetta, enda standi málin svo tæpt, að ef það dragist mikið lengur að semja frið í Víetnam, geti stríðið leitt til allsherjar harmleiks fyrir bandarísku þjóðina.

Robert Kennedy gerir sér sem sé ljóst, að það reiðarslag, sem Bandaríkjamenn hafa orðið fyrir í Víetnam nú að undanförnu, muni segja harkalega til sín í sálarlífi bandarísku þjóðarinnar og auka enn á líkurnar fyrir alvarlegum átökum og válegum atburðum þar vestra nú á sumri komanda. Og ég trúi því ekki, að hæstv. utanrrh. telji, að í þessari gagnrýni Roberts Kennedys felist einhver sérstök óvild í garð bandarísku þjóðarinnar, að maður nú ekki tali um hatur.

En bandarísk stjórnarvöld hafa ekki aðeins verið að glata trausti sinnar eigin þjóðar vegna stríðsins í Víetnam. Þau hafa einnig verið að glata trausti bandamanna sinna. Bandaríkjastjórn hefur lagt sig fram um að fá bandamenn sína til að lýsa yfir skýlausum stuðningi við hana í stríðinu í Víetnam með beinum hernaðarstuðningi. En þessari málaleitan hefur hvarvetna verið synjað, og bandalagsríki Bandaríkjanna í Evrópu, Atlantshafsbandalagsríkin, hafa fylgt eftir synjun sinni um hernaðaraðstoð með æ harðari gagnrýni á framferði Bandaríkjamanna í Víetnam og bandarískri utanríkisstefnu yfirleitt. Og eitt þessara ríkja eitt hið voldugasta og stærsta, hefur algerlega fordæmt framferði Bandaríkjamanna í Víetnam, þ.e.a.s. Frakkar undir forustu De Gaulle.

Og nú að undanförnu hafa þeir atburðir verið að gerast, sem kynnu að valda því, að brezka stjórnin sæi sér ekki annað fært en að fordæma með öllu framferði Bandaríkjamanna í Víetnam. Núna í s.l. mánuði lögðu 100 þm. Verkamannaflokksins fram till. um slíka fordæmingu. Sú till. var svar við till., sem leiðtogi íhaldsflokksins, Heath, hafði borið fram um opinberan stuðning Breta við stefnu Bandaríkjamanna í Víetnam. Í tilefni af þessari till. sagði eitt útbreiddasta blað Bretlands, Daily Mirror, með leyfi hæstv. forseta:

„Mr. Heath hvetur mr. Wilson til þess að styðja bandaríska stefnu, sem óhjákvæmilega hlýtur að mistakast. Álit Wilsons í Bretlandi er ekki beinlínis með mesta máti um þessar mundir. Það mun hrapa niður úr öllu valdi, ef hann lýsir yfir stuðningi Breta við áframhald harmleiksins í Víetnam.“

Wilson hefur að vísu enn sem komið er neitað að hafna með öllu stefnu Bandaríkjamanna í Víetnam, en hann hefur þó ítrekað fyrri viljayfirlýsingar brezku stjórnarinnar um það, að loftárásir á Norður-Víetnam verði stöðvaðar. Hann gerði það nú síðast í sambandi við þær viðræður, sem hann átti við Johnson þar vestra í síðasta mánuði. Um þær viðræður hefur að vísu lítið verið sagt opinberlega en það má ýmislegt marka um þær af ummælum Wilsons eftir á. Og það eru ein af þeim ummælum, sem að mínum dómi eru sérstaklega athyglisverð: Það væri brjálæði, segir Wilson, að beita kjarnorkuvopnum í Víetnam, enda miklar líkur á, að slíku mundi fylgja það alheimsbál, sem tortímt gæti öllu mannkyninu.

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til þess að segja sér, hvað felst að baki þessum ummælum, hvaða ályktanir Wilson hefur dregið af viðræðum sínum við Johnson. Ef Johnson hefði gefið Wilson óyggjandi tryggingu fyrir því, að Bandaríkin mundu ekki beita kjarnorkuvopnum í Víetnam, hefði Wilson hagað orðum sínum öðruvísi. Hann hefði notað þetta tækifæri til þess að bera lof á Johnson fyrir varfærni og skilning í þessum efnum. Hann hefði tekið af öll tvímæli um það, að það mætti treysta Johnson og bandarískum stjórnarvöldum til þess að stofna ekki mannkyninu öllu í þann háska, sem stafa mundi af því, að kjarnorkuvopnum yrði beitt í Víetnam. Ummæli Wilsons um þetta atriði sýna það ótvírætt, að eftir viðræður hans við Johnson hefur hann komizt að sömu niðurstöðu og William Fulbright, að þrátt fyrir fullyrðingar vissra talsmanna bandarískra stjórnvalda um það, að Bandaríkjastjórn muni ekki leyfa beitingu kjarnorkuvopna í Víetnam, kunni hún að vera komin á fremsta hlunn með að gera það.

Wilson virðist með öðrum orðum hafa gert sér það ljóst, að framferði Bandaríkjamanna í Víetnam geti óðar en varir komizt á það stig, að óhjákvæmilegt verði fyrir hann og ríkisstj. hans að fordæma það með öllu; áðurnefnd ummæli hans eru viðvörun til Bandaríkjastjórnar um það, að hún megi vænta slíkrar fordæmingar. Og um það verður ekki efazt, að með þessu er hann að láta að vilja alls þorra brezku þjóðarinnar, sem er farin að þreytast á þjónustusemi hans við Bandaríkjastjórn, þó að forustumenn íhaldsins brezka hafi að vísu leitazt við að veita Wilson að sama skapi meiri stuðning til áframhaldandi hálfvelgju í afstöðu sinni til Bandaríkjastjórnar sem hann hefur orðið að sæta meiri gagnrýni fyrir hana í röðum síns eigin flokks. Hvað um það. Þær raddir verða nú æ háværari í Bretlandi, bæði innan Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins, sem krefjast þess, að ríkisstj. taki upp sjálfstæðari stefnu gagnvart Bandaríkjamönnum. Og sams konar kröfur verða einnig æ háværari í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu, og þær hafa magnazt til muna við atburði síðustu vikna.

Frændur okkar á Norðurlöndum hafa t.d. aldrei verið eins hvassyrtir um þessi efni og nú að undanförnu. Aftonbladet í Stokkhólmi, sem er málgagn sænskra sósíaldemókrata, segir, að eina leiðin fyrir Bandaríkin til að losna úr því öngþveiti, sem stríðið í Víetnam hafi leitt þau út í, sé að taka sönsum, yfirgefa Víetnam og leyfa íbúum þess að ráða málum sínum sjálfir. Blaðið bætir við: „Ef heppnin er með, mega Bandaríkjamenn e.t.v. búast við því að fá að halda sínu eigin sendiráði.“

Þessar skoðanir bergmála nú um alla Vestur-Evrópu. Og þær eru í samræmi við það endurmat gagnvart Bandaríkjastjórn og stefnu hennar, sem að undanförnu hefur farið fram í ríkjum Vestur-Evrópu. Ráðamenn þessara ríkja, sem eru helztu bandamenn Bandaríkjanna, eru æ fleiri að gera sér það ljóst, hversu hæpið er, beinlínis frá síðferðilegu sjónarmiði, að lúta leiðsögn bandarískra stjórnarvalda. Jafnframt þessu er svo af hálfu hinna ýmsu ríkisstj. unnið að auknum viðskiptum og menningartengslum milli Austur og Vestur-Evrópu, þar sem áður ríkti hatur og tortryggni og kalt stríð. Þess gæti sem sé orðið skammt að bíða að Evrópa öll tæki undir með de Gaulle og frábæði sér afskipti bandarískra stjórnarvalda af einkamálum sínum og benti þeim kurteislega á að reyna heldur að leysa sín eigin vandamál. Að sjálfsögðu liggja ýmsar ástæður til þessa, en þyngst á metunum er að sjálfsögðu stríðið í Víetnam og það siðferðilega afhroð, sem bandarísk stjórnarvöld hafa goldið vegna þess í augum bandamanna sinna.

Ég hef gerzt nokkuð langorður um þetta atriði vegna þess, að ég vil að mönnum verði það ljóst, að mín rödd er ekki nema ein lítil rödd í þeirri stóru fylkingu, sem nú heldur uppi harðri gagnrýni á bandarísk stjórnarvöld og stefnu þeirra á alþjóðavettvangi, og slík gagnrýni ber að sjálfsögðu ekki vott um neitt hatur eða óvild í garð bandarísku þjóðarinnar. Þvert á móti. Ég fullyrði, að í þessari fylkingu, í þeirri fylkingu, sem nú heldur uppi harðastri gagnrýni á framferði bandarískra stjórnarvalda, sé að finna marga beztu vini bandarísku þjóðarinnar. Siðferðilegur stuðningur við ofbeldisstefnu bandarískra stjórnarvalda í Víetnam og annars staðar á alþjóðavettvangi er að sjálfsögðu enginn greiði við bandarísku þjóðina, nema síður sé.