19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3012)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að ræða þessa þáltill. í einstökum atriðum, þó að öll séu þau atriði á vissan hátt mjög stórvægileg og þýðingarmikil. Það er lagt til að kjósa rannsóknarnefnd til að rannsaka ýmis atriði utanríkismála og reyndar innanríkismála líka, samkv. þessari till. Það er óneitanlega rétt, að það væri full þörf á því að rannsaka sum af þeim atriðum, sem nefnd eru í þessari till. En eins og nú háttar hér á hv. Alþ., held ég, að sú n. yrði þannig skipuð, að harla lítils árangurs væri að vænta af rannsókninni sjálfri. Ég tel líka, að það hefði verið æskilegri málsmeðferð, að þetta mál hefði verið flutt í öðru formi, þ.e.a.s. það hefði verið flutt í því formi að það væri, eingöngu fjallað um hina erlendu hersetu hér í landinu og þau áhrif, sem hersetan hefur haft á íslenzkt þjóðlíf. Það væri sannarlega nóg viðfangsefni í eitt mál, og það dreifir aðeins þessu máli að taka svona margt saman í eina till. að mínum dómi. Ef það hefði verið gert, hefði væntanlega fengizt úr því skorið hér á hv. Alþ. með atkvgr., hvaða þingflokkar og hvaða þm. ætla sér að styðja að því, að áframhaldandi herseta verði hér í landinu. Og mér finnst, að þjóðin eigi heimtingu á að fá að vita það, hver afstaða flokka og þm. er til málsins nú, þegar ekki er nema ár eftir af því tímabili, sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til þess að vera í hernaðarbandalagi. Það er það minnsta tillit, sem hægt er að taka til þjóðarinnar, að þetta sé látið koma í ljós, þegar slíkt mál er hér á ferðinni á Alþ. Það er bráðnauðsynlegt, að þjóðin fái að vita það, hvernig menn rökstyðja það, að áfram skuli vera her á Íslandi, að allar þær röksemdir komi fram fyrir þjóðina, og þá að sjálfsögðu hinar líka, sem færðar eru gegn því. Þetta kemur ekki í ljós með þessari till.

Tjónið, sem þjóðin hefur haft nú þegar af hinum erlenda her hér í landi og öllu því, sem honum fylgir, fyrir íslenzka tungu, menningu, siðgæði, þjóðerniskennd og sjálfstæðismeðvitund, þetta tjón er orðið svo mikið, að það verður aldrei metið, og háskinn heldur áfram að vaxa eftir því sem áhrifavald hersetunnar varir lengur. Eftir því sem þau verða fleiri árin, eftir því magnast það, og eftir því sem stærri og stærri hluti þjóðarinnar elst upp við deyfilyf þessarar erlendu hersetu. Það væri hugsanlegi að breyta þessari þáltill. svo í n., að hún tæki beint á þessu vandamáli og blandaði þar engu öðru inn í. Og æskilegast af öllu væri það, að svo væri með málið farið eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér rétt áðan. Þá gætu orðið rökræður um það mál eitt, og annað truflaði ekki skilning manna á því, hver afstaða manna og flokka er og hver rök menn hafa fram að færa fyrir áframhaldandi hersetu eða gegn henni.

Ég ætla ekki að víkja að einstökum atriðum í þessari till. En ég get þó ekki látið hjá líða að nefna eitt, þ.e. 4. lið þessarar till., sem hæstv. utanrrh. drap á í ræðu sinni hér í gær, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið, að hann væri sannfærður um, að það hefði mikið varnargildi fyrir Íslendinga að hafa herinn í Keflavík. Ég skildi hann svo, að honum fyndist þetta varnargildi ákaflega mikið enn í dag. Ekki er ég að spyrja að því, hvað hann hefur álitið fyrir 26—27 árum.

Mér dettur nú í hug að spyrja: Ætli hann mundi nú verða þessarar sannfæringar eftir að búið væri að skjóta kjarnorkusprengju á Keflavíkurflugvöll? Hann þyrfti kannske ekki beint að hugsa um það á eftir eða við fleiri. En það er furðulegt að heyra slíkan málflutning og það af utanrrh. Það veit öll þjóðin, að þetta varnarlið á Keflavíkurflugvelli er engin vörn fyrir íslenzku þjóðina, en bráður háski. Við vonum allir, að það komi aldrei til heimsstyrjaldar aftur. Þá þurfum við heldur ekkert á þessu liði að halda þarna. Það þarf ekki að verja okkur á friðartímum. En ef kæmi til heimsstyrjaldar, getur hæstv. ráðh. eða nokkur annar ábyrgzt það, að ekki verði skotið kjarnorkusprengju á Keflavíkurflugvöll? Ég ætla ekki að rökræða þetta meira að þessu sinni, vegna þess að ég tel, að málið eigi að koma í heild fyrir þingið til umr. og í öðru formi en hér er.

Eitt atriði annað skal ég aðeins nefna, sem hæstv. utanrrh, talaði um í tilefni af ræðu frsm. Hann sagðist halda, að það væri erfitt að rannsaka það, hvaða áhrif hermannasjónvarpið hefði haft á æskulýð Íslands og auðvitað unga og gamla. Það getur vel verið, að það sé erfitt að rannsaka það, og hann benti á, að hér hefði verið kvikmyndarusl bandarískt lengi til sýnis, sem þetta fólk hefði áður horft á, og hvað væru þá áhrifin frá sjónvarpinu, hvað væri frá kvikmyndunum. Þetta er rétt að mínum dómi. Það er erfitt að rannsaka þetta, enda mæli ég ekki með þessari rannsókn. Ég álít hana þýðingarlitla. En er hann í einhverjum vafa um það, að íslenzkt æskufólk hafi orðið fyrir áhrifum af hermannasjónvarpinu og það hafi komið fram þau áhrif umfram það, sem varðar kvikmyndir, sem við höfum haft í áratugi? Ég held, að það sé fáum blöðum um það að fletta. A.m.k. heyrði ég ekki 5—6 ára gömul börn fyrir 10—20 árum vera að tala enskuþrugl svona hversdagslega eins og nú gerist. Ég þekki mörg börn, sem eru farin að kunna allmikið af enskum orðum. Þau segja núna „good bye“, þau segja „safe“ og margt af þessu tagi. Nei, þau eru búin að læra alveg furðanlega mikið af hermannasjónvarpinu. Þau lærðu þetta ekki af kvikmyndum hér áður, enda fóru þau sjaldan þangað. En þetta hermannasjónvarp kom inn á hvert heimili svo að segja, til barnanna sjálfra. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti ekki að vera að reyna að verja hermannasjónvarpið. En hann á aftur á móti þakkir skilið fyrir það, að hann á sinn hlut í því, að við erum svo að segja lausir við það, og það vil ég þakka honum fyrir. Þar vann hann gott verk, sem fyrirrennari hans gerði ekki.

Já, ég nefndi það, að hugsanlegt væri, að þessari þáltill. fengist nú breytt í væntanlegri n. og komið í það horf, að hersetan væri einangruð og um hana fjallað og hitt látið lönd og leið í bili. En nú hefur hæstv. utanrrh. lagt til, að till. verði felld, og ég skildi hann svo, að hann ætlaðist til, að hún væri felld án þess að hún færi til n. Það getur verið, að það sé misskilningur minn. Hvernig getur staðið á því, að hann óskar eftir því, ef þetta er rétt skilið hjá mér? Hefur hann ekki einhver ráð á að fá till. fellda, þegar hún kemur frá n.? Ég sé ekki nema eitt við þá hugmynd, og það er það að fá atkvgr, um till., meðan hún er í þessu formi, áður en til kæmi að henni yrði breytt í annað form. Hún væri látin snúast t.d. um hersetuna á Íslandi eina. Þess vegna er upplagt að fá nú atkvgr. Þá slyppu menn við að greiða atkv, um það, hvort áfram skyldi vera erlendur her á Íslandi.

Ég ætla ekki að orðlengja um þessa till. meira, nema þá tilefni gefist. En ég vil vænta þess, að málið fái þinglega afgreiðslu, till. fari til n., og að sú n. breyti henni í annað og heppilegra form og þá fyrst og fremst það, sem ég hef nú gert að umtalsefni, að till. fjalli um hinn erlenda her á Íslandi, en hin atriði till. verði látin bíða betri tíma.