01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

193. mál, dreifing sjónvarps

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um dreifingu sjónvarps um landið, leyfi ég mér að minna á svo hljóðandi samþykkt; sem útvarpsráð gerði með shlj. atkv. á fundi sínum 6. des. s. l.:

„Það er skoðun útvarpsráðs, að æskilegt og hagkvæmt sé, að sjónvarpssendistöðvarnar á Skálafelli, í Stykkishólmi, á Vaðlaheiði og á Fjarðarheiði verði boðnar út og byggðar samtímis í því skyni að tryggja sem jafnasta dreifingu sjónvarpsins til hinna ýmsu landshluta, og skulu þá jafnframt athugaðir möguleikar á lántöku til þessara framkvæmda.“

Afstaða útvarpsráðs í þessum efnum er þess vegna skýrt mörkuð.

Í framhaldi af þessu má svo geta þess, að Alþ. ákvað á þessu ári, er breytt var l. um útvarpsrekstur ríkisins, að heimiluð skyldi 25 millj. kr. lántaka til þess að byggja fyrirhugaðar aðalsjónvarpsendurvarpsstöðvar, sem tryggja eiga það, að sjónvarp komist til allra landshluta. Enn má á það minna, að Ríkisútvarpið á nú, vegna þess hversu ör dreifing sjónvarpsins hér um Suðvesturland hefur verið, allgilda sjóði til þess að mæta þessari þörf, þ.e.a.s. byggingu aðalsjónvarpsendurvarpsstöðvanna fyrir hina ýmsu landshluta.

Til viðbótar þeim upplýsingum, sem hæstv. menntmrh. gaf um mælingar á vegum sjónvarpsins á s.l. sumri, vil ég geta þess, að í haust hafa verið gerðar mælingar á vegum sjónvarpsins á Vestfjörðum, og þær standa einnig yfir þessa dagana í Barðastrandarsýslu. Það er búið á grundvelli þeirra mælinga sem gerðar hafa verið, að staðsetja endurvarpsstöðina í Stykkishólmi 5000 watta stöð, sem þar á að rísa. Frá Stykkishólmi eða fyrirhugaðri stöð þar hefur síðan verið mældur styrkur á alla helztu endurvarpsstaði á Vestfjörðum. Þetta hafa verið styrkmælingar, og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef frá Landssímanum og starfsmönnum Sjónvarpsins, þá hefur árangur þessara mælinga verið mjög jákvæður. Það liggur því fyrir, að það er nú hægt að bjóða út og panta sjónvarpsendurvarpsstöðina í Stykkishólmi, sem á að tryggja sjónvarp til Vestfjarða. Ég vil aðeins í þessum örfáu orðum leggja á það áherzlu, að Stykkishólmsstöðin verði hið fyrsta boðin út, og tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu, að unnt verði að koma henni upp fyrir næsta haust, þannig að sjónvarp til Vestfjarða verði mögulegt á þeim tíma, enda þótt að sjálfsögðu verði ekki búið að byggja allar þær smáendurvarpsstöðvar, sem nauðsyn ber til. Í þessu sambandi má benda á það, að mælingar hafa sannað það, að til þess að koma sjónvarpinu til Breiðafjarðarsvæðisins þarf ekki stóru endurvarpsstöðina á Skálafelli, eins og upprunalega hafði verið gert ráð fyrir. Þetta sannast m.a. á því, að það er búið að setja upp allmargar litlar sjónvarpsstöðvar á Snæfellsnesi, sem taka við sendingum beint frá litlu Reykjavíkurstöðinni, sem upprunalega var gerð og stendur undir því sjónvarpi, sem rekið er í dag. En til þess að koma sjónvarpinu lengra áfram vestur, þá er nauðsynlegt, að sjónvarpsstöðin í Stykkishólmi verði byggð, og ég legg áherzlu á það í samræmi við það, sem gert hefur verið bæði af hálfu útvarpsráðs og annarra yfirmanna útvarps og sjónvarps, að þessi stöð verði boðin út eins fljótt og möguleikar eru til nú og síðan byggð á næsta ári. Að öðru leyti vil ég ítreka þá skoðun mína, sem ég hef áður látið í ljós, að hraða beri dreifingu sjónvarpsins sem mest má um landið allt. Það er ekki óeðlilegt, að fólk í hinum ýmsu landshlutum vilji fá þessi lífsins gæði sem fyrst, þegar það sér, hversu hratt og örugglega hefur tekizt að koma sjónvarpinu til mesta þéttbýlisins í landinu. En það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að einmitt fólkið í strjálbýlinu þarf sérstaklega á því að halda að sjónvarpinu verði til þess komið.