01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (3050)

193. mál, dreifing sjónvarps

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð til þess að undirstrika, hvað hefur valdið því, hvernig ráðizt hefur verið í dreifingu sjónvarpsins. Það er búið að setja upp fjölda af endurvarpsstöðvum, sem allar eru á Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi. Ég vil biðja menn að taka eftir því, að allar þessar stöðvar eru innan þess hrings, sem sendistöðin í Reykjavík nær til. Þetta eru allt endurvarpsstöðvar, sem geta tekið við dagskránni beint frá Reykjavík, og á því svæði er tiltölulega auðvelt að bæta við stöðvum. Þetta eru kallaðar endurvarpsstöðvar sjónvarps, en eru ákaflega litlar stöðvar, sem kosta eins og einn bíll eða e.t.v. upp undir 1/2 milljón, þegar búið er að byggja kofa og setja upp mastur. Verkfræðingar símans geta þetta tiltölulega fljótlega.

En strax og komið er út fyrir það svæði, sem Reykjavíkursendistöðin nær til, stöndum við andspænis öðrum og miklu stærri vandamálum. Þar er Akureyrarvandamálið eitt það flóknasta í landinu, og þess vegna hefur þurft að gera miklar tilraunir áður en hægt verður að senda sjónvarpið norður. Að senda sjónvarpsgeisla frá Skálafelli og í Eyjafjörð er talið mjög erfitt. Útlendir verkfræðingar hafa margir látið í ljós vantrú á, að það sé hægt. En íslenzkir verkfræðingar, sem hafa mikla reynslu af þráðlausum síma á þessu svæði, eru sannfærðir um, að það sé hægt, og það eru mælingarnar í sambandi við þetta, sem hafa tekið þennan tíma og valda því, að Akureyrarsvæðið er ekki búið að fá sitt sjónvarp enn.

Hv. þm. sagði af kurteisi og lítillæti, að Akureyringar ættu ekki að fá sjónvarpið á undan öðrum. Ég sem einn af starfsmönnum eða trúnaðarmönnum sjónvarpsins, hef þveröfuga skoðun. Þeir eiga að fá sjónvarp eins fljótt og hægt er, vegna þess að það er beinlínis hagsmunamál sjónvarpsins sjálfs að koma dagskránni til svo fjölmenns svæðis, vegna þess að þar er miklar tekjur að hafa. Ég vil því fullyrða, að það hefur ekki verið á valdi Ríkisútvarpsins að hraða sendingu til Akureyrar meira en gert hefur verið. Það yrðu allir fyrir miklum vonbrigðum, ef Akureyringar fengju ekki sitt sjónvarp seinni hluta sumars næsta ár.