21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér er ljóst, að ég er búinn að ljúka eðlilegum ræðutíma mínum hér og mun því aðeins bæta við örfáum orðum út af ræðu hæstv. utanrrh.

Mér finnst ákaflega furðulegt að heyra það hér æ ofan í æ, að við séum ekki dómbærir, íslenzk stjórnarvöld séu ekki dómbær á vandamál hernámsins. Hæstv. ráðh. hefur undir sér býsna stórt rn. Því er meira að segja skipt í tvo hluta; í því er sérstök varnarmáladeild, sem á einvörðungu að fjalla um hernámsmálin, og í tengslum við hana starfar sérstök varnarmálanefnd, og eflaust kann ég ekki að telja allar þær stofnanir, sem komið hefur verið á laggirnar í tengslum við hernámið. Þessum stofnunum er ætlað að fylgjast með þessum málum af Íslands hálfu, afla sér vitneskju og taka þátt í að gera stjórnarvöldunum kleift að mynda sér skoðanir um málið. Síðan kemur yfirmaður þessarar stofnunar hér æ ofan í æ og segist ekki vera dómbær um hlutina; það þurfi að sérmennta einhverja menn til þess að leggja til vitið fyrir ríkisstj. Hvers konar afstaða er þetta eiginlega? Við erum hér með sjálfstætt ríki og þeir menn, sem við felum að gegna hér ábyrgðarstörfum, eiga að gegna skylduverkum sínum. Og þeim má ekki haldast það uppi að koma hér aftur og aftur fram fyrir alþm. og segjast ekki vera dómbærir á þau mál, sem þeir eiga að sinna.

Annars var erindi mitt hingað fyrst og fremst það að minna hæstv, ráðh. á það, að ég beindi til hans tveimur spurningum, sem hann svaraði ekki. Ég bað hann í tilefni af umr. um kjarnorkumál að greina frá því, hvort hæstv. ríkisstj. hefði einhverja frambúðarstefnu um þau mál, hvort hún væri reiðubúin til þess að lýsa því yfir sem stefnu íslenzkra stjórnarvalda, að Ísland ætti að vera kjarnorkuvopnalaust svæði til frambúðar, að kjarnorkuvopn yrðu ekki heimiluð hér á Íslandi. Ég bað hæstv. ráðh. að svara þessari spurningu, og hann gerði það ekki. Í annan stað minnti ég hæstv. ráðh. á það, að í ræðu sinni hér áður kvaðst hann vera reiðubúinn til þess að taka þessi mál til sérstakrar umr., þegar tími væri ákveðinn til þess. Ég spurði hæstv. ráðh, um það, hvort hann væri reiðubúinn að standa við þessa yfirlýsingu sína, hvenær hann mundi vilja hafa þá umr. og hvernig hann vildi haga henni. Ég vil beina því eindregið til hæstv. ráðh., að hann svari þessari spurningu.