25.10.1967
Sameinað þing: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3035)

10. mál, breytingar á nýju vísitölunni

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég tel nú ekki ástæðu til að fara að ræða hér sérstaklega það, sem hv. þm. sagði um, hvernig stæði á því, að Hagstofan hefði ekki dreift fyrr út upplýsingum varðandi nýju vísitöluna. Ég sagði það, þegar efnahagsmálin voru hér á dagskrá, ég svaraði þá fsp. frá hv. þm., að ástæðan væri sú, að rn. hefði ekki talið rétt, meðan málið væri á algeru athugunarstigi, að vera að dreifa út einstökum upplýsingum, nema hægt væri að taka málið til heildarmeðferðar. Slíkt gat verið villandi og leitt til mjög óheppilegra umr. um málið. Þar sem hins vegar nú hefur verið ákveðið að leggja til, að þessi vísitala verði lögfest, er að sjálfsögðu ekkert, sem hindrar það, að allar upplýsingar um málið séu gefnar, þá er hægt að ræða það frá öllum hliðum og hefur að sjálfsögðu alltaf staðið til, þegar það skref yrði stigið, að allar upplýsingar yrðu um málið gefnar.

Fsp. hv. þm. er þess efnis, hvernig vísitala sú, er miðast við neyzlurannsókn frá 1965, hafi breytzt síðan tekið var að reikna hana út. Þessi fsp. er nokkuð óljós, og kann svar mitt að bera þess nokkur merki, vegna þess að þegar átt er við breytingar á vísitölunni, er almennt talað um heildarvísítöluna hvað hún hafi breytzt, og ég hef því miðað svör mín við það.

Samkv. þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í aths. með frv. ríkisstj. um efnahagsaðgerðir, voru útgjöld hinna hundrað fjölskyldna, sem þátt tóku í neyzlurannsókninni, færð fram til verðlags 1. febr. 1966. Síðan hefur þessi nýi vísitölugrunnur verið reiknaður þriðja hvern mánuð miðað við verðlag 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. Ef heildarútgjöld hins nýja grundvallar 1. febr. 1966 eru sett 100, eru samsvarandi vísitölur síðan þá sem hér segir:

1. maí 1966, 103 stig. 1. ágúst 1966, 105.2 stig. 1. nóv. 1966, 106.1 stig. 1. febr. 1967, 106.3 stig. 1. maí 1967, 106.7 stig og 1. ágúst 1967, 107.1 stig. Næsti útreikningur hins nýja grunns verður miðaður við 1. nóv. n. k.

Þess má geta um leið, að núgildandi framfærsluvísitala hækkaði á tímabilinu frá 1. febr. 1966 til 1. ágúst 1967 úr 133.1 stigi í 195.1 stig eða 6,6%, en sú hækkun var til komin, áður en verðstöðvunaraðgerðirnar hófust. Að öðru leyti vil ég vísa hér til grg., sem ég hef látið útbýta til allra hv. þm. Henni fylgir yfirlit, er sýnir meðalársútgjöld hinna 100 fjölskyldna annars vegar miðað við 1. febr. 1966 og hins vegar 1. ágúst 1967 með skiptingu í neyzluflokka. Þar er og hlutfallsleg skipting neyzluútgjalda samkv. hinum nýja vísitölugrunni borin saman við skiptingu útgjalda samkv. gildandi framfærsluvísitölu.

Nú skal ég ekki um það fullyrða, hvort þessar upplýsingar fullnægja að öllu leyti því, sem hv. þm. var að ræða um. Ég býst að vísu ekki við, að þær fullnægi að því leyti til, að það sé birt, hvaða breyting hafi orðið á hverju því tímabili, sem ég gat um, á hverjum einasta lið vísitölunnar. Það er auðvitað hægt að komast eftir því líka, ef menn vilja en eins og hv. þm. sagði, er þetta svo flókið mál og tölulegt, að það er ómögulegt að vera að lesa það upp hér, svo að ég valdi heldur þann kost að láta útbýta þessu skjali, og telji menn það ekki fullnægjandi, er hægurinn hjá, að frekari upplýsinga verði aflað í sambandi við frv. um efnahagsaðgerðir, þar sem vísitölumálið er einmitt tekið til meðferðar.